24. ágúst 2011

Frjálslyndur, hófsamur miðjuflokkur


Hinn stóri galli stjórnmálanna á Íslandi hefur verið flokkakerfið. Flokkar hafa nær undantekningalaust orðið að valda- og hagsmunamaskínum. Flokksræði hefur tekið við af lýðræði.

Sú krafa hefur verið hávær að flokksræðið sé afnumið með raunhæfum hætti – að fólk geti greitt atkvæði sín einstökum mönnum, sem standa persónulega á bak við sínar hugsjónir og láta engan flokk virkja það vald sem lýðræðislegt umboð veitir.

Ég ber djúpa virðingu fyrir pólitískum hugsjónamönnum. Og jafnvel enn dýpri þegar hugsjón þeirrra kemur í veg fyrir að þeir rekist í flokki. Að því leyti fíla ég Guðmund Steingrímsson þegar hann gerir uppsteyt gegn Framsóknarflokki tuðs, skyr- og harðfiskáts.

En það er eitthvað svo einstaklega óeinlægt, einstaklega fúkkakennt og morkið – að téður Guðmundur segi sig frá Framsókn til þess að búa til nýjan flokk, nýja maskínu, nýtt apparat sem tekur persónulegar hugsjónir og heftir á alla lund. Mér hefði þótt svo miklu betra ef Guðmundur hefði farið úr Framsókn vegna þess að flokkurinn hafi þvælst fyrir honum og málefnum hans.

Málefnaskrá Guðmundar er vægast sagt fátækleg. Jú, hann styður inngöngu í ESB. En þú byggir ekki upp flokk á því. Jafnvel þótt flokkurinn berjist um leið fyrir því að tekinn sé upp sumartími og að kaloríufjöldi verði prentaður á kjúklingabita.

Guðmundur segir að það sé kominn tími til að gera eitthvað. Sjálfur hefur hann sáralítið gert. Aðeins setið sem hornkerling inni í Framsókn með ólund. Þau áhrif sem hann hefur reynt að hafa eru algjörlega minniháttar.

En hann langar í ESB. Og þegar svo er komið að aðildarumsókn að ESB er í hættu vegna karlfausks sem vill að kvikmyndaskólinn fái monnípeninga og hótar að fella fjárlög og mögulega ríkisstjórnina, þá ákveður Guðmundur að kominn sé tími til þess að styðja ríkisstjórnina.

Sem í sjálfu sér er fallegt. En hann bætir við að stuðningurinn sé ekki ókeypis. Ekki skilyrðislaus.

Sem er nokkurnveginn nákvæmlega það sama og Þráinn segir. Ég klóra ykkur á bakinu og þið mér.

Málefnafátækt og makráð vinnubrögð Guðmundar fram að þessu og áhersla hans á að búa til stofnun um sjálfan sig sýna vel hvað hér er á seyði. Hér er þingmaður að hugsa um sinn frama. Sína persónu. Ef hann á að lýsa stefnumálum sínum grípur hann í klisjur: frjálslyndur, hófsamur miðjuflokkur.

Ég man ekki eftir neinum flokki sem sagst hefur vera frjálslyndur, hófsamur miðjuflokkur sem ekki var í raun málefnafátækur, tækifærissinnaður framapotsflokkur.

En þar held ég Guðmundur smellpassi.

Engin ummæli: