31. desember 2011

Ríkisstjórnin dó í gær

Á síðasta degi ársins tekur ný ríkisstjórn við á Íslandi. Gamli djókurinn úr áramótaskaupi æsku minnar þar sem barbí-kallar slógust um stólana kemur upp í hugann. Við virðumst stefna í gamalkunnugt pólitískt far.

Misskilningurinn er sá að Jón hafi verið vandamálið. Jón var til marks um vandamálið. Það leysist ekki við það að ýta honum til hliðar, hvort sem Steingrímur ábyrgist sjálfur að taka við keflinu eða ekki. Vandamálið er tvíþætt: staða stjórnarinnar er of veik til að hægt sé að vaða áfram og traðka á tám og flokkarnir eiga sífellt minni samleið.

Það að ýta Jóni til hliðar undir þeim formerkjum að hann hafi slegið skildi yfir sægreifa gerir þá kröfu á stjórnina að hún vaði nú í kvótakerfið. Sumpart er það ágætt því það er löngu tímabært að spilin séu lögð á borðið. Kannski hugsar Jóhanna það þannig að átökin sem fylgja henti ágætlega því særður verði upp óvinur, sægreifinn, sem fólk getur þá hatað í stað ríkisstjórnarinnar. En það er verulega misráðið. Á sama tíma herðir hún skattaólina og er sökuð um að svíkja alla sem hún hefur reynt að ná sáttum við, hvort sem það eru launþegar eða kaunþegar (öryrkjar). Á sama tíma og Jóhanna neitar því að hún sé að hrekja fólk úr landi breytir stjórn hennar heilbrigðiskerfinu þannig að þeir sem koma heim spara pening á því að panta sér eðalvagn með kampavíni og snittum í stað þess að hringja á sjúkrabíl.

Ríkisstjórnin þarf sárlega á óvini að halda en ég held að staðan sé þannig að það sé vafasamt að hún ráði við útgerðarmenn eins og sakir standa. Útgerðarmenn eru engin flón og veikluð stjórn sem ítrekað hefur verið staðin að því að hagræða sannleikanum mun eiga erfitt með að trompa taktík LÍÚ. Sem er næstum örugglega sú að sýna ískalda skynsemi og láta íbúum sjávarbyggða eftir að sýna tilfinningasemi. Tilfinningaríka liðið, prinsippfólkið er nú þegar flest orðið afhuga ríkisstjórninni. Hennar eini alvöru bakgrunnur er fólkið sem vildi samþykkja Icesave og þeir sem vilja í ESB. Og þetta fólk er ekki líklegt til að bera Jóhönnu á herðum sér langar leiðir þegar málflutningurinn gegn breytingum á stjórn fiskveiða nær sér á strik. Þegar fjárfestingar og atvinna á landsbyggðinni verður sett í uppnám. Þegar lögfræðingar skila álitum um skaðabótakskyldu og málaferli verða yfirvofandi. Því eitt má stuðningshópur ríkisstjórnarinnar eiga. Hann er ekki tilbúinn að gambla fé fyrir óljós, pólitísk markmið. Og frekar en að setja allt í uppnám mun þetta fólk frekar vilja frið í atvinnumálunum og sigla þétt og stöðugt í ESB en að taka þátt í einhverri lokaorrustu margra áratuga gamallar pólitískrar kergju. Auk þess sem flestu þessu fólki er það andstyggð að eiga atvinnumálin undir Steingrími - og öll harka hans mun virka ógeðfelld á þetta fólk. Meðan sama harka mun virka ósannfærandi á róttæklingana umhverfis Steingrím. Því hann er búinn að tapa mestu af baklandi sínu með því að tönnlast sífellt á því að VG "standi við sitt" og eiga þá við gagnvart Samfylkingunni en ekki grasrótinni.

Þessi ríkisstjórn er búin að vera. Og leikirnir í lok ársins flýttu fyrir dauða hennar. Hún hefði getað lifað ef hún hefði geymt kvótamálin eða sýnt kænsku í þeim. En í staðinn sagði hún Sjávarútvegnum stríð á hendur til að geta losað sig við ráðherra sem var vandamál, fyrst og fremst vegna ESB en líka vegna þess að hann var holdtekja þeirrar tortryggni og tregðu sem fyrir er í öðrum stjórnarflokknum og beinist, illu heilli, fyrst og fremst að hinum stjórnarflokknum. Og í misráðinni fléttu tekur Steingrímur að sér að gagnvart samstarfsflokknum að ryðja burt tregðu en gagnvart eigin flokki að vera tregðan. Það er stór biti fyrir mann sem hefur verið álíka lipur og sveigjanlegur og snjóruðningstæki.

Það segir sig sjálft að Steingrímur vinnur ekki til baka vandamálafólkið sem hélt hinum meingallaða Jóni Bjarnasyni inni svo lengi sem raun gaf. Það mun halla sér af auknum þunga að Ögmundi og brátt verður allri forystu VG ljóst að sá sem er of náinn Steingrími mun ekki erfa flokkinn. Flokkurinn mun ónýtast ef næstu kosningar snúast um ESB. Næstu kosningar verða að snúast um að fá óánægju almennings í seglið en ekki andlitið.

Og hvað ætlar Samfylkingin að gera þegar VG verður erfiðari og landsbyggðin, undir forystu LÍÚ tekur sér stöðu á milli hennar og ESB - grá fyrir járnum? Taka baráttuna og hætta á að nógu stutt sé til lands að þeir geti blásið til kosninga með þessi tvö mál? Kvótakerfið og ESB? Eða yfirgefa Steingrím og reyna að komast til lands með gamla samstarfslokknum: Sjálfstæðisflokknum. Ef svo er þá er líklega versta hugmynd í heimi að hefja nú heilagt stríð gegn kvótakerfinu. Og allir vita hvað gerðist síðast þegar Bjarni Ben ákvað að taka sér hlé á að traðka á veikleikum stjórnarinnar og reyna að vinna með henni. Það gerðist í Icesave og kostaði Bjarna næstum djobbið. Bjarni mun nudda brunablöðrurnar vel og rækilega áður en hann grípur um hélogann sem kviknar þegar núverandi stjórn geispar golunni. Miklu nær verður að höggva, og höggva fast.

Þetta allt veit Samfylkingarfólk og þess vegna ólgar flokkurinn. Það eru engir góðir leikir framundan og fórnin á Jóni hefur gert vonda stöðu verri. Það eru of margar orrustur framundan til að stríðið vinnist. Það þarf ekki mikið til að hér skelli á verkföll og ótíð. Og sá sem stendur blóðugur upp fyrir haus að fást við gömlu borgarastríðspólitíkina sem sumir voru að vona að væri dauð er ekki að blása í lúðra og hvetja til inngöngu í framtíðarlandið.

Þá er nær að ógna útgerðinni. Ekki of mikið en samt nægilega til að espa fólk aðeins upp gegn sægreifum og Sjálfstæðisflokki. Setja svo Steingrím sem fyrst í einhverja óþolandi stöðu (láta hann þurfa að gera eitthvað umhverfissóðalegt efnahagshúllumhæ). Sprengja svo stjórnina þegar vandræði VG verða ofsafengin. Lofa efnahagshúllumhæinu, ESB og kvótabetrun í kosningum. Taka fylgi frá hinum flokkunum sem enn eru á móti ESB afþvíbara. Semja við sjálfstæðisflokkinn um efnahagshúllumhæið, ESB og gefa kvótadæmið að mestu eftir. Og vona að það dugi.

Samfylkingin hefur meiri hagsmuni af dauða stjórnarinnar en lífi. Þess vegna er stjórnin dauð. VG hinsvegar er í enn verri málum. Steingrímur er búinn að veðsetja sig og flokkinn. Og þegar stjórnin springur af því hann getur ekki endalaust þjónað tveim herrum mun vera holur hljómur í öllum herópum og loforðum úr þeirri áttinni. Eini kostur hans er að verða sá harðlínumaður í vörn gegn Samfylkingunni sem Jón lét sig ekki einu sinni dreyma um að verða. Hinn kosturin. Er að Ögmundur kljúfi flokkinn og hætti að styðja stjórnina. Sópi til sín Hreyfingunni og öðrum óánægðum og komi í veg fyrir að Besti nái vopnum sínum. En hættan af því plani er að Besti þarf hvorki mikinn tíma né merkilega frambjóðendur til að hirða mikið af góssinu. Og í ljósi þess hvernig mál standa í borginni og hver er kominn í samkrull með Besta á landsvísu þá má segja að þar fari eina stjórnkænska Samfylkingar í þessu máli öllu. Það hefur nebblega tekist að gera Besta einkenniega ónæman á pólitísku nályktina af Samfylkingunni. Þökk sé Degi B. sem einn í þessum hráskinnaleim þarf engu að kvíða. Ef allt fer í fokk getur hann innleyst þá eign og tekið við af Jóhönnu.

Engin ummæli: