Samantekt
Hér fjalla ég aðeins um samræmd próf og þau skaðlegu áhrif sem þau höfðu á skólastarf. Þá fjalla ég líka um einkunnaverðbólgu sem kemur í kjölfar þess að framhaldsskólar velja inn eftir einkunnum og hvernig það getur verið skaðlegt fyrir framhaldsskólana sjálfa. Niðurstaða mín er að það sé á ábyrgð framhaldsskólanna að setja sér skynsamlegri og skýrari inntökureglur og meta fleiri þætti en einkunnir.
Samræmdu prófin
Samræmdu prófin eru enn komin í umræðuna. Tilefnið nú eru erfiðleikar framhaldsskóla við að velja inn nemendur og meint einkunnaverðbólga í kjölfar þess að skólaeinkunnir voru látnar gilda.
Staðan sem nú er komin upp stafar af öryggisleysi. Öryggisleysi framhaldsskólanna.
Framhaldsskólar hafa notað samræmd próf sem inntökupróf og það er því eðlilegt að foreldrar álykti sem svo að einkunnir á samræmdum prófum séu gjaldmiðill í baráttunni um sætin í „bestu“ skólunum.
Þetta mat framhaldsskólanna stafar fyrst og fremst af leti. Skólarnir hafa sjálfir ekki nennt eða ekki kunnað að marka sér stefnu í inntöku nýnema. Þeir hafa því miðað við meðaltal skólaeinkunnar og samræmdra prófa þar til nú, að engri samræmdri einkunn er til að dreifa.
Það hlýtur að gefa auga leið að um leið og framhaldsskólar miða eingöngu við einkunnir þá er komin mikil pressa á grunnskóla að hafa háar meðaleinkunnir – alveg eins og pressa var á grunnskólum að hafa háar meðaleinkunnir á samræmdum prófum.
Þannig verður til einkunnaverðbólga sem veldur því að fáranlega háar einkunnir þarf til til að komast inn í vinsælustu skólana. Það er ekkert eðlilegt við það að nemendur heils skóla séu allir af sama eins og hálfsstiga bilinu.
Samræmd próf voru orðin helsi á skólastarfi. Fyrir það fyrsta voru þau átakanlega illa samin eins og ég hef áður fjallað um hér.
Í öðru lagi var allur samanburður löngu orðinn ómarktækur þótt framhaldsskólarnir þráuðust við. Hver nemandi mátti taka samræmt próf tvisvar frá 8. og upp í 10. bekk og seinni einkunn gilti þá. Hann mátti líka taka þau próf sem hann kaus. Í flestum skólum merkti ljúkning samræmdra prófa að viðkomandi nemandi fékk að fara í framhaldsskólaáfanga í viðkomandi grein í fjarnámi.
Það þýddi að ef við höfðum áþekka nemendur þar sem annar tók samræmt próf í stærðfræði í áttunda bekk en hinn í tíunda bekk þá hafði sá fyrri lokið 1 til 4 framhaldsskólaáföngum í stærðfræði þegar hann útskirfaðist úr grunnskóla en hinn engum. Allar líkur voru samt á því að sá síðarnefndi hefði hærri einkunn úr samræmdu prófi enda búinn að hafa tvemur árum lengri tíma til að undirbúa sig undir það.
Hvor nemandinn skyldi vera betur búinn fyrir framhaldsskólann?
Samræmd próf hafa verið alltof stýrandi í skólastarfi. Fjöldi námsgreina líður fyrir það að þær hafa verið kenndar til samrmdra prófa. Um leið hverfur úr þeim öll kyngi og eftir situr það þurrasta.
Samræmd próf eru ekki horfin. Þau verða strax í haust hjá þáverandi 4., 7. og 10. bekk. En einkunnir verða ekki aðgengilegar fyrir framhaldsskóla. Einkunnir verða matstæki á gæði skólastarfs og framfarir nemenda í skólakerfinu.
Framhaldsskólarnir þurfa ekki seinna en núna að fara að hugsa fyrir því með hvaða hætti á að velja úr umsækjendum.
1 ummæli:
"Skólarnir hafa sjálfir ekki nennt eða ekki kunnað að marka sér stefnu í inntöku nýnema."
Rétt, og mætti spyrja hvaðan sú hugmynd er komin að menntaskólar eigi að velja inn bara þá sem hafa hæstar einkunnir. Hafa skólarnir einhvern tíma svarað því hver tilgangur þeirra sé með slíkri inntöku? Það eru ótal aðrar leiðir, og hægt að ákvarða að taka inn eftir nokkrum mismunandi flokkum, 10% eftir einkunnaröð, 10% úr hverfi A, 10% úr hverfi B, 10% eftir hlutkesti, 10% eftir sérstökum áhugamálum skóla (t.d. greinar sem þeir leggja sérstaka áherslu á), 10% eftir umsókn sem dæmdar eru eftir hugmyndaauðgi, og svo framvegis. Það eru ENGIN rök fyrir því að skólar eigi að keppa um "bestu" nemendurna, nema þau að það er vissulega auðveldast fyrir skólana.
Skrifa ummæli