23. júní 2009

ICESAVE snýst um sanngirni

Samantekt
Ég tel eðlilegt að Íslendingar geri allt hvað þeir geta til að sjá til þess að eigendur Icesave-reikninga fái bætur. Það sé bara ekki sama hvernig það er gert. Bretar hafi t.a.m. brugðist samskonar skyldu gagnvart eigin lífeyrisþegum. Það geri þá ekki þess umkomna að gera siðferðilegar kröfur á okkur. Við eigum að taka þessa ákvörðun á eigin forsendum. Okkar forsendur séu aðrar en Breta og ESB. Við erum ekki að reyna að viðhalda fjármálaveldi við erum að laga til eftir hrun. Það getur kallað á aðrar aðferðir. Alþingi ber að hafna samningnum eða setja í þjóðaratkvæði. Síðan á að semja aftur með siðferðilegt sjálfræði Íslands að leiðarljósi.

ICESAVE snýst um sanngirni

Á Nýfundalandi er bær sem kallast Gander. Þar búa um 10 þúsund manns. Þar urðu 6500 manns strandaglópar ellefta september 2001 þegar flugvélum var vísað þangað í massavís eftir að lofthelgi BNA lokaðist.

Bærinn er síðan frægur.

Allir bæjarbúar tóku þátt í að hlúa að aðkomufólkinu sem margt hvert var fast þar í nokkra daga. Verslunareigendur gáfu matvöru, drykki, dýnur og teppi og fjöldinn allur af fólki bauð ókunnugum ferðalöngum heim til sín.

Móttökurnar komu strandaglópunum svo á óvart að síðan hefur staðið yfir frægingarherferð gagnvart bænum. Ávísanir streyma inn hvaðanæva að til skólans á staðnum, vegagerðar og svo framvegis.

Bæjarstjórinn sagði réttilega að bærinn ætti sér enga óvini. Og þetta vinsamlega viðhorf til heimsins varð þeim mun meira áberandi þennan tiltekna dag þegar öll athygli manna var einmitt á óvinskap milli menningarheima.

Fólkið, fyrirtækin og stonfnanirnar sem áttu pening inn á ICESAVE á heimtingu á peningunum sínum aftur. Um það finnst mér að Íslendingar ættu að sameinast. Ísland á að standa í fararbroddi þeirra sem krefjast þess að því sé skilað sem ólöglega var fengið.

En það er ekki alveg sama hvernig farið er að því.

Bretar gera um þessar mundir kröfu á hendur Íslendingum sem þeir hafa ekki staðið undir sjálfir. Þeir hafa fyrir löngu verið dæmdir til að borga fólki bætur vegna sviksemi lífeyrissjóða fyrir 9 árum. Þeir bera þar samskonar ábyrgð og Ísland gagnvart ICESAVE. Þeim bar að sjá til þess að lífeyrissjóðirnir væru öruggir samkvæmt evróputilskipun sem er næstum nákvæmlega eins og sú sem skipar Íslendingum að sjá til þess að innistæður í bönkum séu tryggðar. Breska ríkið fullyrti ítrekað að lífeyrissjóðirnir væru öruggir, þótt þeir væru það ekki. Breska ríkið brást líka eftirlits og stjórnunarhlutverki gagnvart sjóðunum.



Á hverjum degi deyja 15 af kröfuhöfunum sem sviknir voru um lífeyri. Þeir sem deyja í dag hafa beðið í 9 ár eftir leiðréttingu. Bretland hefur staðið í veginum allan tímann. Enn hafa þeir ekki borgar krónu. Þótt þeir hafi verið dæmdir til þess.



Bretar eru þess ekki umkomnir að gera siðferðilegar sanngirniskröfur á hendur Íslendingum. Þeir hafa ekki staðið undir þeirri ábyrgð sem þeir ætlast til að Ísland standi undir.



Ísland á að taka ákvörðun á eigin forsendum.

Þegar Northern Rock féll tóku Bretar þá ákvörðun að mikilvægara væri að tryggja breska banka en breskan lífeyri. Þar borgaði ríkið reikningin.

Sú ákvörðun hafði ekkert með sanngirni að gera. Hún var sjálfselsk ákvörðun sem laut að því að tryggja London sem fjármálahöfuðborg.

Ísland hefur enga slíka hagsmuni. Ferill okkar sem fjármálaveldi er á enda. Það sem nú þarf að passa er mannorð okkar og réttlætið.

Hagsmunir Íslendinga og Breta fara hér ekki endilega saman. Þótt endanlega markmiðið, að fólk fái greitt það sem það á heimtingu á, sé það sama. Bretar eru að reyna að halda sjó – við erum að reyna að ná farminum upp af hafsbotni. Það segir sig sjálft að óðagotið er meira við það fyrra.

Alþingi á að hafna ICESAVE-samningnum sem er algjörlega á forsendum Breta. Eða setja málið í þjóðaratkvæði. Síðan á ríkið að marka stefnu sem byggir á almennu réttlæti og hagsmunum Íslands. Síðan á að semja upp á nýtt.

Við eigum að hafa siðferðilegt sjálfræði að leiðarljósi en ekki dansa eftir boðum hræsnara sem hafa haft stórfé af öldruðu fólki með því að hlaupast undan ábyrgð.