22. júní 2009
ICESAVE (nei) TIT FOR TAT (já)
Ísland er Roy Sullivan fjármálaheimsins. Roy þessi komst í metabækur fyrir að vera sá maður sem oftast varð fyrir eldingu, eða sjö sinnum. Hann lifði allar eldingarar af og dó rétt rúmlega sjötugur – þegar hann framdi sjálfsmorð vegna óendurgoldinnar ástar.
Á Íslandi gerðist allt sem ekki mátti gerast – og ekki átti að geta gerst. Svotil allt bankakerfið fór á hausinn og tryggingarnar sem fyrir voru dugðu ekki. Ofan á það voru viðbrögð erlendra þjóða fjandsamleg. Ofan á það var stjórnarkreppa og leiðtogar þjóðarinnar fengu báðir krabbamein. Þar af sá, sem átti að sjá um samskiptin við erlendu þjóðirnar, mjög alvarlegt og hamlandi krabbamein. Ofan á það varð bylting (með táragasi og öllu). Ofan á það eyðilögðu bankarnir gengið og afkomumöguleika stórs hluta þjóðarinnar. Ofan á það var búið að ginna stóran hluta þjóðarinnar til að taka lán sem hann gat illa eða aldrei borgað til baka. Ofan á það er Landsvirkjun líklega að fara á hausinn.
Maður hefði haldið að eftir svona taplotu þá yrðu stjórnvöld varkár. Jafnvel verulega íhaldssöm. Myndu líta í eigin barm og komast, réttilega, að þeirri niðurstöðu að svona heiftarleg ógæfa getur aldrei verið hrein óheppni – sá sem fyrir henni verður hlýtur að hafa teflt á tæpasta vað.
Ísland er spilafíkillinn sem áttar sig skyndilega á að hann er búinn að spila rassinn úr buxunum.
Fyrsta viðbragð fíkilsins er að rasjonalæsa tapið og kenna einhverjum öðrum um. Næsta viðbragð er örvænting. Í framhaldi af því kemur ráðagerðin um að vinna tapið til baka.
Og nú horfir spilafíkillinn ekki til þess að allt hafi farið á afturfæturna fram að þessu. Hann horfir til þess að allt geti mögulega gengið betur héðanaf. Hann býr til plan með nokkrum breytum. Og ef breyturnar skila allar hagfelldri niðurstöðu þá er honum borgið.
Svo til alltaf er ráðabruggið lykillinn að endanlegri glötun fíkilsins.
Síðustu daga hafa forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar komið fram með lausnina á vandanum. Samninga við Breta og Hollendinga um ICESAVE. Í samningunum eru margir óvissuþættir. Það er ólóst hve há upphæð lendir á ríkinu. Það er óljóst hvernig við ætlum að eiga fyrir henni. Það er óljóst hvernig AGS vill haga seglum í mögulegum erfiðleikum. Það er óljóst hvernig samningsþjóðirnar munu taka á erfiðleikunum.
Eina svar ríkisstórnarinnar til þjóðarinnar við þessum efa er að skammast út í svartsýnisspár og hræðsluáróður. Eina svar ríkisstjórnarinnar er að segja að okkur standi ekki annað til boða. Öðruvísi vinnum við ekki upp tapið.
ICESAVE-samningur Svavars Gests er eini samningurinn sem liggur á borðinu. Hann er hinsvegar ekki eini samningurinn sem til greina hefði komið. Sá sem hefur orðið fyrir eldingu fimm sinnum hann heldur sig inni í rigningu (en Roy Sullivan sagði að í sjötta skiptið sem hann var stuðaður hefði hann verið á hlaupum undan þrumuskýi sem hann sór að hefði elt sig). Hann tekur enga sénsa. Og ef hann þarf að taka sénsa þá byggir hann ákvörðun sína á því hvernig fer í versta falli – hann vonar ekki bara það besta.
Allir þeir þættir í ICESAVE sem valdið geta Íslandi frekari skaða og hörmungum eru óljósir og illa skilgreindir. Það er ekki búið að meta mögulegt tjón eða viðbrögð við því. Það eina sem treyst er á, er velvilji alþjóðasamfélagsins. Það geti barasta ekki verið að Ísland verði hnoðað endanlega í duftið þegar það hefur ekki lengur fætur til að standa á.
Slík bjartsýni er í hæsta máta óeðlileg. Við erum í duftinu. Erlend ríki tröðkuðu á okkur og hafa fyrir löngu sannað að hagsmunir okkar eru tilfallandi áhyggjuefni fyrir þeim.
Aðeins tvennt getur útskýrt slíka bjartsýni.
Annaðhvort er þetta óskhyggja spilafíkilsins sem sér leið til að vinna allt aftur ef aðeins bara nokkrir hlutir ganga upp.
Eða að eitthvað annað samkomulag liggi undir þessu. Eitthvað draugasamkomulag sem taka á gildi ef þetta verður undirritað. Loforð um hjálp á móti hjálp. Heiðursmannasamkomulag sem jafnvel leggur beinan og gylltan stíg til Brussel.
Ef vonin um að allt gangi upp er óskhyggja þá er hún ekki aðeins óskynsamleg í þeirri stöðu sem við erum – hún er heimskuleg.
Ef undir býr fullvissa vegna loforða þá ber að gera það opinbert og skjalfest. Ekki aðeins svo þjóðin geti gert upp hug sinn og afstöðu til málsins út frá raunverulegum grunni samkomulagsins heldur líka vegna þess að Gordon Brown er líklega sá leiðtogi í Evrópu sem hefur slakast framtíðarlánstraust á loforðum.
Það er töluvert raunhæfara að eignir ICESAVE dugi fyrir skuldbindingum en að Gordon Brown eigi sér pólitíska framtíð umfram allra næstu misseri.
Það er fáránlegt að koma sér í mjúkinn hjá leiðtoga sem allir hata.
En hvað á þá að gera?
Það er ofur einfalt. Það er búið að margrannsaka hvernig höndla á svona deilur. Það eru til doktorar í því. Leikmenn vita það. En þó eru greinilega dæmi þess að tilteknar flugfreyjur, jarðfræðingar og stúdentar hafi ekki hugmynd.
Þegar maður er í vafa um hvernig á að haga sér í deilu þá notar maður aðferðarfræði sem kallast TIT FOR TAT. Það er aðferðafræði sem til varð þegar Robert Axelrod hélt nokkur mót í upphafi níunda áratugarins til að finna bestu taktíkina í einföldum deilum. Í sem einföldustu máli þá er ein aðferð sem skilar bestum árangri þegar tveir deila eða berjast um tiltekin gæði.
Hún er svona: Í upphafi sýnir þú samvinnuvilja og gerir aðeins það sem hentar ykkur báðum. Eftir það þá lætur þú nægja að meta síðustu aðgerðir mótherjans og gerir eins.
Þannig að ef mótherji þinn er aggresívur þá ert þú aggresívur á móti. Ef hann breytir um stefnu þá gerir þú það líka.
Það sem þarf að gerast núna er að þingið þarf að hafna ICESAVE. Síðan þarf að semja upp á nýtt.
Í þeim samningum verðum við ósveigjanleg ef Bretar verða ósveigjanlegir. Ef þeir gefa eftir, þá gefum við eftir. En við hættum ekki fyrr en við erum komin með raunsæja leið út úr vandanum. Sóber leið. Sem ekki treystir á óskhyggju eða heppni. Það væri tildæmis hægt að gera svona:
Við semjum við Breta og Hollendinga um framkvæmd á sölu eigna ICESAVE og setjum svo inn ákvæði um að ef eignirnar dugi ekki fyrir skuldum þá séum við skuldbundin til að setjast niður með þeim og ákveða hvort samið verði um afganginn.
Það hlýtur að vera sanngjarnt. Þeim þótti það sanngjarnt í núverandi samkomulagi.
En lykilatriðið er að þótt okkur bæri óefuð og siðferðileg skylda til að borga ICESAVE skuldbindingarnar þá ber okkur engin skylda til að samþykkja fyrirliggjandi samkomulag. Þvert á móti ber okkur skylda til að hafna því. Og í framhaldinu ber ríkisstjórninni skylda til að vinna málin miklu betur.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli