Bragi Halldórsson linkaði í fróðlega grein The Econimist um umbætur í menntamálum. Í greininni er m.a. fullyrt að hverfandi munur sé á milli árangurs í menntaþróun og peninga. Þú bætir ekki menntakerfi með því einu að dæla peningum í það. Það er m.a.s. nokkuð örugg leið til sóunar.
En það er fernt sem virðist stuðla að árangri frekar en nokkuð annað:
1. Langmikilvægast er að stutt sé við sjálfstæði skóla. Þegar menntayfirvöld stýra starfi skóla um of kemur það lóðbeint niður á gæðum þeirra.
2. Áhersla á „slaka“ nemendur, þ.e. nemendur sem eru að vinna undir getu.
3. Áhersla á afburðakennara.
4. Valfrelsi um skóla og skólastefnur.
En hvar stöndum við?
1.
Sjálfstæði skóla er þónokkuð, en Reykjavíkurborg þarf að átta sig á því að hún hefur miðstýringaráráttu sem stendur öllu starfi fyrir þrifum. Tillögur MMR eru dæmi um það. Stimpilklukkur eru annað. Hið þriðja er ferlíkið UTM, sem sér um allan tölvubúnað borgarinnar. Ég er núna búinn að vera læstur úti mánuðum saman frá námsvef mínum vegna þess að einhverjir rúðustrikaðir tappar ákváðu að það væri ekki óhætt að veita kennurum aðgang að ftp-sörverum. Núna hefur í einhverjar vikur staðið reikistefna um það hvort þetta megi leysa. Í fréttum var sagt frá skólayfirvöldum í Danmörku sem ákváðu að vopna nemendur með iPad-tölvum. Við í unglingadeild Norðlingaskóla tókum sömu ákvörðun í vor enda eru iPad-tölvur (og sambærilegar) bæði ódýrari og hentugri en aðrar tölvur. Þegar við mættum í haust bólaði ekkert á iPöddunum. Einhver kerfiskarl, sem ég veit ekki til þess að hafa neitt vit á menntamálum eða skólaþróun, sagði nei. Samband sveitarfélaga hefur líka haft miðstýringaráráttu að þessu tæi. En samtsemáður er það mín reynsla að ef maður berst, og maður þarf stundum að berjast, fyrir sjálfstæði sínu þá gefur kerfið yfirleitt eftir. Ósjálfstæði skóla í Reykjavík og á Íslandi er fyrst og fremst heimaræktað. Kjarkleysi innan skólanna sjálfra. Hugmyndaskortur þegar kemur að vali á námsefni og námsaðferðum.
2.
Stór hluti íslenskra nemenda vinnur „undir getu.“ Að einhverju leyti mun það alltaf vera þannig. Það er búið að eyða miklum fjármunum og orku í að sinna „slökum“ nemendum. Og að þessu leyti er Ísland til fyrirmyndar öðrum löndum. Þó má efast um að „stuðningsfulltrúakerfið“ sem er birtingarmynd skólastefnu hins opinbera skili því sem til er ætlast. Raunar eru mjög sterkar vísbendingar um að svo sé alls ekki.
3.
Ein aðalvansæmd skólakerfisins eru hin hroðalega lágu laun kennara. Þau eru ekki samkeppnishæf. Af því leiðir að skólinn missir af mörgum afburðakennurum. Auk þess er nýliðun lítil og alltof margir gamlir kennarar. Virðing starfsins er ekki næg. Það þarf að vinna markvisst að því að auka hæfni íslenskra kennara. Sem er ekki alltaf auðvelt því kennsla er erfitt starf og kennarar eru upp til hópa viðkvæmir fyrir gagnrýni á störf sín. En við munum aldrei bæta skólakerfið mikið frá því sem er nema gera kennslu eftirsóttara starf. Nú er búið að lengja kennaranám í fimm ár. Það er flott. En skólinn er enganveginn samkeppnishæfur þegar kemur að því að næla í besta fólkið.
4.
Valfrelsi foreldra var orðið nokkuð mikið þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór með menntamál. Eftir að Vg tók við hefur verulega dregið saman. Framhaldsskólar fengu að vera nátttröll og klúðra móttöku nýnema árið sem samræmdu prófin duttu út. Fyrir ári síðan reyndi ég að hjálpa til við að koma frábærum umsjónarnemanda í annan skóla í nágrenninu og skólastjórinn sagði nei. Hafði það bara sem prinsipp að halda öllum úti sem hann gæti. Ég leit svo á að hann væri bara leiðindafífl. Nú eru meira og minna allir skólar í sama fari. Það er sáralítið valfrelsi um menntun barnanna. Auk þess eru skólastefnan einsleit og illa auglýst.
Sem sagt.
Þótt íslenska menntakerfið sé dýrt þá vantar mikið upp á að það skili tilætluðum árangri. Hér að ofan má vel sjá hvers vegna það er.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli