13. nóvember 2011

Svindl í HÍ

Því er slegið upp sem frétt í dag að smátölvuvæðing þjóðarinnar sé orðin að ógn við hlutverk HÍ sem afburðasíu. Þar geti nú slugsar sem nenna ekki að lesa fyllt símann sinn af fróðleik og síðan brugðið sér á salernið og fundið svör við því sem þeir muna ekki. Þannig skapi þessir svindlarar sér forskot á hina sem leggja það á sig að muna allt.



Ég ætla svosem ekki að gera lítið úr góðu minni. Gott minni er gulli betra. En það er fráleitt að Háskólar eigi að flokka fólk eftir minni eða að samfélagslegar vegtyllur eigi að veitast þeim sem mest muna.

Því þótt minni sé ágætt – þá er svo margt annað sem skiptir miklu meira máli. Eftir nokkur ár í starfi munu þessir lögfræðingar og læknar vera búnir að átta sig á því að megnið af starfi þeirra snýst um að framkvæma sömu handtökin og þá sjaldan að þeim mætir eitthvað nýtt – fletta þeir því upp.

Það væri nær að prófa nemendur í háskólum í því hvort þeir geti einmitt komið gögnum sínum þannig fyrir að þeir séu fljótir að sækja sér upplýsingarnar sem á þarf að halda – en séu um leið hugmyndaríkir, frjóir og skapandi. Það ætti að hvetja læknanema og laganema til að koma með eins mikið af gögnum og þeir kjósa í próf. Henda svo í þá verkefnum sem reyna á ályktunarhæfni, skilning og frumleika. Það má svosem athuga hvort fyrirframmótuð svör eru á vísum stað líka.

Háskólinn í dag er svona doldið eins og maður ímyndar sér ástandið í Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn seint á síðustu öld – þegar safnið var fullt af undarlegum sérvitringum sem þekktu það betur en nokkrir aðrir. Það tók áratugi að uppgötva að einn starfsmaður safnsins, Frede Møller-Kristensen, hafði um árabil stolið verðmætum bókum. Honum tókst það vegna þess að þessi gríaðrlegu andlegu og veraldlegu verðmæti sem bókasafnið var voru falin nokkrum undarlegum og stálminnugum einstaklingum til varðveislu. Tæknin var ekki tekin í þjónustu safnsins. Einstaka menn vissu hvað var geymt hvar og hvar það væri ef það hefði verið fært til.



Mannskepnan hefur ekki einu sinni skýra hugmynd um fjölda ef hann fer mikið yfir fjóra. Við vitum ekki hvar nokkrir enda og margir byrja. Þróunarlega var engin þörf á því að þekkja fjölda stjarnanna á himnunum, eyjanna í Breiðafirði eða laxanna í ánum.

En þar sem mannsheilann skortir upp á höfum við lært að nýta okkru tæknina. Og við látum hana um að geyma fyrir okkur upplýsingar. Í dag má koma nákvæmri eftirmynd Konunglega bókasafnsins fyrir í hlut sem er minni en sígarettupakki. Og það er hægt að láta hlutinn leita í sjálfum sér og finna nákvæmlega það sem maður vill finna – auk alls hins sem maður hafði ekki hugmynd um að væri til.

Laganemar í prófi ættu að vera prófaðir í frumlegri og lipurri hugsun, hæfninni til að finna aftur það sem þeir settu í geymslu og frjósemi hugans. Það ætti að prófa þá með því að láta þá semja lausn á Icesave-deilunni, finna leiðir til að sætta sjónarmið í deilum um vændi, greina orsakir og afleiðingar. Það sem á að hætta að gera er að láta þá leggja á minnið langa lagakafla og staðreyndatengsl sem eru höggvin í stein af kennurunum þeirra.


Læknanemar ættu að vera prófaðir í samskonar hlutum. Og við eigum að hætta að fylla lækna- og lagastéttina af einsleitum hópi fólks sem lætur toga sig í námið á fordildinni einni saman. Einhverri óljósri hugmynd um eigið ágæti og yfirburði.

Þá sjaldan ég fer til læknis með mig eða mína getur hann sjaldan sagt mér annað en það sem ég var sjálfur búinn að finna út með gúgli. Bráðalæknir, sem vissulega hefur ekki alltaf tíma til að fletta upp hlutum, vinnur meira og minna út frá verkferlum og vinnubrögðum sem eru þjálfuð upp – líkt og hjá bifvélavirkja eða logsuðumanni.

Læknar yrðu að miklu meira gagni ef þeir fengju meiri þjálfun og kennslu í að díla við flóknustu breytuna í þeirra starfi: vilja fólksins sem þeir vinna með.  Læknar þurfa að geta skilið fólk, borið virðingu fyrir fólki og hvatt það. Í stað þess að vera ópersónulegir iðnaðarmenn – eins og þeim hættir til að vera.

Sérfræðingaræðið er deyjandi sort. Og það má vel draga leyfar þess út á ísinn og láta það sigla sinn sjó. Logfræðingar, læknar og kennarar (já, guð minn góður hvað kennarar eiga vel heima í þessari upptalningu) þurfa að hætta að skapa sér sérstöðu út frá því að skammta fólki upplýsingar eftir eigin geðþótta – og taka sér stöðu við hlið þess sem þeir vinna með og upplýsa, fræða og hvetja.


Ég sat í vikunni fund um niðurstöður stærstu rannsóknar á starfsháttum í grunnskólum sem gerð hefur verið. Þar kom í ljós að meirihluti kennara skipuleggur nám nemenda sinna út í æsar. Nemendur hafa sáralítil áhrif á það hvað þeir læra og hvenær. Eru jafnvel allir í sama námsefninu.

Tæknin er löngu búin að gera slíkar starfsaðferðir óþarfar. Og þegar hún sannar það, eins og með þessu svindi í HÍ – þá er rökrétta lausnin ekki sú að ráðast gegn tækninni – heldur leyfa henni að gera það sem henni var ætlað. Bera byrðarnar fyrir okkur svo við getum gert eitthvað gáfulegra við tímann.

1 ummæli:

Haraldur sagði...

Þetta þykja mér góðar pælingar. í skóla ná þeir bestum árangri sem eru með límheila. Skilningur, frumleiki, sköpun og útsjónarsemi skiptir minna mál. Ég var búinn að koma mér upp frábærri aðferð til að hámarka árangur í prófum. Þ.e.a.s það sem gaf bestu einkunina með minnsta vinnuframlaginu. Ég einfaldlega lærði allar glærur sem kennarinn lét okkur fá utanbókar. Svo skriaði ég þær orðrétt niður eftir því sem við átti. Það klikkaði aldrei og það var algjör hending ef maður fékk undir 8 í einkunn. Einu sinni fór ég til læknis vitandi að það væri ekki fræðilegur möguleiki að hann gæti vitað hvað væri að mér. Við enduðum með því að fletta bókum saman og fundum í sameiningu það sem amaði að mér. Það var algjörlega priceless. Ég tek ofan fyrir þessum lækni að viðurkenna að hafði ekkert meiri þekkingu á sjúkdómnum en ég.
Haraldur F Gíslason