1.3. 2011. Viðbót: Frétt um fækkun yngra starfsfólks við kennslu og hátt hlutfall eldra starfsfólks af Rúv.
Ég skrifaði pistil þar sem ég benti á að þessi uppsetning sé afar blekkjandi og ýti undir þá gömlu mýtu að kennarar séu ofaldir letihaugar. Ég fordæmi allan slíkan málflutning. Jón Gnarr borgarstjóri bað fólk að kynna sér hugmyndirnar á fésbók borgarstjóraembættisins og uppskar moldviðri. Enda hygg ég að Halldór (og Jón) hafi fyrst og fremst verið að athuga hver stemmningin væri í þjóðfélaginu með því að dingla tánum í píranalauginni.
Því verður samt ekki leynt að sveitarstjórnirnar eru í vanda. Miklum vanda. Þær vita ekki hvernig þær eiga að fjármagna skólakerfið næsta árið eða svo. Eftir að Menntamálaráðherra synjaði beiðni þeirra um að stytta skóladaginn og/eða skólaárið leita menn allra lausna. Og menn eru tilbúnir að ganga ansi langt. Hugmynd um aukna kennsluskyldu er auðvitað ekkert annað en hugmynd um fækkun starfsfólks. Mér skilst að lækkun kennsluskyldu í síðustu kjarasamningum hafi fjölgað kennurum í Reykjavík einni um hundrað.
En er það virkilega svo að kjarasamningar íslenskra kennara feli í sér svona miklu minni kennslu? Af myndinni hér að ofan að dæma er svarið skýrt og greinilegt nei. Ísland virðist vera mjög dæmigert fyrir OECD að þessu leyti. Nema kannski að undanskyldu því að hér er jöfnuður meiri en víðast hvar í þessum efnum sem öðrum.
En þessi mynd segir ekki alla söguna. Staðan er nefnilega nokkuð verri fyrir sveitarfélögin en myndin sýnir. Og þeir erfiðleikar eru heimatilbúnir.
Samskipti sveitarfélaga við kennara hafa síðasta áratug eða svo einkennst af tortryggni, gerræði og ofbeldi. Árum saman voru kennarar samningslausir. Síðasta verkfall skilaði engu, því um leið og uppsagnarfrestur kennaranna var orðinn jafn langur því sem eftir stóð af skólaárinu voru sett lög á verkfallið. Um miðjan síðasta áratug var ástandið orðið svo slæmt að sveitarfélög voru hætt að ná að endurnýja starfsflotann. Í góðærinu sótti fólk í önnur störf sem voru ekki aðeins betur launuð heldur betur metin. Að endingu varð ástandið svo slæmt að grípa þurfti til launauppbóta og allskyns bónusa (eins og frítt í sund og Húsdýragarðinn) til að manna skólana. Það molnaði úr samstöðu SÍS, sem fram að því hafði hótað sveitarfélögum öllu illu ef eitthvert þeirra gerði betur við sína kennara en hin. Samskipti við kennarastéttina áttu sér stað í gegnum miðstýrt batterí með herskáa stefnu. Og andinn inni í SÍS er enn sá sami ef eitthvað er að marka nýjasta útspil Halldórs. Allar launahækkanir kostuðu einhver réttindi. SÍS barðist sérstaklega fyrir því sem kallaðist „meiri sveigjanleiki“ en í því fólst minni staðfesta, færri prinsipp, færri réttindi.
Nú er ég síðasti maðurinn til að kvarta undan sveigjanleika í skólastarfi. Ég vinn í skóla sem er að gera metnaðarfullar tilraunir í sveigjanlegu skólastarfi. En, árin hafa kennt mér, að treysta sveitarfélögunum ekki fyrir horn. Það skipti nefnilega engu máli hvort sveitarfélögin stóðu vel eða illa – þau hafa alla mína kennaratíð komið illa fram við kennarastéttina.
En hvað hlaut að gerast við þessar aðstæður? Jú, nokkuð sem ég er búinn að vera að tala um og vara við í mörg ár. Meðalaldurinn í kennarastétt hækkar og hækkar. Og hann hækkar vegna þess að elstu kennararnir eru í vistarbandi. Þeir hafa árum og áratugum saman safnað sér inn réttindum sem þeir hafa ekki efni á að fórna. Sama hve lítið þeir fá borgað. Sama hve lítils þeir eru metnir. Og nú er svo komið að nýliðun í kennarastétt er ónýt. Brottfall nýliða er gífurlegt. Tveir þriðju kennaraflotans eru yfir fertugu.
Og hvað þýðir það?
Jú, á Íslandi hefur kennurum verið umbunað fyrir starf sitt með lækkun kennsluskyldu en ekki hærri launum. Kennari sem hefur starfað í 30 ár kennir færri stundir en nýr kennari. Og þegar heimskulegar og skammsýnar aðgerðir hins miðstýrða sveitastjórnarapparats hafa þjarmað að kennurum árum saman svo að lítið situr eftir í skólunum nema elstu kennararnir þá er ekki nema von að þessi kennsluafsláttur valdi vanda.
Þessi skakka aldurssamsetning er stórvarasöm. Og í raun ætti að vera löngu búið að bregðast við henni. Ár eftir ár hafa frábærir og reynslumiklir kennarar horfið af vettvangi án þess að hafa starfað nægilega lengi við hlið ungra hugsjónamanna til að miðla reynslu sinni og starfsháttum áfram til næstu kynslóðar. Eyðan sem myndast þegar einn hættir er fyllt með ungu fólki sem stoppar stutt við og gefst upp fyrir lágum launum, miklu álagi og neikvæðu viðhorfi.
Enginn ber ábyrgð á þessu nema sveitarfélögin. Sem höfðu með sér andstyggilegt og hamlandi samráð þar sem allir voru neyddir til að taka þátt í gæsagangnum og lúta herskáu valdi manna sem viðhéldu stríðsástandi milli kennara og sveitarstjórna árum saman.
Og þegar þetta er sett í samband við það að skólakerfið íslenska kallar á meiri mönnun vegna þess að hér eru 99% barna í almennum skólum en t.a.m. bara 93% í Finnlandi – þá er ekkert undarlegt að upp komi vandamál.
Það sem sveitarfélögin þurfa að gera er að breyta um kúrs. Hætta að ala á tortryggni gagnvart kennurum. Múlbinda menn eins og Halldór. Og koma sér upp metnaðarfullri og raunsærri áætlun út úr þessari krísu. Því hin brenglaða aldurssamsetning kennarastéttarinnar hefur nákvæmlega ekkert með kreppuna eða bankahrunið að gera. Hún er afleiðing óstjórnar og óhóflegrar misstýringar. Afleiðing af harðneskjulegu excel-viðhorfi og skorti á faglegri sýn.
Allt eru þetta viðhorf sem sveitarfélögin eru enn maríneruð af og hafa sannað svo ekki verður um villst í andstyggilegri og heimskulegri nálgun á sparnað í leikskólakerfinu.
Innan SÍS hefur verið uppi röng menntastefna. Hún hefur snúist um fjárhagslega hagsmuni og miðstýrt vald. Hún hefur stórskemmt menntakerfið á Íslandi.
Lausnin á vandanum er ekki sú að segja við þá kennara sem starfað hafa lengst og af mestri hind að nú þurfi þeir að gefa eftir áunnin réttindi sín ofan á launalækkun síðustu áratuga og erfiðari starfsskilyrði.
Ein lausn á vandanum gæti verið sú að hætta að næra þetta skrímsli sem SÍS er. Hætta að borga Halldóri Halldórssyni ofurlaun og hafa hálaunaða herstjórnarsnillinga í störfum við að leita að næsta lagi svo stinga megi niðurskurðarnálinni í kvið kennara. Og svo má gera það sama við Menntasvið Reykjavíkur.
4 ummæli:
Þú ert rekinn!
Já, ég gleymdi að nefna þátt vanhæfra millistjórnenda, Bjössi.
Frábær grein bæði að stíl og innihaldi. Það síðarnefnda er auðvitað mikilvægara. Hvar hefur höfundurinn verið fram að þessu!?
Kv., Björgvin Þórhallsson
Tek undir með Björvini - frábær grein.
Skrifa ummæli