Segjum sem svo að einhverjir pólitískir hálfbjánar hefðu ákveðið að það væri rosalega flottur leikur að bjóða upp á fleiri en eina tegund af skattkerfi. Og fólk gæti valið sig inn í kerfi. Kerfunum fylgdi mismikil áhætta þar sem mestu ávinningur en jafnframt hættan á mestum álögum biði þeirra sem tækju mesta áhættu.
Og svo myndu álögurnar á þá sem tóku mesta sénsa verða ógurlegar. Og einhver úr þeirra hópi myndi fara í mál – og vinna. Það kæmi í ljós að einhver formsatriði gerðu hliðarskattkerfin ólögleg.
Segjum svo að það tæki tíma að reikna út hvað menn hefðu ofgreitt – og það tæki líka tíma að skoða bótahliðina hjá þeim sem hefðu kiknað undan álaginu. Hvað ætti að gera þennan tíma?
Það virkar auðvitað sanngjarnt að þeir sem hafi ofgreitt skatt borgi engan skatt fyrr en búið er að leysa úr þeirra málum. Og það getur enginn nema Hæstiréttur gert. En hvað myndi þá gerast?
Samfélagið allt myndi líða fyrir það. Og jafnvel mjög mikið. Þrautir þess yrðu næstum örugglega meiri en hagnaður þess varð af hinum himinháu sköttum.
Svona virðast margir hugsa myntkörfumálið. Og komast að þeirri niðurstöðu að áframhaldandi þátttaka myntkörfuskuldunauta sé nauðsynleg í að halda samfélaginu gangandi. Ef í ljós kæmi að tveir hásetar á sexæringi hefðu verið hlunnfarnir í síðasta túr þá þarf að taka á því þegar komið er í land. Menn leggja ekki árar í bát í miðjum brimskafli.
Og það má vera að eitthvað sé til í þessu. Og frá þessu sjónarmiði er tillaga FME og SB nokkuð skynsamleg.
En þó eru engar líkur til að hlutaðeigandi muni sætta sig við þessa lausn. Bankarnir, jú, mikil ósköp – en ekki skuldararnir. Ástæðan: Karma lánadrottnanna.
Þeir sem lánuðu myntkörfurnar hafa bæði verið sviptir siðferðis- og ábyrgðarkennd. Þeir hafa stundað gamlatestimentis fjárhagslegar pyntingar og ofsóknir á því fólki sem þeir vænta nú náðar frá. Þeir hafa nýtt hverja glufu til að hækka skuldirnar. Þeir hafa gert sér hliðarbissness í því að hámarka arð sinn af því að rífa eignirnar af fólkinu. Af fullkomnu siðleysi hafa þeir neitað að lyfta litlafingri til hjálpar hafi fólk verið í vanskilum. Af hreinræktaðri siðblindu hafa þeir krafið fólk um greiðslu fyrir viðhald og viðgerðir sem aldrei fóru fram. Þeir hafa hrakið stóran hluta þeirra íslendinga sem flutt hafa erlendis úr landi. Þeir hafa valdið kvíða, örvinglan og jafnvel sjálfsmorðum.
Innheimtuhugmyndafræði myntkörfunnar er ógeðslegasta, siðblindasta, skriðdýrslegasta og óskammfeilnasta fyrirbærið sem komið hefur fram í hruni landsins.
Og nú á að hjálpa þessu fólki að halda sjó.
Réttlæti getur verið hvasst án þess að verða hefnd. Og réttlætið segir að þessir menn eigi ekkert gott skilið. En það þarf að lifa lífinu áfram. Alveg eins og eftir Apartheid eða nasismann.
Fólkið á bak við innheimtu myntkörfulánanna er enn út um allt í bönkunum og hefur ekki færst eina spönn í fjármögnunarfyritækjunum. Það er jafnvel komið í opinber embætti á þeim forsendum að það var dáltið grúví í emmhá á sínum tíma. Þetta fólk felur sig í kerfinu eins og rottur innan í veggjum.
Til að nokkur myntkörfuskuldunautur hafi geð í sér til að greiða svo mikið sem eina krónu umfram það sem hann, í mestu bjartsýni, getur ímyndað sér að hann skuldi þarf að koma til uppgjör. Það þarf að svæla burt rotturnar.
Og svo þarf að taka ákvörðun um það með hvaða hætti er dílað við þær í framhaldinu. Ég persónulega fíla betur leið Mandela en Wiesenthals.
2 ummæli:
Sæll,
Mikið til í þessu. Eitt sem mér finnst samt vanta í þessa skýringu þína. Þú segir:
"Segjum sem svo að einhverjir pólitískir hálfbjánar hefðu ákveðið að það væri rosalega flottur leikur að bjóða upp á fleiri en eina tegund af skattkerfi. Og fólk gæti valið sig inn í kerfi. Kerfunum fylgdi mismikil áhætta þar sem mestu ávinningur en jafnframt hættan á mestum álögum biði þeirra sem tækju mesta áhættu.
Og svo myndu álögurnar á þá sem tóku mesta sénsa verða ógurlegar. Og einhver úr þeirra hópi myndi fara í mál – og vinna. Það kæmi í ljós að einhver formsatriði gerðu hliðarskattkerfin ólögleg."
Hvað finnst þér þá um hina sem fóru varlegari leiðina og ætluðu bara að borga jafnt og þétt og eiga litla hættu á sveiflum. Skattlagning þessara aðila hefur einnig hækkað mjög mikið síðustu misserin og það mun halda áfram, jafnvel eftir að álögur hinna áhættusömu eru dæmdar ólöglegar og það þrátt fyrir að þetta nýja skattkerfi og afleiðingar þess hafi verið stór ástæða þess að skattbirgði þeirra áhættufælnari hækkaði mikið.
Finnst þér rétt að álögur þeirra sem voru í áhættuflokknum verði gerðar mun lægri þar sem þær voru dæmdar ólöglegar, eða finnst þér að þeir áhættusömu ættu að borga sömu skatta og þeir sem voru áhættufælnir?
(vona að þú skiljir það sem ég er að reyna að henda fram) :)
Ég er greinilega búinn að búa of lengi í Noregi til að skilja íslenskar fréttir lengur. Eftir að hafa lesið um framkomu SP-Fjármögnunar þá fór ég að hugsa um hvort þetta væru einstök tilfelli eða skipulagt svindl. Þú notar harkaleg orð. Ég spyr bara: Er þetta virkilega svona hjá þessum lánafyrirtækjum? Er þetta reglan, að þeir gangi fram með svona offorsi og svindli?
Þetta sem ég er að lesa síðustu daga er svo gróft að maður fær velgju. Þetta hlýtur að vera bannað, m.a.s. á Íslandi. Ef það kæmist upp um svona í Noregi, að um skipulegt athæfi væri að ræða, þá yrði bankastjórinn/forstjórinn dreginn á hárinu í öll fréttastúdíó og hengdur í öllum blöðum. Norska Fjármálaeftirlitið myndi síðan skella skelfilegri sekt á fyrirtækið og jafnvel svipta þá leyfinu.
Skrifa ummæli