13. nóvember 2011

Mismunun lista

Ég skrifaði einu sinni bloggpistil um það að ég vildi listamenn feiga. Sá pistill byggði á þeirri hugmynd að listir ætti að skilgreina sem eðlilegan þátt í lífi venjulegs fólks – og að allt starf ætti að litast af listum. Það væri hægt að vera listamaður á svo fjöldamörgum sviðum. Og það að útbúa girðingu utan um „réttnefnda“ listamenn hefði það m.a. í för með sér að listirnar væru teknar frá fólkinu.


Líf án listar er í mínum huga eins og líf án rökhugsunar. Það á meira skylt við frumstæð dýr en menn. Og er einstaklega óeftirsóknarvert. Listin opnar nýjar víddir og lyftir lífinu upp í annað og æðra veldi.

En listkennsla barna er að mínu viti í molum. Vanhugsuð og vond.

Tjáningarþörf barna og hæfni til listsköpunar er óumdeilanleg. Samt sem áður virðist sú hugsun ráðandi að listir séu einhverskonar munaður eða föndur. Þetta sést best á því að um leið og námsefni „þyngist“ og nemendahópurinn verður meira krefjandi er listsköpun kúplað út á ljóshraða. Listnám á unglingastigi er að stofni til metnaðarlaust í námskrá og framkvæmdin er jafnvel ömurlegri.


Sjáið t.d. formlega kennslu í tónmennt í grunnskólum Reykjavíkur. Menn hætta hreinlega að kenna hana þegar nemendur verða 13-14 ára. Ég held að ástæðurnar séu tvíþættar. Í fyrsta lagi er hugsanlega pínu erfiðara að stýra unglingunum til verka en aðalástæðan er líklega sú að menn telja mikilvægara að börnin læri dönsku, málfræði og þáttun.

Ef maður nú hugsar þetta ögn fyrir utan ramma þessa ömurlega veruleika og veltir fyrir sér hvort ánægja barna af tónlist og áhugi fylgi þessu myndriti. Er það virkilega svo að tónlistaráhugi dvíni þegar börn verði unglingar.

Svo sannarlega ekki. Ef það er eitthvað sem skilgreinir unglingsár betur en nokkuð annað þá er það tónlist. Hugsanlega á eftir bólum.



En þarna eru tónlistarskólar teknir við. Tónlistarskóli er yfirleitt einstaklingsmiðuð stofnun þeirra sem vilja kaupa sérstaka athygli fyrir barnið sitt. Af einhverjum ástæðum finnst mörgum tónlistarkennurum ægilega mikilvægt að menn stundi list sína í einrúmi – eða a.m.k. fáir saman. Sem ég held að sé að mestu leyti gamaldags þvæla. Það er ekkert við tónlist sem krefst þess að menn stundi hana einir á meðan menn geta lært stærðfræði í hóp.


Það er auðveldara að læra að spila einfalda hljóma á gítar eða píanó en að læra um hætti sagna. Og það er miklu mikilvægara líka. Auðvitað verða svo einhverjir konsertpíanistar eða stjórnendur – alveg eins og einstaka maður verður metsöluhöfundur eða málfræðingur. En við höfum voða lítið rými fyrir höfunda og málfræðinga ef almenningur er ekki læs. Hið sama ætti að vera jafn augljóst: það er til lítils að þjálfa upp tónlistarsnillinga ef almenningur fer á mis við tónlistarlegt uppeldi.

Það á ekki að gerast í dag að stór hluti barna á Íslandi fái lítið eða ekkert tónlistaruppeldi. Því fer órafjarri að tónlistarskólarnir sjái um það sem vantar upp á. Þar sem ástandið er best eru tvö af hverjum þremur börnum fyrir utan þá. En 24 af hverjum 25 börnum þar sem ástandið er verst.

Og þessi börn, sem þó fara í tónlistarskóla, upplifa sig mörg eins og homma á dörtíkvöldi á Pleijers. Það er troðið í þau tónlistarmálfræði þar til þau nenna þessu ekki lengur og langar til að verða paunkarar eða leggja hljóðfærið á hilluna. Tónlistarnám á Íslandi er enn einfaldlega of snobbað, of peningadrifið og of elítusinnað.


Ástandið er ekki endilega betra í öðrum listgreinum. Listgreinakennarar eru alltofoft alls engir kennarar – heldur listamenn sem geta ekki lifað af list sinni.

Og alltofmargir kennarar eru alveg lausir við að vera listamenn.

Þannig fellur listin milli þils og veggjar – engum til gagns, hunsuð, smáð og falin.

Og að þessu leyti liggur stóra ábyrgðin hjá okkur sem menntum börnin. Við þurfum markvisst að halda list að börnunum og við þufum að taka okkur verulega á. Það getur vel verið að það sé ekki til peningur til að borga listakennurum fyrir að taka einkatíma með hverjum einasta nemanda – en það hljóta líka að vera til listrænir kennarar sem eru ekki svo einhæfir.

Við þurfum að setja listina í öndvegi og gera hana að snörum þætti í hverri einustu námsgrein. Það ætti að vera útilokað að útskrifast úr grunnskóla öðruvísi en að hafa beinlínis verið ýtt ofan í hlaðborð listarinnar og hvattur til að nýta sér það sem þar er.

Nú er ég t.d. að kenna íslensku í áttunda bekk. Hvernig nokkrum manni dettur í hug að hægt sé að kenna þá grein án þess að leyfa nemendum að tjá sig listrænt er álíka fjarlægt mér og að mæta nýétinn á jólahlaðborð.

Þvert á móti á að hama listinni inn í hausinn á krökkunum þar til þau vita ekki hvar listin endar og íslenskan byrjar. Þau eiga að sitja uppi með þá tilfinningu að við höfum ótal leiðir til að rannsaka heiminn, hugsa um hann og tjá okkur. Og þau eiga ekki að raða sér í girðingar eftir því með hvaða hætti þau hyggjast hafa samskipti við heiminn í framtíðinni.

Hér eru dæmi um verkefni sem nemendur mínir hafa gert síðustu vikur. Þau hafa alltaf val um verkefni – og mín aðkoma er ævinlega hvatning. Ég neyði engan til að yrkja ljóð ef hann vill frekar rökræða. Ég leyfi honum þá að rökræða – en hvet hann til að reyna sig við ljóðlistina næst.

Hér er dæmi um japanska vöku eftir dreng í 8. bekk:


Litla, gula blóm
nú fellur regnið niður
og blómið stækkar.
Um engið gengur maður
heldur á fölnaðri rós.

Og ljósmynd eftir jafngamla stelpu:


Hæka eftir stelpu:

Tré er grænt laufum
lauf hrynja þegar haustar
rætur róta mold

Og ljóð eftir dreng um hugrekki sem varð til við að horfa á þessa mynd:





Sit ég stolltur 
á stöku bergi. 
Drýpur af dökkum 
bergsdranga. 

 Langa leið hef ég
 lagt að baki.


Þetta eru ósköp venjulegir krakkar. Nákvæmlega eins og hin fjögur þúsundin í árgangnum. Þetta eru alls ekki neinir yfirburðanámsmenn eða krakkar sem hafa sótt listaskóla á kostnað foreldra sinna. Þetta er bara það sem gerist þegar þú markar börnum völl til að skapa á. Af og til róta þau upp gulli. Og þegar þau gera það hefur líf þeirra breyst – sumra til frambúðar. Þau hafa uppgötvað að list er aðferð til að hafa samskipti við heiminn og að list veitir manni ánægju og gleði.

Á hverjum fimmtudegi skila 30 börn mér inn frjálsu sköpunarverkefni. Um kaffileytið, þegar þau koma heim til sín eru þau byrjuð að senda mér skilaboð eða pósta á feisbúkksíðuna okkar til að vera viss um að ég skoði verkefnið og gefi fídbakk.

Ég hrósa því sem vel er gert, hvet þar sem þarf að hvetja og reyni að viðhalda ánægju þeirra og sköpunargleði – vitandi það að það er margfalt mikilvægara að þessu börn skapi en að þau muni.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þarna hljómar þú svolítið eins og þessi: http://www.maa.org/devlin/LockhartsLament.pdf :)