6. nóvember 2011

Saman með eða án skynsemi

Upp á síðkastið höfum við kennararnir í Úllónolló (Unglingadeild Norðlingaskóla) reynt með ýmsu móti að iðka með nemendum okkar gagnrýna hugsun. Og við höfum svosem gert það lengi – að því er virðist með ágætum árangri. Að minnsta kosti benda rannsóknir til þess að nemendur okkar hafi miklum mun meiri ánægju af samfélags- og náttúrufræðigreinum en nemendur flestra annarra skóla. En í þessum greinum höfum við sérstaklega leitast við að draga fram og greina álitamál, og læra af sögunni. Í fyrsta skipti á kennsluferli mínum er ég orðinn verulega bjartsýnn á það að gagnrýna hugsun megi kenna.


Um daginn var ég með íslenskutíma í 8. bekk og við vorum að ræða hættuna af því að hlusta aðeins á það hvernig eitthvað er sagt en ekki hvað. Og ég tók dæmi. Með innlifaðri og fyndinni smáræðu fullyrti ég að Harry Potter bækurnar væru ekki aðeins vondar bækur, heldur skaðlegar. Allar röksemdir mínar héldu þræði og ég var mjög sannfærandi og lúmskur.  Ég bauð nemanda sem er mikill aðdáandi bókaflokksins að andmæla mér en tóks að snúa út úr öllu sem hann sagði þar til allt sem hann sagði hljómaði eins og enn frekari rök fyrir að kasta Potter á bálið.


Tilgangur minn var að framkalla hjá nemendum ástand sem sífellt kemur upp í rökræðum á opinberum vettvangi. Og ég ætla hér með að nefna Pat Condell-hrif eftir hinum dómharða og snjalla samfélagsrýni. PC-hrif felast í þeim afstæðu áhrifum sem rökstuðningur hefur á okkur eftir því hver upphafleg staða eða viðhorf okkar voru. Það hvernig rökræða (jafnvel óvægin og einstrengingsleg) getur orðið til að festa mjög rækilega í sessi skoðun okkar á tilteku álitamáli vegna þess hve rökstuðningur fyrir hana er sannfærandi – en hvernig sami rökstuðningur verður aðeins til að festa andstæða skoðun í sessi í hugum þeirra sem voru ómóttækilegir til að byrja með. Og ég valdi Pat Condell vegna þess að hann (og raunar Christopher Hitchens líka) á sér (a.m.k. á Íslandi) mörg skoðanasystkini en mjög fá alsystkin. Hann hefur nefnilega skoðanir sem eru sumar mjög vinsælar á landinu og aðrar sem eru mjög óvinsælar. Þannig hafa t.d. flestir trúleysingjar einhverntíma deilt myndböndum þar sem hann ræðst harkalega á trúarbrögð og trúarlegar stofnanir – en næstum enginn deilir myndböndum með skoðunum hans á anarkistum, mótmælendum eða vinstri sinnuðum samfélagssiðapostulum. Nýasta myndbandið hans, „Nothæf flón fyrir Palestínu,“ ber öll höfundareinkenni hans: hann er rökfastur, fyndinn, skýr og hörkulegur. Auk þess sem hann ber með sér að vera búinn að kynna sér efnið mjög vel. En PC-hrifin munu sjá til þess að jafnvel hörðustu aðdáendur hans í hópi Íslendinga munu ekki láta sannfærast, því þeir vilja það ekki. Enda skyldu þeir ekki láta hann sannfæra sig bara vegna þess að hann er rökfastur, skýr, fyndinn, hörkulegur og fróður. Maður getur nefnilega verið allt þetta og samt haft svaðalega rangt fyrir sér.

Og það var þetta ástand sem ég reyndi að skapa með nemendum mínum þegar ég tók Harry Potter til bæna. Og það tókst. Nemendurnir vissu ekki hvernig þeir áttu að vera. Þeir vildu ekki vera sammála mér en gátu ekki mótmælt enda komu þeim ekki í hug nein mótrök sem ég var ekki fær um að eyða.


Þá voru þeir tilbúnir fyrir næsta skref. Að endurtaka leikinn – með nemendur í þessum gagnrýna vígahug. Og ég flutti aðra smáræðu um það að við værum að eyðileggja fólk og samfélagið með því að gera unglinga að iðjuleysingjum og letingjum. Líf þeirra snérist um að njóta lífsins og soga til sín verðmæti sem foreldrar þeirra ynnu langan vinnudag til að afla. Þeir leggðu ekkert af mörkum til samfélagsins og skilgreina ætti slíkt uppeldi sem vanrækslu og refsa foreldrum sem láta unglinga komast upp með leti og ómennsku.

Svo horfði ég ögrandi yfir hópinn. 

Og í þetta sinn höfðu krakkarnir hlustað á mig með gagnrýnu hugarfari. Þau voru rækilega mörkuð af PC-hrifunum. Og í þetta skipti fékk ég á baukinn. Margar hendur voru á lofti og rökin voru margvísleg, allt frá tilvísunum í lög og reglur ESB upp í þá hugmynd að samfélagið tapaði á því að gera unglinga að fullum þátttakendum í fullorðinssamfélaginu of snemma. Rökstuðningur krakkanna var öflugur og margir lögðu í púkkið.


Það vildi til að eitt af verkefnum vikunnar (þau geta valið um nokkur) var að skrifa um vandamál unglinga. Og þangað inn sá ég smitast áhrif af rökræðu okkar. 

Það er svo rosalega margt sem við unglingarnir þurfa að ganga í gegnum.Öll vandamálin eru svo ólík og hvernig við upplifum vandamálin.Eitt jákvætt við vandamál unglinga og barna er að þau móta okkur sem manneskju sem við verðum í framtíðinni...

Íslenskutíminn endaði á því að ég tók til mín aftur það vald sem ég hafði í upphafinu. Ég benti þeim réttilega á að þeirra rök í seinni umferðinni væru miklu betri en mín. Og raunar ekki bara betri en mín, heldur einhver þau bestu rök sem maður gæti hugsað sér fyrir því að gefa unglingum breik frá brauðstritinu. En þau yrðu að gæta sín á rökum. Því ef þau myndu ekki venja sig á að hlusta betur á það sem sagt er en það hvernig það hljómar þá sé ofsalega mikið af fólki tilbúið að nýta sér þann veikleika. 

En það að reyna að kenna börnum að vera sjálfstæð, skoðanamyndandi  og heiðarleg er svo miklu meira en að kenna þeim að rökræða. Það eina sem ég hef kennt þessum tiltekna hópi er að verða fyrir áhrifum af PC-hrifum. Og þar með eru þau komin á svipaðan stað og íslenska þjóðmálaumræðan. Ég er að vona að þau kjósi að ganga lengra.

PC-hrifin eru ákveðið þroskastig – en mega ekki verða lokatakmark. Því miður hættir samfélaginu til að staðna á þeim punkti. Ástæðan, held ég, er það hvernig við myndum skoðanir og tengsl skynseminnar við tilfinningalífið.

Það er efni næsta pistils.


Og þar mun ég reyna að rökstyðja þá skoðun mína að Morfís sé þrátt fyrir allt gott, gilt og gagnlegt. Sem stangast verulega á við þá skoðun sem ég hef hingað til haft (og flestir í kringum mig).

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mjög gott, mjög gott. Gæti verið að ástæðan fyrir því að þjóðmálaumræðan helst á PC stiginu sé sú að yfirveguð gagnrýni á hvergi heima í fjölmiðlum né að því er virðist í stjórnmálum?