2. mars 2011

Til varnar Baldri Hermannssyni




Ég held Baldur Hermannsson sé frændi minn í móðurætt. Það er eins og mig rámi í einhverja umræðu kringum heimsósómamyndaflokk hans um íslenska bændamenningu að Reynir frændi á Akureyri hafi boðið fram þá sálfræðigreiningu að Baldri hafi sem barni liðið svo ægilega vel austur í Bakkagerði í Héraðsflóa hjá langafa mínum og ömmu að þegar hann var tekinn þaðan með valdi hafi hann yfirfært hatur sitt á þeim brottflutningi yfir á sveitamenninguna. Þessi greining er grunsamlega lík annarri greiningu fyrrum samkennara míns við Gaggann á Akureyri sem lagði stund á freudíska sagnfræði. Sá hafi fundið eitthvað sendibréf útlendings sem þótti Akureyri bæði ljót og leiðinleg. Hann skrifaði grein (að mig minnir í Súlur) þar sem hann tengdi þessi viðbrögð útlendingsins við þá staðreynd að hann hafði þá nýlega glatað unnustu sinni – og ægifegurð Akureyrar hefði vakið með honum sárar kenndir og minninguna um stúlkuna.

Hvað sem allri skólabókasálfræði líður mun meint frændsemi mín í garð Baldurs ekki hafa nokkur áhrif á það sem ég skrifa hér. Þessi skrif eru algjörlega einlæg og í samræmi við mínar hugsjónir og fyrri skrif.

Í stuttu máli tel ég að málfrelsi og umburðarlyndi setji á herðar okkur þá kröfu að við látum vera að vega að frelsi eða fjármunum fólks sem ögrar okkur með orðum. Okkur getur þótt það sem einhver segir heimskulegt, særandi og jafnvel yfirgengilega ósmekklegt – en það má samt heyrast. Orð eru ekki skaðleg þeim sem kunna með þau að fara.

Ég er einlægur andstæðingur þess sem kalla má „borgaraleg vanþóknun“. Hún felst í því að einhver tiltekinn hópur fólks tekur sig saman og ákveður að sumt megi ekki segja, hvort sem verið er að hafa það í flimtingum eða ekki. Búin eru til tabú sem enginn má snerta á. Og alls ekki opinberlega.

Nú er það oftar svo að róttæklingar og vinstri menn verði fyrir barðinu á borgaralegri vanþóknun – en þeir kunna nú samt að beita henni. Og gera það nokkuð reglulega.

Sök Baldurs er nákvæmlega samskonar og sök mótmælendanna sem vildu frekar drekkja Valgerði en Kárahnjúkum eða samkennara minna í paunksveitinni Blóð sem hvöttu útrásarvíkinga til að stökkva fram af háhýsi og vonuðu að Geir myndi seint batna af hálskrabbanum því hann væri svona ljómandi vel í stíl við allt ógeðið sem hefði oltið upp um kokið á þeim manni. Allt er þetta spurning um smekk. Eða smekkleysu.

Mér fannst fyndið að stungið væri upp á því að drekkja Valgerði. Þrælfyndið. Höfundur skiltisins var sniðugur. Valgerði fannst það alls ekki fyndið.

Mér finnst Megas stórgóður textahöfundur og drepfyndinn í þokkabót. En ofboðslega ósmekklegur þegar hann gefur í skyn að Brynjólfur biskup hafi stundað sifjaspell og að stelpur séu tælandi á aldrinum 8 - 12 ára.

Þjóð sem umber Megas. Nei, ekki umber, ber hann á herðum sér, ætti að vera nægilega menningalega þroskuð til að umbera raus í miðaldra karlrostungi sem lætur „mannalega“ á internetinu.

Einu sinni kom til mín kennslukona með einhverja bók sem hún vildi að yrði upprætt af skólabókasafninu. Hún náði ekki upp í nefið á sér fyrir hneykslan. Þetta var einhver bók um kynlíf og kynheilbrigði. Í bókinni stóð víst að allstór hluti kvenna ætti sér nauðgunarfantasíur. Það var meira að segja tekið fram í bókinni að þessar sömu konur vildu alls ekki vera nauðgað í alvöru. Þetta væri fantasía þar sem nauðgunin var aðskilin frá frelsissviptingu og ótta. Leikin nauðgun. Þssi ágæta kona gat bara ekki samþykkt að gerðar væru bækur þar sem gefið var í skyn að konur vildu láta nauðga sér.

Vafalaust hefur Baldur einhverntíma lesið einhverja svona grein og hún orðið honum hugleikin af einhverjum ástæðum. Og kannski heldur hann í alvöru að þeir femínistar sem kjaftforastir séu og ganga harðast fram gegn karlrembum rækti með sjálfum sér í leyni einhverja nauðgunarfantasíu. En slík sálfræðistúdía er jafnvel enn minna virði en sú greining að Baldur hatist við bændur af því hann var dreginn organdi úr sveitinni í gamla daga.

Málið er að þótt Baldur sé bæði ósmekklegur, einstrengingslegur og klaufalegur – þá er ekkert sem bendir til þess að hann sé minnstu vitund hættulegur. Það er ekkert sem bendir til þess að börnum stafi hætta af honum eða að hann sé líklegur til að áreita nemendur sína. Þvert á móti virðist hann vel liðinn sem kennari.

Það er álíka ólíklegt að Baldur taki þátt í að nauðga Sóleyju Tómasdóttur og að Sóleyju Tómasdóttur langi til að láta nauðga sér. Og það er álíka líklegt að konur verði fyrir skaða af rausi Baldurs eins og að Valgerði Sverrisdóttur verði sökkt í Hálslón.

Borgaraleg vanþóknun er skaðleg. Hún gefur í skyn að umburðarlyndi verði að vera af ákveðinni gerð og þar sem hún hætti að hrökkva til séu öll meðöl leyfileg – jafnvel ofsóknir, ritskoðun og útskúfun. Borgaraleg vanþóknun hélt því á lofti áratugum saman að sjálfsfróun væri synd og geðveila löngu eftir að búið var að fullsanna að hún væri almennt ástunduð og bara næs. Borgaraleg vanþóknun afneitar nauðgunarfantasíum og gerir þar með hóp kvenna sem eru örugglega alheilbrigðar til orðs og æðis að sjúkum pervertum.

Orðum skal mæta með orðum. Málfrelsi er sett til varnar þeim sem vekja andúð fjöldans. Ekki þeim sem syngja meðalmennskunni mansöngva.

Í dag felldi Hæstiréttur BNA úrskurð. Þar í landi hefur ofstækisfullur hópur blábjána um árabil ofsótt þá, sem Bandaríkjamenn telja heilagasta af öllum, dána hermenn. Þessi hópur hefur mætt á útfarir manna sem dáið hafa í stríðum BNA og haldið á skiltum þar sem hlakkað er yfir dauða þeirra og bent á að landið sé úrkynjað og spillt og allt illt sem komi fyrir sé refsing Guðs. Þessi sami kirkjuhópur er sérlega andstyggilegur í garð samkynhneigðra.




En nú hefur Hæstiréttur landsins dæmt að málfrelsið bjóði þetta. Og í dómnum segir: „Orð hafa áhrif. Þau geta hrært menn til athafna og kallað fram gleði- og sorgartár. Þau geta líka, eins og sést í þessu tilfelli, valdið miklum sársauka – en við getum ekki brugðist við þeim sársauka með því að refsa þeim sem talaði.“

Vissulega er ástæða til að taka hart á þeim sem nota orð í glæpsamlegum tilgangi. Þeir sem raunverulega setja annað fólk í hættu með orðum sínum, stunda hótanir eða heitingar; einelti og meiðingar. Þeim á ekki að vera vært. En orðið á að vera laust. Hver maður á að fá að eiga sannfæringu sína, meinhæðni og storkanir.

Hann þarf bara að geta staðið við orð sín fyrir dómi.

Það er ekki okkar að búa til „millidómstig“ sem refsar fólki fyrir þau orð sem vekja vanþóknun okkar en myndu aldrei vera talin refsiverð.

6 ummæli:

Bjössi sagði...

Töfrandi, ekki tælandi. Stelpurnar máttu samt alveg vera frá Tælandi, held ég.

Fínn pistill. Vona að sá næsti verði til varnar Baldri Guðlaugssyni, þá skal ég nú lesa.

Unknown sagði...

Nú er ég svo aldeilis sammála þér. Hins vegar held ég að flestir (ekki allir) sem hafa tjáð sig um ummæli Baldurs hafi ekki haldið því fram að svona mætti ekki segja, heldur einmitt að það væri ósmekklegt, ófyndið og vafasamt. Á sama tíma og málfrelsi leyfir fólki að halda fram ógeðfeldum skoðunum verndar það minn rétt til að segja að umræddar skoðanir séu ógeðfelldar (það þýðir ekki endilega að ég vilji banna þær).
Hins vegar má minna á eftirfarandi klausu í Lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna (1996/70): "Hann skal forðast að hafast nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein er hann vinnur við." E.t.v. mætti haldi því fram að Baldur hafi gerst brotlegur við þetta ákvæði.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Daníel.

Þeir ráku Þórberg því skoðanir hans á málum þessa heims og handans voru ekki í samræmi við virðingu kennslustarfsins. Hann kenndi íslensku.

Nú er hann hluti af pensúminu.

Það er dauður skóli sem getur ekki kennt þig fyrr en þú deyrð.

Það er dautt samfélag sem getur ekki umborið menn eins og Baldur.

Hildur sagði...

Þetta mál snýst eins lítið um nauðgunarfantasíur kvenna og það snýst um marmelaði. Þetta snýst um að við umberum að framhaldsskólakennarar haldi úti opinberum áróðri gegn ákveðnum hópum, byggt á hatri sett fram með duldum og óduldum hótunum um ofbeldi. Að einhver vilji undir niðri láta nauðga sér hefur ekki heldur neitt með nauðgunarfantasíur að gera, það veistu vel.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Nauðgunarfantasíur snerta málið að því leyti að ef maður er ekki beinlínis að reyna að sjá skrattann í Baldri þá er það langnærtækasta skýringin á þessum einkennilega málflutningi hans. Það gerir orð hans hvorki skynsamlegri né réttlætanlegri.

Hótanir um ofbeldi eru alvarlegt mál – en maður gerir ægilega lítið úr alvarleika slíkra hótanna með því að spyrða þær við rausið í karlinum. Hann var engum að hóta, hvorki beint né óbeint.

Og ég held að málflutningur hans byggi ekki á hatri. Ég held hann byggi á heimóttarlegri fávísi og kjánaskap.

Pólitísk rétthugsun má ekki verða kúgunartæki.

fanney sagði...

Langar bara að benda á að það er ekki hægt að "láta nauðga sér" þar sem nauðgun er gerð að þeim sem er nauðgað nauðugum. Það liggur í orðsins merkingu. Að fólk hafi svokallaðar nauðgunarfantasíur er ekki hægt að segja að snúist um alvöru nauðgun þar sem að fantasían stjórnast af þeim sem býr hana til.