15. janúar 2012

Iðnaðarsalt og andvísindin



Vísindin eiga erfitt uppdráttar í vestrænum samfélögum. Vísindalæsi og -þekkingu hins almenna borgara er töluvert ábótavant, svo ekki sé meira sagt. Enda hafa vísindamenn sjaldan kært sig mikið um álit venjulegs fólks á störfum þeirra. Þeir komust upp með það lengst af að gera það sem þeir vildu. Þannig krufði Níels Dungal meinafræðingur á sínum tíma hvern þann sem hann langaði til að kryfja og notaði jafnvel líkin til að glensa með. Tómas Midgley gat varla fengið arðvænlega hugmynd án þess að henni fylgdu hræðilegar aukaverkanir. Hann var maðurinn sem fékk þá snilldarhugmynd að setja blý í bensín og ósóneyðandi gös í kælikerfi og úðabrúsa. Hann endaði svo á að hengja sjálfan sig fyrir slysni í einni af uppfinningum sínum. Sem er afar táknrænt.

Skaðlegar afleiðingar þess að setja taugaeitrið blý í bensín voru farnar að koma fram á greindarprófum áður en menn hunskuðust til að grípa til aðgerða. Menn voru löngu búnir að uppgötva skaðleg áhrif reykinga og asbests áður en nokkuð var gert. Vísindin hafa alltaf átt erfitt með að ná eyrum almennings. Framan af vegna þess að vísindamenn voru illa að sér og lítt umhugað um almenning. Í seinni tíð vegna þess að almenningur er illa að sér og lítt umhugað um vísindin.

David Hume sagði einu sinni að það stangaðist ekki á við skynsemi að óska veröldinni eyðileggingar frekar en að þurfa að lifa með eymslum í fingri. Á sama hátt stangast það ekki á við skynsemi að hætta að borða pylsur með hollensku iðnaðarsalti en halda áfram að reykja sígarettur. Áhugi fólks og ótti þegar kemur að vísindalegum fyrirbærum ræðst af tilfinningum en ekki skynsemi.

Það er virðingarvert að löggjafar heims taki upp strangt eftirlit með vörum og þjónustu. Vottaðir staðlar eru ágætir. Upp að vissu marki. Miðlæg stöðlun kemur ekki í staðinn fyrir almenna dómgreind. Það þarf að ala fólk upp til umhverfismeðvitundar og ábyrgðar. Og ekki bara vegna þess að staðlar geta brugðist (eins og í tilfelli sílikonpúðanna). Heldur fyrst og fremst vegna þess að staðlar veita falska öryggiskennd.



Umræðan um iðnaðarsaltið er svo dæmigerð og svo lýsandi. Svo einkennandi um skort fólks og fjölmiðla á vísindalegri þekkingu og umhverfisvitund. Fyrir það fyrsta hefur fólk áhuga á öllum röngu hlutunum. Enginn spyr réttu spurninganna. Menn eru of uppteknir af því að leita að blórabögglum eða ýkja áhættuna af því að hafa gengið gegn staðlinum. Enginn hefur áhuga á því að ræða hlutina í eðlilegu samhengi. Komast að því hvort einhver raunveruleg áhætta hafi verið að baki málinu. Gúgla vöruna og finna efnainnihald hennar (sem hefði tekið eina mínútu og skilað mönnum hingað).

..

Öllum er svo mikið niðri fyrir vegna þungmálmanna sem hefðu getað verið í vörunni kannski og hugsanlega efsvo skyldi vera að mögulega gæti verið að staðallinn fyrir iðnaðarsalt leyfði þungmálma í saltið. Enginn ræðir það að þungmálmalaust salt er að draga þessa þjóð í gröfina – hægt en örugglega. Óhófleg saltneysla er verulegt heilsufarsvandamál og snar þáttur í blóðrásarsjúkdómum og ótímabærum dauða fjölda fólks.

Staðlar gefa nefnilega falska öryggiskennd og geta aldrei komið í staðinn fyrir meðvitund „neytandans.“ Þegar hjálmar hafa verið lögleiddir hjólar fólk einfaldlega  miklu hraðar og glannalegar og á alveg jafn auðvelt með að drepa sig. Hið sama gildir um öryggisbelti. Þeir sem neyddir eru til að keyra með öryggisbelti eru ekki mikið líklegri til að lifa af ökumannsferilinn en þeir sem nýta frelsi sitt til að keyra án þeirra.

Lagasetningar og staðlar sem eiga að tryggja lýðheilsu og almannahag eru að hluta táknrænar aðgerðir. Þeim þarf alltaf að fylgja breytt neyslu- og hegðanamynstur til að vandamálið sé upprætt.

En auðvitað á ekki að kaupa iðnaðarsalt og setja í mat. Það á ekki heldur að selja sígarettur úr gölluðum pappír sem valdið getur kláða í fingrum. Menn eiga að vanda sig.

En það sem þetta salt vantar er vottun. Og fréttin er fyrst og síðast sú að óvottuð matvara hafi verið seld hér á landi. En um leið og sá vinkill er settur á málið hættir hann að vekja almenna reiði og gremju því Íslendingar hafa nákvæmlega ekkert á móti óvottuðum mat. Þeir eiga nákvæmlega ekkert erfitt með að sætta sig við að kleinurnar sem þeir kaupa á bændamarkaðnum séu steiktar heima hjá seljandanum. Íslendingum finnst það eiginlega bara dálítið flott. Og ef maður ímyndar sér eitt augnablik að einhver kokkur úti á landi hefði unnið salt úr fjöruborðinu hjá sér og notað á rómantískum veitingastað þá sér maður strax að enginn hefði haft minnstu áhyggjur af því. Eða því að éta söl, ber eða annað sem náttúran færir okkur óvottað á diskinn.

Mér er meira að segja nær að halda að þeir sem éta mest af óvottuðu fæði á Íslandi séu þeir sem éta hollasta matinn. Fjöldi vottana eykst í réttu hlutfalli við þær milljónir sem maturinn er framleiddur fyrir. Flestu stimplarnir eru á örbylgju- og öðrum upphitunarmat.



En maður á samt ekki að setja iðnaðarsalt í mat.

En fari svo að maður geri það á maður að athuga hvort saltið er í lagi. Eða réttara sagt fá einhvern til að athuga það.

Sem er einmitt það sem gert var í þessu tilfelli. Saltið var skoðað og samkvæmt vottunum á því var það ekkert hættulegra en annað salt. Svo þeir sem höfðu vísindalegu þekkinguna sögðu: „Þetta slapp í þetta sinn. Klárið saltið og kaupið það svo annarsstaðar.“

Sem að mínu mati eru fullkomlega eðlileg viðbrögð. Vottunin hefur tilgang. Þann að tryggja öryggi. Ef öryggi er tryggt með öðrum nærtækari aðferðum skiptir vottunin ekki lengur máli. Ekki frekar en meðvitaðir foreldrar fylgja bókstaflega öllum merkingum um markhóp leikfanga eða kvikmynda. Það getur vel verið að einhver börn einhverstaðar geti kafnað á teningunum sem við sonur minn vorum að leika okkur að í morgun. Það bara skiptir engu máli.



Meðvitund er markmiðið.

Fjölmiðlar verða að taka þátt í að skapa þessa meðvitund. Og til að þeir ráði við það er algjört lykilatriði að innan þeirra starfi fólk með snefil af vísindalegri þekkingu og áhuga. Aðeins þannig geta fjölmilar verið upplýsandi.

Saltmálið afhjúpaði sérstakan veikleika fjölmiðla. Það er nefnilega til baneitruð uppskrift sem viðheldur andvísindalegri tilhneigingu. Uppskriftin er svona:

Taktu gildishlaðið vísindalegt orð sem almenningur er hræddur við (þungmálmar, geislavirkni, svarthol...) og blandaðu það brigslum um óheiðarleika og/eða fjárhagshagsmuni (lyfjamafía, ódýrara salt...). Hristu þetta saman og þú getur auðveldlega skapað andvísindalega múgæsingu með tilheyrandi áhuga (flettingum, linkum, sölu...).

Þetta er einmitt nákvæmlega sama uppskrift og er að baki áróðrinum gegn bólusetningum. Upp á hár. Voðaleg fyrirtæki sem bara hugsa um gróða selja mögulega hættulega vöru sem almenningur stendur varnarlaus gegn.



En nú gæti einhver sagt. Kannski að saltið hafi sloppið. Fréttin er sú að eftirliti er ábótavant á Íslandi. Ítrekað hefur komið í ljós að pottur er brotinn í eftirliti með mögulega hættulegum efnum. Auk þess sé mengun viðvarandi vandamál.

Upp að vissu marki er þetta rétt. En undirliggjandi er krafan um að eftirlitsmenn sinni ómögulegu hlutverki. Gæti þess að við þurfum ekki að gæta að okkur sjálfum. Svo að við getum áfram étið bjúgu og haldið að þau séu holl. Passi að öryggisbeltin séu örugglega þannig að þau myndu bjarga okkur í árekstri á 60 km hraða þótt við höfum alls ekki hugsað okkur að keyra undir hundraðinu. Passi það að bankamenn geti ekki sett þjóðina á hausinn en þó ekki þannig að staðið sé í vegi fyrir aðgangi okkar að lánum sem við vitum að þarf kraftaverk svo við getum staðið í skilum af.

Þegar við förum sjálf með bílinn í skoðun viljum við öll lenda á eftirlitsmanninum sem gefur okkur séns ef eitthvað smávægilegt er að. Sparar okkur vesenið og niðurlæginguna af því að fá grænan miða gegn því að við kippum vandamálinu í liðinn við fyrsta hentuga færi. Þetta er hluti af þeim fríðindum að tilheyra lítilli þjóð þar sem við göngum ekki sjálfkrafa út frá því að allir séu illgjörn fífl.

Og ef við lendum á þessum eina sem aldrei gefur séns heldur „fellir“ mann miskunnarlaust ef hann sér tækifæri til þess hugsum við honum þegjandi þörfina og beinum viðskiptum okkar annað upp frá því eða sætum lagi að lenda á öðrum næst. En ef síðan rúta sem sleppt var við grænan miða gegn því að gert væri við bremsurnar vinstra megin að framan lendir síðan í árekstri heimtum við höfuð skoðunarmannsins á stöng.

Við heimtum sífellt að aðrir taki ábyrgð á okkur – svo við þurfum ekki að gera það sjálf. En bara þó þannig að það valdi okkur ekki veseni eða leiðindum.

Sem er ágæt skilgreining á agaleysi. Agalaus er sá sem hlífir sér við veseni eða leiðindum þótt það komi honum illa.

Agaleysi verður aldrei leyst með stöðlum. Umhverfismál verða aldrei leyst með stöðlum. Þau þarf að leysa með umhverfisvitund. Og umhverfisvitund verður aðeins byggð á traustum vísindalegum grunni. Og traustur vísindalegur grunnur byggir á fræðslu. Og fræðsla er eitt af hlutverkum fjölmiðla.



Það er þeirra að rífa sig nú einu sinni upp af rassgatinu og hætta að nýta öll ódýr tækifæri til að skapa hneykslan. Til að skapa lestur. Til að skapa auglýsingar.

Fyrir það fyrsta þarf að hætta að gera vísindamenn sífellt tortryggilega og vafasama. Þeir hafa vissulega verið misjafnir gegnum tíðina eins og ég nefndi í inngangnum en læknar eru ekki að smita börn af einhverfu, stjörnufræðingar eru ekki að þegja yfir fljúgandi diskum, matvælaeftirlitið er ekki að setja hættulegt magn þungmálma í gulrætur, snúða og bjúgu. Í Sviss er ekki hópur af nördum að búa til svarthol.

Það á ekki alltaf að stökkva á fjarlægasta möguleikann bara af því hann er fréttnæmastur.

14 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Flott grein hjá þér! Maður hefur heyrt um að verðmyndun á kaffi, sem keypt er sérstaklega til að styðja við fátæka kaffibændur og vottað í bak og fyrir, sé þannig, að bóndinn fái mun minna í sinn hlut en vottunarstofan. Ég get hins vegar ekki bent á heimildir, en las það einhvers staðar, að 1% af því sem við greiðum fyrir þetta kaffi fari til bóndans, sem ræktar kaffirunnann og tínir baunirnar af honum.

Nafnlaus sagði...

Heilmikið til í þessu.

Nema reyndar var ég einmitt að lesa að þetta með hvað of mikið salt í mat sé hættulegt hafi hreinlega aldrei verið rannsakað. Editorial í Journal of the American Medical Association: (samantekt Reader's Digest: "Some studies suggest that cutting salt protects the heart; others suggest that zealous salt reduction can actually icrease heart problems What's needed is a randomized, controlled trial, in which people are put on different diets and followed for years. It's the only way to get a reliable answer, but it's never been done."

http://www.foodpolitics.com/wp-content/uploads/JAMA-Na+-Restriction-2-2-10.pdf

Hulda Sif sagði...

Vil nú setja athugasemd um að saltneysla sé almennt slæm, en rannsóknir eru að sýna meir og meir fram á að lága saltneyslan sem er verið að ýta undir þessa dagana er í raun að valda meiri skaða en annað.

Líffræðingurinn Ray Peat hefur ákkúrat mjög góða ritgerð um saltneyslu og vitnar í rannsóknir sem benda að saltneysla sé fín, jafnvel í háum skömmtum.Til að mynda þá eykur saltneysla insulin sensitivity sem er eitthvað sem vantar hjá sykursjúkum.

http://raypeat.com/articles/articles/salt.shtml

Í raun myndi ég frekar íhuga hvort vandamálið sé gæði saltsins, en hið almenna borðsalt kallast varla salt miðað við draslið sem er sett í það. Okkur vantar long term studies til að sjá hver munurinn er á hreinu salti(eða sjávarsalti) og hinu hreinsaða borðsalti og hvort einhver munur er þar á.


Svo verður fólk bara að prófa sig áfram. Ég sjálf fór ekki að finna mun fyrr en ég fór að éta það sem kallast óhóflega mikið af salti(2-3 teskeiðar af sjávarsalti á dag). Alls konar dót byrjaði að hverfa eins og nýrnaverkir, bjúgur og verkir í vöðvum og það með því að éta það sem læknum blöskrar við. Jafnvel hormónalækninum mínum kom á óvart að ég var með engan bjúg þrátt fyrir þessa neyslu.

Gunnar sagði...

Fín grein en sú hugmynd að sætisbeltanotkun auki áhættuhegðun og valdi því slysum hefur meðal annars verið debunked hér: http://papers.ssrn.com/sol3/papers.cfm?abstract_id=293582

Menn virðast almennt nota sætisbelti meira þegar hættu steðjar að, sem bjó til false correlation í fyrri rannsóknum. En það gæti svosem þurft að endurtaka þetta á fleiri stöðum og með stærra úrtak til að ganga úr skugga um að Cohen og Einav séu á réttri braut.

Eva sagði...

Ég heimta ekki að aðrir taki ábyrgð á mér. Ég heimta hinsvegar að þegar eftirlitsstofnun (sem ég bað ekki um) er starfandi þá taki hún ábyrgð á hlutverki sínu. Eftirlitsstofnun sem fylgir ekki reglunum er nefnilega einmitt dæmi um falskt öryggi

Retnus sagði...

Mjög góð grein hjá þér. Það er sjaldgæft nú til dags að rekast á vitræn skrif á Netinu. Rétt er hins vegar að benda á það að einn megin vandinn við þungmálma er ekki einungis hversu eitraðir þeir eru heldur hve langur helmingunartími þeirra getur verið. Til dæmis má nefna að helmiungunartími kadmíums er um 20 ár. Kadmíum safnast því fyrir í líkama manna og dýra þó neyslan sé í litlu magni í hvert sinn.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir fróðlegan pistil. Ég verð nú samt að segja að ég er ósammála þér.

Vissulega tekur þú fram að rangt sé að selja iðnaðarsalt til matvælaframleiðslu, en síðan kemur þú inn á að þetta salt hafi verið prófað.

Við erum með staðla því almenningur hefur ekki vitneskju eða getu til að fullvissa sig um að varan sé í lagi. Vottun segir okkur að varan uppfylli ákveðin lágmarksgæði.

Samkvæmt þínum pistli þá ertu að fara, þó varlega séð, inn á það að þar sem eftirlitsaðili tékkaði á þessu salti þá sé allt í góðu að selja það.

Ég spyr á móti, hversu vel var þetta tékkað? Var einn poki prófaður, nokkrir pokar af sömu pallettu? Voru margar prófanir á mismunandi tíma? Getur verið að salt sé misgott jafnvel úr sama fjalli?

Getur svona tékk hjá innlendu eftirliti, verið fordæmisgefandi gagnvart öðrum fyrirtækjum? Við verðum að vera meðvituð um meðalhófsreglu og jafnræðisreglu yfirvalda. Getur verið að handahófskennt tékk hér á landi geti verið gloppótt?

Það er engin tilviljun að við höfum vottanir. Ég geri ráð fyrir að til þess að salt fái vottun sem iðnaðarsalt sé mun auðveldara en að fá salt vottað sem matvælasalt.

Tökum annan vinkil á þessa umræðu. Hugsum okkur að meðaljónin sé að byggja hús. Hann veit ekkert um gæði sements, hann veit ekkert um járnabindingar. Því fær hann sér fagmann i verkið sem þarf að uppfylla ákveðna staðla. Á innlendur aðili að leyfa sement sem hefur ekki vottun, en reynist þó bara nokkuð gott?

Það að saltið sé ekki vottað er einfaldlega nóg til að taka það úr umferð, sem matvælasalt. Það er langöruggast. Og er söluaðila víti til varnaðar. Skýr skilaboð: ,,þú spilar ekki á reglurnar''.


Pétur,

Nafnlaus sagði...

Hver borgaði þér fyrir að skrifa þessa grein Ragnar? Mjólkursamsalan? Og tældi frændi þinn læknirinn þig til þess að nefna bólusetningar í sömu andrá og iðnaðarsalt. Hvað veist þú um hvort börn séu að "smitast" af einhverfu í kjölfar bólusetninga?
Afhverju yfir höfuð er saltið kallað iðnaðarsalt? Er það ekki málið? Kannske er það bara ætlað til matvælaiðnaðar en ekki í heima-kleinubakstur. Hver veit? Kannske er eini munurinn á þessu iðnaðarsalti og öðru salti verðið. Mér finnst þú dálítið naeve í þessum skrifum þínum hér.

Nafnlaus sagði...

Ok, þetta slapp í þetta sinn.

En ferlið brást í 13 ár....

Það er alveg skiljanlegt að fólk sé svolítið í sjokki og fari að pæla í því að eitthvað annað og verra gæti líka þá hafa sloppið í gegnum ferlið?

Þó að þetta hafi farið vel í þetta skipti þá tryggir það ekki að þetta fari vel næst. Og það verður næst...

Nafnlaus sagði...

Sammála "ferlið brást í 13 ár.... " hér á undan. Vissulega er íslenskur neytandi illa upplýstur og lætur bjóða sér hvað sem er, tekur ekki ábyrgð á sjálfum sér og allt það. En, hver á að upplýsa neytandann? Á hann alltaf að Googla? Gagnrýni á fjölmiðla á Íslandi er alltaf hálf-máttlaus. Af hverju gera ekki fjölmiðlar úttekt á því hvað þetta þýðir með saltið og lýsir öllum þáttum þess og taka af allan vafa um skaðsemina? Af hverju?

Nafnlaus sagði...

"Og tældi frændi þinn læknirinn þig til þess að nefna bólusetningar í sömu andrá og iðnaðarsalt. Hvað veist þú um hvort börn séu að "smitast" af einhverfu í kjölfar bólusetninga?"

Það eru MARGAR stórar rannsóknir sem sýna ekki tengingu milli einhverfu og bólusetninga, en EIN FÖLSUÐ OG GÖLLUÐ rannsókn sem gaf NÆSTUM því til kynna tengingu án þess að virkilega sýna orsakatengsl... Þessvegna þorir hann að drulla yfir þetta.

Saltið hinsvegar, nýlegar rannsóknir gefa til kynna að salt sé ekkert sérstaklega óhollt, og hafi ekki þessi hrikalegu áhrif á æðar og blóðþrýsting, nema hjá þeim sem eru þegar komnir með vandamál í sogæðakerfi. Semsagt: Ef maður er orðinn hjartasjúklingur þá þarf maður að fara varlega í mataræði...

Þetta mál með iðnaðarsaltið er alvöru mál, því að þetta sýnir að FYRIRTÆKI fái að gefa skít í staðla sem eru settir til þess að þau geti ekki keypt mun ódýrari og óvottuð hráefni sem ekki standast staðla til manneldis. Hér skiptir í raun engu þó að saltið sem um ræðir sé hugsanlega sauðmeinlaust. Fyrirtæki eru að svindla í stórum stíl, án tillits til öryggis neytenda. Fyrirtækin eiga í raun og veru að vera síðasti öryggisventillinn fyrir okkur (eftir allar stofnanir, vottanir og þ.h.), en sýna með sanni að svo er ekki.

Ölgerðin sýnir það að þeim er ekki treystandi. Nota þeir örugga matarliti í appelsínið sem þeir blanda? Nota þeir almennilega verkferla í bruggun bjórs? Er einhver sem fylgist með þeim?

Byggt á þessu saltmáli þá er svo ekki. Mér finnst ég ekki geta treyst ölgerðinni til að vinna eftir lögum. Og þessi álitshnekkur er alfarið byggður á þeirra eigin verkum.

(Nota bene að ég er EKKI að segja að það sé eitthvað vafasamt í vörum ölgerðarinnar, einungis að segja að verk þeirra varðandi innflutning á salti hafa rýrt traust mitt til fyrirtækisins).

Síðan komum við að óvottuðum heimabakstri. Þar eru flestöll hráefni keypt frá innflytjendum eða innlendum framleiðendum. Hráefnin eru semsagt upp til hópa vottuð. ég hef ENGAR áhyggjur af því að fá smá óvottuð söl, eða heimaframleiðslu þar sem ég SKIL hvernig þarf að vinna heima. Ég skil EKKI hverjar áhætturnar eru í verksmiðju (tengt gerlagróðri, t.d.) og þessvegna þarf vottun á framleiðslulínur. Hætturnar eru bara aðrar og meiri þar sem mörg tonn af kjöthakki renna í gegn og halda öllu bandinu blautu í tíu tíma samfleytt heldur en þar sem ein manneskja hnoðar saman nokkur kíló af kjötbollum. Bara allt annað dæmi. Og hún notar aðkeypt og vottað salt. Gerir stórframleiðandinn það? Á ég að þora að borða mat frá honum daglega?

Kristján Valur sagði...

En saltið stenst einmitt staðla til manneldis. Það er heila málið. Efnainnihald saltsins er vottað skv. iso 9001 staðlinum og það þýðir að hver sá sem ætlar að nota þetta salt getur treyst því að innihaldið fari ekki útfyrir uppgefin mörk. Þetta er til dæmis afar mikilvægt í iðnaði, þar sem frávik geta valdið því að allt fer úrskeiðis. Hitt er svo annað mál að það er ekki sérstaklega vottað til manneldis, en sjálfur veit ég ekki hvort gerðar eru um það kröfur per-se í Íslenskri matvælalöggjöf.

Ástæða þess að til er sérstakt iðnaðarsalt er einfaldlega sú, að hægt er að selja sama salt, vottað og stimplað sem matarsalt fyrir mikið hærra verð. Til aðgreiningar verður að kalla hitt saltið iðnaðarsalt og taka fram að það sé ekki sérstaklega ætlað til manneldis. Þetta er sama ástæða og sú sem er fyrir því að Toyota með möttu lakki er ódýrari en með sanseruðu lakki. Til að hægt sé að selja lúxusvöru dýrt, verður að vera til standardvara.

Nafnlaus sagði...

Það getur vel verið að innihaldið sé nákvæmlega sama og í salti sem ætlað er til manneldis. Það skiptir bara ekki máli, merkingar eru ekki réttar sem þýðir að þeir sem fluttu og geymdu saltið fóru ekki endilega með það eins og um matvæli væri að ræða. Geymsluskilyrðum var hugsanlega ábótavant og eitt sem ekki hefur komið fram: var einhver fyrningartími gefin upp á umbúðum og var hann þá ekki miðaður við þetta væri ekki notað í matvæli?

Kristján Valur sagði...

Ó, ég hlæ (ég er svo létt!) Fyrningartími. Á salti!
Jæja, best að fara aftur til internetsins.