10. janúar 2010

Opnið herbergið!


Mér þótti Silfur Egils í dag ansi einhliða. Það kemur mér verulega á óvart að maður gengur undir manns hönd við að lýsa því yfir að þátturinn hafi opnað augu fólks – og snúið til réttrar langömmutrúar fjölmörgum.

Ég skal viðurkenna að ég er ansi hallur undir nei-ið í kosningunni. En það er ekkert sjálfgefið – og það varð ekkert líklegra við það að horfa á Silfrið. Þar kom í sjálfu sér ekkert fram sem hefur ekki komið oft fram áður. Michael Hudson hlustaði ég á í apríl þegar hann kom hingað og sagði að þetta væri barátta góðs og ills, sem hann væri tilbúinn að taka að sér. Ég bloggaði um það þá.

Það sem ræður úrslitum um hvort ég kýs já eða nei verða staðreyndir málsins. Hvað gerist ef við segjum nei?

Steingrímur og Jóhanna hafa aldrei viljað segja okkur það. Hafa bara gefið í skyn að það sé eitthvað rosalegt. Eitthvað svo stórkostlegt að það snéri a.m.k. Steingrími á punktinum.

Það eru þessar upplýsingar sem þurfa að komast upp á yfirborðið. Það þýðir ekki fyrir Steingrím og Jóhönnu að fela þessar upplýsingar fyrir okkur lengur. Þingmenn fengu að sjá eitthvað í lokuðu herbergi. Það þótti nauðsynlegt svo þeir gætu tekið upplýsta ákvörðun. Nú hefur þjóðin löggjafarvaldið. Hún þarf þessar upplýsingar.

Nú þarf allt upp á borðið. Allar hótanir þurfa að orðast upphátt og þær þarf að herma upp á þá sem hótuðu. Ef þeir vilja ekki kannast við neitt, þá er það þar með úr sögunni. Ef hótanirnar standast skoðun og þola dagsljós – þá er það okkar að taka ákvörðun út frá því.

Nú vilja einhverjir stjórnarþingmenn að „hlutlaus“ aðili upplýsi þjóðina og fríi þannig Steingrím og Jóhönnu til að vera í hagsmunagæslu. Mér finnst það sannast sagna virka eins og Steingrímur og Jóhanna séu að reyna að komast hjá aðalatriðinu – að gefa okkur þær upplýsingar sem við þurfum. Að allt sé sett upp á borð.

Skítt með hefðir og venjur í diplómatísku samstarfi. Þær hefðir sem byggja á kúgun, hótunum og feluleik, eru ekki hefðir sem binda hendur þeirra sem ekki hafa áhuga á slíkum hráskinnaleik.

Engin ummæli: