12. nóvember 2011

Fasistaskyr og sauðskinnsskór



Það er sorglegur vitnisburður um íslenska þjóð að megnið af okkur gegnir því einfalda hlutverki að klappa fyrir áróðursseggjum og lygurum. Í samræmi við þriðja hreyfilögmál Newtons fylgir hverju höggi eða átaki, jafnstórt átak í gagnstæða átt. Í hvert sinn sem við berjum á pólitískum andstæðingum okkar gefum við samvisku okkar og skynsemi rothögg.

Oftast kippir maður sér ekki upp við þetta. Enda verð ég að viðurkenna að málflutningur sjálfkjörinna þorpsfífla og blábjána er að mestu hættur að rata að kauninum í mér. En stundum líður mér eins og einum af fáum áhorfendum í stúkunni sem raunverulega blöskrar þegar menn í mínu liði dúndra boltanum útaf og þykjast eiga innkast. Og mig langar næstum að stinga þá sem sitja í kringum mig með eiturbryddaðri regnhlíf þegar ég sé þá taka undir lygina og falsið. Sérstaklega þegar ég hef það í huga að á þessum velli er enginn dómari. Menn þurfa að dæma sjálfir – og keppast flestir við að fokka því upp og eyðileggja leikinn.

Ég er ekki aðdáandi Framsóknarflokksins. Ég held ég geti næstum sagt að ég sé í hópi fyrstu kynslóðar hatursmanna hans í nútímanum. Ég hóf að bleikja hendur mínar af honum þegar ég var í menntaskóla og horfði upp á flokkinn verða að ramma fyrir framapotsklifurjurtir sem þrifust ekki í öðrum flokkum. Framsókn á síðustu metrum síðustu aldar varð að andstyggilegu fyrirbæri – sem síðan átti eftir að hafa verulega slæm áhrif á íslenskt samfélag á fyrsta áratug þessarar aldar. Það sem áður var samhjálp var nú eingöngu klíkuskapur, það sem áður var öfgaleysi var nú hugsjónaleysi.

En...

En ég get ekki horft upp á eineltistilburði eins og þá sem núna eru í gangi þar sem verið er að reyna að saka flokkinn um að vera meira og minna orðinn að fasistaflokki. Þar sem menn, sem eiga að hafa glóru, ganga fram fyrir skjöldu og reyna að færa rök að því að framsóknarflokkurinn sé hættulegt afl – og reyna að sanna það með því að sýna muni úr einkasafni Hriflu-Jónasar – og íslenska fánann.

Kommon.

Fólk getur ekki verið svona ofsalega heimskt.

Jú, Framsókn var gripin við þetta:


Að halda peppráðstefnu þar sem Ísland er sýnt rísa upp yfir kornakurinn undir dillandi söngtexta Margrétar Jónsdóttur. Og við þetta var dönsuð glíma.

Ég man ekki eftir því að einhverjir hafi stigið fram og lýst yfir áhyggjum af uppgangi fasismans á Íslandi þegar VG ákvað að halda nýsköpunarfund undir heitinu Fjallagrös og sauðskinnsskór.


Þar voru menn samt að smyrja á sig kremum úr ÍSLENSKUM jurtum, klæða sig í ÍSLENSK föt, skrá sig í áskrift fyrir ÍSLENSKT grænmeti o.s.frv. 

Eða þegar Samfylkingin ákvað að reka umhverfisstefnu undir kjörorðinu Fagra Ísland.

Þá hefði nú einhver kverúlantinn getað tekið auka bít í fasistahrædda hjartanu sínu, minnugur þess að það var einmitt svona slagorð og áróður sem fasistinn notaði til að heilla múginn – og ekki síst fótgönguliðana.


Hver man ekki eftir smellum eins og O, du schöner Westerwald! 

Eða hreinlega póstkortaseríu þýska fasistaríkisins sem hét Fagra Þýskaland.



















En Fagra Ísland er sosem ekki eina áróðursbrellan sem Samfylkingin tók ómegnaða upp úr glósubókum herra Göbbelsar. 

Einhverjum þar á bæ datt í hug að leiðin að hjarta kjósandans væri gegnum börnin. Þess vegna dreif Samfylkingin af stað átakið Unga Ísland.




Ef nasistaflokkurinn hefði ekki verið þurrkaður út í lok seinna stríðs þá væru forkólfar hans með flott mál í höndunum gegn áróðursmeisturum Samfylkingar. Önnur hver hugmynd sem kviknar í kolli hinna íslensku jafnaðarmanna er komin í beinan ættlegg af þýskum áróðursplaggötum. 



Heilbrigð, íslensk og skjannahvít börn hlupu um og léku sér undir ljúfum röddum Össurar og Imbu í sjónvarpsauglýsingu sem síðan endaði á því að áhyggjufull Imba sást í nærmynd þar sem hún benti á staðreynd sem kjósendum kynni að hafa yfirsést:

„Börn geta ekki kosið“





Og hver skyldi hafa orðið niðurstaðan þegar Samfylkingarmenn og velunnarar komu saman til að ákveða hvaða taktík væri líklegust til að virka ofan í landann í því skyni að fá hann til að samþykkja samruna Íslands við Stór-Evrópusvæðið?



Nú, auðvitað þrautreynd og upplífgandi herferð undir kjörorðinu Já, Ísland




Nú gæti einhver spurt. Hvernig stendur á því að alþjóðasinnaður jafnaðarflokkur skuli ekki geta talað við kjósendur án þess að klifa endalaust á þjóðerni þeirra? Skyldi það vera vegna þess að bak við alþýðlegt og alþjóðlegt yfirborð blundi hættulegur fasisti?

Eða skyldi það vera vegna þess að þrátt fyrir allt þá hossaðist fasisminn á sömu pólitísku klisjum og öll önnur stjórnmálaöfl fyrr og síðar?

Hver sem ástæðan er þá eru þeir, sem segja að glímudans Framsóknarflokksins undir íslenska fánanum sé hættulegur, fífl – og að öllum líkindum hræsnisfull fífl.

En þó ekki jafnmikil fífl og þeir sem sitja uppi í stúku og taka undir.

Því staðreyndin er sú að það eina sem Framsókn er raunverulega sek um er að vera oggulítið hallærisleg. 



2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er allt saman innilega satt.

Þessi grein ætti eiginlega heima í blöðum sem opinber birting.

Nafnlaus sagði...

Veit ekki hvað þú ert að þrugla.

þjóðernishyggja er ekki til á Íslandi nema í mýflugumynd og þjóðernissinnar á Íslandi hafa engin völd.

Ísland er á hraðri leið alþjóðarhyggju, þjóðernissinnar eru hvergi til á alþingi, nema þá helst í sýndarmennskunni einni

Gerðu sjálfum þér greiða og hættu þessu rugli.