26. febrúar 2012

Steingrímur var í sambandi við mótmælendurÉg mætti á næstum öll mótmæli Búsáhaldabyltingarinnar. Ekki til að berja potta og pönnur heldur af samfélagslegum áhuga. Ég varð vitni að ýmsu smálegu sem mér þótti hnýsilegt – enda með öll skilningarvit opin.

Geir Jón segir að þingmenn hafi haft áhrif á mótmælin úti fyrir. Ég get vottað að það er rétt.

Þegar Kryddsíldarþátturinn alræmdi var úr sögunni vegna ofsalegra mótmæla var hópur ungra stráka mjög uppivöðslusamur og löngu eftir að mestur vindur var úr mótmælunum ráfuðu þeir fram og til baka eins og þeir væru að leita að besta staðnum til að mótmæla. Stundum voru þeir við Austurvöll, stundum í Lækjargötu og stundum í portinu aftan við Borgina.

Ég sá einn þeirra slíta símtali og snúa sér að hinum og segja: „Þetta var Steingrímur. Hann segir að þau séu farin.“ Framhald samtalsins var á þá leið að það væri tilgangslaust að mótmæla áfram fyrst búið væri að lauma liðinu burt.

Það kom svo í ljós seinna að lögreglan hafði laumað ráðamönnunum burt.

Það fer ekki á milli mála að Steingrímur Joð var í símasambandi við þessa drengi og þar með er tenging milli þeirra sem höfðu hátt í mótmælunum og þeirra sem inni sátu.

25 ummæli:

Þorsteinn sagði...

Mig grunar nú sterklega að þetta sé einhver annar sem heitir Steingrímur. Ég skal alveg trúa því að Álfheiður hafi verið í símasambandi við mótmælendur (var ekki sonur hennar framarlega í mótmælunum?) en að Steingrímur sjálfur hafi hætt á það er meira en getur talist trúlegt. Þetta er í fyrsta sinn sem ég hef yfirleitt heyrt á það minnst.

Hildur Lilliendahl sagði...

Fyrir nú utan allt annað þá eru þetta heldur dapurleg sönnunargögn. Það að einn maður hafi í eitt skipti heyrst nota nafnið Steingrímur eftir eitt símtal í eitt skipti, það þýðir ekki að þessi mótmæli hafi verið skipulögð eða fyrir þeim hafi verið staðið af pólitíkusum, hvorki Steingrími né öðrum.

Eva sagði...

Þeir sem höfðu hæst í þessum mótmælum og öðrum beinum aðgerðum búsáhaldabyltingarinnar voru anarkistar. Anarkistar eru ekki fólk sem lætur ÞINGMENN stjórna sér og nei, það var ekki Steingrímur sem stjórnaði Kryddsíldaraðgerðinni, hún var sjálfsprottin. Þ.e.a.s. einhver boðaði til mótmæla sem enginn vissi hvernig ættu að fara fram. Fólk mætti í hundraða tali. Þeir sem bönkuðu á rúður Hótel Borgar og þeir sem opnuðu hliðið inn í portið hafa engin tengsl við þingmenn.

Að sjálfsögðu var tenging á milli þingmanna og einhverra þeirra sem tóku virkan þátt í búsáhaldabyltingunni. Margir þeirra sem tóku þátt í beinu aðgerðunum og sennilega flestir þeirra sem töluðu á Austurvelli og á borgarafundunum, vildu fá aðra ríkisstjórn, vinstri stjórn. En það merkir ekki að þingmenn hafi stjórnað einu eða neinu. Eina stjórnunin sem fór fram voru hvatningarræður Harðar Torfasonar.

Nafnlaus sagði...

....heldur af samfélagslegum áhuga. Og heyrir einhver Steingrím nefndan og dregur djarfa ályktun. Var ekki HHG í svipuðum leiðangri fyrir nokkrum árum.

Haukur Kristinsson

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég er hvorki kjáni né einfeldningur. Það er algjörlega á kristaltæru að SJS lét uppivöðslusaman hóp vita af ferðum þingmannanna á gamlársdag. Ég heyrði það sem ég heyrði og sá það sem ég sá.

Mér finnst það umhugsunarefni því hann hefur ítrekað neitað slíkum ásökunum.

Að því sögðu veit ég jafn vel og þið öll að hvorki VG né nokkrir aðrir höfðu stjórn á mannfjöldanum eða voru meiriháttar hreyfiafl. Stjórnunin var í höndum þeirra sem sömdu slagorð og héldu ræður (og meira að segja var alltaf hópur sem aktívt hunsaði þær).

Þarna var fólk af ýmsu tæi og í ýmsum tilgangi. Það að Geir Jón hafi sagt að þingmenn hafi reynt að stýra hópum finnst mér mjög trúverðugt og skil ekki þessa áráttu að draga það niður í eitthvað drullusvað og saka manninn um lygar.

Þorsteinn sagði...

Ef það er ekkert meira við söguna en það fyrir ofan þá er engin leið að telja þetta á nokkurn hátt kristaltært.

Nafnlaus sagði...

Ragnar, mér sýnist þú hafa rangt eftir Geir Jóni. Skv. Vísi sagði hann: "Búsáhaldabyltingunni var stjórnað af alþingismönnum".

Hann sagði ekki "að þingmenn hafi REYNT að stýra hópum." Það er grundvallarmunur á þessu tvennu.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Sagði Geir það?

TómasHa sagði...

Með því að segja að stjórna er ekki endilega átt við að skipa, en það engu að síðru verið að stjórna á þann hátt sem Ragnar lýsir hérna, með því að gefa upplýsingar sem þessar er verið að hafa áhrif á mótmælin og stjórna því hvar þau fara fram. Ég hef engan sega að mönnum hafi verið gefnar skipanir. Á sama hátt og gefnar voru upplýsingar út úr þinghúsinu, er verið að stjórna hvernig mótmælendur akta.

Hildur Lilliendahl sagði...

Hann sagði að hluta mótmælanna hefði verið stjórnað af sitjandi þingmönnum.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Hann sagði já við spurningu sem var orðuð gróflega þannig, já.

Er óhugsandi að það sé satt?

Hildur Lilliendahl sagði...

Það var ekkert gróflegt við það. Bæði spurningin og svarið eru fullkomlega skýr. Ég er ekki að halda því fram að það sé óhugsandi að Steingrímur J. Sigfússon hafi á einhverjum tímapunkti talað við einhvern um eitthvað. Ég er að segja að enginn geti fullyrt um það, hvorki Geir né þú, að hugsanleg afskipti nokkurs einasta pólitíkuss eða pólitískrar hreyfingar hafi haft nokkur afgerandi áhrif á það sem gerðist þessa daga. Nokkur áhrif sem skipta máli. Þið eruð báðir að fullyrða að svo sé og ég hef ekki enn heyrt sannfærandi rök fyrir því.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Þú veist það, Hildur. Að það er reginmunur á að fullyrða eitthvað með orðum sem maður velur sjálfur – og hinu að segja já eða nei við spurningu sem annar orðar.

Ekki að það sé aðalatriði.

Ég er ekkert stórkostlega hneykslaður þótt SJS eða einhver annar mati fólk utan Alþingis á upplýsingum. Mér finnst það aðallega kjánalegt. Að það standi her lögreglumanna á milli þín og vina þinna og félaga – til að verja þig.

Ég myndi samt gjarnan vilja að menn kæmu hreint fram og segðu einfalega satt. Og að fólk hefði almennt næga stillingu til að geta melt svona upplýsingar sjálft án þess að fara út í svona rugl eins og þessi Geirs umræða hefur verið í dag.

Því harkalegar sem menn hamast og fullyrða að enginn togi í spottana þeirra því auðveldara er einmitt að toga í þessa sömu spotta. Menn nenna ekki einu sinni að gera eins og þú, og ræða möguleikann og hversu sannfærandi hann er eða ekki – eða í framhaldinu hversu óeðlilegt það væri. Menn hamast við að reiðast Geir J. persónulega fyrir skoðun sem ekkert bendir til að hann hafi.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Annars tel ég mig ekki þurfa að færa sannfærandi rök fyrir því að Steingrímur sé sá rétti. Það var augljóst af samhenginu um hvern var rætt.

Þörfin fyrir að segja „meintur“ SJS er mér nokkuð ankannaleg þegar ég þekki mína eigin reynslu af atburðunum mjög vel.

Ætli krafan um að ræða um „meinta“ aðkomu hans að málinu aukist ekki í réttu hlutfalli við óskhyggju þeirra sem vilja ekki að það sé raunin.

Hildur Lilliendahl sagði...

Þetta er galið, Ragnar. Þú fullyrðir að hann hafi komið að þessu. Geir fullyrðir það sama. Finnst þér að ég eigi að trúa því? Finnst þér eðlilegt að ég trúi því að SJS hafi verið á bakvið einhvern hluta þessara mótmæla af því að þú heyrðir einhvern segja „Steingrímur segir“ eftir að hafa talað í símann?

Á ég að trúa því að þingmenn hafi haft einhverja afgerandi aðkomu að skipulagningu eða stjórnun búsáhaldabyltingarinnar, bara af því að Geir Jón - í sínu fyrsta pólitíska fjölmiðlaviðtali - fullyrðir að svo sé og neitar svo að fara nokkuð nánar út í það?

Ég er ekkert reið við Geir Jón en það er fáránlegt að halda því fram að ekkert bendi til þess að hann hafi þessa skoðun. Hann var mjög afdráttarlaus í þessu viðtali, sem ég hef nú spilað þrisvar fyrir sjálfa mig.

Viðtalið gekk þannig fyrir sig að Geir Jón gefur þetta pent í skyn, SME spyr hann hvort hann sé að fullyrða þetta og Geir segir afdráttarlaus já. Hann er þá inntur eftir því hvort hann eigi við alþingismenn og aftur segir hann afdráttarlaust já. Þetta eru ekki fabúleringar SME sem Geir bregst við með samsinningu.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég er einmitt þeirrar skoðunar að aðkoma SJS og annarra hafi verið minniháttar og alls ekki afgerandi. Aðeins að ég varð vitni að því þar sem uppivöðslusamur hópur drengja ákvað að draga sig í hlé vegna þess að SJS sagði þeim að hann og hinir ráðamennirnir væru farnir af Hótel Borg.

Hverju þú trúir er alfarið þitt mál. En í ljósi þess sem ég veit finnst mér alls ekki ólíklegt að Geir Jón sé einmitt ekki að fabúlera, ýkja eða ljúga heldur segja satt og rétt frá.

Ég skil ekki hvers vegna enginn spyr ráðamenn VG og krefur þá um svör. Hvers vegna allir hamast við að láta sem Geir Jón hafi smitast af einhverri XD veiru og hafi breyst úr sæmilega grandvörum manni í pólitískt rógskrímsli á einni nóttu.

Í stað þess ýkja menn og skrumskæla það sem Geir Jón gekkst við. Sem ég skil sem þetta: Mér þótti leitt að finna að sumt af því fólki sem verið var að grýta okkur fyrir að verja var í nánu og hvetjandi sambandi við þá sem við vorum að halda í skefjum.

Mér finnst það í sjálfu sér alveg gild og tilfinningalega heilbrigð skoðun.

Hafi SJS eða aðrir fóðrað fólk á upplýsingum sem verið var að kljást við er það dálítil frétt.

Þótt það sé ekki nema pínulítill angi af því sem kallast búsáhaldabylting – og snerti ekki nema pínulítinn flokk manna.

Hildur Lilliendahl sagði...

http://blogg.smugan.is/ingimarkarl/2012/02/23/sjalfstaedismadur-i-hjartanu/

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Þér finnst semsagt langsótt að ætla að Steingrímur hafi verið SJS. Sérð ekki hví þú ættir að fallast á það án frekari sönnunargagna.

En sérð ekkert að því að vísa (með velþóknun væntanlega) í pistil sem efnislega er svona:

Ást Geirs á Sjálfstæðisflokknum leiddi til þess að hann taldi mótmælin betri þegar þau sneru að Jóhönnu en nafna hans Haarde.

?

Kommon.

Hildur Lilliendahl sagði...

Mér þykir þetta áhugaverður samanburður á málflutningi. That is all.

Ég hef enga ástæðu til að ætla að drengurinn fyrir utan Hótel Borg hafi ekki átt vin sem var tæknimaður frá Stöð 2 eða vann í afgreiðslunni á Borginni og slysaðist til að heita Steingrímur. Hitt getur vissulega verið en mér finnst fáránlegt að treysta því og enn fáránlegra að fullyrða um það opinberlega.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Um er að ræða símtal frá því fyrir 3 árum. Ég mundi upphaf þess sem drengurinn sagði orðrétt. Annað mundi ég, eins og gengur, efnislega.

Drengurinn var að ræða við Steingrím sem lýsti fyrir honum hvert hann væri kominn núna eftir að löggan hefði hjálpað sér og hinum burt af Hótel Borg.

Ég get fullyrt um það opinberlega vegna þess að ég varð vitni af því og veit hvaða ályktanir ég dró.

Eg skil vel að gagnvart þér er það engin sönnun enda er minni og reynsla einnar manneskju aldrei sönnun atburðar gagnvart annarri. Þú telur fáránlegt að treysta því og þar af leiðandi rökréttara að treysta því að ég hafi misskilið eitthvað eða að mig misminni.

Þú um það.

Það verður hver að meta fyrir sig hversu mikil sönnunargögn þurfi að leggja fram áður en maður getur haft eftir frásögn án þess að nota fyrirvara.

Annaðhvort ertu að segja að til þess að geta tekið mig trúanlegan þurfi ég annaðhvort að leggja fram upptöku af atburðinum eða endurminningar í ofurmannlegum smáatriðum.

Að meðan ég geti það ekki sé fáránlegt að treysta frásögn minni.

Treystu henni þá ekki. Ég mun ekki glata svefni yfir því. Ég veit hvað er satt. Það er samt ágætt að ég á ekki meira undir trúverðugleika mínum en þetta.

Þorsteinn sagði...

Þú ert einfaldlega hér gagnrýndur á sama hátt og þér finnst svo sjálfsagt að gagnrýna aðra. Eins og þú segir byggir þetta allt á þínum ályktunum. Sönnunargögnin sem þú byggir ályktanirnar á eru hinsvegar afskaplega veik og það er eftir þeim sem aðrir verða að draga sínar ályktanir.

kóp sagði...

Þetta er skrýtin umræða. Fyrst dregurðu í efa að Geir Jón hafi sagt þetta, síðan segirðu að þetta sé örugglega rétt hjá honum. Sjálfur veit ég ekkert um þitt símtal, enda hefurðu þagað yfir því í þrjú ár, þrátt fyrir að finnast vera frétt í því. Það er ekki fyrr en Geir Jón stígur fram að þú sérð ástæðu til að segja frá þessu, eða hvað?

Eftir stendur spurningin sem mér finnst mun áhugaverðari; er e-ð óeðlilegt við að þingmenn ræði við mótmælendur í síma? Er alltaf sjálfgefið að þeir taki afstöðu með valdinu og gegn mótmælendum? Eru ekki töluverðar líkur á að e-r þingmenn hafi verið sammála mótmælendum, átt vini, ættingja, jafnvel maka í þeirra hópi?

Ég sannast sagna skil þessa umræðu ekki.

kóp sagði...

Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi fyrir 5 mínútum:

"Minn hlutur í þessu er ósköp einfaldur. Ég man til þess að hafa hringt eitt símtal út á Austurvöll. Það var í janúar 2009 og var til þess að athuga hvort sonur minn, menntaskólaneminn, væri öruggur í mótmælunum."

Verður gaman að heyra túlkun þína á þessu símtali.

Hrenni sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Hrenni sagði...

Sæll Ragnar ég trúi þér alveg enda ljóst að vg skipulögðu mótmælin og kyntu undir illindum í garð alþingis og lögreglu. En eins og við er að búast þykist engin kannast við neitt enda alkunna að vinstri menn eru saklausir uns sekt sannast en um hægri menn gildir að þeir eru sekir uns þeir hafa hreinsað sig af ásökunum þetta hefur glögglega mátt sjá á umræðum á vefnum síðustu misseri. Eins og kemur fram í kommentunum hér er raunveruleikaskyn þeirra sem aðhyllast vg dálítið öðruvísi en annarra. Enda hvernig á annað að vera með flokksmenn í flokki sem segist vera á móti inngöngu í ESB og bestu leiðina til þess að framfylgja þeirri stefnu, telja þessir snillingar að sækja um innlimun í ESB.