17. janúar 2012

Björgum Geir!



Karl Dönitz, sem erfði leyfarnar af embætti Hitlers, sat í tíu ár í Spandau fangelsinu eftir stríð. Mörgum þótti nóg um þá hörku sem honum var sýnd í Nürnberg og undirskriftir málsmetandi fólks streymdu inn honum til varnar. Vissulega hafði hann gefið fyrirskipanir sem kostuðu marga lífið en hey, þetta var vinnan hans. Auk þess vissu allir að það bar bara einn maður ábyrgð á þessu öllu saman, Adolf Hitler.

Sagan hefur farið frekar mildum höndum um Dönitz. Enda samanburðurinn við ýmsa nasistadólga honum næsta heppilegur.

En dómurinn yfir Dönitz, þótt hann væri í aðra röndina táknrænn, snérist líka um það að meira að segja gott fólk verður samverkamenn illra afla. Það voru ekki allir illvirkjar sem komu til leiðar illum verkum. Og það ber hver ábyrgð á því að nema staðar þegar óðir menn krefja þá um ódæði.

Nú streyma inn bréfin til varnar Haarde. Það sé ósanngjarnt að ætla honum nokkra þá vömm í starfi sem réttlætt geti lögsókn. Sumir virðast m.a.s. reiðubúnari að krefja einstaklinga í samtökum eins og inDefence um ábyrgð gagnvart EFTA-dómsstólnum fari svo að hann dæmi okkur í óhag – en sjá enga sök hjá Haarde sem setti lögin sem málaferlin standa útaf. Þau snúast nefnilega ekki um Icesave. Þau snúast um þá ákvörðun Haarde að borga íslenskum peningamönnum upp í topp úr vösum almennings þótt engin lagaskylda krefðist þess. Það er meira en nóg í Landsbankanum gamla fyrir Icesave-skuldinni. Það er þetta aukreitis sem Haarde taldi að væri það eina sem gæti bjargað íslensku fjármálakerfi sem máleferlin standa út af. En til hvers að vera að hengja Haarde fyrir það þegar maður getur látið nægja að hnýta háðuglega í einhvern sem hvatti fólk til að kjósa nei í Icesave-kosningunni?

Ögmundur Jónasson vill ekki draga Haarde til ábyrgðar, enda sé eineltislykt af því og klúðrið við bankahrunið hafi aðeins verið banahryglur stóra glæpsins. Þegar alvöru glæpamennirnir settu Landsbankann, fjöreggið, í hendur ótýndum óþokkum sem að sjálfsögðu brunuðu með okkur til heljar. Það sé til lítils að ofsækja greyið Geir út af því.

Geir Haarde fjármálaráðherra selur Landsbankann í lok árs 2002

Geir Haarde er að uppskera feitt þessi misserin að hafa alltaf haft steingráa pólitíska áru. Það einhvernveginn gengu alltaf allir út frá því að hann réði engu. Honum hefði einhvernveginn skolað upp í fjöru þegar klúðrið var orðið og gert. Og staðið þar bergnuminn eins og stjarfklofa maður í stólaleik.

Í ár er aldarfjórðungur síðan Geir settist á þing. Fjórtán ár síðan hann tók við Fjármálaráðuneytinu. Eftir að hafa skellt sér í utanríkismálin stutta stund tók hann um stýrið og sigldi þjóðarskútunni til áður óþekktrar velsældar frá 2006. Hann hélt um stýrið þegar skútuna tók niðri í höfninni og hún rúllaði á hliðina. Hann var síðastur að leigubílnum burt frá höfninni og fékk ekki sæti. Stóð galgopalegur eftir og var settur í járn.

Einhverjir vilja meina að dómur sögunnar sé yfrið nógu strangur yfir Geir. Enda eigi stjórnmálamenn ekki erindi fram fyrir dómstóla heldur kjósendur. Refsins Geirs sé að kjósendur séu langræknir.

Ég held að þeir sem gæli við slíkar refsingar ofmeti verulega áhrif þeirra. Þetta er svona álíka og að refsa einhverjum sem hefur þjófétið aðra út á gaddinn með því að neita honum um ábót. Og með fullri virðingu. Ef Geir hefði minnsta áhuga á að halda áfram í pólitík myndi hann fljúga inn á þing. Ekki spurning. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins myndu fagna sínum manni innilega. Alveg eins og fulltrúar flokksins stóðu upp og klöppuðu þegar Geir tók út þá hræðilegu refsingu að þurfa að mæta þeim sem hann hafði unnið trúnaðarstörf fyrir á landsfundi.

En svo er auðvitað réttlætismál að ekki sé verið að refsa einum fyrir eitthvað sem hann gerði af sér í kompaníi við aðra. Það er ljótt að eltast við einn en sleppa þremur. Það er hinsvegar ekkert að því að reyna að refsa níu og sleppa tuttugu.



Ég vil sjá Geir fyrir dóm. Ekki vegna þess að ég telji að hann sé endilega sekur. Það myndi held ég bara gleðja mig ef hann væri sýknaður. Það myndi fyrir það fyrsta kenna mönnum að það er ekki nóg að ákæra menn út í loftið.

En það sem ákæra hlýtur að koma til leiðar er að gjörðir stjórnmálamanna verða opinberaðar. Við fáum að vita hvers vegna hlutir voru gerðir. Hvers vegna þurfti endilega að ábyrgjast allar innistæður? Hvers vegna var ekkert gert með ítrekaðar viðvaranir? Hvers vegna var allt látið hrynja til grunna.

Og á meðan ríkisstjórnir neita að gera fundargerðir eða upptökur handa komandi kynslóðum – þá er vitnisburður Geirs og annara eina raunhæfa leiðin til að fá á hreint hvers vegna menn höguðu sér eins og svefnvana glannar og hleyptu hér öllu í bál og brand.

Það er full ástæða til þess að segja að aðgerðir (og aðgerðaleysi)  ríkisstjórnar Geirs Haarde hafi verið hættulegar og skaðlegar. Það þýðir ekki að þær hafi verið óverjandi. Hugsanlega var staðan bara ekki betri en þetta. Hugsanlega vann Geir afrek á fyrstu dögum hrunsins.

Ef svo er ætti hann engu að þurfa að kvíða.

En ef hann olli skaða með því að stýra landinu illa og af vanhæfni þá er ég hræddur um að sögunni muni ekki þykja það nein goðgá þótt hann fái dálítið á baukinn – fyrstur íslenskra stjórnmálamanna.

Engin ummæli: