14. nóvember 2011

Þegar útlendingar deyja á Íslandi

Það er eitthvað sem ég kann ekki við sem blundar í þjóðarsálinni og kemur upp á yfirborðið þegar útlendingar deyja á Íslandi. Þegar sú staðreynd blasir við að erlendur gestur hafi dáið af slysförum á landinu þá verður þjóðin eins og fín maddama sem hefur orðið fyrir því óláni að eitra fyrir gestum sínum. Skammast sín en kennir um leið græðgi þess aðkomna um ófarirnar.

Einhvernveginn verður þjóðin voðalega yfirlætisfull og talar eins og íslensk náttúra sé eitthvað sem bara Íslendingar hafi lokapróf á – og þegar útlendingar deyja þá er það undantekningalaust þeim sjálfum að kenna. Þeir voru svo miklir kjánar að þeir áttuðu sig ekki á því að þeir voru komnir til Íslands. Þess lands í heiminum sem enginn kann á nema innfæddir.Eflaust hefur þetta viðhorf einhverntíma átt rétt á sér. Þegar Íslendingar bjuggu afskekkt og þekktu sinn hól og sína laut betur en nokkrir aðrir. En í dag held ég að það sé nákvæmlega engin innistæða fyrir slíkum viðhorfum. Það eru miklu fleiri Íslendingar sem deyja af slysförum í náttúrunni og verða úti en útlendingar. Og samt eru útlendir ferðamenn miklu fleiri en íslenskir. Íslendingar eiga það meira að segja til að verða úti á milli hverfa í Reykjavík. Og ég gæti sem best trúað því að það sé töluvert algengara að Íslendingar deyi á ferðalögum erlendis en að útlendingar deyi hér.

Allar hugmyndir, hversu óljósar sem þær eru, um yfirburði Íslendinga og reynsluleysi útlendinga eru stórlega varasamar.

En þetta er samtsemáður alltaf gírinn sem allir fjölmiðlar fara í um leið og eitthvað þessu líkt gerist. Það liggur við að menn séu búnir að ákveða hverjum sé um að kenna áður en líkin finnast.

Nú dó ungur maður, fraus í hel í jökulsprungu í niðamyrkri um nótt, hræddur og einmana. Og enginn fjölmiðill sér ástæðu til að fjalla um drenginn út frá persónulegum nótum. Allar fréttir eru um hvaða búnað hann var eða var ekki með eða nákvæmat útlistanir að leitinni að honum. Samt sem áður er einhvernveginn augljóst að þarna er frétt. Fréttin er um líf þessa unga manns og dauða. Það hafa verið gerðar bækur og hollívúdd-myndir af minna tilefni.

En við viljum einhvernveginn ekki stíga yfir þessa línu. Viljum ekki taka þátt í mennsku hans. Viljum bara halda honum sem „útlendingi“ sem „strákarnir okkar“ þurftu að finna upp á jökli.Og í þessu skyni birtum við hræðilega mynd af honum, líklega upp úr passanum hans. Myndin er ekki einu sinni í fókus – ekki frekar en fréttaflutningurinn. Samt gæti hvaða fjölmiðlamaður sem er verið búinn að finna fína mynd af honum á Flickr. Mynd sem sýnir í raun og veru hver hann er, þar sem hann situr úti á verönd með hundinn sinn og fartölvuna og snýr baki í ljósmyndarann. Og síðan hann dó er ljósmyndarinn, frændi hans, búinn að setja inn aðra mynd þar sem hann er að leika við frosk úti í garði og hundurinn fylgist spenntur með.Daníel Hoij var áhugaverð persóna sem mætti grimmum örlögum. Það er full ástæða til að segja söguna af því eins og hún er – án þess að rembast við það að gera hann að blóraböggli eigin örlaga. Við megum ekki vera hrædd við það að fólk deyi í heimsókn hjá okkur. Það hlýtur að gerast. Það er vissulega gott og blessað að reyna að læra af því og fyrirbyggja það – en miklum mun mikilvægara er að sýna þeim sem dóu virðingu.

Engin ummæli: