10. janúar 2010

Guðmundur Steingrímsson og Rainbowryksugan


Guðmundur Steingrímsson fór fyrir fylkingarbrjósti þeirra sem annaðhvort eru andsnúnir synjun forsetans eða þykir hún reist á hæpnum forsendum. Hann gerir grín að viðtali Paxmans við Ólaf og þykist hafa séð hvernig Paxman hefði getað komið Ólafi í bobba. Með því að spyrja hversu oft þjóðaratkvæðagreiðslur hefðu verið haldnar.

Ég held að Guðmundur vanmeti Ólaf hressilega. Ég held hann hefði ekki átt í neinum vandræðum með að svara spurningunni. Forsetinn hefði einfaldlega undirstrikað alvarleika málsins með því að segja að þetta sé aðeins í annað sinn sem þessarar aðgerðar er þörf – svo mikið sé það á skjön við íslenska lýðræðishefð. Og þar með fyllt upp í þá mynd sem máluð var í viðtalinu að hér tækjust á stjórnarskrárvarið lýðræðisríki og stjórnmálamannaríki.

Raunar er grundvallarforsenda Guðmundar röng. Hann segir að forsetinn hafi haldið því fram að hér réði fólkið. Það er ekki satt. Hann sagði að hér ætti hið stjórnarskrárbundna vald uppsprettu sína í fólkinu, en ekki hjá þingi eða kóngi. Og að þar væri Bretland ekki hliðstæða Íslands.

Það er nefninlega hollt fyrir þingmenn, og sérstaklega framsóknarmenn, að muna það. Þeir hafa nefnilega sumir ekki áttað sig á því að ÓRG hefur verið annarrar skoðunar en þeir um stjórnskipunarhlutverk forsetans í allnokkur ár. Hann kýs að túlka stjórnarskrána með þeim hætti sem hann hefur nú staðfest, tvisvar.

Hann stóð sig ekki vel hjá Paxman af því að hann væri snöggur að finna eitthvað sem hljómaði vel. Hann stóð sig vel vegna þess að hann var með afstöðu sína fyllilega á hreinu. Hún gekk röklega upp. Var algjörlega samkvæm sjálfri sér.

Sá sem ver þannig málstað á sjaldnast í vandræðum með svör.

Enda skúraði hann síðan Bessastaði með hinum vonlausu íslensku fréttamönnum í framhaldinu.

2 ummæli:

Eiríkur Örn Norðdahl sagði...

Heitir ekki maðurinn Paxman?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Jú, auðvitað. Laga það.