26. febrúar 2012

Anarkistinn segir: „Ekki ég“...



Búsáhaldamótmælin samanstóðu yfirleitt af nokkrum hópum:

1. Anarkistar. 

Þetta var hópur sem lagði sig sérstaklega fram um að gera mun á sér og almúganum og þótti miður að Hörður Torfa skyldi koma fyrir einum hljóðnema sem gaf í skyn að allir töluðu með einni rödd. Þeir stunduðu það framanaf að ögra stóra hópnum t.d. með því að hengja slagorð utan á húsið gegnt Alþingishúsinu og neita beiðnum Harðar um að taka niður grímurnar.



2. Bumbuslagararnir.

Lítill en kraftmikill hópur af fólki sem mótmælti líka þegar almenningur lét ekki sjá sig. Mjög róttækur hópur, heldur í eldra lagi og með ægilega neikvæðar skoðanir á allri pólitík. Fólkið með háværustu trommurnar og mest áberandi skiltin.



3. Unglingarnir.

Það voru aðallega unglingar sem grýttu þinghúsið með matvælum. Krakkar, oft í dýrum úlpum, sem komu með strætó úr úthverfum og keyptu (og stálu stundum) mat úr 10/11 í Austurstræti. Hrifnir af mjólkurvörum og eggjum úr salatbarnum. Miklu færri fullorðnir köstuðu mat en börn. Huldu oft andlit sín og voru nær alltaf með bakpoka.



4. Eldri borgarar.

Það var gríðarlegur fjöldi af eldra fólki sem mætti á mótmælin. Frekar friðsamlegt fólk sem hneykslaðist mest í samtölum hvert við annað. Hafði sig ekki mikið í frammi (fyrir utan bumbuslagarana).

5. Mannfræðingarnir.

Ljósmyndarar og áhugamenn um mannlífið. Voru hlutfallslega mjög margir og voru mættir til að fylgjast með en tóku oft undir með fjöldanum. Hópur sem var alls ekki hlutlaus. Í þessum flokki voru nokkrir beturvitar sem t.d. stunduðu það að rökræða það sem fyrir augu bar.



6. Fjölskyldufólk.

Mesti fjöldinn hverju sinni var ofurvenjulegt fólk, oft með börn. Fólk sem leit á það sem borgaralegt hlutverk sitt að mæta til mótmælanna og sýna með nærveru sinni andúð á vanhæfum og spilltum stjórnmálum. Sumir voru með skilti – en gjarnan nokkuð dönnuð og rökvís. Ansi margir höfðu pólitískar meiningar en yfirleitt ekki einhverjum ákveðnum flokki í hag. Menn höfðu bara fengið nóg af öllum stjórnmálamönnum.




7. Fatlaðir.

Það var dálítill hópur af fötluðum sem sótti mótmælin heim. Þetta var yfirleitt frekar vitsmunalega takmarkað fólk sem eyddi gjarnan tíma í að spjalla við lögreglumennina eða standa sem næst sviðinu.

8. Reiða fólkið.

Inn á milli var frekar lítill en reiður hópur. Fólk sem hafði ekki endilega sterka pólitíska vitund og var ekki hugmyndafræðilega með sterka afstöðu. Heillaðist bara af óróanum og látunum. Sumir voru óreglufólk en ekki allir. Í þessum flokki voru nokkrir matarkastarar.

9. Róttæku vinstri mennirnir. 

Hópur sem ásamt anarkistum (á stundum) var framarlega í flokki í að skapa læti. Fólk sem hafði unun af því að lenda í átökum við lögguna. 


Ég sleppi allskyns smáhópum eins og nasistunum og Óla Klemm. En þeir voru þarna líka en svo litlir að þeir skipta engu.

Það er aðeins í síðasta hópnum sem hægt er að tala um einhverja pólitíska tengingu eða stýringu. Þetta er lítill fjöldi þótt lögreglan hafi eflaust upplifað hann sem stærri vegna þess að langfæstir voru að atast í löggunni. Mikill meirihluti fólks á Austurvelli var að mótmæla öllum sem inni í þinghúsinu voru. Mikill minnihluti var að reyna að fá einföld stjórnarskipti.

„Valdarán“ vinstri flokkana var ekkert valdarán. Mótmælin utan við Þjóðleikhúskjallarann voru snúningspunkturinn. Það var Samfylkingarfélagið í Reykjavík sem felldi stjórnina. Fyrst og fremst vegna popúlisma og sífellt veikari stöðu ISG (að ekki sé talað um PR-klúður eins og „Þið eruð ekki þjóðin). 

Áhrif VG á byltinguna voru lítil en hugsanlega áberandi. Og þótt einhverjir innan VG virðist halda að byltingin hafi náð markmiði sínu við það að fá hér vinstri stjórn þá fer því fjarri. Mikill meirihluti þeirra sem voru á Austurvelli er enn óánægður, ófullnægður og telur að markmiðinu sé ekki nærri því náð. Tengsl SJS við byltingarfólkið voru samskonar og tengsl hans við kröfur þess – öll á yfirborðinu.


Í stað þess að fólk úr átta hópum af 9 komi fram og segi: „Enginn stýrði mér, ég gekk ekki erinda neins.“ Þá væri fróðlegt að forsprakkar VG segðu einfaldlega satt. 

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir "oftast" góða pistla. En í þessari upptalningu finnst mér vanta lýsingu á því að fólkið á Austurvelli var reitt og hrætt. Almenningur sem aldrei hafði látið sér detta í hug að mótmæla á götum úti. Þú lætur þetta líta út eins og pikknikk.
Við bankahrunið komu fram alls konar upplýsingar á bloggsíðum, vefmiðlum og kommentum um hvað þetta bankahrun þýddi fyrir lánaþjakaðan almenning. Hefðbundnir fjölmiðlar sögu okkur ekki frá því hvað AGS hefði gert í 3.heiminum, en nokkrir bloggarar sögðu frá því. Þess vegna voru margir meðvitaðir um það að engu máli skipti þótt skipt væri um ríkisstjórn, það þyrfti uppskurð á kerfinu. Og það hefur komið í ljós svo um munar.

Eva Hauksdóttir sagði...

Það væri við hæfi fyrst þú ert með þetta svona á hreinu að þú gerir grein fyrir því hvernig SJS og hugsanlega aðrir þingmenn fóru að því að stjórna mótmælendum. Hvað sögðu þeir mótmælendum að gera og hvar féllu þau orð?

Hvaða þingmaður gaf Öskruliðum fyrirmæli um að klippa á lögregluborðana?

Hvaða þingmaður fann upp á því að kveikja eld fyrir utan Alþingishúsið og hver sagði fólkinu að brenna þar allt sem brunnið gat og fara svo langar leiðir til að sækja meiri eldivið?

Hvaða þingmaður ákvað að jólatréð skyldi fellt?

Og hvaða þingmaður skipaði mér og 5 öðrum að fara upp að Þjóðleikhúsi og sitja þar undir skítkasti nokkurra Samfylkingardrullusokka um að fara heim að reykja hass, þennan klukkutíma sem við biðum á meðan verið var að láta boð út ganga á Austurvelli?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég skil ekki alveg punktinn, Eva. Hvað áttu við?

Eva sagði...

Ég á við það að þú hefur nákvæmelega ekkert fyrir þér í því að þingmenn hafi stjórnað þessum mótmælum enda gerðu þeir það ekki. Þetta var leiðtogalaus uppreisn. Raddir fólksins með Hörð Torfa í fararbroddi skipulögðu útifundi en allar aðgerðir sem höfðu einhver raunveruleg áhrif voru sjálfsprottnar. Anarkistar knúðu þær, stjórnuðu þeim ekki heldur stugguðu við mörkum hins viðurkennda þar til uppreisnin var orðin sjálfbær. Og það varð hún.

Það að Steingrímur hafi hugsanlega sagt einhverjum í síma að hann væri farinn úr húsinu, merkir ekki að hann eða nokkur annar hafi stjórnað einu eða neinu.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég hef hvergi haldið því fram að þingmenn hafi stjórnað mótmælunum. Ég hef haldið því andstæða fram.

Ég hef eingöngu sagt að þingmenn hafi, á sama tíma og löggan stóð um þá vörð "gegn æstum múg" verið í sambandi við meðlimi í þessum múg.

Sem er asnalegt.

Ég skil ekki hvernig lesa má annað úr því sem ég hef sagt.

Að því marki sem VG hafði stjórn á mótmælendum var um að ræða agnarlítið brot sem hafði sáralítil áhrif.

Um hvað erum við eiginlega ósammála?

Unknown sagði...

Svona til að glöggva aðeins meira reikna ég með að þú sért að svara þessu.

http://visir.is/geir-jon--busahaldarbyltingunni-var-stjornad-af-althingismonnum/article/2012120229233

NB þá er fáránlegt af Geir Jóni að halda þessu fram.

Nafnlaus sagði...

Hver framleiddi öll fínu mótmælaspjöldin sem voru borin út úr sendibíl við alþingishúsið og afhent gestum og gangandi?

Nafnlaus sagði...

Var það ekki dóttir jóns baldvins? Kolfinna eða hvað hún heitir..

Eva sagði...

Er ekki í lagi með þig? Það voru föndurhópar að framleiða mótmælaspjöld á minnst 10 stöðum á höfuðborgarsvæðinu.

Ég hef oft dreift mótmælaspjöldum og ekki hef ég nein persónuleg tengsl við þingmenn.