4. janúar 2012

Vandi íslenskra stjórnmála 1: Ýkjur

Ég ætla smátt og smátt að gera grein fyrir nokkrum atriðum sem ég tel spilla fyrir íslenskum stjórnmálum. Flest eru þetta atriði sem vel væri hægt að venja sig af og þau smyrjast ansi jafnt á flesta stjórnmálamenn hefur mér sýnst.

Vandi 1: Ýkjur

Íslenskir stjórnmálamenn ýkja. Og ævinlega sjálfum sér í hag og pólitískum andstæðingum í óhag. Nýleg dæmi eru átök innan stjórnarflokkanna sem stjórnarandstaðan telur ævinlega sanna að stjórnin sé stórkostlega löskuð, jafnvel ófær um að stýra landinu – en stjórnin segir yfirleitt að séu ýmist dæmi um heilbrigðan skoðanaágreining eða jafnvel þannig að stjórnin standi sterkari eftir. Það segir sig sjálft að sami atburður getur ekki styrkt ríkisstjórn og gert hana óstarfhæfa. Enda ýkja allir aðilar. Íslenskir stjórnmálamenn mega ekki sýna á sér neina veikleika. Þeir sem þykjast í bestum málum eru hálfvitar þeir eiga að þykjast í allra bestu málum, svo maður vitni í Birtíng.

Lausn: Það er tilþessað gera auðvelt að hætta að ýkja. Fjölmiðlar geta fyrir það fyrsta tætt í sundur málflutning manna sem þannig láta en fyrst og fremst þurfa stjórnmálamenn að átta sig á því að þótt sannleikurinn sé gjarnan minna spennandi en slagorð þá munu þeir sem reynast leggja raunhæft mat á aðstæður afla sér virðingar.

Engin ummæli: