21. ágúst 2011

Drykkjumenningarnótt

Menningarnótt er öfugmæli. Hún hefst um miðjan dag og lýkur um það leyti sem nóttin tekur við. En konseptið á bak við hana er frábært. Eins og allar góðar bæjarhátíðir dregur hún fram mikilvæga en oft vanrækta hlið á samfélaginu. Menningin, sem í þessu tilfelli er dulnefni fyrir listir, sprettur fram úr holum og sprungum og faðmar að sér almenning. Býður fólki að auðga líf sitt með listum. Sem svo sannarlega er ekki vanþörf á.

Menningarnótt hefst á stælingu holdsins. Venjulegt fólk og afburðaíþróttmenn sameinast í einum glæsilegum viðburði. Margir hafa umbreytt lífi sínu og eytt sumrinu í að auka þrek og þol í stað þess að liggja eins og mörur og safna spiki. Og mjög margir nota tækifærið og safna fé í þágu þeirra sem afræktir eða hjálparþurfi eru.

Þannig sameinar Menningarnótt heilbrigði líkama og sálar.

Ef maður er tilbúinn að horfa fram hjá brakandi slóð peningaseðla sem auðvitað liggur eins og vírnet um allan Miðbæinn og reynir að fanga eitthvað aurum þeirra tugþúsunda sem gera sér glaðan dag, þá er Menningarnótt viðburður sem stendur fyrir það fegursta í mannlífinu.


Ég fór í bæinn í gær í tvígang. Fyrst um miðjan dag og svo aftur um kvöldið. Við fórum saman, ég og yngri dóttirin en sú eldri fékk að vera með vinum sínum og koma svo með okkur heim eftir flugeldasýninguna.

Auðvitað var eiginlega of mikið af fólki í bænum til að maður gæti alminlega notið þess sem í boði var. En það, sem hryggði mig, var að þarna sannaðist einu sinni enn að alltof margir Íslendingar treysta sér varla út úr húsi án þess að umlykja sig vímu. Að það skuli virkilega teljast við hæfi að sækja menningarviðburði ölvaður er auðvitað umhugsunarefni. Þú vilt ekki fá drukkið fólk á myndlistarsýningu eða í leikhús. Og þú vilt ekki fara drukkinn á myndlistarsýningu eða leikhús. Því að listin er víma í sjálfri sér – eitt af því sem hún gerir er að lyfta þér upp úr hugarfari hversdagsleikann og þá blasir við þér ný sýn – ný upplifun. Flestir, sem á annað borð eru listunnendur, vilja njóta listarinnar edrú. Alvöru vínáhugamaður myndi aldrei opna flösku af dýru og góðu víni eftir að hafa drukkið sjálfan sig sillí af rauðvínsbelju eða ódýrum bjór.

Ég skil svosem þörfina fyrir að drekka sig ærlega fullan og rúlla um innan um annað fullt fólk. Þótt mér þyki ekki mikið til þeirrar þarfar koma. En auðvitað er til fólk sem lifir svo fábreytu, sjúku eða innihaldslausu lífi að víman er þess eina athvarf. Ég reyni að dæma ekki svoleiðis fólk – og finna til með því heldur. Andlegt svelti verður aldrei satt með líkamlegri ofnautn – hversu hressilega sem tekið er á því.En það sem ég get ekki, og mun ekki, sætta mig við er að börn og unglingar þurfi að vera snertipunktar samfélagsins við sauðdrukkið og vansælt fólk. Það er, þrátt fyrir allt, bannað að vera ölvaður á almannafæri. Sem auðvitað er tekið álíka hátíðlega eina og að það sé bannað að keyra yfir á rauðu ljósi eða svíkja undan sköttum. Hver og einn hefur fyrir löngu tekið sér sjálfdæmi um slíkar reglur. En jafnvel þótt við reynum að beygja okkur og bukta fyrir svokallaðri drykkjumenningu þá er með engu móti hægt að kalla bæjarhátíð eins og Menningarnótt neitt annað en almannafæri (það má svo rökræða hvort miðbærinn um hánótt sé almannafæri).

Eldri dóttir mín, sextán ára, fékk að taka ókeypis strætó niður í bæ milli klukkan sjö og átta. Ég og systir hennar fórum aðeins seinna. Í strætónum var ölvaður maður á sextugsaldri sem áreitti hana alla leið í bæinn með kynferðislegum, groddafengnum tilburðum. Henni til hjálpar komu ungir menn sem gerðist böfferar á milli hennar og sóðakarlsins. Þrátt fyrir að maður sé unglingsstelpa sem er að hamast við að virka fullorðin og sigld, þá hefur það verulega ónotaleg áhrif á mann að fullorðnir, ljótir og illa lyktandi karlar séu að reyna að snerta mann eða blaðra  um að þeir vilji taka mann með sér heim. Seinna um kvöldið kom þessi sami maður inn á veitingastað þar sem hún var stödd og hélt áfram þar. Það endaði með því að honum var hent á dyr. Af lýsingu hennar að dæma var í hvorugt skiptið tekið neitt voðalega fast á þessu. Maðurinn var trítaður eins og eitthvert meinleysisgrey – eða þroskaheftur. Aðeins reynt að tjónka við honum með yfirlætisfullri þolinmæði. En henni var ekki skemmt. Og þetta var ekki skemmtileg móttaka sem samfélagið okkar veitti henni þar sem hún var að stíga ein af sínum fyrstu skrefum út í lífið á eigin vegum.


Við yngri dóttirin horfðum fyrst á tónleika á Ingólfstorgi. Við vorum alveg fremst við sviðið. En þar voru eiginlega bara börn, foreldrar og þroskaheftir. Með stjörnur í augum horfðu börnin á hetjurnar sínar á sviðinu og reyndu að ná augnsambandi eða strjúka buxnaskálm. Eftir að hafa verið þarna nokkra stund ruddist upp að sviðinu fullorðin kona sem gargaði ókvæðisorð að fólkinu á sviðinu og reyndi að skvetta bjór á það. Mest af bjórnum rigndi yfir börnin sem hún hafði troðið sér framhjá. Enginn starfsmaður sýndi svo mikið sem svipbrigði. Enginn hreyfði legg né lið. Samt voru starfsmenn þarna sem stugguðu mjög reglulega við börnum sem reyndu að sjá betur með því að klifra upp á vegg við hliðina á sviðinu, sem var frátekinn fyrir ljósmyndara. Þegar konan hafði lokið sér af gekk hún nokkra metra og hlunkaðist svo niður á milli barnanna, grenjandi og sótti nýjan bjór í poka sem hún hélt á.

Við skruppum líka að sjá Nýdönsk. Þar voru fáir. En fremst voru börn – eins og við var að búast. Sem og einn fullorðinn maður sem dansaði hringi um sjálfan sig, útúrdrukkinn og sveiflandi plastmáli með bjór. Hann hafði sérstakt dálæti á því að snúast í hringi með bjórglasið í hendinni og þurfti börnin, sem sátu prúð og stillt í grasinu oft að forða sér undan áfenginu sem skvettist í allar áttir.

Eftir því sem leið á kvöldið þurfti ég að taka hlutverk mitt sem foreldris æ fastari tökum. Drukknir unglingar tróðu sér inn í mannfjöldann hvar sem færi gafst og skeyttu engu um börn eða annað fólk. Í tvígang varð ég að smeygja sjálfum mér á milli dóttur minnar og dansandi strákpunga sem annars hefðu skollið á henni með miklum þunga.

Þetta er auðvitað ekki menning. En þetta er þvímiður þar sem tekur við þegar við erum búin að skokka skemmtiskokkið og kíkja inn á myndlistarsýningu af miklu minna en hálfum áhuga. Þá hella menn í sig og skemmta sér með vímunni sinni. Og skemmta sér því betur sem þeir eru fleiri saman.


Það er sorglegt að börnin okkar og unglingarnir skuli þurfa að halda sig í hornum til að verða ekki fyrir áhrifum af augadrukknu, tillitslausu og vansæli fólki. Það er líka sorglegt að sjá hvernig ofsi og ofdrykkja vex í veldum þegar kvöldinu er að ljúka – með flugeldasýningu sem börnin vilja auðvitað öll sjá.

Og það sem mér þótti sorglegast er að massinn, sem síðan eyddi 40 mínútum í bílnum á leiðinni heim og létt fulla liðið um sviðið, skyldi umbera þetta eins og vangefinn frænda í fjölskylduboði. Að fólk skyldi láta nægja að toga börnin sín fjær skemmtuninni til að einn fullur vitleysingur gæti dansað óáreittur, skvettandi bjór í allar áttir.

Sú tilhugsun er svo ömurleg að daginn sem við drögum fram öll okkar tromp og segjum: „Njótið,“ þá skal skemmtunin samt fá á sig svip lægsta samnefnara. Það er hægt að njóta alls, líka áfengis. En maður nýtur einskis aðframkominn í vímu.

Í gær sá ég fjölmarga unglingahópa. Sumir af miðstigi grunnskólans. Sumir af unglingastigi. Sumir úr menntaskólum. Yngstu börnin voru komin til að horfa á Steinda. Þau ferðuðust um glaðbeitt og rembdust við að halda uppi gelgjukúlinu. Þau sungu og dönsuðu og trölluðu og hópuðust kringum goðin sín í von um eiginhandaráritanir og athygli. Eftir því sem börnin urðu eldri skein af þeim minni lífsgleði og kátína. Þau stóðu með ópal eða bríser og horfðu á – og  hrukku eiginlega ekki í gang fyrr en áfengið hafði tekið völdin.

Undir lokin sá maður dauðskelkaða 12 og 13 ára krakka horfa í kringum sig á gargandi stelpur sem pissuðu í skurðum og skotum, illa klædda stráka sem gengu háværir um og buðu í aflraunir og undirleitt fjölskyldufólk sem hraðaði sér í gegnum þvöguna með börnin sín heim í öryggið.

Hvað skyldu börnin læra af þessu?


Unglingar eru frábærar manneskjur sem mæta erfiðu verkefni með miklum glæsibrag. Hópar af unglingum eiga til lífsþorsta, samúð og gleði sem á fáa sína líka. Það er synd og skömm að við sem samfélag skulum sífellt bregðast þeim og forða okkur af vettvangi þegar okkar eigin syndir og vanmáttur reynir að læsa klónum í þá.

5 ummæli:

Bessi sagði...

(Ó)Skemmtileg greining. Flest fólk er átakafælið. Umber þetta en samþykkir sennilega ekki. Ef maður blandar sér í drykkjulæti á maður kannski ekki von á góðu. Erfitt er að finna góða lausn á að aga ólátabelgi. Uppástungur?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ef það er hægt að hafa fólk í vinnu við að reka lítil börn af steinveggjum hlýtur að vera hægt að sjá til þess að augadrukkið fólk sé ekki að rekast utan í smábörn.

Svo væri hægt að hafa smærri viðburði og viðráðanlegri. Í stað þess að setja stöppu á tvo-þrjá staði gætu verið smærri viðburðir út um allt.

Svo væri hægt að fara að ráðum Vínbúðanna og biðja þá sem eru grunsamlega unglegir með áfengi að sýna skilríki.

Svo væri hægt að banna fólki að vera með áfengi á almannafæri fram til miðnættis og vísa því inn á veitingastaðina.

En fyrst og fremst þurfum við að hætta að vera svona meðvirk með handónýtri drykkjumenningu. Það er svosem enginn að biðja um að drykkjufólk sé snúið niður – en við eigum ekki að samþykkja mjög drukkið fólk innan um börn. Punktur. Sama hvert samhengið er.

Hallveig sagði...

ég er svo algjörlega sammála þessum pisli, mér finnst óþolandi þolinmæði gagnvart þessari stemningu hér á landi. Hægt væri að leysa stóran hluta vandamálsins með menningarnótt með því að færa hana yfir á sunnudag. Aukinheldur væri í fína lagi ef Rás tvö væri uppálagt að hafa sinn viðburð á einhverjum öðrum degi til þess að hijacka ekki svona þennan dag eins og mér og fleirum finnst hafa gerst. Leyfa frekar smærri viðburðunum að njóta sín eins og var í upphafi.

Hallveig sagði...

hijacka þessum degi á það víst að vera.

Markús sagði...

Takk fyrir góðan og mikilvægan pistil. Það er ekki skynsamlegt að skipta sér af fólki í ölæði sem gæti líklega verið andlega veikt og jafnvel hættulegt. Til þess höfum við lögregluna og ég hvet alla til þess að hringja í 112 og láta vita af lögbrjótum og fólki sem fer með ófriði. Sonur minn 3.ára sofnaði síðdegis um kl. 17. á menningardaginn og fann ég okkur stað á Arnarhóli aðeins frá rólóvellinum og leyfði honum að hvíla sig þar. Þá kom kona og illa drukkinn maður með drykkjulæti og mígur í runnan rétt hjá okkur. þau hlamma sér niður rétt hjá okkur. Ég bið þau um að færa sig vegna þess að sonur minn sé sofandi. Mér er svarað með dónaskap og því hringdi ég í 112 og lét lögregluna vita. Hún skoðar svæðið í myndavelum sem þeir hafa. Stuttu seinna komu 2 lögreglumenn og töluðu við viðkomandi aðila. Hann var ekki handtekinn en hafði sig þó hægan eftir þetta. Það 'a að kvarta við starfsmenn sviðanna og lögreglu um leið og atvikin koma upp og krefjast þess að viðkomandi ófriðarseggir séu fjarlægðir.Fyrir næsta menningardag/nótt væri æskilegt að fari fram umræða um þetta vandamál og krefjast þess að betur sé tekið á þessum málum en nú er gert.