18. september 2011

Ekki láta bólusetja börnin þín!

Samstarfskona mín sem bæði er góð og greind er aðeins of höll undir samsæristrú fyrir mitt leyti. Hún birti á FB hjá sér áskorun til foreldra um að láta ekki bólusetja dætur sínar gegn HPV. Með áskoruninni fylgdi linkur á frétt um að bóluefnið væri stórvarasamt.


Á síðasta aðalfundi Félags grunnskólakennara fór ég upp í pontu þegar verið var að ræða sjúkrasjóð og sagði að það væri nær að félagið greiddi tannlæknakostnað en að það sóaði peningum félagsmanna í hómópatíu og græðara og slíkt „kukl sem ekki væri viðurkennt af neinu nema sjálfu sér.“ Um salinn fór hávært „Össs!“ og fundarstjórinn vítti mig fyrir orðalagið.


Og raunar var nokkuð glannalegt af mér að segja að þetta kukl væri ekki viðurkennt af „neinum“ nema kuklurunum sjálfum því í einhverju stórkostlegu linkukasti lét sá linkulegi heilbrigðisráðherra Jón Kristjánsson eftir hagsmunasamtökum kuklara og lét setja um þá lög og reglugerð. Sem enginn andæfði á þingi. Nema að hálf tuskulegur Pétur Blöndal kom upp í blálokin og minnti á að þetta væru sosum ekki vísindi.

Þessi stórkostlega undarlegu lög eru forsenda þess að það er hægt að nota orðin „viðurkenndur“ og „græðari“ í sömu setningu. Lögin fólu einhverju kuklbandalagi völd yfir „græðarastéttinni.“ Og græðarar tóku á sig allskyns málamynda skyldur. Þeim er t.d. bannað að segja fólki að hætta að nota lyf og þurfa að fá sér tryggingu ef vera kynni að meðferð þeirra skaði „sjúklinginn.“ Sem sagt, það þarf að tryggja þann sem gefur fólki sykurpillur ef ske kynni að sykurpillan innihaldi rótsterkt lyf – þegar öll kenning hómópatans snýst um að hafa ekkert á sykurpillunni nema stálminnugt vatn eða spritt.

Alþingi hefði eins getað sett lög um landsamband töframanna eða miðla.

Nú er það vissulega svo að „óhefðbundar lækningar“ sem er verksvið þessara svokölluðu „græðara“ eru alls ekki gagnslausar með öllu. Þær geta haft heilmikil líknandi áhrif og í einhverjum tilfellum eru óhefðbundar lækningar bara órannsakaðar alvöru lækningar. En að viðurkenna þær með þessum hætti og gefa þeim á ákveðinn hátt lögbindingu er álíka gáfulegt og að taka veð í óskafinni happaþrennu. Langflest af verkum „græðara“ sem hefur verið skoðað með markvissum og nákvæmum hætti hefur leitt það eitt í ljós að máttur „fræðanna“ einskorðast við sameiginlega trú læknis og sjúkling á gildi þess. Og þótt sameiginleg trú hafi alltaf haft undraverðan mátt til líknar og lækninga, svo mjög að það mætti jafnvel fara fram á viðurkenningu hennar sem lækningarafls, þá snýst hin sameiginlega trú allsekki um fyrirbærið sem trúnni er beint að það og það skiptið.

Nietzsche sagði að kona sem væri sannfærð um að hún væri vel klædd fengi ekki kvef eða yrði ekki kalt. Þótt klæðaburður sé mismunandi eftir löndum og tímum þá er mögulegt að inntak þessa spakmælis lifi af allar yfirborðskenndar breytingar.

Kaþólskir drekka vatn úr tilteknum brunni, hómópatar bryðja sykur, aðrir leggja hendur yfir fólk. Allt er þetta fólk að vinna með sama lækningamáttinn. En ekkert af þessu ber að viðurkenna. Hvað þá veita fé úr almennum sjóðum í þessa starfsemi.

Vinkona mín, sem hvatti foreldra til að láta ekki bólusetja stúlkur gegn leghálskrabba telur (réttilega að mínu mati) að heilbrigðiskerfið sé á ákveðnum villigötum. Fólki sé með ótta ýtt í átt til risafyrirtækja sem dæla lyfjum í fólk. Sáralítið sé gert til þess að efla ábyrgð fólks á eigin heilsu og efla mótstöðuafl líkamans. Fólk sé bæði skammsýnt og óþolinmótt þegar kemur að lækningum og skortir verulega á gagnrýna hugsun. Heilbrigðiskerfið snúist um peninga en ekki heilsu.

Þarna náum við vel saman. Enda er ég algjörlega sammála þessu. En ástæða þess að ég er ekki að berjast gegn bólusetningum er að ég samþykki ekki að leggjast á árar með kerfi sem er engu skárra en heilbrigðiskerfið. Er kerfi sem elur á ótta og ranghugmyndum og snýst um peninga. En skortir um leið þau vísindalegu rök sem almenna heilbrigðiskerfið hefur framyfir það.

Þetta neðanjarðarheilbrigðiskerfi er ekki göfugt. Það heldur því fram að fólk sé hrætt til að láta bólusetja börn og berst svo sjálft gegn bólusetningum með hræðsluáróðri. Ýmist með því að benda á að í bóluefninu séu einhver hræðileg efni (eins og kvikasilfur) eða benda á hryllingssögur um afleiðingar bólusetninga, eins og einhverfu eða beinlínis dauðsföll.

Það er þess vert að eyða nokkrum línum í þessar aðferðir.

Um fyrri röksemdina, þá að í bóluefnum séu hættuleg efni, þá ber að geta þess að oft eru þessi efni sem verið er að hræða fólk með alls ekki í bóluefninu. En jafnvel þótt svo væri þá er oft um álíka röksemd að ræða og að fárast yfir því að maður fái sér vatnsglas eins og maður viti ekki hvernig fór fyrir fólkinu á Titanic. Bóluefni snýst í flestum tilfellum um að dæla „skaðlegum“ hlutum inn í líkamann sem búið er að veikla svo að ónæmiskerfið getur unnið á því og verið viðbúið ef váin birtist í öllu sínu veldi. Þetta er afburðasnjöll lækning. Og í raun það sem hómópatía þykist gera. Munurinn er sá að það er eitthvað í bóluefninu sem virkar en remedía hómópatans inniheldur ekkert nema sykur og vatn eða vínanda (eins og syndaflóðið, sykursýki og skorpulifur sé ekki til!).

Og um hryllingssögurnar. Sumar sögurnar eru sannar og eru þá oftast af einhevrjum hrottalegum ofnæmisviðbrögðum. Söguna um að bólusetningar valdi einhverfu er búið að afsanna fyrir fullt og allt eftir að flett var ofan af svikulum vinnubrögðum og lygum sem beitt var til að festa hana í sessi. Og svo eru það svona sögur (sem vinkona mín linkaði einmitt í þegar við vorum að þrasa):14 ára stúlka dó stuttu eftir bólusetningu. Öllum bólusetningum var hætt tímabundið. Með þessari sögu barði samstarfskona mín mig og sagði að þetta snérist um líf barna og fjölskyldna þeirra. Ég gúglaði nafnið á stelpunni og fann frétt frá því stuttu seinna.Stúlkan var semsagt með illkynja æxli í bringunni sem hafði læst sig í hjartað á henni og lungun. Það að hún dó aðeins tveim tímum eftir bólusetningu var tilviljun af því tæi sem er dæmd til að koma upp ef eitthvað er endurtekið nógu oft eða gert í nægilegu magni. Það er alvöru vísindum til hróss að læknavísindin stöðvuðu bólusetningar tímabundið til að athuga hvort það gætu verið tengsl á milli sprautunnar og dauða stúlkunnar. Svo var ekki.

En andstæðingar bólusetninga og stuðningsmenn „græðaranna“ láta ekki svona rök bíta á sig. Þeir beita tveim algengustu aðferðum andstæðinga vísindalegrar þekkingar. Í fyrsta lagi samsæriskenningum og í öðru lagi afneitun.

Þegar æxlið fannst í brjósti stúlkunnar hafa örugglega einhverjir nötterar muldrað: „Af hverju kemur það mér ekki á óvart?“ Hann gæti svo hafa bætt við: „Þeir geta flogið flugvélum inn í sínar eigin byggingar og þrætt fyrir það, þeir fara létt með að ljúga því að æxli hafi fundist í stelpunni – eða þeir gætu hafa sett æxlið þar.“

Í svona fólk er ekki orðum eyðandi. Fólk sem trúir á að vísindin snúist um skipulegar lygar og blekkingar veit ekki að hin vísindalega aðferð, svo langt sem hún nær, er einmitt hönnuð til þess að afhjúpa, en ekki fela. Er hönnuð til þess að hafa allt uppi á borðum. Sá, sem þykist hafa sannað eitthvað vísindalega, þarf að leggja fram næg gögn til þess að aðrir geti endurtekið aðferðir hans og fengið sömu niðurstöðu. Það er ekkert rúm fyrir blekkingar. Þótt vissulega sé reynt. Og sumir „vísindamenn“ „veðji“ á glannalegar eða umdeilanlegar en algjörlega ósannaðar kenningar vegna þess að það vekur athygli eða er fjárhagslega vænlegt.

Afneitunin er lúmskari. Þegar menn hafa fjárhagslega hagsmuni af einhverju sem vísindin hafa sýnt fram á að er skaðlegt eða jafnvel stórhættulegt – þá beita menn ævinlega sömu aðferðinni. Þeir reyna ekki að afsanna með vísindalegum rökum hina öflugu gagnrýni. Þeir láta sér nægja að halda því fram að um niðurstöðurnar sé svo mikil óvissa að það sé óréttlætanlegt að grípa til aðgerða. Þetta var gert þegar vísindin sýndu fram á tengsl reykinga og sjúkdóma. Þetta er í fullum gangi hjá þeim sem afneita lofslagsbreytingum. Og þessi rök notaði vinkona mín gegn mér í umræðu okkar um leghálskrabbabólusetningu. Nákvæmlega sömu rök. Það skortir upplýsingar. Þetta er ekki nógu öruggt til að réttlæta þessar aðgerðir.

Ég mæli með að þeir sem hafa áhuga á þessum vinkli horfi á þetta myndband:
Vissulega þrífst heilbrigðiskerfið á ótta og peningum. Svo mjög að það er til vansa og heldur aftur af rannsóknum á mikilvægum sviðum. Miklum fjármunum er þessi misserin varið í rannsóknir á öldrunarsjúkdómum og ekki bara af þeirri ástæðu einni að öldruðum fer fjölgandi og vandamálið stækkandi. Heldur vegna þess að eldra fólk á meiri pening og er fúsara að borga fyrir dýrar lausnir sem framlengja líf eða lífsgæði um einver ár.

En þegar menn ætla að beita fyrir sig gagnrýninni hugsun verða menn að beita henni jafnt á þá sem virka sammála manni og hina sem maður er í andófi gegn. Í raun eru „græðarar“ dásamlega lýsandi orð yfir þá sem stunda óhefðbundar lækningar á Íslandi. Þeir stunda grímulausa og takmarkalitla sölumennsku.

Heilsubúðir halda að fólki rándýrum matvælum og fæðubótarefnum. Fólk borgar fyrir lífrænt ræktað dót sem í raun er að engu leyti hollara eða betra en annað dót. Fólk fyllist þráhyggju að setja ofan í sig eitthvað sem ekki er fullkomlega „rétt“ fyrir mann, eða blóðflokkinn mans, eða út frá einhverjum öðrum mælikvarða.

Heilsuæðið er svo róttækt og laust við alla gagnrýni að það kemur flestum á óvart að það er viðurkennd geðröskun, ein tegund átröskunar.

Og á þessu heilsuæði efnast fólk ofboðslega. Græðarar rukka fúlgur fjár fyrir allt og ekki neitt. Og það þarf ekki að skoða síðuna lengi sem samstarfskona mín linkaði á (Natural News púntur komm) til að sjá um hvað hún snýst. Við þessa einu frétt voru a.m.k. 35 auglýsingar og þrjár beiðnir um skráningu netfangs.
Ég segi að minnsta kosti 35 auglýsingar því oft var erfitt að greina á milli fræðslu og auglýsinga. Ég smellti á einn svoleiðis link. Sem átti að kenna manni að rækta sinn eigin mat og þá kom í ljós að borga þurfti 60 dollara fyrir herlegheitin.

Og það er umhugsunarefni að greint og gott fólk skuli deila áróðri af svona síðum án þess, að því er virðist, að taka eftir því hversu sölumennskan og skrumið er áberandi og allsráðandi. 

- - -

Gagnrýnin hugsun er góðra gjalda verð. Efi er nauðsynlegur. En hvorttveggja verður að vera upplýst og heiðarlegt. 

Á Íslandi má segja að vísindalegt uppeldi sé almennt ekkert. En hjátrú og kuklfýsn er almenn og rótgróin. Þess sjást meira að segja merki í störfum Alþingis eins og áður er nefnt. Þá eru Íslendingar sérstaklega ginnkeyptir fyrir samsæriskenningum og sjá gjaran ekkert athugavert við það að borga Nonna stórfé vegna þess að Nonni segir að Manni sé á eftir peningunum manns.

Vísindi efla alla dáð. Þau snúast ekki bara um lækna á hvítum sloppum. Þau snúast líka um fjármál, skólamál, pólitík. 

Almenn umræða um öll slík mál er óupplýst og brotakennd. Vísindafréttir í fjölmiðlum eru almennt til skammar. Þeir sem standa sig best í þeim efnum eru áhugamenn og ástríðumenn sem taka það upp hjá sjálfum sér að upplýsa. Dæmi um það er Stjörnufræðivefurinn og Loftslagsvefurinn. En slík miðlun nær aldrei sömu útbreiðslu og stóru miðlarnir – sem dag eftir dag klúðra hverju dauðafærinu á fætur öðru í að upplýsa almenning.

Ég ætla að mæta á næsta aðafund kennarafélagsins og leggja fram ályktun um að viðurkenndir græðarar fái ekki fé úr almennum sjóðum stéttarinnar og að fénu verði frekar varið í tannheilsu eða raunverulegar forvarnir.

Það mætti segja mér að tillagan ætti erfitt uppdráttar.


20 ummæli:

Bjössi sagði...

Ég frábið mér að vera tjargaður með þessum risastóra alltumlykjandi pensli sem þú reynir að beita Höllu. Mín afstaða einskorðast við vantraust til lyfjafyrirtækja, sem ég tel löngu hafa horfið frá sínum upphaflega tilgangi, að lækna fólk.

Svo sýnist mér á köflum að þú sért að ruglast á Höllu og Sillu. Allavega veit ég ekki til þess að Halla aðhyllist smáskammtalækningar, handayfirlagningu né shiatzu. En af því að hún borðar frekar gúrkur en gúllas þá finnst þér í lagi að spyrða hana saman við slíkt.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Hvar ert þú nefndur í þessum pistli?

Og hvar er Halla bendluð við hómópatíu?

Ég nefni hana í því sambandi að trúa á samsæriskenningar og taka ekki eftir skruminu og auglýsingamennskunni á síðunni sem hún dreifði.

Auk þess er þetta almenn umræða um sviðið, eins og sést berlega ef þetta er lesið af sæmilegri yfirvegun.

Það má hinsvegar koma fram að þú tókst undir með henni og gafst til kynna að þú ætlaðir að halda dóttur þinni frá HPV-bólusetningu.

En þar sem ég veit þú ert hvorki illgjarn né heimskur þá þykist ég vita að ekkert verði úr því.

Simon sagði...

Áhugaverð og holl hugvakning held ég. "Þarna úti" er einfaldlega of mikið af fals upplýsingum til að treysta þeim og trúa án frekari rannsökunar.

Nafnlaus sagði...

"Imagination is more important than knowledge." Albert Einstein

keli sagði...

Margt gott í þessari grein...
Þú orðaðir m.a. nokkuð vel það sem ég hef oft hugsað í kaflanum um heilsuæðið.

Egill Ó sagði...

Varðandi kvikasilfur í bóluefnum sem þú minnist aðeins á og er oft ein af röksemdum þeirra sem eru á móti bólusetningum: Thiomersal er notað í sum bóluefni en reyndar ekki nema eitt hér á landi (svínaflensubóluefnið) og það er smátt og smátt verið að taka efnið úr öllum bóluefnum sem notuð eru.

Thiomersal inniheldur vissulega kvikasilfur en það er etýl-kvikasilfur, ekki hið hættulega metýl-kvikasilfur.

Fun fact: Thiomersal hefur líka verið notað í tattú-blek. Hvað ætli margir af þeim sem eru á móti bólusetningum vegna kvikasilfurshættu séu a) með tattú og b) hafi gengið úr skugga um að blekið hafi verið thiomersalfrítt?

Hallveig sagði...

þetta er frábær grein. Ég heyrði einmitt statistík um það að velta í kring um "fæðubótarefni" og smáskammtalækningar, blómadropa og þvíumlíkt er jafnmikil og allur lyfja- og lækniskostnaður á landinu. Sumt af þessu er stórhættulegt, t.d. eru sumar deildir Landspítalans, s.s. nýrnadeild, meltingarfæradeild og hjartadeild sífellt að taka við fólki sem er að fara illa út úr ofneyslu vissra vítamína, stera, herbalife og hvað sem þetta heitir alltsaman. Læknar sjá t.d. bara rautt þegar þeir heyra á þetta minnst.

Sannleikurinn í kring um þetta allt saman, hvort sem það eru lyfjafyrirtæki eða fæðubótarefnaframleiðendur, grasalæknar, hómópatar eða hvað sem er er einfaldur: Það er alltaf verið að reyna að selja þér eitthvað.
Ef maður hefur það í huga í hvert skipti sem manni dettur í hug að kaupa eitthvað sem á að "lækna" mann einn tveir og þrír (og þar er ég ekki að tala um lyf sem virka sannanlega og læknir hefur uppáskrifað fyrir þig af ástæðu) þá er maður í góðum málum.

Tinna G. Gígja sagði...

Það er reyndar ekki rétt hjá þér að "orthorexia nervosa" sé viðurkennd röskun. Eins og stendur skýrum stöfum á wikisíðunni sem þú linkaðir á:

"Orthorexia nervosa (also known as orthorexia) is a term used by Steven Bratman to describe people who have developed a fixation with healthy or righteous eating[1] and has been referred to as a mental disorder. It is not a medically recognized term."

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Það er rétt, „viðurkennd“ er glannalegt. Röskunin er enn ekki komin í öll yfirlitsrit – sem er þó fyrst og fremst vegna þess hve nýjar allar rannsóknir eru.

Sumir telja það skjalfest, aðrir bíða og vilja sjá meira, t.d. um líffræðilegar orsakir.

Bjössi sagði...

Ég er nefndur ásamt Höllu í feisbúkk-statusnum sem auglýsir bloggfærsluna. Þar stendur að bloggfærslan sé "fyrir" okkur tvö, sem ekki viljum bólusetja börn. Það er rangfærsla. Hvorugt okkar hefur mælt gegn bólusetningum per se. Meirihluti bloggfærslunnar gengur síðan út á hið ódýra trikk að láta í það skína að "klára" samstarfskonan sem þú nefnir í upphafi færslunnar sé jafn vitlaus og þeir sem trúa á miðla. Þú leggur meiraðsegja þau orð í munn hennar að æxlið hafi veirð yfirklór. Óþarfa skot, því að mínu mati var nóg að benda á fréttina um æxlið.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Miðað við hvað þú ert vel gefinn, Björn, þá ertu stundum alveg sérstaklega illa læs og átt erfitt með að aðskilja það sem þú heldur að þú sért að lesa og það sem þú ert að lesa í raun.

Þessi pistill er sprottinn af samtali okkar H. Ég tileinkaði hann ykkur á FB sem voruð samtaka í því að afþakka HPV-bólusetningar.

Þessi pistill er hvorki um þig né hana.

Hann er um nákvæmlega það sem hann segist vera og nær langt útfyrir skoðanir H eða einhvers annars einstaklings á málinu.

Þú verður að lesa betur eða gaspra minna – eða bæði.

Bjössi sagði...

Ég er prýðilega læs. Þú getur ekki tileinkað fólki pistil, með vísun í skoðanir sem þú gerir því upp (að allar bólusetningar séu illar) og þóst svo ekki vera að fjalla um þetta fólk né skoðanir þess.

Lestu sjálfur strámanns-pistilinn þinn.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Það, að þú skyldir gefa til kynna að þú ætlaðir ekki að bólusetja dóttur þína þegar þar að kemur, var ærið tilefni til að tileinka þér pistilinn. Og ekki með nokkru skynsamlegu móti það sama og að segja að þú persónulega sért á móti öllum bólusetningum eða hómópati.

Þú ofreiknar stórkostlega mikilvægi þitt ef þér finnst þessu saman að jafna.

Í raun óskiljanleg hugmynd.

En það er gott ef mér hefur tekist að mála þennan heim nógu sterkum litum til að þú móðgist við að halda að aðrir haldi að ég sé að bendla þig við hann.

Bjössi sagði...

Þú ofreiknar stórkostlega mikilvægi þitt ef þú heldur að ég sé móðgaður.

Nafnlaus sagði...

Það er ánægjulegt hvað við erum sammála um flesta hluti Ragnar: Til dæmis það að óhefðbundar lækningar eru ekki gagnslausar með öllu, að heilbrigðiskerfið er á villigötum og þrífist að miklu leyti á ótta og peningum og að óhefðbundna heilbrigðiskerfið eða öllu heldur buisnessinn því tengdur er engu skárri. Þess vegna er það alveg rétt hjá þér að græðarar eru dásamlega lýsandi orð yfir marga þá sem stunda óhefðbundar lækningar á Íslandi. Við erum líka sammála um að vísindalegt uppeldi sé almennt lítið á Íslandi eða það sem mér finnst öllu alvarlegra: hvað uppeldi í gagnrýnni hugsun er lítið (Er það kannski það sem þú meinar?)
Sagan um stúlkuna var notuð í fljótfærni, það viðurkenni ég fúslega en þó er auðvitað ekki hægt að útiloka að einmitt bólusetningin hafi „triggerað“ þann alvarlega veikleika sem þegar var til staðar. Á meðan ekki er hægt að útiloka það finnst mér að neytendur eigi að njóta vafans. Kannski eru fleiri stúlkur í svipuðum sporum þó að fleiri hafi ekki beinlínis dáið klukkutíma eftir bólusetninguna eins og í þessu tilfelli.
Munurinn á hómópatíu og bólusetningum er kannski einmitt sá að í bóluefnunum hafa stundum verið virk eiturefni (kvikasilfur, formaldehyd og fleiri efni sem efnisvísindin sjálf hafa fundið út að eru skaðleg). Það hlýtur að vekja til umhugsunar og aðalatriðið er það að við eigum að hafa val. Hómópatían SKAÐAR hins vegar engan því að í remedíunum er eins og þú segir réttilega ekkert af þessum virku skaðlegu efnum. Svo má rífast endalaust um það hvort þær geri eitthvert gagn eða ekki en það er annað mál.
Að bera saman reykingar og bólusetningar er ekki eins lógískt eins og það lítur út fyrir að vera. Þar var verið að biðja fólk að láta af ákveðinni hegðun (hætta að taka sénsa með heilsu sína) en ekki að þiggja inngrip. Nú eru það neytendur sem þurfa að sanna að inngripið sé hættulegt, annars eru þeir neyddir til að þiggja það! Og neytendur eru almennt ekki vísindamenn! Við bara trúum í blindni öllu sem okkur er sagt! Þannig eru neytendur nánast neyddir til að taka persónulega heilsufarslega áhættu í þágu (fjárhagslegra) hagsmuna samfélagsins sem eru svo kannski engir þegar öllu er ábotninn hvolft af því að jafnvel þó að tilfellum leghálskrammameins myndi fækka, þá eykst e.t.v. tíðni ýmissa annarra kvilla í staðinn! Og það er ómögulegt að sanna það!

Nafnlaus sagði...

Vísindin ætti að nota til að koma í veg fyrir að óprúttnir aðilar græði á okkur með hræðsluáróðri. Nú er heilbrigðiskerfið hins vegar í liðinu MEÐ þeim sem vilja græða á okkur! Síða eins og naturalnews púnktur komm má sín líklega lítils í samanburði við allar bóluefna- og lyfjaherferðirnar jafnvel þó það væru 50 auglýsingar á henni.
Hin vísindalega aðferð snýst að sjálfsögðu ekki um skipulegar lygar eða blekkingar. Það er rétt. EN það er samt staðreynd að stundum eru vísindin notuð í slíkum tilgangi, enda auðvelt þar sem það er ekki nóg til af fólki sem kann að koma auga á blekkingarnar (vegna skorts á uppeldi í vísindalegum aðferðum og gagnrýninni hugsun?). Of margt fólk hefur ofurtrú á vísindum og heldur að allt sem er vísindalegt sé hafið yfir gagnrýni og allt almennt hyggjuvit. Staðreyndin er hins vegar sú- alveg eins og með öldrunarsjúkdómana- að flestar læknisfræðilegar rannsóknir eru orðar að lyfja- og bóluefnarannsóknum einfaldlega vegna þess að það er auðveldara að fá peninga til slíkra rannsókna (oftast þá frá lyfjafyrirtækjunum og öðrum vísindalega hlutlausum aðilum). Það er hins vegar ALLTOF lítið gert af því að rannsaka heilsu og ALLTOF of mikið gert af því að rannsaka sjúkdóma. Og það er tvennt ólíkt og viðheldur skyndilausna-átrúnaðinum.

Nafnlaus sagði...

Afsakið að ég kann ekki að láta nafnið mitt birtast en ég verð líka að svara athugasemd þinni um lífræna ræktun (þó ég sjái ekki alveg hvað þær koma þessu máli við): Það má vel vera að þú hafir séð rannsóknir þess efnis að lífræn ræktun sé ekki hollari fyrir okkur en önnur ræktun því það er almennt skilningur hinna þröngsýnu efnisvísinda. En má ég benda þér á að lífræn ræktun snýst ekki bara um heilsu neytandans heldur líka „fair trade“ og umhverfisvernd og það hanga þar miklu fleira siðferðileg álitamál á spýtunni. Þetta veistu sjálfur og það er því ákveðin hugsjón í því fólgin að kaupa frekar lífrænar vörur. Fyrir utan hvað þær eru yfirleitt miklu bragðbetri. Ég bendi þér á að hlusta á Vandana Shiva tala um lífræna ræktun og erfðabreytt matvæli stórfyrirtækja sem nú tröllríða matvælaframleiðslu í heiminum. Þau fyrirtæki eru nefnilega ekkert skárri en lyfjafyrirtækin.

Nafnlaus sagði...

Það að fyllast þráhyggju út af því sem maður lætur ofan í sig er vissulega sjúklegt en það á ekki við um alla sem vilja borða hollan mat eða vilja gjalda varhug við bólusetningum. Orthorexia nervosa er ekki (ennþá) viðurkennd geðröskun þó að Steven Bratman hafi notað þetta hugtak en það verður það samt örugglega þegar efasemdarfólk fer að verða erfiðara við heilbrigðiskerfið. Þetta þekkjum við með nemendur sem fá á sig læknisfræðilegar greiningar þegar þeir passa ekki lengur fyrir skólakerfið. Þeir stimplaðir geðveikir og foreldrar þeirra oft beittir þrýstingi um að setja þá á lyf. Og foreldrar samþykkja oft þegjandi og hljóðalaust af því að sá sem talar er læknir/vísindamaður en ekki þeir. Þetta er valdníðsla í skjóli vísindaátrúnaðar. Vísindafasisimi af verstu sort. Sjúkdómar eru teknir í þjónustu ákveðinnar hugmyndafræði um félagslegt skipulag. Slíkt er skaðlegt fyrir skilning okkar á félagslegum orsökum ógæfu okkar. Í þessu félagslega skipulagi sem verið er að verja, felst firring, hlutgerving og neysluátrúnaður sem við tökum svo þátt í að viðhalda. Forræðishyggjan þrífst á því að almenningur treystir ekki lengur eigin dómgreind.
Ragnar. Þetta snýst um fræðasýn. Paradigm. Lífssýn. Kenningarlega sýn. Heimsmynd.
Vísindamenn (og hvað þá hinir almennu borgarar) hafa (sem betur fer) ekki allir sömu kenningarlegu sjónarmið, paradigm eða lífssýn. Þó er einn hópur fræðimanna sem telur sig oft yfir aðra hafinn og fer stundum fram með miklum gáfumannahroka. Það eru pósitívistar eða vissuhyggjumenn sem halda að þeir geti höndlað einhvern einn algildan sannleika með vísindin ein að vopni. Sá hópur notar oftar en ekki eingöngu megindlegar rannsóknaraðferðir (eins gallaðar og forheimskandi og þær eru að mínu mati) og stunda það grimmt að slá ryki í augu fólks með alls kyns tölfræði og línuritum sem matreidd eru sem hin einu sönnu vísindi og sannleikur. Sannleikurinn er hins vegar oftast sá að spurningin var vitlaus. Þetta eru fræðimennirnir sem hæðast að tilfinningalegum rökum og því fer heildræn hugsun veg allrar veraldar og oft mannúðin með. Á mannamáli heitir þetta að vera allur í hausnum á sér. Þessi hópur vísindamanna er langt í frá hafinn yfir gagnrýni og það sæmir ekki mannúðlegum manni eins og þér að vera svona þver og þrjóskur þegar kemur að kenningarlegum sjónamiðum í vísindum. Sannleikurinn er flóknari en svo og það veistu.

Nafnlaus sagði...

Ragnar, þú ferð ansi frjálslega með að spyrða saman ólík mál, mál sem ekkert tengjast þessari tilteknu bólusetningu sem var tilefni skrifanna. Ég kann því illa að mér séu gerðar upp skoðanir eða ég bendluð við eitthvað sem ég hef engan áhuga á burt séð frá ágæti eða ekki ágæti viðkomandi fyrirbæra. Mér finnst líka gróft af þér að kalla fólk heimskt eða illgjarnt ef það afþakkar bólusetningar, hvort sem það er ég eða Björn eða einhver annar. Verst finnst mér þó að vera hugsanlega sett í sama pott og þeir sem selja stera og fæðubótardufts (sbr. komment hér að ofan frá Hallveigu)því það finnst mér enn verra en bölvað bóluefnið. AMEN

Matti sagði...

> Á meðan ekki er hægt að útiloka það finnst mér að neytendur eigi að njóta vafans

Hvað þýðir þetta?

Er hægt að útiloka eitthvað algjörlega? Yfirleitt ekki.

Er hægt að sýna fram á að ekki séu tengsl milli einhvers með tilteknum vissumörkum? Vissulega. Það hefur verið gert þegar kemur að bólusetningum og ýmsum meintum aukaverkunum - t.d. einhverfu.

Munurinn á hómópatíu og bólusetningum er kannski einmitt sá að í bóluefnunum hafa stundum verið virk eiturefni (kvikasilfur, formaldehyd og fleiri efni sem efnisvísindin sjálf hafa fundið út að eru skaðleg).

Eins og fram hefur komið í athugasemd Egils hér fyrir ofan, þá er "kvikasilfur" ekki það sama og "kvikasilfur". Auk þess eru eiturefni í nær öllu - bara í litlu mæli.

Það sem skiptir öllu máli þegar kemur að inntöku efna er magnið.

Smáskammtalækningar eru fullkomið húmbúkk og ættu að sjálfsögðu að teljast svik gagnvart neytendum. Það er út í hött að Apótek landsins selji fólki vatn eða sykurtöflur á okurverði vegna lyga einhverra hómópata.