18. apríl 2011

Kvótakerfið: úr einum vanda í annan

Þessi pistill er 622 orð og inniheldur 2 myndir. Áætlaður lestrartími er 2 mínútur og 36 sek.



Fiskveiðistjórnunarkerfið við Ísland er ranglátt. Ranglætið felst í því að langtímahag var úthlutað eftir skammtímahagsmunum. Þeir, sem fengu kvótann til að byrja með, verðskulduðu hann ekki – a.m.k. ekki allan. Gengið var framhjá fólki sem í krafti elju sinnar og starfs átti augljóst tilkall til kvóta. Fólki sem bjó að mestu í hinum dreifðu byggðum landsins og bar, vægt til tekið, skarðan hlut frá borði á þeim áratugum sem síðan eru liðnir.

Kvótakerfið virðist ætla að verða hið næsta Icesave. Sem ég held að sé nokkuð misráðið. Miklu nær væri að beina sjónum nú að tryggingar- og afskriftarsukki sem á sér stað innan íslensku bankanna. Búið er að færa til ofboðslegt fjármagn, allt frá hruni, í lokuðum bakherbergjum. Á sama tíma og við neitum að koma erlendum bankakerfum til hjálpar styðjum við grandvara- og andvaralaus við íslenska auðmagnseigendur. Tryggjum allt þeirra upp í topp og skerum menn niður úr milljarðar skuldasnörum án þess að nein réttlætisrök eða gegnsæi fái þrifist.

Það er þúsundsinnum meira aðkallandi að koma á réttlæti og gegnsæi í því sem hefur verið að gerast hin allra síðustu misseri en að fara núna í offorsi að leiðrétta tæplega þrítugt ranglæti kvótaúthlutunar.

Að einu leyti skarast þessi mál. Það er, í hinum meinta „ofsagróða“ útgerðarmanna sem fengu allt fyrir ekkert og lifa á „arðráni“. Sem ég held að sé vægast sagt brengluð sýn en ef fyrir henni er flugufótur þá ætti siðbót í fjármálaheiminum að vinna gegn því „ranglæti“ eins og öðru.

Ef kvótinn er innkallaður þarf að úthluta honum aftur. Og sú úthlutun þarf að vera réttlát.

Sá vandi bíður þeirra sem skera upp kvótakerfið. Á að selja hann á uppboði? Halda happadrætti? Úthluta eftir byggðasjónarmiðum eða veiðarfærum.

Það er hægara sagt en gert að úthluta kvóta aftur. Svara þarf mörgum siðferðilegum og hagfræðilegum spurningum. Hverjum er t.d. verið að hygla með því að halda uppboð? Þeim sem eiga peninga. Er tilkall þeirra betra en þeirra sem fengu kvótan upphalflega í ljósi nokkurra missera veiðireynslu?


Í heimspekilokaritgerð okkar Árna Guðmundssonar árið 2001 skoðuðum við kvótakerfið. Greindum ranglætið og reyndum að varpa skynsamlegu ljósi á málið. Okkar hugmynd var sú að best væri að bæta fyrir ranglætið með því að hefja töku gjalds af kvótahöfum. Þessi gjaldi skyldi úthlutað til þeirra sem hlunnfarnir voru, eftir reglum staðbundins réttlætis (local justice). Þetta gjald mætti nota til að styrkja kjör sjómanna og fiskvinnslufólks, bæta eftirlaun fólks sem starfaði áður fyrr í sjávarútvegi. Til að styrkja sjávarbyggðir og útflutning. Og ríkið gæti tekið hluta til að tryggja hag komandi kynslóða. En gjaldið ætti ekki, ef réttlætissjónarmið eru látin ráða för, að renna í skattahítina. Því þótt efast megi um réttmæti þess að LÍÚ-arar sitji að kvótanum þá er tilkall þeirra þrátt fyrir allt skýrara en einhvers kennara eða skrifstofumanns í Reykjavík.

Þjóðin á vissulega fiskinn. En sá hluti þjóðarinnar sem unnið hefur áratugum saman við að nýta þennan auð og jafnvel borgað fyrir með miklum fórnum – á að hafa forgang að þeim auð sem verður til.

Annað er óréttlátt.

Engin ummæli: