5. nóvember 2011

Einelti og PR



Það er áreiðanlega varla til verri tilfinning en að þurfa að horfa á eftir barninu sínu á hverjum morgni í klær kvalara þess í skylduskóla. Og sá sem upplifir sig valdlausan verður gramur eða jafnvel ofsareiður – og þá er það skylda fjölmiðla að hjálpa og fletta ofan af vangetunni.

En...

...það hjálpar engum að mála þá mynd að einelti sé skýrt og afmarkað vandamál – og að tilvist þess sé alltaf sönnun á hneyksli.

Það þarf líka að hafa í huga að skólafólk getur ekki tjáð sig opinberlega um málefni nemenda sinna – og skólar eru því frábær skotmörk vígareifra fjölmiðla.

Þetta afsakar þó ekki að skólastjóri hagi sér eins og fífl – og þvaðri um uppvask og femínista upp úr eins manns hljóði. Eða að kennari sendi tölvupóst á foreldra og kalli umkvartanir eins þeirra og viðbrögð við þeim „atlögu.“ Sorrí, en það vantar eitthvað verulega mikið upp á félagslegt heilbrigði þess skólafólks sem hagar sér svona.

Ég á ekki eitt einasta orð yfir framkomu starfsfélaga minna í nágrannaskólanum í þessu máli.

En vera má að hún standi í samhengi við fúsk og froðufellandi vinnubrögðin á DV.

Það skortir líka eitthvað verulegt upp á félagslegt heilbrigði fjölmiðils sem birtir trekk í trekk myndir af börnum sem kvarta undan öðrum börnum. Sérstaklega þegar sá fjölmiðill er byggður ofan á kommentara-uppvakningagrafreit sem byrjar allur af iða þegar krassandi mál koma upp.

Maður gerir ekki fjölmiðlamat úr börnum nema í ítrustu neyð. Maður fjallar ekki um eineltismál eða önnur klögumál út frá einstökum persónum fórnarlamba. Það er einfaldlega ekki boðlegt.

Eineltismál geta allstaðar komið upp. Og ástæður þeirra geta verið margvíslegar. Ef skólastjóri eða kennari stendur í vegi fyrir því að tekið sé á slíkum málum þá er það vissulega fréttnæmt. En á sama hátt og það er fréttnæmt að skólastjórar og kennarar um allt land vanrækja fjöldann allan af börnum sem sitja í bratta hluta normalkúrfunnar. Og á sama hátt og það er fréttnæmt að helmingur kennara er ekki sammála eða trúir ekki á rétt sumra barna til að vera óaðgreindir þátttakendur í skólasamfélaginu.

En fréttin er í öllum tilfellum kennarinn eða skólastjórinn. Sá fullorðni. Og það er verulega ófaglegt og óáreiðanlegt að draga fólk fram fyrir dóm þjóðarinnar fyrir orð eins eða tveggja manna.

Ef ég væri ritstjóri DV þá myndi ég taka öllum erindum um eineltis- eða klögunarmál sem mögulegum sjúkdómseinkennum – og síðan rannsaka sjúkdóminn. Ég myndi aldrei troða linsu og hljóðnema upp í andlitið á börnum og örvingluðum foreldrum og láta þau bera hitann og þungann af málinu. Ég myndi ekki nota börn sem brimbrjóta.

Ég myndir fara í opinber gögn, hjálpa foreldrinu að leita réttar síns og vera tilbúinn að afhjúpa það sem kann að koma í ljós. Krefjast opinberrar úttektar, skoða sjálfsmat og viðbragðsáætlanir.

Og ég myndi stækka samhengið. Finna raunverulega vandamálið og berja á því þangað til einhver gerir eitthvað. Hvort sem vandamálið er viðhorf eða eitthvað annað.

Aðeins þannig yrði ég að einhverju gagni. Það hjálpar ekkert í eineltismálum að flagga einstökum börnum. Það getur bitnað á þessum sömu börnum eða orðið til þess að félagslega tæp börn læri að það sé eftirsóknarvert að segjast vera lagður í einelti og vilja deyja, því þá haldi fullt af fólki með manni og maður fær jafnvel ókeypis hamborgara.

Skóligetur ekki svarað fyrir einstök mál. Og því er ósanngjarnt og óeðlilegt að slá slíkum málum upp sem fréttum. En skólinn getur svarað fyrir almenn vinnubrögð og verkferla. Og það er þar sem þarf að „hanka“ þá – því að þar liggur vandinn – ef hann er raunverulegur.


1 ummæli:

Eva Hauksdóttir sagði...

Eitt sem ég skil ekki í þessari umræðu. Hvernig dettur foreldrum eineltisbarna í hug að senda þau í skólann?