19. apríl 2011

Þurfa fjölmiðlar aðhald?

Þessi pistill er 730 orð og inniheldur 6 myndir. Áætlaður lestartími er 3 mínútur og 3 sek.

Nú fer að hefjast næsta fjölmiðlafárið vegna tilrauna ríkisstjórnarinnar til að koma böndum á starfsemi og eðli fjölmiðla á Íslandi. Sumir vilja meina að allar slíkar tilraunir séu tilgangslausar þar sem „fjölmiðill“ sé í raun ekkert eitt. Einn gaur að blogga upp í vindinn deili það mörgum einkennum með „réttnefndum“ fjölmiðlum að það sé hvergi hægt að draga línu. Aðrir benda á að fjölmiðlar eigi að vera frjálsir. Hin ósýnilega hönd samkeppninnar sjái um rest.

Ég ætla að benda á eitt lítið atriði í þessu sambandi.

Íslenskir fjölmiðlar eru drasl.

Og þótt fjölmiðlamenn móðgist mjög þegar ærlegheit þeirra og hæfni er dregin í efa, þá verður svo að vera. Fjölmiðlarnir eru fjórða valdið. Valdið sem tryggir það að almenningur sé upplýstur og geti veitt hinum valdhöfunum aðhald.Það hefur algjörlega brugðist. Fjölmiðlamenn hafa leyft eigendum fjölmiðlanna að velja úr hlýðna og þægilega starfsmenn – og hinir eru ofsóttir. Það er allt í lagi að vera með glannaskap og harðkjarnafréttamennsku svo lengi sem þú stígur ekki á sporð seðlanna sem halda miðlinum gangandi. Flestir áberandi fjölmiðlamenn á Íslandi í dag hafa pólitískt „agenda“. Þeir eru ekki hlutlaust aðhald, heldur bullandi þátttakendur í atburðarásinni sem þeir eiga að vera að skýra fyrir almenningi.Ef einhver efast um að fjölmiðlar á Íslandi virki svona í raun þá getur hann lagt á sig þá þjáningu sem ég hef gert og rifjað upp forsíðu Fréttablaðsins frá apríl til júní 2004. Þá stóð til að hefta frelsi eigenda fjölmiðla. Eigendur Fréttablaðsins, sem þá voru hægt og rólega búnir að eignast næstum allt sem eiga mátti á Íslandi og í Bretlandi, stunduðu grímulausan hernað gegn fjölmiðlafrumvarpinu í gegnum starfsmenn sína á blaðinu.

Í rúman mánuð, frá 22. apríl til 3. júní einokaði fjölmiðlafrumvarpið aðalramma forsíðu Fréttablaðsins. Dag eftir dag kom frétt um frumvarpið. Og þá daga sem frumvarpið var ekki fyrsta frétt var um að ræða fréttir sem voru herskáar gagnárásir á ríkisstjórnina. Fréttir um vafasöm fjármál stjórnmálaflokka, hugsanleg dómsmál hjá ESA vegna RÚV, óvinsældir ríkisstjórnarinnar og óeiningu í Framsókn.Fréttablaðið varð gerandi í pólitíkinni þetta vor með svo augljósum hætti að það er ekki hægt að neita því. Á sama hátt hefur fjölmiðlum á Íslandi stöðugt verið beitt í þágu eigenda sinna og blaðamenn hafa þurft á erfiðustu augnablikunum að starfa í stöðugum ótta við að verða reknir ef þeir traðka á röngum tám.

Nú hefur Björn Ingi Hrafnsson, holdtekja spillingar og óráðsíu, sölsað undir sig stóran part af netfjölmiðlun á Íslandi og virðist stefna, leynt og ljóst, að berlusconískri forheimskun.Morgunblaðið er að breytast í Fox. Nýjasta útspilið er að starfsmenn þess ryðjast inn á heimili grunaðra glæpamanna í lögreglurassíum.

Þrjúhundruðsextíuogfimm þarf ekki að fjölyrða um.

Og ferill DV er flekkóttari en taflborð.

Svarið við fyrirsögn þessarar færslu er: já. Fjölmiðlar þurfa aðhald. Miklu meira aðhald en þeir fá. Mikilvægi þeirra í virku lýðræðisríki er svo ofboðslegt að helst þyrfti að árétta mikilvægi þeirra í stjórnarskrá (t.d. þannig að ríkið ætti að styðja við gagnrýna og vandaða fjölmiðlun í stað trúarbragða).

Fjölmiðlar þurfa aukinheldur að veita fjármagninu aðhald. Mönnum eins og Binga, Jóni Ásgeiri og kvótafrúnni úr Vestmannaeyjum.Því miður virðumst við stefna í einhverja andstyggðar blöndu ítölsku leiðarinnar (þar sem fjölmiðlar eru skipulega notaðir til að halda fólki frá valdhöfum og þeirra brölti) og amerísku (þar sem hver fjölmiðill er málpípa fyrir einhverja hagsmuni). Og hér virðist ekki vera markaður fyrir frjálsa, óháða fjölmiðlun.

Það er skelfilegt.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Brilljant pistill og ástandið í íslenskri fjölmiðlun er virkilega skelfilegt.
Í nágrannalöndunum getur fólk valið um óvandaða og minna óvandaða fréttamennsku. Hér sjáum við engan mun, því allir fréttamiðlarnir eru jafn ómerkilegir!
Sem dagblaðalesandi í 50 ár merki ég þá breytingu að ég nenni sjaldnar að sækja Fréttablaðið því ég er búin að sjá allar fréttirnar á völdum vefmiðlum og blogg-umræðu.