Ef ég hefði val um núverandi stjórn annarsvegar og hinsvegar aðra blöndu núverandi þingflokka þá kýs ég þessa ríkisstjórn hikstalaust. En ég er langt frá því sáttur. Og ég er verulega ósáttur við gagnrýnisleysi annarra en þeirra sem hatast við ríkisstjórnina af því það hentar þeirra pólitík.
Ég held að Jóhanna Sigurðar og Steingrímur J hafi innleyst áratuga inneign þegar þeim voru réttir stjórnartaumarnir. Þau voru þekkt af andófi og prinsippfestu. Þeim var treyst til að glata ekki sálum sínum ef þeim væri boðinn allur heimurinn. En það er þvímiður komið í ljós að þessir áratugir í hinum pólitíska hverfli höfðu skilið eftir sig för. Þau eru bæði atvinnupólitíkusar af gamla skólanum. Að vísu lífsseig eintök með furðumikla drift en maður hugsar í alvöru um það á stundum hvort úthaldið hadi fyrst og fremst stafað af því að þau urðu bæði undir í sínum flokkum, var báðum hafnað og hafa bæði beðið síns tíma. Og nú þegar hann er kominn upplifa þau sig sem ómissandi velgjörðarmenn þjóðarinnar, líkt og forsetinn (sem hefur furðulíkt mentalítet og ætlar að hugsa um þjóð sína við skrifborðið mörg komandi ár).
Með fullri virðingu fyrir öllu þessu fólki þá held ég að allir yrðu hamingjusamari ef þau létu það eftir sér að hætta þessu ströggli og sypu í staðinn sérrí og nytu ríflegra eftirlaunanna sem við munum skaffa þeim.
Þegar kreppan skall á leyfði ég mér að vonast eftir uppgjöri. Sem færi einhvenveginn þannig fram að ráðamenn áttuðu sig á því að það er ekki þeirra að deila og drottna og að almenningur áttaði sig á því að maður þarf stöku sinnum að hugsa svo ekki fari illa. Og framanaf var ég nokkuð bjartsýnn.
Ekki lengur.
Það kom fljótt í ljós að hinir nýju ráðamenn réðu ekki við verkið og forðuðust alla frumlega, lausnarmiðaða hugsun eins og pestina. Bökuðu brauðið ofan í múginn á sömu kolum og hinir fyrri höfðu gert. Með því móti mátti alltaf afsaka slælegan bakstur með uppruna kolanna. Menn skyldu alltaf geta greint fingraför hinna smáðu á lausnunum. Enda urðu lausnirnar smánaregar.
En ég vonaðist alltaf eftir meiru. Og ég hef alltaf haldið dálítið með Jóku og Steingrími. Því í þeim hef ég séð eitthvað töff sem ég hef viljað trúa að séu alvöru hugsjónir. Barnalegi ég. Hugsjónir þeirra þarf ekki að efast um og þær voru einhverntímann kveikjan að störfum þeirra. Þau halda jafnvel að svo sé enn. En sannleikurinn er sá að þau eru lítið annað en síðasti molinn í grómteknum konfektkassa atvinnustjórnmálanna. Molinn sem alltaf varð eftir. Molinn sem mikilvægi hinna molanna var mældur eftir. Eftir því sem rauðu molunum fjölgar hutfallslega í makkíntossbauknum verða hinir eftirsóttari og gómsætari. Það var þjóð með sykurdrullu og skemmdar tennur sem ákvað að prófa rauða molann í barnslegri trú á að það væri eitthvaðbetra. Þjóðin hefði heldur fengið sér gulrót.
Það voru ekki Steingrímur og Jóhanna sem mótuðu þennan vonda smekk þjóðarinnar. Kjör þeirra og vinnubrögð eru afrakstur langvinnra, þjóðlegra ósiða. Andlegt nammidrulluát og óhollusta sem á endanum steypri fitustorkna súkkulaðiskel utan um kokkáluðu hugsjónabomburnar sem nú stýra Íslandi - í rétta átt en illa.
Kryddsíldin sýndi hve illa er fyrir okkur komið í raun. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins var ósjarmerandi og iðrunarlaus - eins og flokkurinn. Fulltrúi Hreyfingarinnar snérist eins og vindhani og var herskár og auðmjúkur á víxl. Varð að gjalti í lúkunum á Jóhönnu sem sýndi fáséða stjórnkænsku með því systraþeli sem batt vef utan um lítilsiglda þingmanninn. Þetta var allt doldið Narníulegt og Jóhanna virkaði ísmeygilega kæn. Þegar hún var ekki að skamma Framsóknarmanninn fyrir að vera leiðinlegur. Þá bar hún óþægilega mikinn svip af Dabba kóngi. En Framsóknarmaðurinn var leiðinlegur þótt hann hafi verið sá eini sem var mættur til að tala um pólitík. Framganga hans var þannig að hún sannfærði engan en gladdi þá sem vildu að þjarmað yrði að leiðtogunum. Þótt flestir hafi vijað að einhver annar gerði það. Ekki var Steingrímur mikið skemmtilegri. Enda hefur hann voða lítið við þjóðina að tala. Hann er of upptekinn af því að bjarga henni - núna síðast með því að gera sig að ofurráðherra.
Þá sjaldan þau fengust til að ræða eitthvað með innihald fór dauðahrygla um háls pólitísku vonarstjörnunnar sem ég bar þó enn innra með mér. Aðalgallinn við Steingrím er að honum finnst of auðvelt að ljúga. Og sú lína þeirra hjúanna að skrifa alla ólgu í stjórnarliðinu á tímabundna óhjákvæmilega tilfinningasemi var ekkert annað en ógeðsleg. Og þegar Jóhanna sagði við Sigmund: "þú kannt þetta ekkert. Við lögðum þennan ráðherrakapal alveg eins og þeir hafa alltaf verið lagðir." þá var mér eiginlega öllum lokið. Og ég hugsaði: "En Jóhanna mín, þú fékkst djobbið einmitt til að hætta að gera þessa hluti eins og þú hefur horft upp á þá síðustu alltofmarga áratugi - ekki til að viðhalda ósiðunum og varðveita sem aldursforseti í refskák."
Málið er nefnilega að núverandi stjórnvöld eru að reyna að reka illt út með illu. Þau ætla að reyna að gera þingmenn að betri manneskjum með því að breyta reglum og lögum. Þótt það kosti það að bótin sé neydd í gegn með gerræði, kúgun, hálfsannindum og lygum. Og þegar þau horfast í augu við sjálf sig í spegli þá geta þau alltaf huggað sig á því að markmiðið er göfugt og gerandinn þokkalegri en FLokkurinn. En það er bara ekki málið. Þau fengu ekki djobbið til að vera bara skárri en íhaldið. En þangað hefur pólitíkin ratað. Enda bíður núna fólkið á hliðarlínunni sem ætlar að vera skárra en ekkert.
Þau voru kosin til að breyta stefnunni. Hugsa hlutina upp á nýtt. Gefa þjóðinni trú á einhverja endurreisn úr hruninu. Leiða með góðu fordæmi og stinga á kýlin sem gerðu það sársaukafullt að vera Ísland. Í staðinn gerðu þau eins og Þórbergur, skrifuðu frómar lífsreglur á skinn og fóru svo út í kirkjugarð að ríða mellu.
Það eru dæmigerðir ofbeldismakar sem segja fólki að hunsa geðshræringu eiginkonunnar. Það sé ekkert að marka ásakanir grenjandi konu. Hún þurfi að fá að sofa á þessu og skilja hið "rétta" samhengi hlutanna. Stjórn Íslands er enn rætin, óheiðarleg, ofbeldiskennd og ósiðuð. Og þótt ferðinni sé heitið á skárri stað þá er það ekki nóg. Því það skiptir engu máli hvaða lög og reglur, lýsingar og leiðbeiningar Jóhanna og Steingrímur skilja eftir sig - vinnubrögðin verða þeirra lífsseigasta arfleið. Þau voru biluð. Og þau eru biluð enn.
Og mér líður eins og barni sem er að fara pabba í Húsdýragarðinn meðan mamma er heima í rúmi að jafna sig á barsmíðum hans. Mér er ekkert skemmt og ég á erfitt með að skilja fölskvalausa gleðina í augum systkina minna sem sjá aðeins áfangastaðinn.
Von mín um betra Ísland er orðin von um nýjan maka fyrir mömmuna, lýðræðið. Hann þarf ekki að vera snjall, fyndinn eða fara með okkur í Húsdýragarðinn eða bíó. Honum þarf bara að þykja vænt um mömmu.
Það sem við gleymdum að gera við hrunið var að endurnýja.
Það er ekki gott að láta gamla hunda kenna hvolpun ný brögð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli