4. júní 2008

Samræmd próf & samanburður

Samræmd próf eru ægilega tvíbent fyrirbæri. Þau hafa ótvíræða kosti. Þau gefa vísbendingar um gæði skólastarfs, hvetja til sjálfstæði í námi og eru inntökupróf í framhaldsskóla. Gallarnir eru þó fleiri. Þau hvetja til samanburðar, sem í mörgum tilfellum er óeðlilegur, stýra skólastarfi og mæla best það sem er fánýtast í skólastarfinu. Svo eru þau oftast léleg.

Nú hefur enn og aftur verið dreginn saman tölfræði um samanburð einstakra kjördæma. Samkvæmt þeim er meðaleinkunn samræmdra prófa í Reykjavík og nágrenni 6,5. Í Norðvestukjördæmi er meðaleinkunn 5,8. Norðausturkjördæmi hefur meðaleinkunnina 6,1 og Suðurland rekur lestina með 5,6.

Í raun er ótrúlega auðvelt að tryggja góðan árangur á samræmdum prófum. Prófin eru bæði fyrirsjáanleg og einhæf. Vilji kennari að nemendur nái góðum árangri á lokaprófi í íslensku hefur hann 3 ár til að kenna nemendum allt á listanum hér að neðan. Vilji hann ná góðum árangri í náttúrufræði þarf hann aðeins að fara yfir þessi atriði. Hið sama gildir um öll önnur fög.
Það þarf varla að taka fram að það efni sem prófað er úr á samræmdum prófum er ekki nema brot af því efni sem ber að kenna. Aðalnámskrá í náttúrufræði er t.a.m. svo tröllvaxin að til að kenna öll efni hennar þarf að fara í nýtt efni á 20 mínútna fresti allan námstímann, frá 8. bekk og upp úr.

Að fara með nemendur niður að á og láta þá safna sýnum, taka þau með sér í skólann og greina þau tekur a.m.k. 80 mínútur. Á þeim tíma læra börnin heilmargt í náttúrufræði. En um leið vanrækja þau a.m.k. 3 markmið úr námskrá. Næstum öruggt má telja að slíkt nám verði að hverfandi gagni á samræmdu prófi.

Gæði samræmdra prófa eru afar misjöfn. Fyrir nokkrum misserum sendi ég inn kvörtun vergna prófs í stærðfræði hjá 7. bekk. Ég var búinn að rembast við það að kenna nemendum stærðfræði út frá rökfræði (var að prófa þá tilgátu að með því væri hægt að laga alkunnan vanda sem felst í máttleysi annars skarpra nemenda gagnvart orðadæmum). Nema hvað, 12 ára gömul börnin fóru í prófið þar sem þau rákust m.a. á spurningu þar sem forsendurnar voru þær að tiltekinn fjöldi nemenda í bekk vildi ost á brauðið sitt og annar fjöldi sultu. Samanlagður fjöldi sultu- og ostfólks var meiri en nemendafjöldinn og spurningin var hve margir vildu bæði ost og sultu.

Nokkrir krakkanna lentu þarna í bölvuðum vandræðum. Þeim fannst ekkert eitt svar rétt. Sem er eina skynsamlega svarið við spurningunni.

Þótt ég muni ekki tölurnar þá var dæmið einhvernveginn svona:

Í 18 manna bekk vilja 13 brauð með osti og 11 brauð með sultu. Hve margir vilja brauð með osti og sultu?

Við fyrstu sýn virðist sem svarið sé 6. En raunin er auðvitað sú að þeir gætu allt eins verið 11. Eða 9. Eða 7.

Niðurstaða Námsmatsstofnunnar var stutt og snaggaraleg. Þeir töldu að spurningin væri ekki til þess fallin að „valda misskilningi.“ Þeir létu því hið ranga svar standa.

Það er regla en ekki undantekning að hvert einasta ár neyðist stofnunin samt til að ógilda svarmöguleika að hluta eða í heild og láta marga og jafnvel alla svarmöguleika gilda.
Samanburður samræmdra prófa er löngu fokinn út um gluggann. Nú má hver nemandi taka hvert próf tvisvar hvenær sem er frá 8. til 10. bekkjar (þó breytast prófin nú með nýjum lögum). Á þeim stöðum sem þessi réttur nemandans er tekinn alvarlega er eðlilegt að áætla að meðaleinkunn lækki. Bráðgerir nemendur taka þá prófin gjarnan í 8. eða 9. bekk og fá þá lægri einkunn en ef þeir hefðu lært 1 eða 2 ár í viðbót en slakir nemendur fresta erfiðum prófum í lengstu lög. Við það lækkar meðaleinkunn skólans.

Það þarf að koma skikki á samræmd próf og finna þeim ásættanlegan stað. Það er ömurlegt til þess að hugsa að margir af skólunum sem í dag hrósa happi vegna „góðrar útkomu“ hafa í raun svikið nemendur sína um góða menntun og miðað nám þeirra síðustu misserin við andlítil krossapróf sem prófa að miklu leyti nauðaómerkilega hluti og traðka á öllu ímyndunarafli. Það er vesæl manneskja sem ekki getur fundið vaðandi tvíræðni í mörgum af dæmunum hér að neðan eða sára vöntun á betri svarmöguleikum (hverjum dettur annars í hug að hafa krossapróf úr ljóðum?!).2 ummæli:

Óskar sagði...

Vá...ég er ORÐLAUS! Hér vantar nú bara krossaspurninguna "Hvert er fallegasta fjall Íslands".

Það var víst kennt í skólabókum fyrir mörgum áratugum síðan, man ekki hvort "rétt" svar var Herðubreið, Esjan eða Keilir.

Nafnlaus sagði...

Góð yfirferð þetta, hún þyrfti að rata lengra! Glöð er ég að vera hætt að kenna og bera ekki lengur ábyrgð á því að nemendur mínir fari í gegnum ÖLL markmið Aðalnámskrár.

MBK Helena