29. ágúst 2011

Gripkrókur


Ég veit ekki einu sinni hvort gripkrókur er íslenskt orð. En það ætti að vera það. Það er nefnilega svo dásamlega lýsandi og gagnlegt hugtak. Ekkert orð lýsir t.d. betur grófari helmingnum af frönskum rennilás.


En gripkrókur er líka gagnlegt hugtak í andlegri merkingu. Þar vil ég láta það tákna hæfileikann til að grípa góðar hugmyndir. Mér finnst ekki vanþörf á því að við leggjum meiri rækt við þann hæfileika.

Þessi hæfileiki, að greina rétt frá röngu, gott frá glötuðu, er einhver sá mikilvægast við persónulegt sjálfræði. Og hann er hægt að styrkja og stæla.

Sérhver manneskja, sérhver bók, sérhver hugmyndafræði og flest annað er síbreytileg samsuða „góðs og ills.“ Við höfum hinsvegar vanið okkur á stórkostlegar einfaldanir. Gott veður er ein, frekar óspennandi, gerð veðurs. Fallegt sólarlag er rautt og góður höfundur er góður höfundur. Þannig les maður „Murakami“ eða flytur í ellinni til Miami vegna þess að þessir hlutir, í heild sinni, eru til marks um gæði.

Og þegar maður gengur um í sólskini eða les bók eftir uppáhaldshöfundinn sinn þá opnar maður alla glugga skynjunarinnar upp á gátt og mærir alla reynsluna jafnóðum og hún rennur inn um vitin. „Mikið ofboðslega er þetta gott veður,“ „mikið er hann nú gott skáld!“ Og við þefum uppi sannindamerki um viðhorf okkar eins og hundur sem bíður spenntur eftir að eigandinn kasti bolta.

Ég er svosem ekkert á móti svona rómantík. En vandinn er að við förum á mis við svo margt annað þegar þetta er viðhorf okkar til hlutanna. Allt annað veður verður óspennandi og leiðinlegt. Manni finnst allar aðrar bækur vondar. Gluggum er skellt aftur og engu er hleypt inn.

Raunin er sú að það er hægt að nema úr næstum öllu. Það má taka hvaða aðstæður sem er og snúa þeim upp í eitthvað frábært og gott. Sami maður fer næstum að grenja úr gremju þegar hann dregur fellihýsið inn á tjaldstæðið og sér að hann þarf að stíga í for til að komast á kamarinn – og síðan skríkir úr kátínu í mýrarbolta. Ljósmyndarinn getur varla á heilum sér tekið þegar hann sér heiðskíran, óspennandi og ómyndrænan himin á meðan aðrir líta á örlitla skýjabólstra við sjóndeildarhring sem illa séða mengun á degi sem tókst næstum að vera pörfekt. Við þolum ekki að blotna í fæturnar við að hlaupa á milli húsa en elskum vatnsrennibrautagarða.

Málið með gripkrókana er að þeir eru litlir. Þú dregur ekki heila bók inn í kollinn á þér með þeim. Í mesta lagi eina hugmynd í einu, eina efnisgrein, málsgrein eða orð. Þegar þú svo segir: „Þetta er frábær bók!“ þá ertu að lýsa fjölmörgum augnablikum þar sem einhver hugmynd eða lýsing flögraði af síðunum og fangaðist á krók í hausnum á þér.

Málið er bara að of margir sneiða hjá þeim. Sturta heilu förmunum af „menningu“ eða „unaði“ inn í kollinn á sér með því að spenna upp glugga og hella draslinu inn. Fara í bíó og horfa á mynd og umreikna hana jafnóðum í snilld. Af því hún á að vera það. Skynja ekki augnablikin fyrir heildinni.

Engin ummæli: