20. apríl 2011

Ófleygt stjórnlagaráð



Fyrir mér er endurskoðun stjórnarskrár líklega það langmerkilegasta sem er að gerast í stjórnmálum þessa dagana. Þarna er komið fólk úr öllum áttum sem í sameiningu ætlar að vinna úr þjóðfundum og almennri stemmningu í samfélaginu og leggja grunn að nýju Íslandi.

Á netinu er hægt að fylgjast með framvindunni. Og það hef ég nú gert. Og ég er ekki sáttur.

Þetta blessaða ráð er alltof svifaseint og þunglamalegt. Samskipti innan þess og allt þess starf einkennist af skorti á innblæstri og hugarflugi. Ótrúlega mikill tími fer í að þrasa um hluti fram og til baka án nokkurs raunverulegs tilgangs. Too many cooks spoil the broth. Skipulagið er þvingað og þrátt fyrir að hugmyndin hafi verið sú að ráðið ynni verk sín fyrir opnum tjöldum er augljóst að ráðið er þvingað og yfirspennt þegar myndavélarnar eru í gangi og um leið og klippt er á hljóðið lækkar spennustigið – og farið er í málamiðlanir á bak við tjöldin til að hnika málum áfram.

Vandinn er sá að næstum hver einasta manneskja sem tjáir sig er að tjá sig skynsamlega. Allar athugasemdir eru góðar. En þær eru ekkert gagnlegar. Þær tefja fyrir. Of margir eru stjórnsamir. Og of margir eru á verði gagnvart þeim stjórnsömu.

Vonandi bráir þetta af ráðinu. En til þess þarf að verða hugarfarsbreyting. Ráðið þarf að átta sig á því að það er hlutverk þess að vinna sem heild og leggja áherslu á aðalatriðin í stað þess að týna sér í aukaatriðum eða jafnvel formsatriðum. Ráðið gerir nákvæmlega ekkert gagn ef menn ætla stöðugt að vera í gagnrýnisham eða jafnvel niðurrifssham. Menn þurfa að vera uppbyggilegir, frjóir og innblásnir.

Það er ekkert innblásið við starf ráðsins þessa dagana. Þess í stað er blaðrað út í það óendanlega um hluti eins og muninn á grunnhugtökum og -gildum. Það hvort vinnuskjalið skuli vera tveggja dálka eða tíu dálka. Það hvort menn megi velja sig í nefnd eða vera dregnir.

Ekki gott, alls ekki gott.

Engin ummæli: