19. janúar 2012

Nú skil ég Ögmund



Ég verð að játa að ákvörðun Ögmundar að endurkalla ákæru á hendur Haarde hefur valdið mér miklum heilabrotum. Í fyrsta lagi hefur rökstuningur hans ekki náð til mín og í öðru lagi hélt ég að Ögmundur væri hreinn og beinn og ekki líklegur til að fara í óskiljanlegt plott bara til að koma höggi á einhverja ímyndaða samstöðu innan VG.

Rök Ögmundar um að ekki eigi að sækja Geir til saka því rætur hrunsins hafi legið dýpra eru ógild. Þau eru raunar fyllilega sambærileg við það að höggva ekki grein af tré sem teygir sig yfir grindverk og veldur óskunda í garði nágranna – með þeim rökum einum að greinin sé aðeins sprottin af stofni sem ekki er mögulegt að höggva.

Segjum að maður standi ráðþrota frammi fyrir erfiðum nágranna hvers tré er byrjað að eyðileggja eigur manns þá er einhvernveginn sjálfgefið að maður lætur vaða í greinina við eignamörkin.



Nema...

...maður sé einhvernveginn þannig venslaður við nágrannann að það sé ótækt.

Og skyndilega, á leiðinni í vinnuna í morgun, rann heildarmyndin saman. Allt í einu fléttuðust tveir þættir saman í einn þráð. Báðir algjörlega rökréttir. Og ég skildi það sem Ögmundur hafði verið að segja allan tímann.

Niðurstaða Ögmundar er rökrétt ef maður hefur eftirfarandi í huga:

Eitt af því sem núverandi ríkisstjórn, og sérstaklega VG, hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir frá því hún tók við (bæði fyrir og eftir kosningar) er að hafa á engri stundu hörfað frá háfleygum yfirlýsingum um endurbætur, réttlæti og uppgjör og orðið að ógnarpraktískum, deigum lyppum. Sannindamerki þess eru m.a. snautleg frammistaða í Icesave-málinu og áframhaldandi þjónkun við „auðvaldið.“



Það finnst mörgum, og ekki að ósekju, að lítil stefnubreyting hafi orðið í störfum ríkisstjórnarinnar fyrir og eftir að Haarde hrökklaðist frá völdum. Steingrímur hafi tekið að sér að framkvæma nokkurnveginn allt eftir sömu línu og áður hafði verið – og ekki þorað að storka eða ögra fjármálaöflunum. Sem er einmitt stóri glæpur Haarde. Að hafa endalaust látið undir höfuð leggjast að vaða í bankana og neyða þá til að rétta af kúrsinn sem stefndi þjóðinni í háska.

Ögmundi er nokkur vorkunn þegar hann telur það pólitískan hráskinnaleik að ráðast á Haarde og heimta dæmdan fyrir nákvæmlega það sama og viðgekkst fyrir daga Haarde í hásætinu og (það sem skiptir öllu máli) eftir að Haarde hrökklaðist úr því.

Og kannski hugsar Ögmundur sem svo að það að „fórna“ Haarde sé pólitísk leikflétta til að hvítþvo hendur þeirra ráðamanna og þingmanna sem munu ýta á takkann sem sendir hann á sakabekkinn. Í stað þess að fram fari uppgjör gegn meðvirkri og spilltri stjórnmálastétt geri stéttin það sem ævinlega hefur verið lokaúrræði spillingarafla áður en þau mæta dómi sínum. Halda táknræna brennifórn.

Mengellumynd frá gamalli tíð


Því hvað er Haarde?

Er hann hugsuður? Maðurinn á bak við frjálshyggjuna? Einkavæðinguna? Hrunið?

Nei. Varla.

Hann er vinnumaurinn. Samviskusami baunateljarinn sem heldur tannhjólum kerfisins gangandi. Maðurinn sem Steingrímur J. er orðinn. Sá sem reynir að halda kerfinu gangandi.

Aðeins svona skil ég rök Ögmundar. Og á vissan hátt er þetta heiðarleg afstaða.

En hún er samt röng.

Í fyrsta lagi verður að treysta því að Landsdómur dæmi eftir lögum – en ekki pólitískum geðþótta. Sú tilraun að fórna Geir til að hvítþvo fjöldann mun stöðvast við efnislegan flutning málsins. Ef réttarkerfi landsins er ekki þeim mun spilltara og lélegra – sem varla getur verið skoðun Dómsmálaráðherrans.

Í réttarhöldunum mun væntanlega koma fram að gjörðir Geirs hafi verið annað tveggja: a) „eðlilegar“ og á engan hátt frábrugðnar starfi þeirra sem á undan honum komu og þeirra sem á eftir komu eða b) refsiverðar þar sem vinnubrögð í Stjórnarráðinu í aðdraganda kreppu voru svo slæm að það kallaði yfir þjóðina hörmungar sem hún er enn að vinna sig út úr.

Ef dómur fellur Geir í óhag en sýnt þykir að sektin liggi víðar og m.a. inn á núverandi þing – þá hefur Alþingi í raun og veru saksótt sjálft sig. Þeir sem fara með völdin og kjósa með ákæru eru þar með búnir að taka á sig og stjórnmálakerfið allt sök. Sem viðkomandi munu þá þurfa að standa og falla með. Kjósendur munu vonandi krefjast uppgjörs. Og vonandi kemur loks stopp á þau ólýðræðislegu og gerræðislegu vinnubrögð sem við vitum öll að einkenna þingið þótt þar sé líklega skásta fólkið við völd.

Dómur yfir Haarde kallar á frekara uppgjör. Honum verður aldrei einum fórnað.

Ef dómur fellur Haarde í hag er ljóst að hann gerði það sem hann gat gert og átti að gera. Og það sem enn er gert. Það sýnir fram á og staðfestir að íslenskir stjórnmálamenn megna ekki að tryggja öryggi landsmanna gegn voldugum öflum í samfélaginu. Það kallar líka á uppgjör. Og mun víðtækara uppgjör en það sem felst í að hrista snjókúluna og sjá flokkunum rigna aftur niður í þingsætin, bara í nýrri röð og örlítið breyttum hlutföllum.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Björn bróðir hans gaf út Evu Joly. Það er nú meiri skrípaleikþátturinn.

http://www.pressan.is/Kaffistofan/Lesakaffistofu/holdgervingurinn

Besta lýsingin á Ögmundi heyrðist á Útvarpi Sögu í morgun. Hann er bæði hrár og soðinn.

arikuld sagði...

Flottur pistill.
Kveðja að norðan.