27. ágúst 2011

Ákveðið hvað þið viljið!

Eftir að borgarstjórinn lét ljós sitt skína og taldi að ástæða væri til að taka aftur upp heimakennslu eins og þá sem nú þegar er heimil í lögum og afnema skólaskyldu þá spruttu upp nokkrar umræður, sem eðlilegt er.

Ég fagna því. Þótt umræðan verji á engan hátt bullið í borgarstjóranum. Það er óskiljanlegt að maður í valdastöðu geti hugsað sem svo að leiðin til að díla við vansæl börn í kerfinu sé að ýta þeim til hliðar en viðhalda kerfinu. Hefði viljað að hann hefði haft hugrekki til að eiga við eins og einn þverbita í kerfinu sjálfu. En hann hefur ekki lagt í það. Það er auðveldara að „hella útfyrir“ en minnka stútinn (að ég tali ekki um að stækka skálina).

Nú er ég kennari. Meira að segja nokkuð frambærilegur kennari. Og ég kenni með mjög frambærilegu fólki. Við erum doldið utan kerfisins, ef svo má segja, störfum með öðrum hætti en flestir aðrir kennarar á landinu. Og þó, það er fullt af fólki að gera svipaða hluti. En reyndar enn fleiri að gera það ekki. 

Meðal þess sem við gerum er að við reynum að láta námið líkjast lífinu. Nemendur skipuleggja sig og stjórna sér sjálfir upp að því marki sem er árangursríkast. Þrátt fyrir að ekkert kveði á um slíkt, þá höfum við sett á laggirnar námsnefnd. Þar sitja nemendur sem við hittum reglulega og berum undir þá hugmyndir okkar um námið. Þeir koma með sínar hugmyndir. Og saman finnum við leiðir til að gera námið betra.

Við skiptum okkur ekki af því hvort nemendur eru með húfu eða hvað þeir hafa í eyrunum á meðan þeir læra. Ef nemandi vill getur hann lært á gólfinu. Ef nemandi biður um fær hann yfirleitt að færa sig í sófann eða hægindastólinn. 

Við erum ekki að reyna að kenna nemendum að láta að stjórn, heldur stýra sér sjálfir.

Við reynum líka að þróa námsefni sem sama hætti. Í íslensku gera menn aðdáendasíður fyrir hljómsveitir á feisbúkk, í náttúrufræði blanda menn frostlög eða reyna að framkalla víxlverkun í ljósi – allt eftir áhuga hvers og eins, í stærðfræði byggja menn skemmtigarða úr pappír (16 ára við hliðina á 12 ára), í tónlist skrifa menn „Fokk skólastjórinn!!!“ í paunksmiðju. 

Við erum helvíti flottur skóli. En við erum enn í bullandi þróun.

Ástæða þess að okkur gengur vel er að heilir hópar kennara eru samtaka í skólaþróun, metnaði og hugrekki. Enginn er eyland – og allir vilja gera betur.

Við gerum líka fullt af mistökum. En það er eiginlega nauðsynlegt líka.

En ef við skoðum mína grein, náttúrufræðina, þá kemur í ljós vandi. Þegar nemandi útskrifast í 10. bekk á hann að...

 • hafa löngun og áhuga til að læra meira í náttúrufræðum
 • vera meðvitaður um tengsl manns og umhverfis 
 • geta tekið virkan þátt í samfélagsumræðu sem tengjast náttúru og umhverfi þeirra 
 • búa yfir góðum skilningi á náttúrufræðilegum hugtökum
 • vera fær um að skipuleggja og framkvæma athuganir, túlka þær og meta 
 • kunna að lesa náttúruna, rata um hana og njóta
 • kunna að leita og meta gæði upplýsinga um náttúruleg málefni 
 • búa yfir gagnrýnni hugsun hvað varðar náttúruleg málefni 
 • hafa tileinkað sér þá grunnþekkingu sem unnið er með í líf-, eðlis- og jarðvísindum 
 • skilja tengsl ólíkra fræða við náttúrufræðina s.s. stærðfræði, lýðræði, myndlist, hönnun og tækni 
 • vera meðvitaður um sjálfbæra þróun


Þetta eru góð markmið og mikilvæg. Innan þessa ramma er hægt að smíða alveg frábært nám. En ef maður skoðar bara feitletraða liðinn þá sér maður af hverju allt fer til fjandans.

Nemendur eiga að tileinka sér grunnþekkingu. Grunnþekkingin var lengst af skilgreind með upptalningu í námskrá og gátlistum fyrir samræmd próf.

Námskrárgerð hefur reynt að draga úr stýringu og auka frelsi kennara. En námsefnið sem næstum allir skólar nota byggir á þessum gömlu gátlistum. Og kennslan miðar við þá líka.

Ég tók mig einu sinni til og athugaði hvað þetta þýddi fyrir kennsluna. Miðað við viðmiðunarstundaskrá þá þýddi kennslan eins og hún var stunduð að skipta þurfti um kennsluefni á 20 mínútna fresti frá því nemandinn var í 8. bekk og þar til hann útskrifaðist.

Námskráin gerði sum sé svo nákvæmar og stífar kröfur að það var aldrei möguleiki að neinn gæti uppfyllt þær – nema hlaupa á hundavaði yfir alltsaman.

Og það er þessi stýring sem veldur því að kennsla á Íslandi er ekki við hæfi allra. Kennararnir eru að reyna að gera það sem þeim er fyrirlagt – en verkefnið er óviðráðanlegt í eðli sínu. Það enda ekki allir nemendur á sama stað á 16 ára afmælisdaginn. Og ef þú ætlar að reyna að láta það gerast, þá hellir þú út fyrir. Einfalt mál.

Vissulega er sú hætta fyrir hendi að ef maður fækkar yfirlýstum námsmarkmiðum þá verði viðbrögð skólanna vanræksla. Fjöldamargar lögbundnar greinar eru þegar vanræktar út um allt. Skólar virðast þurfa ríkulegt aðhald.

Samfélagið þarf að ákveða hvað það vill. Vilja menn fjölbreytta kennslu þar sem margar aðferðir eru notaðar og greinar samþættar – eða vilja menn komast yfir einhverja „ímyndaða“ grunnþekkingu í hverju fagi. 

Ef menn vilja hið fyrrnefnda (sem ég held að muni á endanum skila meiri grunnþekkingu hvorteðer) þarf að breyta nálgun. Og standa með þeirri breytingu. Ekki bregðast við eins og samfélagið gerir gjarnan og dæma hina nýju aðferð sem rugl. Við þurfum ekki fleiri veðurfræðinga með snert af asperger sem fordæma stæðrfræðikennslu af því ekki er verið að breyt abörnunum í mennska reiknistokka. Við þurfum að fá foreldra til að hætta að mæta á fundi og kvarta yfir því að kennslan sé óþekkjanleg frá því þeir voru í skóla.

Það er dáltíð pointið.

17 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Valið snýst sem sagt um það að nemandinn geti setið á gólfinu eða í sófa? Er eitthvað heimskulegra við það að sitja í stól heima hjá sér en á gólfinu í skólanum?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Valið snýst um svo miklu meira – eins og hefði haldið að væri augljós. Það, hvort nemandi situr í sófa eða á stól – er til marks um örsmæðarstjórnun í skólakerfinu eins og það er nú. Í krafti þess að það sé svo ægilega mikið sem gera þarf og svigrúm lítið fyrir „hangs“ þá lúta nemendur stjórn í fáránlegum smáatriðum. Til dæmis í hvaða líkamsstöðu þeir vinna eða hvort/hvenær þeir míga.

Eva sagði...

En hvað finnst þér um mætingaskyldu? Yrðu heimtur verri ef mæting yrði gefin frjáls?

Ég held að við vanmetum oft færni krakka til að taka ábyrgð. Ég kenndi unglingum í nokkur ár og fannst það bæði gefandi og erfitt en eitt af því sem ég lærði var að reglur eru ofmetnar. Í fyrsta sinn sem ég lagði fyrir þau próf, gekk ég út fyrir í smástund til að sækja nýjan töflupenna. Það olli miklu uppnámi, einhver gæti hugsanlega svindlað. Við ræddum það lengi. Hvað ef einhver svindlar, hvað gerist þá? Hver er tilganguinn með því að svindla á prófi? Halda nemendur að kennarinn sé svo mikið fífl að líka betur við þá sem fá háar einkunnir? Halda þeir að þeir verði vinsælir meðal félaganna? Halda þeir að foreldrar þeirra verði ánægðir ef þeir fá 9 eða 10 á öllum skyndiprófum og koma svo heim með 6í lokaeinkunn af því að akkúrat þá hélt kennarinn sig í stofunni? Ég er viss um að einhver hefur einhverntíma svindlað á prófi hjá mér en ég er jafn viss um að svindlið var hvorki algengara né alvarlega en ef ég hefði vokað stöðugt yfir þeim.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Já, heimtur yrðu verri.

Það þarf þó ekki fullkomna mætingarskyldu. Við vorum aðeins byrjuð að þróa kerfi sem miðaði við vinnuskyldu – þeir sem unnu áætluð verk fengu að sofa aðeins lengur einn dag í viku. Það má alveg þróa kerfi þar sem nemedur vinna eitthvað heiman frá sér.

En aldrei – út frá þeirri forsendu að þeir þrífist ekki í skólanum. Þvert á móti er þetta eitthvað sem aðeins ætti að hugleiða í tilfelli þeirra sem hafa náms- og skólafærni til að ráða við þetta.

En unglingar standa vel undir margskyns ábyrgð. Og eru upp til hópa bæði heiðarlegir og gagnrýnir á sjálfa sig.

Þetta fangelsissystem sem víðast er stundað er geðbilað sóunarkerfi.

Nafnlaus sagði...

Við hvaða skóla kennirðu?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

http://nordlingaskoli.is/starfsfolk/ragnar/Forsia.html

Nafnlaus sagði...

Hugmyndir sem settar voru fram um heimakennslu voru óljósar og því óljóst hvað þú ert að afgreiða sem bull. Það er varla hægt að ræða kennslufyrirkomulag án þess að ræða lyfjaneyslu barna sem hlýtur að vera stóri vandinn í dæminu öllu.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Hugmyndirnar sem JG setti fram um heimakennslu eru nákvæmlega sömu hugmyndir og fyrir löngu eru orðnar að lögum. JG virðist bara ekki hafa vitað af því, og er samt yfirmaður grunnskólanna í borginni.

Lyfjanotkun er ekki á nokkurn hátt stóri vandinn í menntakerfinu. Stóri vandinn er einsleitt námsumhverfi og námskröfur og lítil aðlögunarhæfni.

Nafnlaus sagði...

Hvers vegna er lyfjanotkun margfalt meiri hér á landi en annars staðar?

http://www.visir.is/margfalt-meiri-lyfjanotkun-a-islandi-/article/2011110829796

Hver er hvatinn að lyfjagjöfinni? Er markmiðið að steypa alla í sama mótið?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Lyfjanotkun er flókið mál og alls ekki bara bundið við börn eða nemendur. Við virðumst sem þjóð ótrúlega fús til þess að „lyfja“ okkur frá vandamálum.

Mörg börn upplifa í fyrsta sinn hamingjuna með réttum lyfjum, önnur þurfa ekki á lyfjunum að halda.

Með því að umbera alla og reyna að laga skólann að samfélaginu og börnunum myndi örugglega minnka áherslan á lyfjanotkun.

Og það er verðugt markmið.

Eva sagði...

Ég er nú ekki viss um að vandamálið sé skortur á umburðarlyndi. Held að það sé frekar það að skólakerfið á bæði að sjá öllum fyrir námsefni og aðstæðum við sitt hæfi en um leið eru sömu lokamarkmið fyrir alla.

Svo er ég dálítið þreytt á því viðhorfi að vegna þess að grunnskólinn á að vera fyrir alla, þá sé bara hægt að bjóða heilbrigðum börnum upp á hvað sem er. Mér yrði ekki boðið upp á það sem fullorðinni manneskju að vinna við hliðina á einhverjum sem er stöðugt að baula eða pota í öxlina á mér en ef er geðveikt barn barn með tourette eða einhverja sérstæka óþekktarröskun í bekknum, þá eiga aðrir nemendur bara að skilja að það eru ekki allir eins.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Eva, réttur þinn til að þurfa ekki að umgangast baulandi túrett-barn hlýtur að blikna við hliðina á rétti þess til að tilheyra samfélaginu.

Geðveikir eiga fullan rétt til þáttöku á vinnumarkaði, í stjórnmálum og annarsstaðar.

Það, að vilja þessi börn úr skólum, er álíka mannúðarfullt og að vilja ekki hleypa ofsóttum útlendingum inn í landið.

Nafnlaus sagði...

En hvaða rétt er verið að verja þegar greiningu er slengt framan í greindan aðila sem varpar fram sinni greindarlegu skoðun? Við þurfum ekki fleira fólk eins og þig. Er það ekki full harkaleg höfnun?

Eva sagði...

Ekki svo að skilja að mér finnist æskilegt að einangra börn sem eiga við vandamál að stríða en önnur börn hafa bara líka sinn rétt og þótt flestir fullorðnir geri kröfu um vinnufrið á sínum vinnustað þá þurfa mörg börn að vinna við óþolandi aðstæður. Þegar sonur minn kvartaði yfir því að einn bekkjarfélagi hans yddaði blýantinn sinn yfir bækurnar hans og potaði í hann ekki sjaldar en 20sinnum á dag, fékk hann þau skilaboð að hann yrði bara að sætta sig við að fólk væri misjaft. Þegar hann spurði hverja í bekknum hann sjálfur mætti pota í, varð fátt um svör.

Þetta er líka svona með aðra hópa fólks sem getur ekki varið rétt sinn sjálft. Ég hef unnið á nokkrum elliheimilum. Á einum stað var mjög veik kona sem hrópaði í sífellu og reif sig úr fötunum. Það mátti alls ekki takmarka rétt hennar til að vera í setustofunni, þeir sem þoldu hana ekki gátu bara verið inni á sínum herbergjum. Það endaði með því að allir á deildinni voru farnir að einangra sig.

Finnst þér þetta í lagi? Eru yfirhöfuð einhver takmörk fyrir því að börn og aðrir smælingjar eiga að láta yfir sig ganga?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Þegar skólinn gerir kröfur sem sumir nemendur geta með engu móti staðið undir þá brýst það út sem ofsafengin hegðun.

Ég hef unnið í mörgum skólum og á sambýli – þar sem m.a. var stúlka með alvarlegan framheilaskaða og tilheyrandi hömluleysi.

Ekkert hefur reynst „erfiðum“ nemendum betur en að búa þeim manneskjulegt umhverfi með kærleiksríkum aga. Og ekkert dugði betur á ungu stúlkuna en kærleikur og að leyfa henni að tilheyra.

Það er svo á ábyrgð okkar fullorðnu að vernda börnin fyrir ofbeldi.

Það geta ekki öll börn setið prúð og stillt í búrum. En spurningin er kannski sú hvort það sé nokkuð æskilegt þó þau geti það.

Eva sagði...

Einmitt.

Og svo geta heldur ekki allir krakkar lært það sem skólakerfið krefst af þeim. Ég skil ekki tilganginn í því að láta barn kveljast yfir námsefni sem allir vita að það mun ekki ná að tileinka sér, allavega ekki þann veturinn. Af hverju í fjandanum má ekki bara kenna þeim að gera við bíla eða skreyta tertur ef þau hafa hvorki áhuga á stærðfræði né getu til að læra hana?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Segðu,

annars held ég að öll börn hefðu gott af því að læra að gera við bíla. Það er verið að dæma heilu kynslóðirnar til að vera meira og minna fangar í hausnum á sjálfum sér með litla eða enga verkkunnáttu og sjálfsbjargarhæfni.