23. janúar 2012

Slakið á!

Ég held að menn megi alveg slaka á andúðinni í garð Ögmundar. Nú deilir hver á fætur öðrum mynd þar sem hann er sýndur sem ráðvilltur kjáni sem heimtar víti við eigin mark í handboltaleik.Málið er nefnilega að stjórnmál eiga ekki að vera liðakeppni. Og að einhverju leyti er það hreint ágætt að í öllum flokkum (nema Sjálfstæðisflokki að sjálfsögðu) skuli vera uppi skoðanamunur.

Auðvitað á að rétt yfir Geir. Ögmundur hefur rangt fyrir sér. Hann virðist hugsa þetta einhvernveginn svona:

Kæran gegn Geir snýst um örfáa mánuði á tilteknu tímabili þar sem Geir fór að engu öðruvísi að málum en menn hafa bæði áður og eftir gert. Kæran byggir því á hræsni. Fólki er hinsvegar talin trú um að hún sé eitthvað miklu meira og annað.

Sem er rétt. Þegar Geir verður sýknaður (sem hann verður líklegast) munu margir átta sig á raunveruleika málsins. Dagana eftir sýknudóm verða menn fyrst fúlir og svo reiðir. Menn munu hrópa og vilja meira. Og þá munu þeir sem hafa hæst um mikilvægi þess að vaða nú í Geir gera sem minnst úr málinu. Því þeim mun minni sem landsdómssakirnar eru því stærri sakir eru óuppgerðar.

Þannig mun fólk snúast í einu vetfangi frá því að landsdómur skipt öllu máli yfir í að hann skipti engu.

Og þá munu menn vilja alvöru uppgjör.

Uppgjörið sem Ögmundur vill.

Ef hinsvegar Geir er dæmdur fyrir landsdómi á þessum mjög svo takmarkaða grunni mun skapast mikil pólitísk spenna og þá munu Sjálfstæðismenn eiga mjög erfitt með að stilla sig um að koma kæru á Steingrím og Jóhönnu fyrir Svavarssamninginn og annað smotterí áður en fyrningarfrestur er úti. Enda er erfitt að verja þau ósköp með nokkru öðru en því að örlagatímar krefjist örþrifaráða. Og vísa til vanda í fortíð. Sem er einmitt það sama og Geir getur óhræddur vísað í núna. Það skiptir engu hve illa menn stóðu að einkavæðingunni og því öllu. Það er bara verið að kæra Geir fyrir athafnir á tilteknu tímabili þar sem skíturinn var að miklu leyti kominn á viftuna.

Gallinn við Ögmund er að í hans augum er óvinurinn svo ofsalega stór og víðfemur að einn maður bliknar við samanburðin. Geir er aðeins ein fingrabrúða á einum handlegg margfaðma skepnu. Óvinurinn er kapítalisminn. Næstum goðsagnarkennd vera sem togar í strengi og þúsundir kippast taktfast með umbrotum skepnunnar. Ögmundur vill rétta yfir skrímslinu sjálfu.

En það er ekki hægt. Það er ekki hægt að rétta yfir hugmyndafræði. Kannski eins gott því þá stæði Ögmundur sjálfur ekki sérlega vel.

En það er hægt að rétta yfir mönnum sem taka að sér verk og sinna þeim illa. Það er hægt að rétta yfir gerræðislegum stjórnmálamönnum sem ástunda vonda stjórnsýslu.

Almenningur getur krafist þess að skorin sé upp herör gegn þeim ósiðum sem marínera störf þingsins og hafa gert ráðamenn að siðferðilegum lyppum. Almenningi þykir nefnilega nóg um þótt þingmenn finni ekki skítaþefinn sem opinberaðist við það að skoða embættisfærslur Geirs.

Almenningur vill að dómsvald dæmi um það hvort ráðamenn hafi virkilega leyfi til að vera svona værukærir og vanhæfir.

Og með fullri virðingu fyrir hæfileikum Alþingismanna til vélabragða þá mun ekkert takast að hvítþvo þingmenn með því að fórna Geir. Við erum ekki svo vitlaus. Plottið er of brothætt.

Ögmundur á að hætta að hafa áhyggjur af því að almenningur haldi að Geirsmálið sé eitthvað sem það er ekki og hleypa því í gegn sem það sem það er. Fyrsta raunverulega skoðunin á því hvernig ráðamenn á Íslandi vinna sín störf.

1 ummæli:

arikuld sagði...

Nurnberg réttarhöldin voru réttarhöld um glæpi gegn mannkyni og stríðglæparéttarhöld. Auk þess voru þau réttarhöld yfir hugmyndafræði nasismas um leið. Það mætti alveg að ósekju halda réttarhöld/ráðstefnu um afleiðingar allra þá "isma" sem mannkynið hefur reynt að framkvæma á síðustu öld og fram á þessa. Ekki rétt?
Kveðja að norðan.