14. janúar 2012
Áróðursmeistarar harðstjóranna
Fjölmiðlar á þessu blessaða landi verða að hætta að fróa heiftinni í fólki. Það að espa fólk upp er ekki það sama og að hrista það úr móki afstöðuleysis. Illa ígrunduð upphlaup, stríðsfyrirsagnir og æsingartal er ekki til þess fallið að breyta dofnum múg í virka borgara. Þvert á móti standa upphlaupin í veg fyrir því að fólk fái sinnt sinni borgaralegu ábyrgð að vera upplýst og aðhaldssamt.
Þegar peningamennirnir keyptu upp alla fjölmiðlun á Íslandi sem heitið gat sáu þeir til þess að þrátt fyrir að hagkerfinu blæddi fimmþúsundkörlum var stemmningin í fjölmiðlaheiminum mjög kreppuskotin. Einn og einn gullkálfur fékk mjög vel borgað en það voru fyrst og fremst fyrirsjáanlegir og „skaðlausir“ gjammarar sem peningamógúlunum stafaði engin ógn af. Þessir hálaunuðu stjörnufjölmiðlamenn voru of uppteknir af því að urra í átt til Valhallar til að taka eftir því hvað ormurinn var að gera við bauginn.
Almennir fjölmiðlamenn lifðu í sífelldum ótta við uppsagnir. Menn komu og fóru og þótt einhverjir hafi tuðað eitthvað um að þeir hafi verið settir á höggstokkinn af því þeir stungu á óþægilegum kýlum – var lína eigendanna alltaf sú sama. Það er ekki hægt að hagnast á fjölmiðlum. Það er bullandi tap á þessu öllu saman. Það er í raun kraftaverk að halda þessu gangandi. Allir geta misst djobbið fyrirvaralaust.
Blaðamenn landsins lifðu í stöðugum ótta við uppsagnir og skipulagsbreytingar.
Óttasleginn blaðamaður hefur um tvennt að velja. Að láta fara lítið fyrir sér eða espa fólk upp. Báðar týpur eru ekki beinlínis gagnslausar – heldur skaðlegar. Blaðamenn eiga ekki að fróa heift eða læðast með veggjum.
Nú hefur salíbuna frétta runnið yfir landið, eins og röð lægða úr Mexíkóflóa. Ávallt virðist markmiðið vera að skapa lestur, linka og hneykslan en umfram allt ekki upplýsa. Og svo eru fundin einhver málglöð fífl sem tjá sig digurbarkalega um það sem þau hafa helst ekkert vit á.
Það er enn kreppa hjá fjölmiðlun. Hún er orðin að viðvarandi stjórntæki og ræðst ekki af neinum efnahagslegum stærðum.
Óttinn gerir blaðamenn að aumingjum. Það er nóg að birta frétt af og til um að blaðamenn hafi verið látnir fara eða fluttir til um deild og þá fríka þeir allir út og fréttirnar fyllast af æsingi og heift. Blaðamenn minna á áróðursmeistara harðstjóranna. Því óttaslegnari sem þeir verða, því kokhraustari virðast þeir og því meiri hamagang skapa þeir. Það er öruggasta merki þess að harðstjóri sé á leið í snemmgrafna gröf ef áróðursmeistarar þeirra birtast á svölum hallanna talandi digurbarkalega með æstan múg í bakgrunni sveiflandi stuðningsskiltum.
Æsingurinn í kommentakerfum og bloggum þar sem búið er að siga fólki á lækna, foreldra veikra barna, eftirlitsstofnanir eða aðra – eru fjörbrot fréttamennskunar. Afleiðing af ódæðum hræddra fréttamanna. Frávik frá hugsjón blaðamannsins.
Íslenskir blaðamenn eru huglausir. Það er búið að berja úr þeim allan kjark og anda. Þeim er handstýrt með óttanum. Óttanum við að missa vinnuna. Óttanum við að vera dæmdur og fara á hausinn. Óttanum við að sinna starfinu eins og á að sinna því.
Það er kominn tími til að menn reyni að standa í lappirnar.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Það væri kannski ágætis byrjun að breyta meiðyrðalöggjöfinni...
Skrifa ummæli