11. apríl 2011

Sveiflan í Reykjavík

Þessi pistill inniheldur 602 orð og 1 mynd. Áætlaður lestrartími eru slétt tvær og hálf mínúta.

Ég les um það frétt á mbl.is að sveiflan í Reykjavík suður hafi verið hrein tilviljun. Mig langar að varpa dálítið ljósi á þetta þar sem ég vann við talninguna og sá þessa sveiflu verða til.


Talningin fór fram í íþróttahúsi Hagaskóla. Búið var að stilla upp sex borðum eins og sést á myndinni. Ég var við rauða borðið. Þar opnuðum við og flokkuðum utankjörfundaratkvæði. Á grænu borðunum tveim voru flokkuð almenn atkvæði. Á bláu borðunum voru atkvæðabunkar tvíyfirfarnir til að tryggja að ekkert atkvæði væri í röngum bunka. Á gula borðinu voru loks talin atkvæðin í hverjum bunka. Þannig skiluðu grænu og rauða borðið af sér bunkum á fyrra bláa borðið, þaðan fóru bunkarnir á hitt bláa borðið og loks á gula borðið. Litli svarti kassinn er sjónvarpstæki.

Utankjörfundaratkvæði voru fyrst sett í bréfskurðarvél sem lítur út eins og stór áleggshnífur sem opnaði umslögin. Af einhverjum ástæðum var vélin merkt Orkuveitunni. Síðan voru tveir til þrír í því að taka atkvæðin úr umslögunum og rétta öðrum tveim til þremur sem skiptu þeim í fjóra flokka: já, nei, auðir, aðrir. Tómu umslögin voru afhent einum til tveimur sem kíktu í hvert einasta umslag til að tryggja að ekkert atkvæði væri eftir. Síðan voru umslögin sett í tóman kjörkassa.

Fyrsta atkvæðið var nei. Annað var já.

Úr fyrsta holli utankjörfundaratkvæða voru töluvert fleiri já en nei. Eftir því sem leið á kvöldið jöfnuðust bunkarnir og seinni hlutann voru miklu fleiri nei en já.

Við urðum því steinhissa þegar við sáum fyrstu tölur á skjánum þar sem önnur kjördæmi voru með mikinn mun nei í vil. Fyrstu tölur úr Reykjavík suður smellpössuðu við okkar reynslu fram að því.

Ég held sveiflan sé ekki tilviljun. Ég held að kosningahegðun hljóti að hafa eitthvað haft með þetta að gera. Það er full ástæða til að ætla að vesturendi Reykjvíkurkjördæmis suður hafi verið jákvæðari en sá austari. Breiðholt kaus örugglega frekar á móti.

Á einhvern hátt kom þessi munur fram í utankjörfundaratkvæðunum.

Annars má geta þess að nokkuð var um auða seðla en mjög fáir voru ógiltir. Enda kýs fólk líklega ekki utankjörfundar til að ógilda. Einn seðill hafði x í báðum reitum og raunar víðar. En allavega tveir seðlar voru með x bæði í réttum reit og aftan við valmöguleikann. Við vitum ekki hvað kjörstjórnin ákvað með þá seðla. Helsta ástæða ógildingar var að seðlar voru ekki í lokuðu umslagi. Einhverjir tugir af atkvæðum voru í illa lokuðum umslögum eða opnum. Einhver svoleiðis sluppu í gegn áður en við tókum þau til hliðar. Við vissum ekki hvað gert var við þau á endanum. Einn seðill var algjör ráðgáta. Hann var í öðrum lit en allir hinir. Í ljós kom að hann var úr síðustu Icesave-kosningu. Hvaðan hann kom veit enginn.

Engar vísur eða skilaboð voru á utankjörfundaratkvæðum utan þess að einn seðill var merktur með „KR“ í staðinn fyrir kross.

Annars var talningu lokið 12:26 og síðasti seðillinn var nei.

3 ummæli:

Hildur Lilliendahl sagði...

Gott að þú hafðir sjónvarpið með á myndinni. Sakna samt roastbeef-slefandi löggunnar fyrir framan það. g held einmitt að fólkið sem kýs utankjörfundar sé líklegra til að segja já en aðrir af sömu ástæðum og Vesturbæingar séu líklegri til þess en Breiðhyltingar. Eru ekki Vesturbæingar líklegri til að flytja til útlanda en Breiðhyltingar?

Hildur Lilliendahl sagði...

Einnig: flokkun var lokið 12:26. Talning stóð lengur og endanlegar tölur lágu ekki fyrir fyrr en kl. 15:30 á sunnudegi þegar okkur tókst loksins að láta allt stemma.

Nafnlaus sagði...

Ég kaus utan kjörfundar í Laugardalshöll í fyrri Icesave kosningu og trassaði það í nokkra daga að henda atkvæðinu í póstkassa til að koma því norður í mitt kjördæmi. Það hefði verið gott grín að sleppa því og senda það inn núna.