30. ágúst 2012

Veika, veika kerfi.

Á Íslandi er ofboðslega margir góðir kennarar. Sá, sem lætur sig hafa það að sinna starfi sem er illa launað og oft jafnvel verr þokkað en hefur það að markmiði að hlúa að börnum og efla þau til þess að verða hamingjusamir og hæfir einstaklingar í flóknum og oft á tíðum heimskum og illgjörnum heimi, er augljóslega knúinn áfram af einhverskonar elsku á náunganum.

Því verður samt ekki neitað lengur að grunnskólaumhverfið á Íslandi er í djúpri og alvarlegri kreppu. Ekki aðeins nær það ekki yfirlýstum markmiðum sínum – heldur vinnur beinlínis gegn þeim. Afkáralegar, úreltar og andstyggilegar kennsluaðferðir og kennsluumhverfi hefur komið því til leiðar að í stað þess að rækta gott samfélag erum við að traðka á því.

Í dag fékk ég í pósti greinargerð frá FG (Félagi grunnskólakennara) um risastóra rannsókn á viðhorfum og upplifunum starfandi kennara. Með henni fylgdi lítið bréf þar sem m.a. kom fram að „Niðurstöður [könnunarinnar] hafa m.a. verið notaðar af samninganefndum við vinnu sína.“

Hér er sumsé kennaraforystan að falast eftir viðhorfum kennara m.a. til að byggja á þeim þær kröfur sem starfsumhverfi kennara skal byggja á næstu árin.

Ég ætla að vera djarfur og fullyrða að þau viðhorf sem fram koma í téðri skýrslu megi alls ekki og undir engum kringumstæðum vera notaðar til að móta skóla framtíðar – nema í besta falli til að verða víti til varnaðar. Viðhorfin eru mjög mörg heiðarleg merki þess sjúkdóms sem plagar grunnskólakerfið okkar og hefur nærri mulið í duftið alla innviði sem hægt er að byggja þróun og þroska á.

Til að byrja með hafa aðeins 42% kennara jákvætt viðhorf til skóla án aðgreiningar. Hér þarf að hafa í huga að „skóli án aðgreiningar“ er ekki einhver tilfallandi tíska eins og að börn skuli vera aðgreind eftir kynjum eða ganga í skólabúningum eða læra á iPad. Skóli án aðgreiningar er kjarni og megintilgangur íslenskra skóla. Stefna sem búið er að móta á mörgum áratugum og angi af þeirri sjálfsögðu hugmynd að samfélagið sé fyrir alla – ekki aðeins þá sem eiga auðveldast með að samræma hagsmuni sína. Að vera á móti skóla án aðgreiningar er að vera á móti tilverurétti margra nemenda í almenna skólakerfinu. Að vera á móti skóla án aðgreiningar er það sama og að afneita þeirri skyldu sinni að mæta hverjum nemanda þar sem þarfir hans liggja. Andstaðan við skóla án aðgreiningar er skóli sem krefst aðlögunar – hversu fær eða ófær sem þú kannt að vera um þá aðlögun. Í reykvískum skólum er fimmtungur nemenda í „svokallaðri“ sérkennslu. Sem merkir í flestum tilfellum að viðkomandi nemandi er algjörlega ófær um að ná markmiðum sínum í þeirri kennslu sem viðhöfð er fyrir hinn almenna nemanda. Fimmtungur nemenda. Það er þriðjungi fleiri nemendur en þeir sem eru rauðhærðir. 

Aðeins fjórir kennarar af tíu virðast trúa á rétt tallra nemenda til að fá nám við hæfi í venjulegri kennslu. Hinir eru annað hvort moðvolgir eða andsnúnir.

Einangrunarsinnar

Aðeins 17,8% kennara telja að vænlegra sé að kenna nemendum þvert á árganga en í hefðbundnum aldursröðuðum bekkjum. Tæpur helmingur er sannfærður um yfirburði bekkjarkennslunnar. Þetta er hræðileg tölfræði. Hvernig í fjáranum má réttlæta hreina árgangakennslu árið 2012? Hvað réttlætir það að Jóna fái allt sitt námsefni ári seinna en Sigga vegna þess að á milli þeirra eru 3 dagar sem á liggja áramót? Á sama tíma er Sigga mötuð með því sama og Kolla sem er 350 dögum yngri, bara innan sama árs.

Hvað er árgangakennsla annað en ofur einfaldað kerfi sem tekur ekkert mið af eðlilegum þroska og hæfileikum barna og unglinga en elur þess í stað á óþarfa flokkadráttum og ríg á milli fólks sem ætti að ná vel saman. Hver er drifkrafturinn í sadískum busavígslum hálfstálpaðra unglinga annar en sá að ungt fólk er alið upp í þeirri fjandsamlegu vitleysu að hækkandi aldri fylgi sjálfkrafa einhverskonar yfirburðir?

Aðspurðir segjast aðeins 20% kennara samkenna árgöngum og í flestum tilfellum er það vegna fámennis eða samdráttar. 

Stóra meinsemdin

Ég er þeirrar skoðunar að stærsta meinsemd menntakerfisins er fagleg einangrun kennara. Það er fáránlegt að loka hóp af börnum inni með einni manneskju marga mánuði á ári.  Samt er bara helmingur kennara á því að teymisvinna sé vænleg til árangurs. Karlar eru meiri einangrunarrottur en konur og því lengur sem kennarar hafa starfað því minni trú hafa þeir á slíku samstarfi. Sem eru ömurlegt. Hvað er að þegar þeir sem hafa mest að gefa hafa minnsta trú á gjöfum? 
Það getur vel verið að elstu kennararnir telji sig græða minna á teymisvinnu en aðrir (þótt ég telji að það sé verulegt vanmat) en á endanum snýst þetta um hagsmuni nemenda – ekki kennara. Skólinn er fyrir nemendur. Kennarar eru fyrir nemendur. Ekki öfugt.

En svo þegar maður skoðar þetta betur þá kemur í ljós að langfæstir kennarar kenna í teymi og meirihluti þeirra sem telur sig kenna í teymi er í tveggja manna teymi (!).

Teymisvinna er erfið. En hún skilar árangri ef vel er á haldið. Hún er líka eina leiðin til að tryggja eðlilegt flæði styrkleika til sem flestra nemenda og þróunar skólastarfs. Hún er líka eina leiðin til að brjóta upp þá múra einangrunar sem hlaðnir hafa verið upp utan um kennara. Það er mannskemmandi að neyða 25 börn til að eyða heilu vikunum með einni og sömu manneskjunni og það er lýjandi og erfitt fyrir kennara að hafa ekki bakland þegar kemur að erfiðleikum starfsins. 

Erfiðleikar 

Kennsla er erfitt starf. En ég get ekki skilið þann yfirgnæfandi meirihluta sem telur að foreldrar og agavandamál séu það erfiðasta við starfið. Það er langerfiðast að finna sífellt nýjar leiðir til að mæta ólíkum hópi nemenda. Ég hef kennt ansi lengi og ansi mörgum börnum og ég hef aldrei kynnst foreldrum sem hafa áhuga neinu öðru en að vera í liði með kennaranum við að gæta hagsmuna barnsins. Aldrei. Og mér finnst fráleitt að taka undir með þeim tæpa helmingi kennara sem í könnuninni segja að foreldrar taki of litla ábyrgð á hegðun barna sinna.

Ég bara man ekki til þess að agavandamál hafi verið sérstakt issjú á mínum kennsluferli. Vissulega koma upp alls kyns vandamál í samskiptum og hegðun og af og til þarf maður að byrsta sig. Ég fullyrði að það eina sem geri foreldra að stóru vandamáli í skólastarfi eru léleg samskipti skóla og heimila og það eina sem gerir agavandamál að meiriháttar vandamáli eru léleg samskipti kennara og nemenda. 

Sem er ekki skrítið. Það þarf sterkar taugar til að enda ekki með bönkersindróm þegar sömu 25 krakkarnir eru lokaðir inni í litlu herbergi árum saman með sömu manneskjunni. Það getur verið voða yndislegt þegar kennarinn nær að bonda við bekkinn – en það getur ekki endað öðruvísi en með ósköpum í þau fjölmörgu skipti sem það gerist ekki. Að ég tali ekki um það þegar ungum og reynslulausum kennurum er sífellt att á foraðið. Þeir eru settir í að kenna á miðstiginu, einmitt á þeim tíma þegar hormónarnir eru að taka völdin og tímabundin siðblinda skýtur rótum í nemendum að því er virðist til að undirbúa þá við að verða sjálfstæðir einstaklingar, óháðir foreldrum sínum. Það þarf reynslu og lagni við að hjálpa nemendum gegnum árin frá 11 og upp í 15. Þar hjálpar mikið að hafa manneskjulegt umhverfi sem sýnir fólki skilning. Þar hjálpar ekki neitt að skrúfa lokið á suðupottinn og ætla að hafa hemil á öllu með umbun og refsingu – sem á tíðum verður eina haldreipi kennarans. 

Í öllu þessu írafári sjá menn svo ekki það stórkostlega sem gerist í mannsheilanum þegar hann virðist yfirkominn af gelgju og óróa. Nemendur breytast úr börnum í hugsandi einstaklinga. Það opnast dyr á skilninginn og hugmyndaflugið og til verður hópur sem iðar af andlegri frjósemi og sköpunargáfu – sem hafa þarf sig allan við að bæla til að þjösna öllum gegnum sömu stöðluðu kennslubókina á sama hraða.

Sjúkdómseinkenni

Þau viðhorf sem fram koma í skýrslunni eru skýr sjúkdómseinkenni. Ekki um að við eigum ónýta kennara heldur um að við séum búin að búa til skólasamfélag sem ekki virkar. Auðvitað finnst engum kennara að fötluð börn eigi ekki að fá að vera í sínum skóla. Mörgum finnst bara (réttilega) að mörg börn fái ekki þá þjónustu sem þau þurfi. Margir sjá heldur enga leið til þess að mæta slíkum börnum við þær aðstæður sem þeir búa við.

En þá þarf að breyta aðstæðum. 

Vandinn er að meðan hver kennari situr fastur í sínum kassa og sinnir sínu fagi eða sínum bekk þá myndast aldrei sú hreyfing sem þarf til að breyta hlutunum. Þetta er gamla lögmálið um að deila og drottna. 

Ekki miða við þetta

Ef Félag grunnskólakennara ætlar að miða sína markmiðssetningu við þessi hræðslufullu uppgjafarviðhorf og rembast við að viðhalda hér kerfi sem er öllum fjandsamlegt þá horfum við fram á mörg ár enn af tregðu og rugli. 

Ef niðurstaðan verður sú að unnið verði gegn Skóla án aðgreiningar, samkennslu og teymisstarfi þá óska ég hér með eftir að stofnuð verði ný samtök kennara. Samtök kennara sem hafa þó þann lágmarksmetnað að trúa á markmiðið og tilgang sinn í starfi. 

Ég get ekki tilheyrt stétt sem er svo yfirkomin af þreytu og vonleysi að hún hefur misst allan metnað og dug. 

17 ummæli:

Mannsi sagði...

Ragnar Þór - þetta er skörulega mælt og ég skrifa undir hvert orð! Því miður óttast ég að sambærileg tölfræði yrði enn meira deprímerandi fyrir mitt skólastig, framhaldsskólann.... en vonandi, vonandi berum við gæfu til að breyta þessu og skapa nýja og öðruvísi skóla!

Bjarki sagði...

Þú hefur ansi sterkar skoðanir en ég verð að taka undir, a.m.k. stóran hluta. Ég skil ekki þetta umkvörtunarefni varðandi agavandamál og foreldra. Að sama skapi skil ég ekki að kennara hafni samvinnu. Fleiri hugar og hendur vinna léttara og skemmtilegar. Mig grunar að skólar Reykjavíkur séu mjög mismunandi og það væri gagnlegra að kennarar heimsæki nágrannaskóla en að fara til útlanda. Frábært blogg hjá þér.
Kveðja,
Bjarki

Nafnlaus sagði...

Ekki miða við þetta segirðu. Við hvað á þá að miða? Tölvutæknin gerir kennurum og nemendum kleift að stunda einstaklingsmiðað nám og skóla án aðgreiningar og allt það eins og þú veist manna best. Þinn skóli fengið þróunarstyrki frá upphafi og nú eru nemendur með spjaldtölvur. Er það viðmiðið? Af hverju ekki skólann minn þar sem eru 400 nemendur og 30 tölvur (sex ára gamlar eða eldri)? Mínir nemendur komast í tölvu eina kennslustund af hverjum fjórtán. Af hverju ekki miða við skólann minn þar sem raunhæf endurmenntun fyrir kennara er ekki í boði?
Og þegar kennarar hafa ekki jákvætt viðhorf gagnvart skóla án aðgreiningar, er það vegna getuleysis kennarana sjálfra eða getuleysis sveitarfélaga til að skapa kennurum og nemendum það umhverfi sem þarf? Ættirðu ekki að beina þessari gagnrýni að sveitarfélögunum? Benda þeim á að nemendur sem áður voru í sérskólum fái ekki þá þjónustu sem þeim ber í hinum almenna grunnskóla.
Þessi könnun bendir til þess að álag á kennurum er allt of mikið:
„Svör kennara benda til þess að álag í starfi kennara hafi aukist á seinustu fimm árum. Rúmlega 77% svarenda sögðu álagið hafa aukist frekar eða mjög mikið á þessu tímabili.“
Skv. þessari könnun þá eru kennarar tilbúnir að stokka upp núverandi kerfi:
„Rúmlega 67% allra svarenda töldu það frekar eða mjög æskilegt að hafa kennsluskyldu breytilega eða sveigjanlega eftir umfangi og álagi starfsins hverju sinni.“
Það bendir ekki til þess að þeir vilji ríghalda í gamalt kerfi. Hins vegar hafa sveitarfélögin ekki viljað ræða neinar breytingar í þessa átt af neinni alvöru. Það veit ég þar sem ég sit í samninganefnd FG. Það eina sem sveitarfélögin hafa viljað ræða er að auka starf kennara án þessa að hækka launin.
Það getur vel verið að það sé lausn fyrir þig og þína að stofna annað kennarafélag. Það breytir ekki þeirri staðreynd að svona líður kennurum í dag og það er okkar skylda sem eru í forystu fyrir þessa kennara að hlusta á þessar raddir. Ég túlka þessa könnun að kennarar vilja breytingar á núverandi kerfi. Boltinn er hjá sveitarfélögunum. Á meðan getur þú hlaupið í björgunarbátinn og siglt í burtu eða hjálpað okkur í samninganefndinni að ausa.
Sigurður Haukur í samninganefnd FG.

Bjölli Snær sagði...

Sigurður Haukur: Einstaklingsmiðuð kennsla snýst ekki um tölvutækni, iPada eða úr sér gengin tölvuver. Hún snýst um það grundvallarviðhorf kennara til að nálgast nemendur af virðingu sem fjölbreyttan hóp ólíkra einstaklinga með ólíkar þarfir, getu og langanir. Það er í þessu viðhorfi sem ég og meirihluti kennara erum ósammála og það er einmitt þess vegna sem ég væri frekar til í að vera í stéttarfélagi með Ragnari heldur en með þér í hinu úr sér gengna og rykfallna Kennarasambandi Íslands.

Bjössi sagði...

Skemmtilega innblásinn pistill. Ég andmæli samt einu. Teymisvinna er ekki erfið. Þú þarft bara að bæta þig í henni.

Nafnlaus sagði...

Bjölli. Hvar finnur þú því stað í könnuninni að kennarar nálgist ekki "nemendur af virðingu sem fjölbreyttan hóp ólíkra einstaklinga með ólíkar þarfir, getu og langanir."?
Sigurður Haukur

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Sigurður Haukur, ég hef ítrekað og nákvæmlega rakið ábyrgð sveitarfélaga hér á þessu bloggi – bæði hvað varðar skóla án aðgreiningar og fleiri hluti.

Og þótt það sé ekkert aðalatriði þá get ég sagt þér að minn skóli fekk enga þróunarstyrki til að kaupa iPad. Það var þvert á móti barátta, sjálfsprottin meðal kennara sem kröfðust þess að hafa eittvað um það að segja hvernig kennsluumhverfi væri búið nemendum.

Unglingadeildin hefur vaxið um rúm 50% á þremur árum og við tókum ekki í mál að eyða stofnkostnaði í að búa skólann búnaði eða tækjum sem þegar eru úrelt og óhentug.

Það varð úr því stríð þar sem okkur var bannað að gera annað en það sem allir aðrir gera, miðstýringin átti að ríkja. Það var ekki fyrr en við fórum af öllu afli, saman sem hópur með stjórnendur með okkur í liði að okkur var leyft að kaupa það sem við vildum í stað þess að eyða enn hærri upphæðum í tæki og búnað sem miðstýringarvaldið hafði samþykkt.

Hvert skref var bardagi – fyrsta orrustan vannst vegna þess að okkar eldsneyti var hugsjón um einstaklingsmiðað nám og okkar styrkur var samstaða.

Við kennarar þurfuma að horfast í augu við uppgjöfina og þreytuna, tregðuna og vælið – hætta að vera svona hrædd og spyrja hvers vegna við erum að þessu.

Hætta að sætta okkur við að liggja í eymdinni bara vegna þess að við getum kennt sveitarfélögum um hana. Þau hafa frá upphafi kennt ríkinu um. Og þessi ábyrgðarlausi trekantur hefur komið kerfinu að fótum fram.

Eins og staðan er núna eru kennarar stærsta fyrirstaðan í því að hægt sé að bylta kennsluháttum og tækni.

Ég er alveg til í að ausa með ykkur hinum – en ég vil frekar róa.

Sigurður Viktor Úlfarsson sagði...

Frábær pistill! Ánægjulegt að heyra kennara tjá sig á opinberum vettvangi um menntamál og kennslu. Allt of mikið er talað UM kennara og allt of lítið VIÐ kennara um þessi mál. Kennarar koma svolítið fram í umræðunni og fjölmiðlum eins og þolendur en ekki gerendur í menntamálum. Það er auðvitað ekki í neinum takti við raunveruleikann en hefur klárlega áhrif á sjálfstraust stéttarinnar inn á við. Fólk segist "bara" vera kennarar. Hvað á það að þýða?

Maður heyrir alls staðar lögfræðinga að tjá sig um lög, hagfræðinga um efnahagsmál o.s.frv. en ótrúlega lítið kennara tjá sig um kennslu og kennsluhætti. Skapið sýn hjá almenningi og stjórnvöldum um kennsluna en ekki fjármagnið sjálft. Dropinn holar steininn og fyrst þurfa kennarar að koma sýninni til skila áður en fjármagnið kemur.

Kennarar í opinberri umræðu eru yfirleitt í vörn en ekki sókn að karpa og tuða um laun og algerlega úrelta kjarasamninga t.d. um það að vinnuskipulag dagsins sé neglt niður í kjarasamningi í stað þess að stjórnendur lagi það að starfseminni, ólíkum bekkjum, ólíkum fögum sem þurfa mismikinn undirbúning o.s.frv. Í kjarasamningi viðskiptafræðinga eða lögfræðinga stendur ekki að þeir eigi að vera í Excel 43,38% vinnutímans og á fundum 37,65% o.s.frv. Stjórnendur og starfsfólk einfaldlega ráðstafa sínum vinnutíma og hugtök eins og kennsluskylda í kjarasamningi eru fáránleg.

Maður heyrir frá vinum sínum í kennarastétt af öllum frábæru verkefnunum sem kennarar eins og Ragnar og hans samstarfsfólk eru að leiða og þróa úti á akrinum þar sem tekist hefur að byggja upp öflugan anda og metnað. Þetta frábæra starf er hins vegar ótrúlega lítið í umræðunni á opinberum vettvangi, þrátt fyrir að hafa bein áhrif á hamingju nánast hverrar einustu fjölskyldu í landinu og því fagna ég pistli Ragnars. Meira svona kennarar! Verið GERENDUR en ekki þolendur í umræðunni um menntamál.

Sigurður Viktor Úlfarsson

Bjölli Snær sagði...

Sigurður Haukur: Hugmyndin um bekk þar sem allir nemendur fæddir sama ár er að læra sama námsefni á sama tíma undir leiðsögn eins kennara, sem er reyndin víðast hvar í skólakerfinu, fær ansi sterkan hljómgrunn í þessari könnun. Kennari sem aðhyllist þá hugmynd nálgast ekki nemendur sína, að mínum dómi ekki af virðingu. Hann nálgast þá ekki sem fjölbreyttan hóp og hann ber ekki virðingu fyrir ólíkum þörfum þeirra, getu og löngunum.

Nafnlaus sagði...

Skóli án aðgreiningar hljómar vel en hvað með þau börn sem eru svo óheppin að lenda í bekk með þeim geðveika? Þessum sem tekur köstin svo smala þarf út bekkjarfélögunum, kalla inn nokkra fullorðna til aðstoðar við að hemja viðkomandi og reyna svo að raða upp stofunni og finna út hver á hvað af bókum, pennaveskjum og öðru lauslegu sem fór um koll í látunum. Hvað með börnin sem sitja föst í þessum sama bekk ár eftir ár, þekkja ekkert annað, og vita ekki fyrr en á unglingsaldri að til er annar raunveruleiki í skólastarfi sem þau fóru þó á mis við. Og vegna hvers? Jú réttur þess veika er að fá að vera í venjulegum bekk án aðgreiningar, ekki má upplýsa hina foreldrana um stöðu mála því halda verður trúnað við hinn veika og foreldra hans, en réttur hinna barnanna og foreldra þeirra er fótum troðinn. Niðurstaðan er að heill bekkur barna situr í gíslingu eins (eða fleiri) einstaklinga sem eru ekki hæfir til setu í hefðbundnu skólastarfi.
Ég veit að mörgum kann að þykja þetta harkaleg framsetning, en sem faðir barns sem fékk þetta hlutskipti í grunnskóla þá get ég ekki annað en gagnrýnt þessa aðferðafræði. Börnunum sem svona er ástatt um (hinum veiku) er vorkunn, en það má ekki láta einstaklingsrétt hins veika valta yfir einstaklingsrétt hinna barnanna í bekknum.

Inga Kristín sagði...

Þú virðist gleyma að ofangreind könnun er þverskurður skoðana starfandi kennara á höfuðborgarsvæðinu. Auðvitað ertu ekki sammála öllu sem kemur fram þar, enda ert þú ekki einn í úrtakinu, ef þú varst í því yfir höfuð. Ég var sjokkeruð yfir ýmsum niðurstöðum, rétt eins og þú. En að skrifa niðurstöðurnar á vanhæfi kennara og neikvætt viðhorf er ófagmannlegt og jaðrar við barnaskap.

Háskólagenginn maður eins og þú hlýtur að kunna að virða niðurstöður vandaðra rannsókna eins og þessarar og taka þeim með opnum hug. Varaðu þig á því að leggjast í skotgrafir og miða allt við þína eigin reynslu. Þú alhæfir um ,,rétta kennsluhætti" eins og þú sért hinn almáttugi yfirburðakennari. Þú sérð það ekki sjálfur, en þú situr í fílabeinsturni.

Ég legg til að þú horfir frekar á niðurstöður þessarar könnunar sem innsýn í viðhorf og stöðu kollega þinna. Þú ert greinilega mjög heppinn með aðstæður í starfi en það búa því miður ekki allir kennarar jafn vel og þurfa að leggja sig meira fram við að sinna sínu hlutverki.

Ég er sammála því að á Íslandi er mikill fjöldi metnaðarfullra og góðra kennara, og ég sé á skrifum þínum að þú ert einn þeirra. Annars hefðirðu ekki myndað þér skoðanir á málinu, hvað þá skrifað um þær opinberlega. En jafnvel hjartahlýjustu, metnaðarfyllstu og duglegustu kennurum reynist erfitt að sinna störfum sínum, hverjar svo sem ástæðurnar fyrir því eru. Ofangreind könnun segir nefnilega ekkert til um það hvers vegna kennurum líður illa í starfi, hvers vegna þeir eru ósammála stefnunni um nám án aðgreiningar eða hvers vegna þeim þykir teymisvinna óæskileg. Það er mikilvægt að skoða aðeins hreinar niðurstöður rannsókna eins og þessarar og meta eingöngu nákvæmlega þær, en draga ekki af þeim of víðar ályktanir.

Siggi Óla sagði...

Þú náðir þessu alveg í fyrirsögninni. Kerfið ER veikt. Málið er bara að kennarar eru agalega erfiðri stöðu í þessu blessaða kerfi. Börn eru dæmd til vistunar á alræðisstofnunum, hvar afplánun skal hefjast á ákveðnum tíma og fyrirfram skilgreindri þekkingu troðið inn í höfuð þeirra, algerlega burtséð frá þroska eða áhuga. Þeir sem bera höfuðábyrgð á því að framfylgja dómnum eru aumingja kennararnir, sem tekst reyndar ótrúlega vel upp með áðurnefnda þekkingarítroðslu, þarfnvel stundum með góðu. ÞETTA er grunnmeinsemdin: "Menntun" (eins og hún birtist yfirleitt í framkvæmd) er tilraun til þvingunar. Og hver hefur gaman af því að láta þvinga sig til einhvers? Viðhorf kennara yrði eflaust jákvæðara ef þeir gætu farið að einbeita sér að því að kenna í stað þess að vera fangaverðir.

Siggi Óla sagði...

Kannski rétt að það komi fram að þetta eru ekki mínar pælingar. Ég las fyrir nokkrum árum greinar eftir gaur sem heitir Peter Gray sem höfðu mikil (og varanleg, óttast ég!) áhrif á mig.

Hér skrifar hann um 7 syndir skólakerfisins:
http://www.psychologytoday.com/blog/freedom-learn/200909/seven-sins-our-system-forced-education?page=2

Sigurður Viktor Úlfarsson sagði...

Siggi, ég held nú að þetta sé kannski svolítið dramatísk afstaða en vissulega þá sýna rannsóknir að við getum gert betur í að láta börn finna sig í námi.
Hins vegar sýna þær líka að mikill meirihluti barnanna telur sig ekki leiðast námið oft eða alltaf og segist ekki líða illa í skólanum. Þetta hlutfall fer hækkandi sem betur fer.
Hins vegar eru klárlega allt of mörg börn sem ekki hefur tekist að ná nægilega vel til og öflugir kennarar eins og Ragnar eru okkar helsta vopn í þeirri baráttu og samkvæmt rannsókninni erum við í sókn, þ.e. við erum að ná fleiri og fleiri börnum inn í hlýjuna - en eitt barn er auðvitað alltaf einu barni of mikið og því þarf að sjálfsögðu að gera enn betur.

Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/09/03/um_7_prosent_lidur_illa_i_skolanum/

Siggi Óla sagði...

Humm....hvar er ég að dramatisera? Ég taldi upp staðreyndir. Skólinn ER alræðisstofnun þar sem nemendinn er valdalaus. Hann ræður engu um það hvað hann lærir, hvenær, eða með hverjum. Nemandinn SKAL mæta í skólann þegar hann er á sjötta aldursári og hvert ár upp frá því fram að 16 ára aldri. Þetta kerfi byggir því í grunninn til á þvingun. Það er auðvitað ljóst að fangelsi með skemmtilegum og hæfum fangavörðum eru vistlegri og skemmtilegri og fleiri föngum líður eflaust betur við þær aðstæður, en það styttir ekkert dómana þeirra. Það virðist hins vegar hálfgert tabú að ræða grundvallarforsendur menntakerfisins. Þvingunin er "fílinn í fundarherberginu" sem ekki má tala um, jafnvel þótt hann sé sífellt kúkandi á gólfið og fáum þyki lyktin góð.

Sigurður Viktor Úlfarsson sagði...

Margt til í þessu. :)
Áhugavert. Sérðu fyrir þér aðra leið en skyldunám?

Siggi Óla sagði...

Mjamm. T.d. Sudbury Valley módelið: http://www.psychologytoday.com/blog/freedom-learn/200808/children-educate-themselves-iv-lessons-sudbury-valley Það er komin mjög góð reynsla á þetta. Virðist leysa mjög mörg af framangreindum vandamálum. Tékkaðu á þessari grein. MJÖG áhugavert.

kveðja:
Siggi Óla

P.S: Mikið rosalega er ég glaður að einhver skuli hafa áhuga á þessu!