26. ágúst 2011

Rasismus klumpur

Þetta rit ber ekki minjar neinnar annarrar stjórnmalaskoðunar en minnar eigin. Hún er ógn einföld, helzt í því fólgin, að takmark allrar stjórnar og stjórnmála sé að leyfa sem flestum, helzt öllum, einstaklingum að njóta sín, ráða sér og þroskast við eðli þeirra og hæfi, búa þeim sem bezt skilyrði til þess – forsjá annarra nái því betur tilgangi sínum sem hún er meira í hófi höfð. Mér er engin launung á þessu, og eg er alveg eins fús til þess að segja það þeim lesendum, sem kunna að vera á gagnstæðu máli.–Sigurður Nordal (Íslenzk menning, 1942, bls. 27)

Menning lifir ekki nema hún sé ástunduð af mönnum af fúsum og frjálsum vilja. Að langstærstum hluta erum við ómeðvituð um menningu okkar (eða með orðum Lennons: „Lífið er það sem á sér stað meðan þú ert upptekinn af öðru.“). Það er öllum hollt að taka sér andrými og ígrunda menningu sína, samfélagsins og heimsins af og til. Jafnhollt er að kynna sé menningu sem er framandi í tíma og rúmi. Það leynist margt göfugt í glatkistunni.

Ég á frænda sem gekk í Menntaskólann á Akureyri rétt fyrir 1970. Það fer ekkert á milli mála að hann saknar þess tíma. Bærinn iðaði af lífi og róttækni – allir höfðu pólitískar meiningar og var mikið niðri fyrir, Ingimar Eydal spilaði öll nýjustu popplögin á kvöldin – löngu áður en risaeðlan Reykjavík vaknaði til meðvitundar um tilvist þeirra. Þess á milli mátti skella sér í bíó.

Í dag er Snorrabúð stekkur. Pólitíkin á Akureyri er sama þrasið og annarsstaðar – allur frumkraftur löngu horfinn úr henni. Sömu loðmulluböndin spila þar (stopult) og voru í Reykjavík fyrir mörgum mánuðum. Þess á milli sjá gráfiðraðir trúbadúrar (sem eru í raun engir trúbadúrar heldur bara eftirhermur) um stuðið. Bíóin sýna sömu 3-D myndirnar og restin af þjóðinni er plöguð með.

Er nema von að frændi syrgi horfin ár?

Fjöldamargir þjóðernissinnar gráta með sama hætti hnignun evrópskar menningar. Sakna þeirra tíma (sem þeir í upplifðu aldrei sjálfir) þegar ein þjóð byggði eitt ríki. Vilja endurreisn. Finnst þeir búa í hnignandi og ókunnum heimi þar sem öll menning rennur saman í einn graut og sérkenni hverfa eitt af öðrum.

Ég hugsa að frændi myndi alveg beita sér fyrir því að bæjarmálapólitík Akureyrar snérist að einhverju leyti um að reyna að endurvekja þann staðblæ sem nú er horfinn, þau sérkenni sem runnið hafa saman við almenn einkenni. Rífa pleisið upp og láta það líkjast þeim tíma þegar Akureyri var sannarleg deigla. Á sama hátt vilja margir af þjóðernissinnunum beita sér fyrir því að þjóðin sé gerð meðvituð um menningararf sinn – og stolti sé blásið í brjóst íslenskra barna og þeim sagt að þau tilheyri frábærri menningararfleið. Eða, réttara sagt að þau geti tilheyrt.

Það er nefnilega ekki nóg að láta menn setja upp lakkrísbindi og lakkskó og koma þeim fyrir í Sjallanum eða KEA þar sem I.Eydal-tribjút band heldur uppi fjörinu. Þú endurheimtir ekki gömlu Akureyri með því. Það er miklu frekar einhverskonar larp, hlutverkaleikur. Til að hægt sé að endurheimta gömlu Akureyri þarf að skilja hvaða grunngildi það eru sem vantar í Akureyri nú, sem drifu hana áfram fyrir 1970. Og þá er maður auðvitað fljótur að sjá að hin rómantíska hugmynd felur ekki í sér nema brot af menningu þess tíma. Maður man eftir því sem var óvenjulegt, tilbreyting. Auðvitað var megnið af menningu Akureyrar þá, eins og nú, nauðaómerkilegt daglegt strit. Smáborgaralegar tiktúrur í bland við allskyns dygðir og lesti, sveitamennsku og afturhald. Menning er svo miklu meira en bara hátindarnir. En það er ekkert vandamál. Maður velur úr henni góðu bitana og skilur hitt eftir.

En þá kemur upp annar vandi. Segjum að fjöldi fólks rífi sig laust frá Feisbúkk og fréttatímanum og mæti með glansandi dansskóna niður í bæ tilbúið í stuðið. Tribjút-bandið stígur á stokk með helenustokkinn titrandi af eftirvæntingu og .... já, og hvað svo ...

Hvað myndi bandið spila?

Bandið gæti t.d. spilað þetta:


Og frændi myndi fá fiðring niður eftir öllum 26 hryggjarliðum. Sælan myndi sprautast út í blóðrásina og síðan myndi þumallinn smella taktinn og glansskórnir taka ærlega á hælnum.

En svo myndi frændi átta sig á því að þetta er ekki ekta. Aftur er hann bara að larpa. Hljómsveit Ingimars snérist um að spila slúnkunýjustu lögin, trylla lýðinn með einhverju sem ekki hafði heyrst fyrr. Láta fólkinu líða eins og það væri í eldlínunni. Ekki að spila margra áratuga gamla slagara. Aðrir voru í því. Það var ekki Akureyri. Sjarminn var í nýjabruminu.

Því væri eiginlega meira við hæfi að láta helenustokkinn sveiflast í takti við þetta hér:



tjiggitjiggtjiggitjiggi...

Helenustokkurinn myndi sveiflast með þessu vinsælasta lagi Bretlands í dag. Hversu mikið frændi myndi fíla lagið er samt annað mál – sjálfum grautleiddist mér við að hlusta á það. Það er einhvernveginn erfiðara að svala nýungagirni okkar með vinsælli tónlist í dag en áður fyrr. Til að finna eitthvað sem strýkur skynfrumunum á örlítið nýjan og frumlegan hátt þarf maður eiginlega að fara út fyrir dægurtónlistina og smakka á einhverju nýju. Einhverri nýrri stefnu. Það mætti tildæmis prófa þetta:


Eða þetta:


En þá myndi væntanlega renna upp fyrir frænda að þetta er ósköp tilgangslaust. Menningin á Akureyri fyrir 1970 snérist um að gera sér mikinn mat úr því litla sem maður hafði. Tveir menn lágu á kvöldin yfir útvarpstæki, annar hélt í loftnetið og reyndi að halda merkinu á meðan hinn skrifaði niður hljómagang með blýanti á blað. Síðan sömdu þeir íslenskan texta yfir lagið því þeir náðu ekki þeim enska nógu vel til að þora að hafa hann eftir. Og textarnir voru undantekningarlítið um stelpur – eða síld. Það gafst ekki tími fyrir meiri rósir.

Sá sem gerir sér veislu úr litlu myndi aldrei halda áfram að hokra á smáræði ef hann hefði val um meira. En þetta hugarfar framsækninnar hefur smám saman stuðlað að því að heimurinn liggur fyrir fótum okkar. Við búum núna við allsnægtir, offramboð á öllu. Við höfum safnað í sarpinn meira en einn maður getur á ævinni torgað. Hallærinu er lokið.

En þá stendur upp á menn í fyrsta sinn að velja úr. Og það er erfitt hafi verið valið fyrir mann fram að því. Og þvi fylgir ákveðið óöryggi. Það er svo mikli auðveldara að allir horfi á Derrick og spili vist á fimmtudögum. En dugmikil menning lætur ekki bjóða sér það til lengdra.

Hávamál eru fyrst og fremst ferðahandbók. Heimskur er heimaalinn, þú átt að safna viti og vinum (og vera vandur að hvorutveggja). Þú átt að ferðast og taka á móti fólki. Þú átt að auka vit þitt af gestum þínum og gestgjöfum og stilla þig um háð þótt þér þyki einhver prump. Vinina og auðinn missir þú svo – en orðstírinn lifir eftir.

Hávamál hvetja ekki til þess að hokrað sé yfir einsleitninni. Þau setja ábyrgðina á einstaklinginn. Hann á setja sjálfum sér mörg, aga og stæla. Það, sem hann byggir svona upp, verður ekki tekið af honum þótt veraldlegar eigur séu fjarlægðar.

Maður skyldi ekki rugla saman anda norrænnar fornmenningar og tilfallandi einkennum. Andi hennar var framsækni, sjálfstæði, auðgun. Og það er einfaldlega þannig að þegar menn lifa þannig og stuðla að menningu sem er nýjungagjörn og hugrökk þá fjölgar allaf möguleiknunum. Menn stækka mengi hins mögulega.

Í öllum menningarsamfélögum eru líka íhaldsmenn. Menn sem vilja halda aftur af breytingum. Vilja njóta þess sem er og óttast að missa það sem þeir hafa fyrir eitthvað verra. Það er samt umhugsunarefni að íhaldsmenn eru yfirleitt mest hrifnir af því sem framfaramenn fyrri ára hafa komið til leiðar – þótt þeim sé oft verulega í nöp við sömu menn samtíðarinnar. Það sem hugrekkið kemur til leiðar í dag þarf sá hugrakki að brjóta utan af sér á morgun.

En samfélag sem býr yfir fleiri möguleikum en einn maður getur nýtt sér er samfélag þar sem fólk þarf að velja. Og það er síðan sjálfsagt að menn agiteri fyrir sínu vali. En það eina sem ekki er raunverulega í boði að velja er afnám þessa valfrelsis. Fólk þarf að fá að ráðstafa lífi sínu á persónulegan hátt.

Auðvitað er skynsamlegt að setja þessu frelsi skorður. Frelsi fólks til að skaða aðra er ekki í neinum skynsamlegum skilningi frelsi. „Frelsi“ frá menntun, heilsugæslu og umferðarreglum er ekki frelsi heldur.  Frelsi til fátæktar og fáfræði er ekki frelsi heldur. Það er sjálfsagt að hið opinbera stuðli ekki aðeins að formlegu frelsi heldur raunverulegu frelsi – með útrýmingu fátæktar og almennu menntakerfi t.d.

En að auki búum við við þannig kerfi að hið opinbera styður almannavilja hverju sinni og veitir verkefnum og málum brautargengi með krafti sínum og stærð.

Þjóðernissinnar eru misjafn hópur og margleitur. Sumir eru í raun ekkert annað en vesalingar. Óupplýstir og misheppnaðir pjakkar sem skortir allan grundvöll undir alvöru sjálfsvirðingu og reyna því að gera sér mat úr húðlitnum eða ætterninu. Aðrir eru ofur venjulegir íhaldsmenn – vilja að samfélagið verði eins og það var. Enn aðrir telja að við höfum vanrækt menningararfinn.

Það er hinsvegar nokkuð auðvelt að sjá hvort mönnum er í raun og veru alvara með þjóðernistali sínu. Þú þekkir þá á órunum. Íslensk menning hefur alltaf verið raunsæ. Fornmenningin var framsækin. Menn sem tala algjörlega úr takti við samfélagið sem þeir búa í eru ekki innblásnir anda norrænnar menningar. Þeir sem tala um stríð og refsingu svikara, skítaskinn og aðra óra eru bara að larpa. Þeir eru að herma eftir melódramatískum Könum – taka upp ósiði menningar sem er svo fráleit og fjarri öllu því sem íslensk menning er að ef þessi menning kæmist til áhrifa væri hún mesta menningarmengunarslys sögu Íslands. Þetta er sprottið úr einhverju kirkjuviðrini austurevrópsks innflytjanda sem hafði það eitt merkilegt á ferilskránni að finna upp rafmagnsdósaopnarann.

Flestir þjóðernissinnar segjast ekki vera rasistar. Þeir hafi ekkert á móti öðrum kynþáttum, þeir telji bara eðlilegt að hugsa um sinn kynþátt sérstaklega. Flestir þjóðernissinnar segjast ekkert hafa á móti öðrum þjóðum, þeir vilji bara að hver þjóð hugsi um sig og þrói áfram sín sérkenni í friði fyrir öðrum.

Ég hef þrautlesið a.m.k. þrjár heimasíður íslenskra þjóðernissinna síðustu tíu ár eða svo. Ekki ein þessara síðna inniheldur uppbyggilegt efni. Andúð á öðrum hefur einkennt þær allar. Mikið raus um svikara og stríð.

Þetta fólk er úr takti við umheim sinn og úr takti við íslenska menningu. Þetta fólk er að larpa, ekki lifa. Það situr við hlaðborð og snertir ekki á neinu og nöldrar bara um að það vanti harðfisk. Og í bræði sinni og tilfinningalegum vanþroska safnast það saman í einu horninu og talar um að réttast væri að hrinda öllum matnum niðrá gólf. Engum hugkvæmist að skottast út í búð og kaupa harðfisk á borðið.

Það er ekkert sem bannar fólki hvort sem það kallar sig Mjölni eða Védísi ótug/kt að upphefja þá menningu sem það vill. En í stað þess að lifa eftir hugsjónum sínum þá talar fólkið. Er hugfangið af fjarlægum abstrakt markmiðum, eins og þeim að rauðhærðir verði ekki til eftir hundrað ár eða blá augu eftir þrjúhundruð. Maður getur eins sest niður og nöldrað yfir því að sólin muni brenna út. Ekkert af þessu afsakar það að lifa ekki sínu lífi og gera þá menningu sýnilega sem maður vill að aðrir hjálpi til að varðveita.

Flestir rasistar eru rökvíst fólk með fínar hugmyndir á bak við yfirborð gremju og gagnsleysis. Flestir myndu alveg hafa eitthvað að bjóða sjálfum sér og samfélaginu ef þeir gætu stillt sig um að missa sig í ranghugmyndir og tuð. Því miður höfum við sem samfélag brugðist þessu fólki. Áherslan á pólitíska rétthugsun og dagleg misbeiting rökræðna elur ranghugmyndir með fólki. Maður gerir sjálfan sig að óvini fólks með endalausum uppnefningum, háði og þöggun.

Skólakerfið er ennfremur ekki nærri því nógu duglegt við að þjálfa fólk í að taka ábyrga, persónulega afstöðu. Þvert á móti óttast skólakerfið persónulega afstöðu. Þú mátt ekki iðka trú þína í skólanum því trúin er umdeild. Það er ekki nema steinsnar frá því að mega ekki klæða sig hommalega.

Við sem samfélag erum of upptekin af „hlutleysi“ til að átta okkur á öllum þeim möguleikum sem bjóðast. Megnið af þjóðinni les sömu bækurnar, horfir á sömu bíómyndirnar, finnst það sama um sömu mál og er ekki sjálfstætt á neinn hátt.

Við áttum okkur ekki á því að hlutleysið er tæki til að gefa fólki frið til að velja. Það standa of margir við hlaðborðið og passa sig á því að aðrir komist að – og borða ekki sjálfir.

Þeir „rasistar“ sem ég hef séð skrifa á netinu eru ekki vont fólk. Þeir eru ekki heldur heimskt fólk. Þeir eru vissulega oftast fólk sem mætti mennta sig meira (það sést t.d. á hugtakanotkun og stafsetningu) en það breytir ekki því að það dæmir þá ekki út leik. Ég held meira að segja að fleiri rasistar en færri séu að reyna að vanda sig við að lifa. Og ég held, og er raunar viss um það, að flestir af þeim sem hafa fengið á sig rasistastimpil í umræðum á netinu sýni fólki af öllum þjóðernum virðingu í daglega lífinu.

Þeir rasistar sem ég hef séð til og tjá sig á netinu eru ekki haturspúandi eiturmaskínur. Þeir eru ósköp einfaldlega fólk sem dottið er úr takti við möguleika sína til áhrifa. Margir eru ekki svo ólíkir t.d. kristnum íhaldsmönnum að því leyti að þeir vilja samfélag þar sem allir vilja það sama.

Þar liggur vandinn. Þú munt ekkert komast áfram ef þú vilt að allir vilji það sama og þú.

Það munu aldrei allir vilja það sama. Mannsandinn brýtur sér alltaf leið undan því. Ákveðinn hluti fólks mun alltaf vilja brjóta af sér samfélagsleg norm. Þessi þörf fyrir sjálfstæði og sérkenni er það sem íslensk fornmenning snýst um. Hún er það sem róttækni og nýjungagirni Akureyrar snérist um. Þessi menning mun aldrei verða södd á einkennum. Hún er drifin áfram af hvöt. Hvöt til að sjá hvað er handan við næsta horn. Hvöt til að mála hurðina sína í öðrum lit en nágranninn. Hvöt til sjálfstæðs lífs.

Jafnvel þótt engir litaðir menn væru á Íslandi myndu hinir snjóhvítu Íslendingar vilja fjölga þeim. Jafnvel bara vegna þess að það væru engir litaðir menn. Jafnvel þótt grunnskólabörn væru látin hlusta á langspil og rímur í hverri viku þá myndu sum þeirra sækja í djass, rokk og paunk.

Það er ekki hægt að halda aftur af fjölbreytinni. Það er einungis hægt að bæta við réttum á hlaðborðið, ekki henda réttum annarra af. Sá sem vill setja sitt fat í stað einhvers annars verður rekinn út í horn að tuða. Hann verður einfaldlega að finna auðan blett og setja sinn disk þar. Vona síðan að fólki þyki harðfiskur góður.

Ég er tilbúinn að vinna með hverjum sem er, hvort sem hann er rasisti eða ekki, í að auka veg og virðingu íslenskrar sögu og menningar. Hávamál eru dásamleg. Fornsögurnar æði. Íslenskar bókmenntir og alþýðumenning er sorglega vanrækt.

Ég er líka tilbúinn að verja rasista og hvern sem er fyrir ágangi pólitískrar rétthugsunar. Hún er oftar en ekki röng. En ég mun ekki samþykkja að löglegt vopn gegn pólitískri rétthugsun séu pólitískar ranghugmyndir.

Hugsana- og málfrelsi er ekkert til að óttast. Við förum það illa með málfrelsið hvorteðer. Langflestir sem haldið er niðri með málfrelsishöftum eru fólk sem býr yfir skoðunum, þekkingu eða lífsreynslu sem myndi auðga okkur ef við nenntum að hafa fyrir því að grafa eftir henni. En til að grafa þarf að kunna að ræða saman, rökræða og finna kjarnann. Höft á málfrelsi stafa fyrst og fremst af almennri vankunnáttu í samræðum.

Hávamál bjóða manni að vera auðmjúkur en hugsa sitt. Þegja og hlusta. Nema. Láta hvorki glepjast af útliti né auð.

Við ættum að fylgja þeim aðeins betur. Bæði þeir rétthugsandi og rasistarnir.

33 ummæli:

Nafnlaus sagði...

"Þeir eru vissulega oftast fólk sem mætti mennta sig meira (það sést t.d. á hugtakanotkun og stafsetningu)"

Stafsetning er ekki algildur mælikvarði á menntun.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Enda segi ég það ekki.

Eva Hauksdóttir sagði...

Góð grein eins og þín er von og vísa.

Eitt þekktasta dæmið um það hversu opnir forfeður okkar voru fyrir erlendum áhrifum er það hvernig þeir tóku við kristninni. Menn gátu metist um það hvor væri máttugri Ása-Þór eða Hvíti Kristur en almennt þótti bara gott mál að fá nýjan guð í hópinn. (Hvernig voldugir menn hegðuðu sér svo í tengslum við kristnitökuna er hörmungarsaga en það ofbeldi var ekki umburðarlyndinu að kenna heldur þvert á móti.)

Mig langar að spyrja þig um eitt í tengslum við rétthugsun. Þótt við virðumst um margt sammála greinir okkur á um eitt, þú lítur ekki á þjóðernissinna sem vonda menn. Það geri ég hins vegar. Það er algengt að fólk bæti því við, þegar það talar um vond viðhorf og illar gjörðir einhvers að viðkomandi sé "samt ekki vondur maður" (sem gefur þá um leið til kynna að sumir menn séu vondir, því ef allir menn væru góðir væri alger óþarfi að taka þetta fram.) Oft er lítil hugsun á bak við þetta, þetta er bara svona klisja, eitthvað sem fólk tekur fram til að gefa þá mynd af sér að það sé laust við dómhörku eða að tvíhyggja þess sé ekki svo öfgakennd að það trúi því að eðli mannsins sé svart-hvítt. Ég trúi því ekki að þú sért svo grunnhygginn og rétthugsandi að segja þetta í hugsunarleysi og þessvegna langar mig að vita hvað þú skilgreinir sem vondan mann.

Nafnlaus sagði...

Nú? M.t.t. stafsetningar mætti fólk mennta sig meira. Er stafsetningin ekki mælikvarðinn?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Flestir rasistar, held ég, eru ekki vondir menn vegna þess að þeir halda í mennskuna í mannlegum samskiptum þótt þeir hljómi oft groddaralegir í ræðu og riti.

Sjáðu Tom Metzger, hugmyndafræðing kynþáttastríðsins og framámann í Ku Klux Klan. Louis Theroux fer í heimsókn til hans og þá er hann hinn kumpánlegasti við kunningja sína, jafnvel þá lituðu.

Þegar hann horfðist í augu við dökkan mann, bauð hann góðan daginn. Fór svo heim og kallaði hann skítaskinn í útvarpinu.

Dygðir rasistanna eru nokkurnveginn þær sömu og annarra: tryggð, vinátta, kærleikur, samstaða.

Það að þeir séu fullir af hatursfullum og heimskulegum áróðri er ekkert einsdæmi. Rasistar tala eins um innflytjendur (eða jafnvel betur) en margir frjálslyndir og upplýstir vinir mínir tala um útrásarvíkinga eða sjálfstæðismenn. Álit sumra sjálfstæðismanna á róttækum vinstri mönnum er ekkert betra.

Við búum í samfélagi þar sem það er félagslega viðurkennt að hatast við aðra og eilíeneita þá. Við-vs-hinir er þjóðaríþrótt.

Við eigum hvorki að halda rasistum undir stærra eða smærra stækkunargleri en okkur sjálf. Rasismi, kapítalismi og kommúnismi eru allt stefnur með blóðugt kjölfar.

Ekkert af þessu fólki er slæmt, það lítur bara svo á að sumir séu undanþegnir virðingu þeirra.

Það er slæmt.

Almenn, gagnrýnin umræða getur stungið á þessi kýli. Í staðinn fyrir almennt, gagnrýnislaust uppklapp. En því miður er hið síðarnefnda algengara.

Eva Hauksdóttir sagði...

Eru þá vondir menn ekki til?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Tja,

til að geta skilgreint „vondan mann“ þarf hann væntanlega að valda öðrum óréttlætanlegum sársauka eða skaða gegn sinni betri vitund.

Síðan þyrfti að skilgreina „óréttlætanlegan sársauka eða skaða“ og „betri vitund.“

Til að hægt sé að kalla einhvern vondan þarf að fylgja honum þannig úr hlaði og hann að vera frá náttúrunnar hendi þannig að hann sé fær um að taka siðferðilegar ákvarðanir.

Flestir íslenskir rasistar held ég að sleppi á „óréttlætanlegan“ smugunni. Þeir tala kannski svona og valda með því einhverjum sársauka – en ég held að sá skaði sé meiri sem fylgir því að banna slíkar hugsanir eða orð.

Þar með er auðvitað ekki sagt að þeir séu sérstaklega „gott fólk“ heldur. Það er ægilega langt bil á milli góðra og vondra.

Heldur þú að ég sé á villigötum?

Eva sagði...

Nei ég held ekki að þú sért á "villigötum" þótt þú sért ekki á nákvæmlega sömu götu og ég. Held m.a.s. að þínar götur liggi samhliða mínum á köflum, og liggi að sömu áfangastöðum.

Þú talar um að íslenskir þjóðernissinnar sleppi á "óréttlætanlegan" smugunni. Hver er þá réttlæting þeirra? Sjálf sé ég ekkert sem réttlætir þessa hugmyndafræði og er hallari undir hinn kostinn "gegn betri vitund", semsagt að þau hreinlega viti ekki hvað þau eru að tala um.

Eva sagði...

En þú myndir semsagt ekki kalla Metzger illmenni?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

„Óréttlætanlegt-smugan“ felur ekki í sér að allir þurfi að réttlæta allt sem þeir gera. Aðeins að óréttlætanlegt sé að umbera það sem þeir gera, annarra vegna.

Umburðarlyndi krefst þess af okkur að við þolum öðrum storkun upp að því marki að við verðum fyrir raunverulegum og óumdeilanlegum skaða. Ekki aðeins að stolt okkar eða tilfinningar séu særðar.

Ég útskýri að ofan að í mikilvægum atriðum byggi afstaða „rasistanna“ á pólitískri ranghugmynd og órum. En jafnvel það er ekki í eðli sínu eitthvað sem þarf að berja í duftið. Meðan þeir halda sig réttu megin við þá línu sem aðskilur þeirra frelsi og annarra.

Ég veit ekki hvort þú sást þáttinn hans Theroux um Metzger. Mæli með að þú kíkir á hann:

http://www.youtube.com/watch?v=wTWT8xaCB5A

Byrjunin finnst mér miklu meira ógnvekjandi en sá hluti sem snýst um Metzger-karlinn. Hann verður voða mannlegur og aumkunnarverður þegar líður á.

Skoðaðu myndbandið og segðu mér hvað þér finnst.

Ásgeir H sagði...

"Þegar hann horfðist í augu við dökkan mann, bauð hann góðan daginn. Fór svo heim og kallaði hann skítaskinn í útvarpinu."

Bíddu, þetta gerir hann bara verri, hræsnara í viðbót við rasismann. Ég er alveg sammála því að við erum flest of gjörn á að kalla fólk vont sökum einfalds skoðanaágreinings, en þarna liggur hins vegar einmitt vandamálið í hina áttina - "hann er svo góður kall" syndrómið. Svona á milli þess sem hann spúði hatri og hugsanlega einhverju verra, sem smeðjulegur uppgerðarkumpánaskapur hefur kannski orðið til þess að einhverjir eru blindir fyrir hatrinu.

Ásgeir H sagði...

Fantafínn pistil annars framan af - það var eitthvað að bögga mig þarna í restina. Kannski helst þessi skot á pólitíska rétthugsun - sem ég myndi vilja sjá þinn skilning á, því fá hugtök hafa tekið jafn miklum stakkaskiptum undanfarin misseri. Þetta var eitthvað sem manni hugnaðist ekki; orð sem vísaði í vanahugsun, endurtuggnar gamlar klisjur, vissa átakafælni og pempíuskap. En eftir að Tryggvi Þór Herbertsson og Jakob Bjarnar byrjuðu að tala um "góða fólkið" eins og það væri eitthvað slæmt að vera góður þá er eins og orðið sé skilið bókstaflegar en áður, sem hnjóðsyrði um það að hugsa rétt - sem ætti einmitt að vera göfugt markmið (þótt það megi deila um að manni takist nokkurn tímann að hugsa rétt).

Eva sagði...

Ég hef notað pólitísk rétthugsun um það þegar hollustan við tiltekinn málstað verður almennri skynsemi yfirsterkari.

Það er pólitísk rétthugsun sem er að verki þegar fólk sem telur að það sé vafasamt að dæma 18 ára pilt sem sefur hjá 16 ára sjálfviljugri stúlku um barnamisnotkun er ásakað um að vera þar með að réttlæta kynferðisofbeldi eða gera lítið úr því. Það er pólitísk rétthugsun þegar trúboðar sem fá "frumstæða"ættbálka til að hverfa frá stóðskaðlegum siðum í tengslum við manndómsvígslur eru ásakaðir um að eyðileggja menningu þeirra og það er óþarfa virðing við pólitíska rétthugsun sem birtist í því þegar ég set frumstæða í gæsalappir eins og til að hafa á hreinu að ég líti ekki niður á frumstæð samfélög.

Ég sé það hinsvegar ekki sem pólitíska rétthugsun þótt maður vilji að kynferðisofbeldi sé tekið alvarlega eða að yfirvöld láti ógert að skipta sér af klæðaburði muslima. Það er heldur ekki pólitísk rétthugsun að hafa andúð menningarhrokanum sem birtist í því að hjálpa litlum og fátækum samfélögum að byggja skóla og nota tækifærið til að smygla inn á þau kristindómi í leiðinni en ég hef verið sökuð um pólitíska rétthugsun fyrir þetta allt.

Hvað áttu annars við með pólitískri rétthugsun í þessu sambandi Ragnar Þór? Líturðu á það sem pólitíska rétthugsun að setja rétt fólks til að búa þar sem það sjálft kýs ofar hættunni á því að einhver útlitseinkenni hvítra verði sjaldséðari? Er það pólitísk rétthugsun að álíta menningunni ekki stafa neitt meiri hætta af Filippseyingum og Tailendingum en sjónvarpinu og internetinu?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ásgeir, á nákvæmlega sama hátt og nýjungagirni og drifkraftur mun alltaf á endanum eyðileggja allar tilraunir til að steypa alla í sama mót – mun aldrei takast að skapa eitt allsherjar gildismat sem stýrir orðræðunni.

PC er ekkert eitt, það er bæði til staðbundið og nærri almennt. Skilgreining Evu er frábær. Hollusta við málstað verður skynseminni yfirsterkari. Rök hætta að bíta á tilteknum viðhorfum og þykja jafnvel ekki eiga við. Sanngirni er lögð á hilluna og í stað er hin „rétta sýn“ fest í sessi með því að vísa sífellt til hennar sem gefnum hlut. Tilraunir til að höggva í hana eru ýmist hunsaðar, taldar óviðeigandi eða jafnvel taldar festa rétthugsunina í sessi.

Dæmi: Það er pólitísk rétthugsun sem viðheldur hatri margra vinstri manna í garð afla í sjálfstæðisflokknum og Davíð Oddsson. Það er pólitísk rétthugsun að rökræður séu komnar á endapunkt ef einhver líkir viðmælandanum við nasista eða Hitler.

Pólitísk rétthugsun vefur ákveðin viðfangsefni inn í bómull eða gaddavír og kemur þannig í veg fyrir að almenn umræða og orðræða nái á þeim tökum eins og öðrum viðfangsefnum.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

og Ásgeir,

það er skárra að vera hræsnari í hatursboðskap en heill og óskiptur. Auðvitað eru til illmenni. Hatursfullar rasitabullur sem valda ógn og skelfingu. Og auðvitað er Metzger ekkert lamb. Ég var einungis að segja að eftir að hafa horft á þennan tiltekna þátt þá fyllist maður frekar meðaumkunn en reiði. Sem ég held að sé nokkuð almenn tilfinning þegar maður skoðar lífsferil jafnvel harðsvíruðustu glæpamanna.

Ég hef trú á hverjum einasta manni. Ég hef ekki þörf fyrir að flokka þá eftir yfirborðskenndum einkennum í góða og vonda. Góðir og vondir geta orðið að gagni ef allri fá rödd og samfélagið setur þau viðmið (og fylgir þeim eftir) að raddir allra fái að heyrast, en um leið að fólk fái þjálfun í að tjá hug sinn, beita sig aga og ber ábyrgð á eigin málflutningi.

Í stað þess að fólki sé kennt (eins og nú er) að virða beri afstöðu hvers og eins. Það er nóg að segja: „Þetta er bara það sem mér finnst“ og það liggur við að það sé óforskammað að fetta fingur út í það.

Þegar menn vanrækja samræðuna, gagnrýnina og góða umræðusiði taka aðrir við. Upphrópanir á víxl og umvandanir.

Þið vinstrimenn eruð nefnilega sekir um það sama og rasistarnir og kristna liðið. Þið viljið að allir vilji það sama og þið.

En jafnvel þótt ykkur tækist að gera grunnatriði sósíalisma óumdeild og almenn – þá myndi verða til andóf. VEGNA þess að atriðin væru óumdeild. Þetta andóf er það sem heldur menningunni virkri og vakandi.

En þetta andóf verður alltaf verra og heimskulegra þegar fólk verður þess áskynja að sumt megi ekki ræða eða hugsa. Þá situr fólk uppi með jábræður og hugmyndafræðin fær að vaxa fyrir utan allt og til hliðar við umræðuna. Engin gagnrýni á sér stað – ekkert aðhald. Aðeins: „Þú átt ekki að vera þarna til að byrja með.“

Þegar samkynhneigðir voru á sínum tíma að brjótast úr höftum PC-samfélags sem gerði ekki ráð fyrir þeim voru það þeir róttækustu sem brutust fyrst fram. Samfélag þeirra óx í tómarúmi. Það kom engum við nema hommunum, því við vildum ekki viðurkenna tilvist þess eða tilgang. Vildum bara ekki vita af því. Þess vegna varð samfélagið ofsakennt og að mörgu leyti skaðlegt. Kynhegðun og samskipti voru áhættusækin og sumpart brengluð. Hedónismi tók öll völd. Samt voru miklu fleiri hommar en hedónistar. Hommar, hefur síðan komið í ljós, eru ekkert áhættusæknari eða ótrúari en aðrir. Þetta er eins venjulegt fólk og ég og þú. Hversu margir ætli hafi dáið úr alnæmi vegna þess að fjörbrot hommahunsunarsamfélagsins ýttu undir ofsa?

Þeir rasistar sem tjá sig í löngu máli á netinu eru fyrst og fremst að halda á lofti nokkrum mjög rökréttum punktum. Þá hlýtur að mega rökræða. Hvers vegna er stolt af því að vera hvítur afkomandi víkinga til marks um eitthvað slæmt en frábært að vera stoltur afkomandi Afríkubúa? Hvers vegna mátti halda: Svarta ungfrú Ameríka – en ekki hvíta? Hvers vegna má ekki berjast fyrir því að innflytjendur fái ekki að traðka á mannréttindum hvers annars (t.d. með stofnanagerðri kvennakúgun)?

Af hverju í ósköpunum má ekki bara tala um hlutina.

Ég skal segja þér af hverju.

Það er vegna þess hversu ofsalega óheiðarleg og léleg við erum í að rökræða yfirleitt. Við erum ekki að rökræða neitt. Við erum meira og minna ófær um að hlusta á rök. Ef rök eru lögð á borð fyrir okkur, tökum við þau upp og metum hversu vel okkur er við þau eða hvort þau angra okkur. Síðan leggjum við þau frá okkur ef þau hugnast okkur ekki – en deilum þeim um fésbókina þvera og endilanga ef þau staðfesta það sem okkur fannst fyrir.

Þessu verður að breyta.

Eva sagði...

Hvað varðar Metzger; tilhneigingin til að líta á það jákvæða í hverjum manni er dýrmæt og já, samúðin með öllu sem grætur er einn þeirra eiginleika sem við eigum að leggja rækt við, líka gagnvart skíthælum. Ég legg ekki til að við ofsækjum rasista því þótt ég beri nákvæmlega enga virðingu fyrir skoðunum þeirra þá eru þeir nú manneskjur samt.

En að sjá eitthvað mannlegt í skepnu eins og Metzger og hugsa þar með að hann sé hún samt sem áður góður kall svona inni við beinið, það skulum við varast. Þegar allt kemur til alls er auðvelt að fyrirgefa nánast hvað sem er svo fremi sem það bitnar ekki á einhverjum sem er manni kær og ég held að fórnarlömbum Ku Klux Klan hafi hreint ekki þótt Metzger góður kall þótt hann hafi svosem getað þvingað sig til að brosa til svertingja.

Innflytjendastefna ætti ekki að snúast um það hvort Ögmundur hefur nú samt sem áður samúð með þeim flóttamönnum sem hann rekur í klær þrælahaldara eða hvort Mjölnir gæti alveg tekið í höndina á Gyðingi án þess að æla þótt hann vilji þá ekki nálægt sér. Því síður ætti flóttamannastefna að að snúast um tilfinningar rasista heldur um velferð fórnarlamba þeirra. Hún ætti að snúast um það hvort lifandi kona sem heitir Pyranka fær að ráða því hverjum hún sefur hjá og hvort Hazzan litli Raza lifir eða deyr. Hazzan er ekki lengur "lítill" í sama skilningi og þegar maður talar um unglinga en þó er hann nú, 25 ára, á sama stað í lífinu og þegar hann sem unglingur flúði frá Afghanistan eftir að tengdafjölskyldan drap ungu konuna hans, vitandi að hann mun aldrei framar sjá fjölskyldu sína. Þessi ár sem ungir Evrópumenn nota til að afla sér menntunar, vinna og ferðast að eigin vali, koma sér upp heimili, skemmta sér og þroskast, hefur Hazzan verið á þvælingi milli flóttamannabúða, hrakinn frá landi til lands. Ekki af því að menningu okkar stafi ógn af honum heldur vegna þess að fólk eins og Skúli Jakobsson og starfsfólk útlendingastofnunar, álítur hann vera af óæðri kynþætti. Á viðhorfum þeirra er enginn eðlismunur, Skúli er bara pínulítið öfgafyllri.

Og hvað er vonska ef ekki sú hugsun og hegðun sem kallar nauðung og þjáningar, jafnvel dauða yfir manneskjur sem hafa unnið sér það eitt til óhelgi að fæðast í fjarlægu landi? Ef sá skortur á meðlíðun heitir ekki menningarhroki, kynþáttahatur og vonska, hvað heitir hann þá?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég er nokkuð viss um það að starfsfólk útlendingastofnunar er ekki rasitar. Og það sé meira að segja dálítið ljótt að halda því fram.

Staðan í þeim málum stafar einmitt af skorti á rökræðu. Þú getur talið upp eins margar sögur af ofsóttum ungmennum og þú vilt. Hinum megin borðsins horfa menn á málið frá öðrum hól. Þar sjá menn holskeflu allskyns fólks sem liggur við landamæri Schengen í þeirri von að finna veikan punkt. Þeir sem sýni minni „festu“ fái yfir sig heilu gámana af fólki.

Auðvitað er sannleikur í báðum sjónarmiðum.

Þessar tvær afstöður þurfa að fara að ræða saman. Án þess að íhaldið kalli hina ábyrgðarlausa, trúgjarna aktívista og án þess að hinir kalli íhaldið rasista.

Eva sagði...

Hvað er rasismi?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Að mikla fyrir sér mun kynþátta?

Að vanmeta félagsleg áhrif á menningarmun og gefa sér að munur (jákvæður eða neikvæður) stafi af erfðafræðilegum breytileika.

Eva sagði...

Þú spyrð hvað mér finnist um þennan þátt hans Lois Theroux. Ég hafði ekki séð hann fyrr en nú er ég búin að horfa á alla bútana tvisvar. Hvað á mér að finnast? Ertu að fiska eftir því hvort ég sjái eitthvað mannlegt í rasistum? Ég hef aldrei efast um að rasistar búi yfir sömu mannlegu tilfinningum og annað fólk en það gerir hugmyndafræði þeirra ekki hótinu skárri.

Ég er algerlega sammála því að vonda hugmyndafræði á ekki að reyna að þagga niður, heldur einmitt að ræða hana. Bæði vegna þess að því fleiri sjónarmið sem koma fram (enda þótt sum þeirra séu sjúk og röng) því betur sjáum við heildarmyndina en einnig vegna þess að sjúkdóma er ekki lækna með því að neita að horfast í augu við þá.

Eva sagði...

Ég skilgreini kynþáttahyggju sem það sjónarmið að náttúrulegar erfðir og/eða menningarbakgrunnur geri sumt fólk öðru rétthærra.

Kynþáttahyggja (rasismi) birtist oftast í tilhneigingu til að setja fremur ómerkilega hagsmuni þeirra sem við teljum okkar fólk ofar mannréttindum hinna.

Það er misjafnt hversu langt hugmyndin um hagsmuni "okkar fólks" gengur. Hjá sköpunarhreyfingunni birtist hagsmunabaráttan í hreinræktuðu kynþáttahatri. Hagsmunir okkar af því að eiga alla jörðina ein, gefa okkur rétt til að útrýma öðrum kynstofnum en hinum hvíta, auk þeirra hvítu sem ekki eru þessu gildismati sammála. Aðeins metnaðarlausari heimskingjar telja það hagsmuni sína að þurfa ekki að verða fyrir því böggi að mæta svörtum manni á götu þótt þeir telji kannski ekki nauðsynlegt að útrýma þeim.

Hjá útlendingastofnun ríkir það viðhorf að hagsmunir okkar af því að þurfa ekki að takast á við menningarárekstra séu mikilvægari en réttur annarra til lífs og velferðar. Það er vægara afbrigði af rasisma en grunnhugmyndin er sú sama.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Um Louis: sammála öllu. En tel einmitt að þessi „mennska“ sem við deilum langflest sé lykillinn að því að gera nýta þjóðfélagsþegna, jafnvel úr „rasistum“. Í því samhengi er kjörið að fyrirbyggja sókn í öfgarnar með því að viðurkenna „gateway“dröggið – rökréttu hugsanirnar sem rasistar halda á lofti til að lokka fólk til fylgis við sig og inn í órana og villuna.

Um rasisma: ég er ekki viss um að skilgreiningin gangi upp. Þegar kemur að hagsmunum manna þá velja langflestir sína hagsmuni fram yfir annarra (þótt andstaðan sé vissulega til). David Hume sagði: „Það stangast ekki á við skynsemi að maður kjósi tortímingu heimsins fram yfir skráveifu á fingur sinn.“

Það er ekki sjálfgefið að maður taki hagsmuni manns eigin og beri saman við hagsmuni hælisleitanda og velji það sem er meira.

Og jafnvel þótt þú samþykkir að beita þessari rökvísu aðferð er nær ómögulegt að framfylgja henni. Hún er ekki einföld í framkvæmd. Það sem þarf að hafa í huga er t.d.:

1. Hversu trúverðug er saga X?
2. Hvaða afleiðingar gæti það haft að hleypa X inn á þessum forsendum.
2.a. Hversu mikinn stuðning þyrfti X til að aðlagast (líklega þeim mun meiri eftir því sem bakgrunnurinn er skelfilegri og þ.a.l. meiri ástæða til að hleypa honum inn)
2.a.i. Er sá stuðningur i boði
2.b. Hversu margir kæmu á eftir X með svipaða sögu?
2.b.i Hversu margir af þeim væru að segja satt.
2.b.ii Hversu vel erum við í stakk búinn að taka við miklum fjölda fólks, hvort sem það færi vist eða ekki?
... etc. etc.

Ég er því hræddur um aðeinfaldur hagsmunaútreikningur muni aldrei duga til eða vera hælisleitiendum í hag.

Það er mjög varasamt að kalla fólk rasista vegna þess að það metur hagsmuni með öðrum hætti en þú.

Það þarf að finna sameiginlegan grundvöll mannúðarþjónustu á landsvísu (ætti að vera hægt með þennan dómsmálaráðherra). Taka síðan alla hagsmunaþætti upp á borð. Greina og ræða. Átta sig á hættum og reyna að smíða kerfi sem fylgir réttum anda en hefur fæsta galla.

Eitthvað svona er reynt að gera með samþjóðlegum verkefnum í þessum málum en því miður virðist enn vera svo að þjóðir heims vilja ekki vinna saman að þessum málum – heldur fagna mjög ef þær geta einangrað vandamálið hjá öðrum.

Eva sagði...

Fólk er alveg tilbúið til að slá af hagsmunum sínum þegar það eru "okkars" sem þurfa hjálp. Hvað eftir annað sér maður skilaboð á borð við; "ekki gefa peninga til hjálparstarfs í Afríku á meðan enn eru fátæklingar á Íslandi." Í gær sá ég á fb skilaboð frá konu sem bað Dani að íhuga það áður en þeir gæfu peninga til þriðja heimsins að í Danmörku væru hermenn sem hefðu ekki viðeigandi búnað. Aldrei, aldrei hef ég séð skilaboð á borð við "ekki gefa peninga til krabbameinssjúkra á meðan enn eru biðlistar eftir brjósklosaðgerðum." Það er nefnilega sjálfsagt að gæta hagsmuna allra svo fremi sem tuskuhausar og halanegrar teljast ekki með.

Þetta með trúverðugleikann er helsta réttlætingin. Á fimm ára tímabili var meira en 600 manns vísað frá á móti 5 sem fengu hæli. Skilaboðin eru "þú ert bara að ljúga þessu". Sömu skilaboð og þolendur kynferðisglæpa fengu til skamms tíma og nánast allir sem kæra lögregluofbeldi fá í dag. Hugsandi fólk hlýtur að sjá í gegnum þetta.

Önnur helstu rökin fyrir því að hjálpa ekki nauðstöddum eru þau að þetta snúist allt um lög og almenna stefnu en ekki einstaka mál. En málið er bara að þetta snýst nú samt um manneskjur. Þú horfir ekki í augun á manneskju og segir sem svo: "Við ætlum að vísa þér úr landi. Við vitum að fyrir þig þýðir það fátækt eða nauðungarhjónaband, þrælahald, pyntingar, ofsóknir eða dauði. Málið er bara að við nennum ekki að díla við vesenið sem það kostar að fylla landið af skítaskinnum eins og þér. Við höfum samt alveg fulla samúð með þér (af því að innst inni erum við rasistar svo mannlegir) og biðjum þig að taka þessu ekki persónulega, svona bara eru reglurnar." Nei, þú myndir ekki gera það en það er auðvelt að skrifa ópersónulegt bréf um að þar sem ekki hafi tekist að fullsanna að ástæða þín fyrir að yfirgefa ástvini þína og heimahaga, leggja á þig hættuför yfir sjó og land með glæpamenn á hælunum, búa í ruslagámi í Grikklandi mánuðum saman og bókstaflega draga fram lífið, hafi ekki bara svona djók til að til að hafa vestræn stjórnvöld að fíflum, þá sé þér nú með tilvísan til einhverrar reglugerðar vísað út í hafsauga.

Það er auðvelt að sjá í gegnum hreinræktað kynþáttahatur. Sú kynþáttahyggja sem felur sig bak við reglugerðir og réttlætir ódæði sín með því að mannréttindi hafi svo mikið vesen í för með sér, er þó öllu hættulegri og mér finnst skelfilegt að klárt og velviljað fólk skuli reyna að afsaka það.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Trúverðugleikinn er vissulega stórt mál. En enn stærra held ég sé óttinn við afleiðingarnar. Að það bíði tug- eða hundruð þúsund manna við landamæri Vesturlanda og að þetta fólk muni streyma þar inn sem aðgangur er auðveldastur. Og þetta fólk sé af öllum sauðahúsum.

Og þótt þú eigir auka 5 þúsund kall í veskinu þínu þá sé til lítils að gefa fyrstu fimm götubörnunum sem þú hittir pening – því þá muni streyma að þér heilir hópar sem þú getur ekki hjálpað.

Nær væri að reyna að finna almenn úrræði en bjarga einum í einu.

Sá, sem svona hugsar, er ekkert endilega rasisti.

Eva sagði...

Enda myndi ég sennilega trúa því að rasismi væri ekki helsti drifkraftur útlendingastofnunar og sambærilegra stofnana í öðrum löndum en menn væru raunverulega að vinna að einhverjum almennum lausnum en lausnin virðist nú aðallega fólgin í því að reyna að losna við sem flesta.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Það, held ég, er vegna úrræðaleysis.

Íslendingar horfa upp á skógareld og halda hikandi á lítilli vatnsfötu. Er nema von að menn rjúki ekki inn í eldhafið?

Eva sagði...

Já en í stað þess að segja við alla hina sem halda á aðeins stærri vatnsfötum, "ok, hvernig eigum við að skipuleggja slökkvistarfið saman" þá segja Íslendingar "sko, fyrst við komumst upp með að láta Ítali, Grikki og Norðmenn um þetta, þá ætlum við ekki að með í þessu slökkvistarfi."

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Þessu er ég hjartanlega sammála. En þú veist hvað gerist þegar menn hittast til að skipuleggja slökkvistarfið. Þeir segja: „Gott fólk, við vitum að þið standið í ljósum logum. En – ekki fyrir ykkar litla líf koma til okkar, þá dreifið þið bara bálinu. Sitjið sem fastast og við komum til ykkar ... vonandi.“

Og svo reyna menn að viðhalda eymd flóttamanna til að minnka hvatann.

Og þetta er bölvuð skítadílemma. Þjóðir heims nota gríðarlegt fjármagn í aðstoð við fólk í slæmum aðstæðum en það eru þúsund skoðanir og stefnur sem ná ekki saman í neinni einni áætlun. Ég er sjálfur að vera dálítið skotinn í hugmynd gamals stærðfræðikennara á eftirlaunum. Hún felur í sér einhverskonar „vinabandalög“ þjóða. Þ.e. að mest velmegandi þjóðirnar hjálpi þeim verstmegandi milliliðalaust og með beinum hætti. Nýti sína eigin innviði og þekkingu og gefi ekki bara fé, heldur þekkingu líka. Og, það sem best er, hafi kost á að læra af systraþjóðinni. Þetta má gera ÁN þess að auka útgjöld til mannúðarmála.

Og þótt Ísand sé í augnablikinu í þriðja flokknum, þ.e. ríki sem hafa nóg með sjálf sig, þá gætu t.d. norðulandaþjóðirnar tekið sig að einhverju leyti saman og hjálpað til í samsvarandi flokki fátækari þjóða.

Það er yndisleg tilhugsun að hingað komi til náms fólk frá fjarlægum vinaþjóðum og að við sendum okkar fólk þangað til að nema af þeim.

Þetta gæti jafnvel tekist vegna þess að þetta byggir á staðbundnum áherslum. Það þarf ekki að fá Grikkland, Þýskaland og Spán til að samþykkja allt í smáatriðum.

Það leysir nefnilega engan vanda að þurrka upp blóð úr blæðandi sári jafnóðum. Þótt það lagi lítið meira að láta það safnast í polla eins og nú er gert.

Á skal að ósi stemma.

En hér getur þú séð hugmyndina útskýrða betur:

http://maurildi.blogspot.com/2010/12/strfrin-og-rounarasto.html

Eva sagði...

Þetta virðist góð hugmynd.

Skúli Jakobsson sagði...

Pólitísk Rétthugsun ER trú og Guð Pólitískrar Rétthugsunar er Adólf Hitler.

Þessi pistill þinn Ragnar er eins og við mátti búast, enda byggður upp á röngum forsendum. Kynstofnar/þættir eru EKKI eins, hvorki líkamlega né andlega.


Skoðum aðeins fleiri röksemdarfærslur sem svokallaðra and-rasistar nota:
Hvers vegna verða hvít lönd að leyfa innflytjendur? Almennt notuð röksemd fyrir því að Ameríka verður að leyfa innflytjendur er að hvítt fólk tók landið af frumbyggjum Ameríku. Ef það er í raun þannig þá getur maður byrjað að velta því fyrir sér hvers vegna Þýskaland verði að leyfa innflytjendur. Því eins og við öll vitum þá tóku Þjóðverjar aldrei landið frá frumbyggjum né neinum öðrum hópi and-hvítra.
Svo tekur þú eftir því að and-rasistar breyta röksemdarfærslu sinni. Þeir munu nú byrja að tala um Vondu Nasistana, Hitler og Helförina. Þeir segja að það væri skömm ef Þýskaland borgaði ekki til baka, með svona sögu, myndi mismuna og ekki taka inn and-hvíta.
En hvað um Bretland og Frakkland? Bretland og Frakkland tóku ekkert land frá nokkrum né studdu þau Hitler. Takið eftir því að and-rasistar breyta röksemdarfærslu sinni aftur og þykjast vera hlutlæglega áhugasamir um að fyrrum nýlenduveldi taki inn innflytjendur frá fyrrum nýlendum sínum.
Hvað um Ísland? Fólkið á Íslandi tóku landið ekki frá neinum, né studdi það Hitler, né átti það nokkurs konar nýlendur. Enn og aftur þá breyta and-rasistar röksemdarfærslum sínum til stuðnings við innflytjendur og segja að Ísland þurfi fleiri vinnandi hendur vegna öldrunar.
Ef þú hefur rökrætt við svokallaða and-rasista þá tekur þú eftir því að þeir hafa alltaf mörg rök fyrir því að hvít lönd verða að leyfa innflytjendur. Þessi rök, ef tekin ein og sér, hljóma ósvikin.
Á hinn bóginn, skoðum Japan; Japan var bandamaður Hitlers, hélt nýlendur og hefur líka aldraðan fólksfjölda. En Japan hefur ekki fjölmenna innflytjenda hópa úr þróunarríkjunum. Fordæma and-rasistar Japan og ásaka Japan um að vera rasískt land? Nei! Það er vegna þess að and-rasistar eru eingöngu and-hvítir, ekki and-Asískir.
Hver sá sem mótmælir þessari stefnu er að sjálfvirkni ásakaður um að vera rasisti.
Stefnan segir að hvíta kynið sé samfélagsleg kenning.....nema þegar einhver er ásakaður.
Önnur röksemdarfærsla er á þá leið að hvíta kynið sé ekki til og þess vegna sé engin ástæða til að varðveita það. Hver er hvítur, spyrja and-rasistar?
And-hvítir þykjast eiga í vandamálum með að bera kenni á þá sem eru hvítir og þá sem eru það ekki þegar fólk sem vill vernda hvíta kynið býður þeim birginn. En á sama tíma þá hafa þeir engin vandamál að bera kennsl á hver sé hvítur þegar þeir tala um þrælahald, nýlendustefnu, Helförina, mismunun, rasisma og svo framvegis.
Niðurstöður rannsóknar var birt í Febrúar hefti American Journal of Human Genetics. Rannsóknin er sú langstærsta fram að þessu, með 3.636 einstaklinga sem allir báru kennsl á sig sem annað hvort Hvíta, Afríku-Ameríkana, Austur-Asíska eða Rómansk Ameríska. Af þeim öllum, voru aðeins fimm einstaklingar sem DNA bar ekki saman við þann reit sem þeir hökuðu við í upphafi rannsóknarinnar.

And-rasistar vita, eins og allir, hver er hvítur og hver er það ekki. Ástæðan fyrir því að þeir neita tilveru hvíta kynsins er vegna þess að þeir eru að réttlæta hvítt þjóðarmorð. Og mundu; ekkert réttlætir þjóðarmorð! And-rasistar er bara dulorð um and-hvíta.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Skúli, þú byrjar á óskiljanlegum órum um PC og Adolf Hitler. Sleppum því, skil það ekki.

Svo segir þú að pistill minn byggi á röngum forsendum.

Svo ferðu að velta fyrir þér öðrum rökum og svara þeim.

Aðeins eitt af þessu kemur mér eitthvað við. Þú svarar semsagt pistli mínum með þessum rökum:

„Kynþættir eru VÍST ólíkir.“

Ég held svei mér þá að ég hafi hvergi haft orð á því í pistlinum að þeir væru eins. Eða að einsleitni kynstofna væri einhver meginröksemd í máli mínu.

Meginröksemd mín, hafi hún farið framhjá þér, er þessi:

Hvorki þjóðernissinnar né aðrir munu ná neinu fram vegna þess að allar stefnur sem snúa að því að láta alla „vilja“ einn sameinaðan þjóðarvilja – eru dæmdar til að mislukkast. Fólk mun alltaf leitast eftir fjölbreytni – og það var raunar það sem vakti fyrir frumbyggjum Íslands. Fjölbreytni og frelsi er ekki úr takti við norræna menningu, heldur lykilþáttur í henni. Þessi óraunhæfa sýn veldur því að þjóðernissinnar eru óramenn, sem því miður tryggja með óraunsæi sínu og ofsa, að þær góðu ábendingar og hugmyndir sem til staðar eru, drukkna bak við bullið. Með þessu eru þjóðernissinar að vinna meiri skaða á menningararfinum en gagn.

Þessu áttu að svara. Ekki einhverjum fyrirframgefnum rökum með fyrirframhugsuðum langhundum.

Skúli Jakobsson sagði...

Þá er um tómt mál að tala okkar á milli því ég er ekki þjóðernissinni heldur Hvítur kynstofnssinni.
Gullna reglan mín er: Það sem er gott fyrir Hvíta kynstofninn er hin mest dyggð; það sem er slæmt fyrir Hvíta kynstofninn er hin versti glæpur.

Fjölbreytni og frelsi er, já, lykilþáttur í framtíðar möguleika Hvíta stofnsins. Vandamálið hingað til er að þessi fjölbreytni og frelsið hefur verið notað utan hans og gegn honum af Hvítum and-Hvítum svikurum. Fólki sem lítur út eins og ég en hefur enga hollustu við mig.

Það sem þú segir um "Hvorki þjóðernissinnar né aðrir munu ná neinu fram vegna þess að allar stefnur sem snúa að því að láta alla „vilja“ einn sameinaðan þjóðarvilja – eru dæmdar til að mislukkast" er ég algerlega sammála.
Við köllum það "Wordism". Bókstafstrú er ágætis Íslenskt orð sem á vel við þetta.
Og það er einmitt ein bókstafstrúin (pólitísk rétthugsun), alls ráðandi í Hvítum löndum í dag, sem ég er að berjast gegn með þessum hóp, BUGS kallar hann sig.
Sjá hér: http://www.whitakeronline.org/blog/
Vill einnig benda þér á fjölmargar greinar Bobs Whitakers gegn Bókstafstrú og öðru á: http://www.nationalsalvation.net/

Held að þarna gætir þú, Ragnar, vopnað þig vel upp gegn bókstafstrú almennt.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ókei, Skúli. Við erum sammála um sumt, ósammála um annað. Ég veit ekki nóg um smáatriðin í hugmyndafræði þinni til að leggja mat á hana.

Ég geri ráð fyrir að þú viljir koma hugmyndafræðinni sem skýrast á framfæri og skora á þig í samræðu.

Þar sem þessi hali er orðinn langur og, eins og þú bendir á, kannski ekki alveg spot-on í þínu tilfelli, þá legg ég til að við færum okkur hingað:

http://maurildi.blogspot.com/2011/08/skuli-og-hviti-kynatturinn.html