20. ágúst 2011

Þess vegna er verkfall – og svona lýkur því.

Á síðustu árum hefur verið unnið að því jöfnum skrefum að færa hið lýðræðislega vald nær fólkinu sjálfu. Stórir málaflokkar hafa verið færðir frá ríki til sveitarfélaga (t.d. bæði grunnskólar og þjónusta við fatlaða) og hugmyndin er sú að betur sjái nærsýnn en fjarsýnn. Sveitarfélagið á aukinheldur að vera betur í stakk búið en ríkið til að samþætta þjónustu ef það heldur á fleiri þráðum.

Þetta er ósköp skiljanleg þróun og vafalítið mjög æskileg.

Á þessu er samt einn stór ljóður. Tilteknir málaflokkar (það má nefna félags- og skólaþjónustu) eru að markverðu leyti grunnþjónusta – sem hvorki sveitarfélög né aðrir eiga að hafa nokkuð val um að veita. Við viljum trúa því að það sé réttur hvers einasta manns að njóta fæðis-, húsaskjóls og menntunar (upp að vissu marki).

Nú er það svo að mörg sveitarfélög á Íslandi eru bæði lítil og/eða dreifð. Tekjur slíkra sveitarfélaga eru líka litlar og dreifðar. Þessi sveitarfélög hafa lent í vandræðum. Það er nóg að það fæðist fötluð manneskja eða flytji í sveitarfélagið til að skaðinn sé skeður. Mörg sveitarfélög geta ekki veitt annað en almenna þjónustu – og ráða ekki við „frávik.“

Það hefur haft þau áhrif í för með sér að „skóla- og félagsmálatilfelli“ á landsbyggðinni hafa safnast saman í byggðakjörnum af sæmilegri stærð til að geta notið þar þeirrar þjónustu sem þörf er á. Þessir nútíma hreppaflutningar eru eðlilegir í ljósi þess að fámennið er fátækt – en þeir eru algjörlega á skjön við þá hugmyndafræði að nærsamfélagið þekki „sitt fólk“ best og geti þar af leiðandi sinnt því betur en aðrir.

Nú er varla hægt að ætlast til þess að það sé framhaldsskóli í hverju krummaskuði á landsbyggðinni. Það þarf auðvitað að draga mörkin einhversstaðar. En það verður að gera þá ófrávíkjanlegu kröfu að hver einn og einasti Íslendingur eigi rétt á grunnþjónustu, s.s. skyldunámi og heilsugæslu, án tillits til búsetu, fámennis eða annarra tilfallandi þátta. Og þótt það þýði að víða þurfi fjölmennið að hlaupa undir bagga með fámenninu þá verður bara svo að vera.

Þegar ríki fer með málaflokk er auðveldara að sinna slíkum málum. Þegar ríkið ákvað að byggja skóla úti á landi þurfti ekki að reikna út hvort „notendur“ skólans væru borgunarmenn fyrir honum. Skólinn var byggður af og að fullu í eigu ríkisins.

Eftir því sem vald sveitarfélaga yfir „eigin“ málum hefur aukist hafa þau þróað með sér nýja gerð að ríkisvaldi, Samband íslenskra sveitarfélaga. Sambandið hefur orðið að miðstýrðu apparati sem því miður hefur gert minna gagn en ógagn.

Meðal þess sem sambandið fer með er svokallaður „Jöfnunarsjóður.“ Það er sjóður sem alls ekki er skýrt skilgreindur í lögum eða reglum en á að jafna aðstöðumun sveitarfélaga m.t.t. dýrra verkefna eins og grunnskóla og félagslega kerfisins. Sjóðurinn er fyrir löngu orðinn grunnstoð í tekjum flestra minni sveitarfélaga – og minnstu sveitarfélög eru algjörlega háð honum. Úr sjóðnum er úthlutað nærri 20 milljörðum á ári (sem er um 60 þúsund krónur á hvern Íslending).

Það þarf ekki að íhuga lengi neikvæðar aukaverkanir þess að hafa verulegan hluta tekna íslenskra sveitarfélaga í illa skilgreindum risasjóði með óskýr markmið. Það fór enda fljótt svo að jöfnunarsjóð var miskunnarlaust beitt til að viðhalda einsleitni og miðstýrðu valdi. Það soguðust ægileg völd saman í höfuðstöðvum SÍS. Sveitarfélög fóru að miðstýra öllu sem hægt var að miðstýra. Og, semja miðstýrt við starfsmenn sveitarfélaga.

Að mörgu leyti hefur það faglega starf sem unnið er innan SÍS verið til mikillar fyrirmyndar. Þar starfar mjög hæft fólk sem hefur reynslu og menntun í greiningu og markmiðssetningu. Grunnskólakerfið hefur t.a.m. orðið fyrir mjög jákvæðum áhrifum af því faglega aðhaldi sem SÍS hefur beitt. En því miður er ekki hægt að segja sömu sögu af þeim sem stýrt hafa samningamálum.

Lengst af hafði SÍS á sínum snærum svokallaða Launanefnd (LN) sem samdi við starfsfólk sveitarfélaganna um laun. Það var voðalega fátt faglegt við þá nefnd. Hún er einhver sá mesti smánarblettur sem óhreinkað hefur sveitarstjórnarmál fram að þessu.

Nú eru aðstæður mjög misjafnar í sveitarfélögum. Ef við tökum grunnskólann sem dæmi þá er afar miserfitt að manna skólana með sæmilegum hætti. Akureyringar áttu til að mynda lengi í bölvuðum vandræðum. Eftir að kennaraútungunarvél var sett í gang í bænum (HA) er það vandamál í sögunni. Offframboð á kennurum á Akureyri kemur í veg fyrir mikla kjarabaráttu kennara. Menn mega kallast heppnir að fá „brauð.“ En hinar dreifðu byggðir voru lengi í svo miklum vandræðum að þær freistuðust til að bjóða kennurum sínum sérkjör, t.d. hærri laun eða ókeypis húsnæði. Og þótt SÍS segi opinberlega að kjarasamningar á þeirra vegum séu lágmarkssamningar þá var það sannalrega ekki raunin. Því að þar var álitið að það væri algjört skilyrði starfs LN að hún hefði allt heila klabbið á bak við sig. Það kom sér ekki vel að reyna að semja við kennarasamtökin ef hægt var að benda á miklu hærri laun í dreifbýlinu. Það er því í raun ekkert leyndarmál að smærri sveitarfélögum var hótað. Hótað að vera svipt þeirri þjónustu sem SÍS og LN veittu fyrir þeirra hönd – og hótað með Jöfnunarsjóðnum.

Og síðustu tíu ár eða svo hafa sveitarfélög iðað eins og ormur á krók í að reyna að manna skóla (og aðrar stofnanir sem LN samdi fyrir) án þess að rjúfa á yfirborðinu þá samstöðu sem allt átti að snúast um. Til þess hafa menn nýtt flutningsstyrki, tímabundin sérkjör á leigu, ókeypis aðgang að sundlaugum og söfnum o.þ.h.

Nú er búið að leggja LN niður. Kannski ekki síst vegna þess óhræsisorðs sem hún hafði komið á sig. Og farið hefur fé betra. LN var hreinræktað hagsmunafélag. Það snérist allt um einfeldningslega skilgreinda fjárhagslega hagsmuni. Að reyna að bæta sem fæstum krónum ofan á launin og afnema sem mest af réttindum í staðinn.

Og því miður virðist núverandi samninganefnd ekki hafa lært nóg. Leikskólakennarar hafa verið samningslausir í hátt í 1000 daga. Sem þýðir auðvitað að í alla þá daga hafa þeir verið án þeirra kjarabóta sem aðrir hafa fengið á tímabilinu. Þeir hafa því óumdeilt dregist afturúr.

Vissulega er það ekkert nýtt. Rétt fyrir síðasta stórverkfall grunnskólakennara sömdu leikskólakennarar á hagstæðari tíma en grunnskólakennarar, sem við það drógust afturúr. Allt í einu höfðu leikskólakennarar betri laun en grunnskólakennarar.

Ef samninganefnd hefur ekkert annað hlutverk en að semja, og semja „vel“ – þá er ekki skrítið að það geti gerst að heilar stéttir séu án samninga í mörg hundruð daga. Slíkt tímabil er í augum samninganefnda „hreinn gróði,“ og það skal draga á langinn eins og hægt er.

Það voru fyrstu mistök sveitarfélagana. Þau tóku ekki með í reikninginn að svona tómlæti skapar spennu, reiði og gremju. Sem er einmitt einhver öruggasta leiðin til að búa til verkfall. Og jafnvel þótt einstök sveitarfélög hafi verið ósammála miðstýrða apparatinu og viljað (og getað) afstýa þessu fyrir löngu þá var það ekki í boði vegna þess gordíska hagsmunahnúts sem Sambandið er.

Sveitarfélög hefðu getað afstýrt verkfalli fyrir löngu ef þau hefðu sýnt örlitla skynsemi og aðeins minni makráða græðgi.

En jafnvel þótt þetta tómlæti hefði komið til er ekki öruggt að því hefði lyktað með verkfalli. Verkfallið er fyrst og fremst meirihlutanum í Borgarstjórn Reykjavíkur að kenna.

Þegar yfirvöld í Reykjavík gerðu sér grein fyrir því að það þyrfti að skera niður fóru þau (eðlilega) í dýrustu málaflokkana. Hvernig það var gert verður vonandi í sögubókum framtíðar um hvernig eigi ekki að haga málum. Menntayfirvöld í Reykjavík vissu ekkert hvað þau ættu að gera eða hvernig ætti að spara. Taktíkin varð því sú að steypa ábyrgð á sparnaði yfir á fólkið á „gólfinu.“ Fólk var sífellt áminnt um að spara pappír, slökkva ljós og endurvinna   – og fundir voru haldnir með starfsmönnum þar sem þeir áttu sjálfir að koma með sparnaðartillögur. Allir tóku þessu vel. Og létu sitt ekki eftir liggja. Unnu jafnvel í hálfrökkri og keyptu sjálfir lím, skæri og pappír.

Þessar „sparnaðaraðgerðir“ voru auðvitað aldrei neitt sem skipti verulegu máli. Fólk var látið halda að það gæti með hagsýnni vinnubrögðum haft áhrif á hina vondu stöðu þrátt fyrir að það væri aldrei möguleiki á að það myndi duga til.

En, ókei, það er réttlætanlegt að fá fólk til að spara og gera því ljóst að staðan væri erfið. En það sem gerðist næst var algjörlega óréttlætanlegt.

Í stað þess að setja fagleg viðmið og krefjast sömu útsjónasemi af menntayfirvöldum í Reykjavík og nú var búið að krefja alla starfsmenn (leik- og grunnskóla) um – þá fóru af stað pólitísk hrossakaup og hálfvelgja. Stjórnendur (sem SÍS lítur á sem „sitt fólk“) voru látnir mæta á fund eftir fund þar sem menn áttu að gera hið ómögulega – benda á það sem mætti skera burt.

Menntayfirvöldin voru ekki tilbúin að axla ábyrgð á því sem þurfti að gera og vildu að aðrir héldu á hnífnum. Það gekk auðvitað ekki. Enginn faglegur skólastjóri vinnur þannig að hann geti samþykkt það að faglegu starfi skólans hans sé fórnandi.

Þessar tilraunir breyttust úr tilraunum til faglegs niðurskurðar í leit að „snöggum blettum.“ Verið var að prófa mótstöðuafl einstakra skóla og hverfa. Niðurstaðan varð á endanum sú að skera mest þar sem menn óttuðust mótstöðuna minnst. Sem virðist vera viðtekin venja í stjórnun menntamála í Reykjavík.

Sjáið til dæmis skúrinn sem settur var upp við skóla í Vesturbænum og komst í fréttirnar. Foreldrum í hverfinu blöskraði að börnin þeirra þyrftu að sjá eitthvað svona ljótt á dýrmætu leikplássi við skólann sinn. Skúrinn hvarf með það sama. Á sama tíma voru við í Norðlingaskóla látin húka í nákvæmlega eins skúrum og mörgum ljótari árum saman. Fólki leið illa, hóstaði, fékk útbrot og kláða. Alltaf var fullyrt að skúrarnir væru ekki ástæðan – þeir væru alveg öruggar vistarverur. Síðasta vor voru nokkrir þeirra seldir enda starfsemin komin að mestu í nýtt hús. Í auglýsingunni kom fram að fúkkalykt og óþrifnaður væri nærri óbærilegur í a.m.k. einu húsanna. Sem er einmitt húsið sem ég hafði árið áður kennt hvað mest í. Þegar gólfið var tekið upp eftir veturinn kom í ljós mygla og viðbjóður. Og ekki einu sinni þá var skúrinn tekinn. Það þurfti ekki að kenna þar lengur – en skúrinn var um kyrrt þar til hann var auglýstur til sölu um vorið.

Nú hefst kennsla í Norðlingaskóla eftir þrjá daga. Skúrarnir eru enn flestir á sínum stað. Búið er að fjarlægja nokkra og eftir sitja gapandi sár og veggjakrot sem áður var hulið. Því að borgin veit ekki hvert á að setja þá og þetta er ekki Vesturbærinn. Við megum rífa kjaft – en þeir eru bara ekki hræddir við okkur.

Þegar Menntayfirvöld í Reykjavík létu loks niðurskurðaröxina falla lenti hún (fyrirsjáanlega) á þeim sem minnstrar mótspyrnu var að vænta frá. Og miklu harðar á leikskólanum en grunnskólanum.

Og þá höfðu leikskólakennarar fengið nóg.

Þeir ákváðu að enginn myndi gæta faglegra réttlætissjónarmiða nema þeir sjálfir. Leikskólakennarar í Reykjavík voru kveikiþráðurinn – allir leikskólakennarar eru púðrið.

Þessu verkfalli mun ekki ljúka fyrr en SÍS gefur eftir. Það er ekki um neitt annað að semja. SÍS hafði ótal tækifæri til að koma í veg fyrir þetta. En síðasta tækifærið sigldi burt á aðalfundi FL þar sem ákvörðun var tekinn. Leikskólakennarar eru ekki að fara að finna neinn „milliveg“ úr þessu. Það hefði verið hægt fyrr. Ef SÍS hefði leitað leiða til að gera stuttan samning við leikskólakennara hefðu þeir getað gert það á sama tíma og borgin var að láta kennarana spara pappír og ljós. Leikskólakennarar voru samstarfsfúsir. Þeir reyndu að leggja sitt af mörkum.

Nú er það of seint.

Vissulega getur samninganefndin horft á sviðið og sagt: „Við erum í ókei stöðu. Við borgum engin laun og vitum að leikskólakennarar gefa ekki eftir. Ef við höldum bara áfram að bjóða millileið þá munum við bara græða pening. Og ef allt fer í óefni þá segjum við bara upp leikskólastjórum og ófaglærðum – og lokum leikskólanum á meðan þetta gengur yfir. Og ef annað starfsfólk borgarinnar getur ekki mætt vegna barna sinna þá fer það bara í launalaust leyfi. Tíminn vinnur með okkur. Svo verða sett lög ef leikskólakennarar gefa sig ekki. Eða, við getum samið seinna þegar verkfallið er búið að skaða leikskólakennara nægilega til að öðrum detti ekki í hug að fara í verkfall á eftir.“

En SÍS þarf að átta sig á einu. Samstaðan innan SÍS er brothætt. Og sveitarfélögum er þrátt fyrir allt stjórnað af pólitíkusum. LN ber ábyrgð á því að skapa jarðveginn fyrir þessa stöðu þótt Reykjavík hafi tendrað neistann. Sveitarstjórnir eru ekki að fara að umbera meira hálfkák, rugl og leiðindi. Þær munu taka sjálfstæða ákvörðun um hvenær nóg er komið. Og þá mun einhver slíta sig frá hópnum – og samstaða SÍS molna. Því um leið og einhver segir hingað og ekki lengra þá er bara tvennt í boði. Að hann aðskilji sig frá apparatinu eða að apparatið fylgi eftir. Ef apparatið fylgir eftir ber SÍS ábyrgð á því að ALLIR geti staðið við þau kjör sem samið er um. Ef apparatið situr kyrrt  mun keðjuverkun eiga sér stað og betur sett sveitarfélög semja sjálf og skilja SÍS eftir sem hagsmunasamtök fátækra sveitarfélaga. En þar sem SÍS fær tekjur sínar frá ríku sveitarfélögunum líka þá er það ekki í boði. SÍS er í skítnum.

Almenningur getur stytt þetta verkfall mjög. SÍS hefur ekki vald yfir leikskólum að landslögum. Það vald er hjá sveitarstjórnum. Þær bera ábyrgðina. Og við eigum að kalla þær til ábyrgðar.

Hvernig væri að almenningur myndi mæta með börnin á sveitarstjórnarskrifstofurnar? Koma með dótakassa og barnavagna og setjast þar að þar til verkfallið er búið? Fylla Ráðhúsið af leikskólabörnum?

Verkfallið myndi enda á mettíma. Því hamrað væri í sprunguna. Í stað þess að berja á steinfési samninganefndar sveitarfélagana, sem löngu er orðin dauf.

Samninganefndin er ekki með lausnina. Hún hefur ekki vald til að ljúka þessu. Hún hefur bara vald til að taka slaginn. Valdið liggur í ráðhúsunum. Á smærri stöðum á vinnustöðum sveitarstjórnarmanna. Á formaður bæjarstjórnar bókabúð eða bílaleigu? Er ekki upplagt að mæta þangað með börnin?

Almenningur verður að stíga upp ef verkfallið á að vera stutt.


Engin ummæli: