18. apríl 2011

Óvanaleg hjálpsemi

Einhvernveginn er búið að koma þeirri skoðun inn í hausinn á fólki að þótt það sé vissulega gott að afla sér þekkingar eða þjálfa upp hæfileika – þá sé það tilgangslaust ef um leið fylgir ekki einhver „hagnýting“ hæfileikans.  Og þá meina ég beinan fjárhagslegan ágóða.

Til allrar hamingju eru ekki allir smitaðir af þessari sóttkveikju og miðla af þekkingu sinni og reynslu án þess að krefjast launa fyrir. Og eru samt áfjáðir í að fá að hjálpa – bæði vegna þess að þeir hafa ástríðu fyrir hugðarefnum sínum og vegna þess að þeim er umhugað um að aðrir smitist af þeim áhuga eða njóti að minnsta kosti góðs af honum.

Mig langar að benda ykkur á tvo svona menn – sem beinlínis hvetja fólk til að nýta sér þekkingu þeirra og hafa yfirburðaþekkingu hvor á sínu sviði.Sá fyrri heitir Leó M. Jónsson og er vélaverkfræðingur. Fáir menn hafa meira vit á vélum og bílum en hann. Auk þess sem hann þekkir mjög vel til viðgerðar- og verkstæðismála á landinu. Í mörg ár hefur LEó byggt upp vefsetur sem er hafsjór upplýsinga. Leó er dellukarl og njóta lesendur hans þess. Auk þess er síða hans gagnabanki með hagnýtum upplýsingum um viðhald og viðgerðir á bílum, auk gæðaprófana og annarra ráðlegginga. Finni maður ekki svar við því sem angrar mann getur maður sent honum tölvupóst og hann grefur upp svar fyrir mann eða beinir manni í það minnsta í rétta átt. Það að hafa aðgang að svona manni, og það ókeypis, getur sparað manni tugi eða hundruði þúsunda. Og Leó fer ekki fram á neitt í staðinn þótt hann bjóði þeim sem það kjósa að styrkja starfsemina með lítt áberandi reit hægra megin á vefsíðunni. Við það eitt að lesa síðu hans verður maður metnaðarfyllri bíleigandi og þykir örlítið vænna um farartækið en áður.Svo langar mig að benda ykkur á Finn Torfa Gunnarsson. Hann er raunar einn alfyndnasti bloggari þessa lands um þessar stundir. Einhverskonar samsuða Dadda, Berts og Bridgetar Jones. Hann gerir óspart grín að sjálfum sér og göllum sínum og málar upp stórkostlega mynd af lífi einstæðings sem hugsar of mikið og mistekst flest sem hann gerir sem krefst mannlegra samskipta. En Finnur er forfallinn Excel-elskandi. Oftar en einu sinni hefur hann bjargað mér á ögurstundu þegar ég hef séð einhverja leið til að einfalda okkur vinnuna í Norðlingaskóla en brostið hæfni til að framkvæma hana. Og alltaf leysir Finnur beiðnina hratt og ljúfmannlega. Nú hefur hann stofnað með öðrum vefsetrið Excel.is sem er matarkista þeirra sem vilja læra að nota þetta magnaða forrit með markvissum hætti. Og auk þess er hægt að koma með fyrirspurnir á netfangið excel@excel.is.

Báðir þessir menn veita öðrum úr yfirburðarbrunni þekkingar sinnar án þess að krefjast verkalauna fyrir. Og er þó vinnan þannig að hún tekur fram því sem flestir borga fyrir. Þjónustulundin og áhuginn er framúrskarandi. 

Ef einhverjir vita af fleiri slíkum tilfellum þætti mér gaman að frétta af því. Það er löngu kominn tími til að vekja athygli á þeim sem leggja meiri áherslu á innihald heldur en umbúðir – og þá sem hafa ástríðu fyrir einhverju og yfirburðaþekkingu og vilja í einlægni leyfa öðrum að njóta þess.

2 ummæli:

Finnur sagði...

Ég þakka hólið. Vona að það sé innistæða fyrir því. Ef ekki þá fæ ég yfirdrátt fyrir mismuninum.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ekkert að þakka. Hef ekki nokkrar áhyggjur af því að þetta hafi verið ofhól.