12. febrúar 2012

Syndin hatur



Menn hafa móralskar tilfinningar. Í grunninn eru það aðeins andúð og samúð. Ofan á þessar tilfinningar hefur verið flúrað allskyns dót í gegnum tíðina. Gervidygðir mynda nú kjarna þess sem kalla má siðferðislíf hjá fólki. Allskyns uppaldar reglur sem okkur er ætlað að fylgja hvort sem þær í kjarna sínum ríma vel eða illa við mannseðlið.

Öldum saman hélt kirkjan mannkyni í greipum sér með syndinni. Syndin er gervilöstur sem reistur er ofan á og umhverfis raunverulega andúð. Á mjög svo táknrænan hátt kom kristnin syndinni inn í heiminn á sama augnabliki og afkvæmið óhlýðnaðist valdinu. Laun syndarinnar eru dauði en þar sem dauðinn er óumflýjanlegur þurfti að binda svo um hnútana að allir væru syndugir. Öðru vísi var ekki hægt að útskýra almennan dauðleika. Og þessi eini, sem ekkert syndgaði, hann dó samt. En að sjálfsögðu ekki út af eigin syndum. Hann dó úr óbeinu synderni.

Syndin var öldum saman ægileg grýla. Fólk var kvalið með henni fram og til baka. Gervidygðir sem settar voru syndinni til höfuðs voru flúraðar á heilabörkinn á öllu fólki, uns allir voru skelfinu lostnir og enginn þorði að hugsa frumlega hugsun. Því syndin lá undir hverjum steini. Og syndin var hugsanaglæpur.

Smám saman dó hún samt. Fólk kastaði af sér kirkjulega klafanum og þorði að lifa. Krumpaðir hópar réttu úr sér og hunsuðu ámótlegt syndahjal þeirra sem enn lágu í fósturstellingum ofan á biblíunum sínum. Syndin missti tak sitt á veraldlegu afli. Hinn langi armur laganna hélt ekki lengur á biblíu. Það var ekki lengur hægt að dæma fólk fyrir yfirsjónir gagnvart guði sem enginn var skyldugur að tigna. Hugsanaglæpir duttu úr tísku. Voru opinberaðir sem það sem þeir voru. Lygar foreldris sem þykist geta lesið hugsanir barna sinna og vonar að það verði til þess að þau stelist ekki aftur í eplatréð.

Svo líður og bíður.

Skyndilega er syndin mætt aftur. Enginn tók eftir því hvaðan hún kom eða hver kom með hana. Nú heitir hún ekki synd. Hún heitir hatur. Hatur er hugsanaglæpur, alveg eins og syndin. Hatur er andstæða ástarinnar, alveg eins og syndin.

Skyndilega eru fótgönguliðar úr herjunum sem sigruðust á syndinni farnir að tala eins og prelátarnir sem þeir ráku í gegn með byssustingjum sínum. Það er ljótt að hugsa ljótar, hatursfullar hugsanir. Það er ljótt að hata. Það er svo ljótt að hatrinu þarf að útrýma. Ekki aðeins hatursfullum gjörðum, heldur orðum – og hugsunum.

Brátt berast böndin að þeim syndhræddu þar sem þeir hjúfra sig skjálfandi bak við stein að fela sig fyrir syndinni. Þeir eru dregnir fram á völlinn og grjótið látið rigna yfir þá. Þeir hata! Þeir hata syndina! Og það er ljótt að hata. Á meðan grjótin lemja þá hrópa þeir ámátlega að þeir hati ekki, þeir elski. Hatur þeirra á syndinni stafi af ást þeirra á dygðinni, á syndaranum. Þeir fá grjót á túllann og þagna. Einhver hoppar upp á stein og hrópar: „Sá ykkar sem haturslaus er kasti fyrsta steininum!“ Það lenda þrjú grjót í honum í einu og hann skríður í skjól.

Aðeins sá sem elskar nóg, getur fengið sig til að grýta hatarann. Það er vanþakklátt hlutverk að verja mannkyn gegn óvininum. Hatrið leynist í hjörtum manna og hugum. Það segir sig sjálft að því verður ekki útrýmt nema með einhverjum blóðsúthellingum.


Seint og um síðir átta menn sig vonandi á því að hatur á ekkert erindi við valdið. Hatur er klisja. Syndin afturgengin. Hugsanaglæpur sem valdið varðar ekkert um. Aðeins þeir sem vilja gera ástina að leiðtoga lífs síns eru skuldbundnir til að hata ekki. Maður má hata. Maður á að mega hata. Maður má bara ekki meiða. Meiða í alvöru.

Systkinin Syndin og Hatrið þekkjast ævinlega á því að þau eru eins og derhúfur. Þau passa hvar sem maður vill láta þau passa. Og þau hafa þann tilgang að myrkva mönnum sýn. Það er ævinlega betra að greina skugga annarra með eigin augu í skugga.

3 ummæli:

Bjössi sagði...

Segðu mér hver er sammála þér og ég skal segja þér hver þú ert.

Sjaldan hefur hr. Johnsen verið orðheppnari en þegar hann greip til þess ráðs að segja bæjarstjórn Akureyrar sýkta af eins konar vírus. Ég þarf vonandi ekki að útskýra í hverju vísunin er fólgin?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Aðeins sá sem þorir að virðast sammála fíflum er fær um að segja satt.

Bjössi sagði...

Þú átt væntanlega við Árna?