16. janúar 2012

Er þetta ekki orðið ágætt?

Auðvitað á að rannsaka það hvernig salt sem ekki var ætlað til manneldis komst og hélst í umferð á Íslandi í áratug. Sérstaklega með tilliti til þess hvernig á því stendur að mörghundruð manns sem höndluðu með greinilega merkta saltpokana tóku ekki eftir þessu. Eitt er allavega ljóst. Það að það hafi staðið „aðeins til nota í iðnaði“ á pokanum útilokar ekki eitt og sér að eðlilegt sé að skilja það sem svo að nota megi vöruna í matvælaiðnaði. Það þarf að skoða alla vöruflokka sem notaðir eru bæði í matvælaframleiðslu og iðnaði og athuga hvort bæta þurfi merkingar.

En fyrst og fremst þarf núna að upplýsa fólk. Fólk þarf að fá að vita hvort einhver hætta stafaði af þessu salti. Einhver raunveruleg hætta. Og fjölmiðlar þurfa að hætta að þvælast fyrir þeim skilaboðum og allavega hleypa þeim ómenguðum í gegn þótt þeir hafi ekki áhuga á að bera sig eftir þeim sjálfir.

En í staðinn gera menn þetta:


Í þessari frétt er fullyrt (í þessari röð):

  • Heilsufarsvandamál tengd neyslu iðnaðarsalts eru vel þekkt.
  • Aðalmunurinn á iðnaðarsalti og matarsalti er að í iðnaðarsalti eru þungmálmar sem eru ekki í matarsalti.
  • Of mikil neysla iðnaðarsalt getur skaðað æxlunarfæri og skjaldkirtil.
 Engin þessara fullyrðinga er rétt. Ekki ein þeirra. 

Byrjum á annarri fullyrðingunni. Í greininni er því beinlínis haldið fram að það séu þungmálmar í iðnaðarsalti (orðalagið er:

„[Í greininni] kemur fram að aðalmunurinn á matarsalti og iðnaðarsaltinu svokallaða séu að í iðnaðarsalti má finna þungmálma sem geta skaðað heilsu fólks.“

Lesið þetta aftur. Að aðalmunurinn á iðnaðarsalti og matarsalti sé að í iðnaðarsaltinu megi finna hættulega þungmálma! Þetta er auðvitað argasta þvæla og bull. Bókstaflega skilið þýðir þetta að iðnaðarsalt sé framleitt með aðferðum sem tryggja að það sé hættulegt heilsu manna og að aðalmunurinn á því og venjulegu salti séu þungmálmar.

Sá sem skrifar svona frétt skilur ekki það sem hann skrifar. Um þetta ætla ég að láta nægja að segja tvennt. í fyrsta lagi það að salt er til í 3 misdýrum útgáfum. Það allra grófasta er t.d. notað til að bera á vegi í frosti. Þá er það iðnaðarsaltið og loks matarsalt. Matarsalt getur kostað gríðarlega mikið (miklu meira en 10 sinnum meira en iðnaðarsalt). Lang ódýrast er vegasaltið. Fyrirtækið sem seldi Ölgerðinni iðnaðarsaltið selur líka ódýrari týpu fyrir vegi – og meira að segja þar ábyrgjast þeir að saltið sé alveg laust við þungmálma. Er það salt þó að enn verri gæðum en iðnaðarsaltið sem hér um ræðir. Það er auðvitað bull að það séu þungmálmar í iðnaðarsalti. 

Það má síðan rannsaka hvort slík þungmálmamengun er algeng og hvort einhver möguleiki sé á að hún hafi átt sér stað hér (t.d. með því að tala við fyrirtækið sem framleiddi saltið). En það eina sem blaðamaður DV hefur fyrir sér er að greinin tali um að þetta sé aðalmunurinn á iðnaðarsalti og matarsalti.

Sem er lygi.

Hvergi í greininni er vikið einu orði að þungmálmum. Ekki eitt einasta orð. Greinin fjallar enda ekki um heilsufarsáhrif þess að neyta þungmálmasmitaðs salts.

Greinin fjallar um áhrif þess að nota salt sem ekki er joðbætt í landi þar sem joðskortur er aðkallandi vandamál. En það var glæpur Kínverjanna. Joðskortur getur valdið alvarlegum sjúkdómum, þar á meðal vexti í skjaldkirtli og truflunum á starfsemi æxlunarfæra. Joðskortur er landlægur þar sem neysla á mjólkur- og sjávarafurðum er lítil. Og joði er því víða bætt í salt. Slíkt er sérstaklega mikilvægt í löndum eins og Kína.

En því fer fjarri að neysla iðnaðarsalts valdi þessum heilsufarsvandræðum. Þvert á móti er það ekki neysla saltsins sem er skaðleg heldur sú blekking að telja fólki trú um að það sé að neyta joðs þegar svo er ekki.

Blaðamaður DV segir: „Þá segir að heilsuvandamál tengd neyslu á iðnaðarsalti séu meðal annars fólgin í bólgum í skjaldkirtli og að það geti valdið skaða fyrir æxlunarfæri einstaklinga – sé neysla þess mikil og til langs tíma.“

Þetta feitletraða bjó blaðamaðurinn bara til. Enda hélt hann greinilega að það væri iðnaðarsaltið sjálft sem hefði þessi áhrif. 
Á Íslandi hefur aldrei þurft að hafa áhyggjur af joðskorti. Svo ég vísi aftur í Níels Dungal þá tók hann sérstalega eftir því þegar hann fór að kryfja Íslendinga á sínum tíma hve heilbrigður skjaldkirtilinn í þeim var miðað við þjóðir sem höfðu ekki sama aðgang að joðríku fæði. Hin allra síðustu ár hafa vaknað ákveðnar áhyggjur af því að svo margir séu hættir að borða fisk og mjólk að huga þurfi að aðgerðum. Sérstaklega höfðu menn áhyggjur af ungum konum. Þetta var því rannsakað. 

Og í júlí í hitteðfyrra birtust fréttir um að ungar íslenskar konur væru vel innan marka. Og raunar væri ekki ástæða til þess að Íslendingar færu að kaupa joðbætt salt eins og sumar aðrar þjóðir – því möguleiki væri á ofneyslu þess.

Sannleikurinn er sumsé algjörlega á haus miðað við frétt DV. Í stað þess að iðnaðarsalt sé þungmálmafullt og stórskaðlegt sé það notað í stað matarsalts þá hefði kínverska matarsaltið að öllum líkindum verið skaðlegra fyrir íslenska þjóð en iðnaðarsaltið!

Ég held að eigendur saltverksmiðjunnar hljóti að hrista hausinn yfir vinnulaginu á Íslandi. Bæði kaupa Íslendingar og nota ranga vöru árum saman – og þegar það kemst upp ræður enginn við að upplýsa nokkurn skapaðan mann um nokkuð.

Hvernig væri ef Íslendingar hefðu framleitt kattamat úr fiskafgöngum og selt til Danmerkur. Síðan hefði komið í ljós að maturinn hefði verið seldur á veitingastöðum sem barnamatur þrátt fyrir að vera ekki vottaður til manneldis. Og dönsku blöðin væru dögum saman full af fréttum um eitraðan kattamat í Kína.

Þætti okkur það traustvekjandi?

Engin ummæli: