28. ágúst 2011

Rasistarnir falla á prófinu

Hópur manna kallar sig þjóðernissinna. Þeir segjast vilja varðveita íslenska menningu. Hún sé enda í útrýmingarhættu. Ein leið til þess að gera menn meðvitaðri og samrýmdari sé að reyna að viðhalda einsleitni í líffræðilegu útliti og hugarfari.

Nú efast enginn um að ef íslensk menning er greind í þætti sína þá skipar tungan þar veglegan sess. Sá sem vill vernda íslenska menningu (í alvöru en ekki sem lið í einhverju hugmyndafræðilegu hálfkáki) hlýtur að vilja að allir Íslendingar læri íslensku – og læri hana vel. Þeir, sem ekki ná tökum á íslensku, hafa ekki aðlagast og ættu að flytja eitthvað annað.

Eða svo hefði maður haldið.

En rasistar á borð við Skúla Jacobsson, Jóhann Guðna Ragnarsson og Sigríði B. Baldvinsdóttur dreifa sem víðast svokallaðri „möntru“ en hún er einhverskonar hugvekja; vakning eða áminning um það sem er í gangi. Sigríður tók sig meira að segja til og las möntruna upp í myndbandi.

Ég tók upp kennaratússinn og sótti möntruna á heimasíðu hennar á netinu. Síðan mat ég málfarið. Ég gaf villur fyrir augljóslega ranga orðanotkun, tvö orð sem áttu að vera eitt, rangar beygingar og þess háttar. Ég gerði engar athugasemdir við innihaldið sem slíkt. Að því loknu notaði ég inntökureglur Lögregluskólans í stafsetningu til að gefa möntrunni einkunn. Hér er niðurstaðan (smellið til að fá stærri mynd):Í Lögregluskólanum fylgir því fall að fara undir 4,4. Mantran nær undir þau mörk og næstum jafnmörgum villum í viðbót og þá voru komnar.

Fólk sem ástundar svona vinnbrögð og dreifir málfari sem þessu er sannarlega ógn við íslenska menningu, hefði maður haldið. Hér er verið að menga menningararfinn með óvönduðu og hreinlega röngu málfari.

Ég gæti hreinlega trúað því að ef ekki er gripið í taumana þá geti íslenska sem sjálfstætt tungumál verið horfin innan fárra alda.

Djók.

16 ummæli:

Gavagai sagði...

Well played.

Svo er "mantra" sanskrít.

Eva sagði...

Ég hef allavega meiri áhyggjur af málfarsáhrifum fólks sem lætur svona texta frá sér en nokkurntíma áhrifum nýbúa.

Nafnlaus sagði...

http://en.wikipedia.org/wiki/Divide_and_rule

Nafnlaus sagði...

Málfarið á yfirlýsingu ,,Sköpunarhreyfingarinnar" er reyndar alveg skelfilegt og aðför að íslenskunni.
Matthías

Eva sagði...

Það skiptir samt í rauninni ekki máli því menningin sem þau vilja vernda er "hið evrópska gildi" (hvað sem það nú þýðir) og tungumálið sem þau boða er latína, samkvæmt 14.gr. 1. kafla litlu, hvítu bókarinnar, sem er eitt þeirra helgasta rit.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Fólk, sem ekki getur náð tökum á íslensku fætt og uppalið á Íslandi, mun aldrei ráða við latínu.

Nafnlaus sagði...

Hvað misskilningur og fordómar geta nú létt manni lundina.

Nafnlaus sagði...

Fyrst við erum í málfarsgír, er þetta ekki meira "manifesto" heldur en "mantra"?

Þetta minnir mig allavega meir á Unabomber en Dalai Lama.

David Davidsson sagði...

Mér finnst þið taka þessum hrylling ótrúlega vel, þetta eru skoðanabræður Breiviks og það er stigs- en ekki eðlismunur þar á.

Nafnlaus sagði...

Það sem ég sá úr þessum pistli er einfaldlega það að ef að manneskja er vel skrifandi og upp komi stafsetningarvillur þá bara einfaldlega getur ekki staðist að hún sé Íslensk. HAHAHA rökheimska ykkar nær engu hámarki...
Og þú David Davidson, ert þú svo blindaður af pólitískumréttrúnaði að þú kallar þá sem eru á móti fjölmenningu "skoðanabræður Breiviks"? Myndir þú kalla sósíalista skoðaabróðir Stalíns og stuðningsmann 100 milljón manna dauða?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Nafnlaus.

Sá sem berst fyrir varðveislu íslenskrar menningar og kann íslensku ákaflega illa – ætti að einbeita sér að því að læra íslensku en ekki röfla um eitthvað sem gæti hugsanlega gerst eftir 200 ár.

Íslensk tunga er hluti af íslenskri menningu. Það að þykjast vilja varðveita hana en nenna samt ekki að leggja neitt á sig sjálfur til þess er...tja, leim.

Nafnlaus sagði...

Ragnar Þór

Það er alveg dæmalaust hvað þið hamrið alltaf á stafsetningu og málfari líkt og úrillir grunnskólakennarar, hversvegna ætli það sé? Er það ekki einfaldlega vegna þess að þið getið ekki komið með betri rök en þessi? "Þeir sem kunna ekki að skrifa íslensku eru ekki að varðveita íslenska menningu" ég ætla rétt að vona að þið séuð húmorslaeysingjar að reyna að vera fyndnir, ykkur getur ekki verið alvara. Það er mun meira falið í íslenskri menningu en stafsetning.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Er semsagt í lagi að blanda tungumálið með orðanotkun, hugmyndum og stafsetningu sem er óíslensk?

Er rétt að umbera fjölbreytileikann þegar kemur að þessum lið íslenskrar menningar?

Af hverju má þá fólk ekki vera allskonar á litinn, trúa á allskonar guði og éta allskonar mat?

Omar Hauksson sagði...

Þetta er afskaplega einfaldur hlutur Herra/Frú Nafnlaus. Ef þú er svo æstur í að vernda Íslenska menningu þá er málið og mál notkun mjög mikilvægur partur af því. Okkar mál er það sem gerir okkur sérstök, vegna þess að það tala það svo fáir og einmitt þá svo mikilvægt að fólk sem þykist ætla að vernda okkar menningu drullist til að vera skrifandi og talandi á grunnskólastigi. Það líka einmitt mjög mikilvægt fyrir ykkur vitleysingana að það sem þið sendið frá ykkur líti ekki út fyrir að vera skrifað af 8 ára krakka.
Svo í lokinn. Það er alltaf jafn fyndið að fólk sem þykist berjast fyrir einhverju, hversu heimskulegt það er, af krafti, hefur ekki meiri kjark en að koma ekki fram undir nafni og predika það sem þau þykjast trúa svo heitt. Nafnlaus, þú ert raggeit og aumingi. Stattu nú með þínum málsstað og sýndu að þú þorir að standa með honum án þess að hlaupa í felur.

ólöf sagði...

Vá. Aldrei hef ég skrifað svona illa, ekki einu sinni sem 8 ára barn. Ég skil eiginlega ekki hvernig þetta er hægt. Ég er sammála Evu. Ég hef mun meiri áhyggjur af málfars- eða annars konar áhrifum fólks sem lætur frá sér svona hrylling en nokkurn tíman af áhrifum nýbúa. Ég get bara ómögulega séð hvernig "Nafnlaus" virðist álíta þetta "vel skrifandi manneskju" .. nema ég sé að misskilja? Ég á líka erfitt með að skilja af hverju viðkomandi getur ekki bara komið fram undir nafni og staðið með því sem hann/hún sér sig tilneydd/-an til að deila með öðrum. Kannski er hún/hann sjálf/-ur bara "húmorslaeysingi að reyna að vera fyndin/-nn" .. Ekki það að nafnið per se skipti mig nokkru máli.

Eins og Ómar sagði hér að ofan þá er tungumálið mjög mikilvægur partur af okkar menningu og er einkennandi fyrir Ísland, vegna þess hve fáir tala þetta mál í raun. Sér í lagi þar sem okkar tungumál er líkast, af öllum norðurlöndunum, gamla norræna tungumálinu.

Mér þykir alltaf ákaflega sárt að sjá samlanda mína snúa sér gegn fjölmenningu og að rasisma. Mér þykir þar sorglegt og mér þykir það ljótt. Ég hef heyrt að allir Íslendingar séu skyldir í sjöunda ættlið í það minnsta (það gæti þó hafa breyst, ég hef ekki kynnt mér það nýlega) og ég verð að viðurkenna að ég vil bara ekkert með svona fólk gera.

Mér þykir vanta mikið upp á rökfærslu þessa fólks, þessi sífellda endurtekning á því að við hin séum alls ekki and-rasistar heldur and-hvítir .. en ég hef einmitt ekkert á móti hvítum, málið er bara að ég hef heldur ekkert á móti öðrum litum og kynstofnum. Mér finnst allir hafa nákvæmlega jafn mikinn rétt á sér og mér þykir bara fallegt að menningarheimar blandist saman, öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir og allt það. Auðvitað styð ég það að við höldum í okkar sterka menningararf og þá sér í lagi íslensku tunguna, en mér finnst ekki sanngjarnt að við höldum henni svo nálægt okkur að við hleypum engum öðrum að. Það er gott að deila með sér góðum hlutum. Er það ekki?

ólöf sagði...

úbs. Þetta varð óvart svolítið langt.