28. febrúar 2008

Frelsi og ábyrgð

Þekktur geðlæknir sagði eitt sinn að frelsi væri ljóta hliðin á peningi hvers góða hlið væri ábyrgð. Hann lagði til að reist yrði Ábyrgðarstytta á vesturströnd BNA til áminningar um þetta.


Mig langar að fjalla hér aðeins um ummæli á netinu, ritskoðun og ábyrgð. Fyrst er rétt að átta sig aðeins á hugtakinu velsæmi. Velsæmi er nokkurskonar kragi utan um hegðun og orðræðu sem styður við hana og gefur henni teinréttan vöxt. Vandinn er sá að svírastærri einstaklingar en gengur og gerist eiga það til að kafna í þessum kraga.


Í lok apríl 1873 birtist grein um nýjan landshöfðingja yfir Íslandi í tímaritinu Göngu-Hrólfi. Meginefni greinarinnar var að það vildi enginn þennan mann, sem þótti full danskur, í stigvaxandi ólgu þjóðerniskenndar (þetta var ári áður en við fengum stjórnarskrána). Greinin hét „Landshöfðingjahneykslið” og var skrifuð af Jóni Ólafssyni ritstjóra. Hún hefst svona:


Hvaðan er langshöfðingja-hneikslið komið? — Svar: frá stjórninni. — Sönnun: hefði stjórnin ekki skrúfað uppá okkur þessum landshöfðingja, þá — ja, þá hefði hér ekkert landshöfðingja-hneiksli komið. En nú er það skeð. Gamlir og ungir rófu-veifandi embættis-lúðrarar, þessi in diggu dírin, henda „þénustusamlega” á lofti hvern þann hráka, er framgengr af innar hneiksluðu tignar munni útifir þá, er hneiksluninni hafa valdið; allir broddborgarar bæarins eru orðnir spönn lengri milli nefs og höku af „réttferðugri forundran” og fregnin um þetta flígur einsog eldur í sinu útum allar sveitir. Hví skildi „Göngu-Hrólfur” þá þegja?


Hér er fært allrækilega í stílinn og framhald greinarinnar er í svipuðum stíl. Landshöfðinginn kærði ummælin og mætti í eigin persónu á lögbundinn sáttafund þar sem hann fór slíkum fúkyrðum um greindarfar ritstjórans að sá færðist í aukana og kærði á móti. Málið endaði með því að ritstjórinn hraktist úr landi undan stórum sektum og löngum fangelsisdómi.


Jón Ólafsson


Um hálfri öld seinna var kommúnistinn Brynjólfur Bjarnason dæmdur fyrir þessi ummæli um Guð í ritdómi um Bréf til Láru:


Íslendingar hafa löngum verið nokkuð treggáfaðir og einfaldir gagnvart kúgurum sínum, þeir eru orðnir þeim svo vanir, eins og hægt er að venja menn frá blautu barnsbeini að elska og virða guð almáttugan, þó að allir eiginleikar hans séu útskýrðir ítarlega og menn gangi þess ekki gruflandi, að hann sé ekki annað en hégómagjarn og öfundsjúkur harðstjóri og óþokki.


Brynjólfur Bjarnason


Um hálfri öld eftir það var Úlfar Þormóðsson tekinn á beinið fyrir guðlast og klám vegna Spegilsins þar sem hæðst var að ýmsum þáttum í framkvæmd kristnidómsins á Íslandi (m.a. því að prestar gæfu börnum fyrsta sopann á brennivísvegferðinni) og birt var mynd af manni sem bar hníf upp að kynfærum sínum.


Og nú er búið að dæma son hans fyrir að kalla bloggara ægilegan rasista fyrir að gera gys að veikindum erlendra verkamanna og bera út róg um nafntogaðan nýbúa.


Þau lög sem bloggarinn var dæmdur eftir eru frá sumrinu 1940. Daginn áður en lögin voru sett átti sér stað nokkuð merkur viðburður í félagslífi þjóðarinnar, en þá var farin skemmtiför templara sem tókst með eindæmum vel. Um hana segir í Mogganum:


Umdæmistúka Suðurlands gekst fyrir almenntri skemmtiför Templara á sunnudaginn var. Er þetta einhver fjölmennari hópför, sem farin hefur verið hjer á landi. Tóku þátt í henni 275 Templarar úr Reykjavík; auk þess komu Templarar á Akranesi í 2 bílum, úr Höfnum í einum bíl, úr Sandgerði í einum bíl, úr Garðinum í einum bíl og úr Hafnarfirði í tveimur bílum. Keflvíkingar gátu ekki komið að þessu sinni, annars var von á 2 bílum þaðan. Alls voru í förinni 420–430 manns.


Góðtemplarar á góðri stundu


Án þess að ég vilji gera lítið úr bílfylli templara frá Kirkjuvogi þá vekur það mann vissulega til umhugsunar að árið 2008 skuli maður dæmdur eftir gildismati þeirrar þjóðar sem byggði landið fyrir nærri sjötíu árum. Þeir lagabókstafir sem Gaukur var dæmdur eftir eru enda teprulegri en tíu bílar af templurum. Þar stendur til dæmis:


Ef maður dróttar að öðrum manni einhverju því, sem verða myndi virðingu hans til hnekkis, eða ber slíka aðdróttun út, þá varðar það sektum eða [fangelsi]1) allt að 1 ári.


Þetta er greinin sem Gaukur var dæmdur eftir. Þessi grein er auðvitað opin í báða enda. Raunar er hún svo losaraleg að hér verður að styðjast algjörlega við velsæmiskennd einstakra dómara og dómafordæmi. Við vitum hvar dómari sá sem dæmdi Gauk stendur, nú á eftir að koma í ljós hvort dómafordæmi styðja það. Í sömu lögum stendur:


Ef maður bregður manni brigslum án nokkurs tilefnis, þá varðar það sektum, þótt hann segi satt.


Hvað á maður að segja um svona lagað? Hver á að meta hvað eru brigsl og hvenær tilefni er nægilegt?


Menn þurfa að fara óskaplega varlega í því að koma böndum á netið. Og þau bönd verða að vera í takti við það sem leyfist erlendis. Við getum ekki verið eyland í þessu tilliti. Þessi orð eru t.a.m. vistuð á erlendri grundu þótt þau séu skrifuð á íslensku. Hverra lög ná þá yfir þau? Íslensk af því að þau eru skrifuð af Íslendingi? Íslensk af því þau eru skrifuð á íslensku? Bandarísk því þau eru birt á bandarískum vef? Aftur íslensk ef sami bandaríski vefur er geymdur í netþjónabúi á Miðnesheiði?


Netþjónar


Það á eftir að svara þúsund spurningum og það væri mun æskilegra að það yrði gert á yfirvegaðan, faglegan og fræðilegan hátt en að smám saman myndu koma fram dómafordæmi.


Eðli málsins samkvæmt þá mun í þessum málum alltaf á endanum standa eftir mildasta löggjöfin. Í bandarískri löggjöf er sannleikurinn alltaf vörn, í íslenskri er hann það ekki. Fyrr eða síðar mun liggja fyrir með hvaða hætti íslenskur bloggari þarf að skrifa til að heyra undir þá amerísku.


Heill hellingur af ríkjum hefur lagt sig sérstaklega eftir því að hafa stjórn á netinu og ummælum á því. Það eru ríki sem hafa meiri áhyggjur af velsæmi en málfrelsi.


Það hafa sérstaklega verið kóngar sem verndaðir hafa verið fyrir illmælgi og háðsglósum óbreyttra þegna, gesta og gangandi. Þrír menn voru dæmdir til fangelsisvistar árið 2006 í Brunei fyrir að senda móðgandi farsímaskilaboð um soldáninn og fjöldskyldu hans. Þrír blaðamenn á Maldiveyjum voru dæmdir í ævilangt fangelsi fyrir móðgun við forsetann og útgáfu blaðs sem réðst að stjórninni. Pólsk lög leyfa þriggja ára fangelsi fyrir móðgun við forsetann. Miklar áhyggjur eru vegna stöðunnar í Rússlandi. Egypskur bloggari var dæmdur í 4 ára fangelsi fyrir að móðga Mubarak og íslam. Blaðamaður í Kasakstan fékk skilorðsbundinn dóm fyrir að móðga forsetann. Fullyrðing um að Mugabe væri að láta prenta verðlausa seðla kostaði kaupsýslumann tveggja ára skilorðsbundinn dóm. Tveir andstæðingar Lúkasénkós í Hvíta-Rússlandi fengu dóm fyrir móðgun við forsetann. Og Sýrland dæmdi blaðamann til hálfs árs fangavistar fyrir móðgun við forsetann. Tyrkir sáu svo ástæðu til að loka fyrir Youtube.


Þekktasta tilfellið var þó þegar Svisslendingurinn Oliver Jufer fór á fyllerí og krotaði á veggspjöld með mynd tælenska kóngsins. Kóngurinn var svo vinsamlegur að náða hann eftir að dómur féll en dómararnir voru ekki á þeim buxunum að gefa neinn afslátt af refsilöggjöfinni sem leyfir allt að 75 ára fangelsi fyrir móðgun við kónginn.


Fyrir þetta má fangelsa mig þar til ég verð 107 ára


Viðkvæmastur allra var líklega Hinrik 8. sem gerði illt umtal um sig að landráðum. Nokkuð sem Bretar höfðu vit á að fella niður með málfrelsisákvæði í lok 18. aldar.


Það er kannski að einhverju leyti hægt að horfa í gegn um fingur sér við hégómlega kónga. Vandinn skapast þegar við höfum heila þjóð smákónga sem hver er öðrum viðkvæmari. Íslendingar eru einmitt svoleiðis þjóð.


Málfrelsi snýst ekki um velsæmi. Það þarf ekkert málfrelsi til þess að tjá sig um það sem engan stuðar. Málfrelsi snýst um umburðarlyndi gagnvart þeim sem fara á svig við velsæmi. Umburðarlyndi sem réttlætt er með tvennum hætti. Í fyrsta lagi með hverfandi skaðsemi og í öðru lagi með mikilli gagnsemi.


Það er engin teljandi skaðsemi fólgin í því að kalla mann, sem ber út róg um nýbúa og hendir gaman að veikindum verkamanna sem búa við illan kost, rasista. Það er raunar fullgild og leyfileg skoðun. Miklu meiri skaðsemi er fólgin í því að kalla hann þý glæpamanna. Dómarinn sá ekki ástæðu til að telja slík ummæli beinast að æru mannsins, sem bendir til afar einkennilegrar dómgreindar.


Það er vissulega ástæða til þess að hvetja til vandaðrar umræðu á netinu eins og annarsstaðar — en það er ekki minni ástæða til að standa vörð um tjáningarfrelsið.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

þessi vörn fyrir málfrelsinu er of aum. málfrelsi hlýtur að snúast um sannleikann og rétt manna til að segja það sem þeim liggur á hjarta. það að sumir skuli segja ljótari hluti en aðrir er svo annað mál. að segja að málfrelsi sé það svigrúm sem við veitum fólki sem skortir mannasiði er að gera lítið úr því.

Ragnar Þór sagði...

Þetta er misskilningur. Hér er verið að vísa til þeirrar kröfu sem málfrelsið setur á herðar hverjum borgara – að hann umberi orðfæri sem hann telur svívirðilegt. Í staðinn færðu réttinn til að vera svívirðilegur í augum annarra.

Setning sem sett er fram er ekki sett fram í skjóli málfrelsis nema hún fari fyrir brjóstið á einhverjum. Málfrelsið er vörn hennar gegn þeirri andúð.

Allt tal um sannleikann er smættanlegt niður í þennan ofurvenjulega, hversdagslega raunveruleika.

Andúðin á Galíleó, t.d., gæti virst snúast frekar um sannleikann en háttvísi. Raunin var sú að Galileó traðkaði á háæruverðugum tám páfadóms með því að hunsa þær kurteisisvenjur sem ætlaðar voru umdeildum kenningum. Páfi skrifaði athugasemdir sem Galíleó átti að birta með hugmyndum sínum svo sanngirni væri gætt en Galíleó gerðist svo frakkur að fara háðulega með þessi andmæli.

Vissulega er sannleikurinn ein af meginréttlætingum málfrelsis en á endanum snýst andstaðan við málfrelsi (hvar sem þig ber niður) um það hvort menn geti umborið það sem menn telja utan velsæmismarka.

Mér þætti gaman að sjá raunverulegt dæmi um annað.

Oskar Petur sagði...

Vá...

Síðastliðinn þriðjudag sá ég bestu kvikmynd sem ég hef séð á árinu, "No Country For Old Men".

Þetta var svo besta (og mikilvægasta) bloggfærsla ársins, ef ekki sú besta sem ég man í háa herrans tíð.

Skítt með viðskiptabanka, sem hrapa eins og brennandi flugvélar í hafið og það hvort Júróvisjónfarar komist ekki til Serbíu vegna hommahatandi fávita. Þetta afar mikilvæga vígi þjóðarinnar - málfrelsið - er tvímælalaust stærsta frétt þessa dagana.