25. júní 2009

Löglegt? Siðlegt?

Samantekt
Þessi pistill er viðbragð við grein Þorvaldar Gylfasonar í Fréttablaðinu um siðferðilega ábyrgð Íslendinga á Icesave. Niðurstaða mín er að rök Þorvaldar séu ósannfærandi og að hann sleppi raunar veigamestu röksemdinni. Ég tel að réttaróvissa vegna ríkisábyrgða minnki ekki verulega við það að Íslendingar borgi möglunarlaus.t Það sé óeðlileg og óvenjuleg eftirgjöf á sjálfsögðum rétti. Þá tel ég ábyrgð þjóðarinnar á ítrekuðum loforðum stjórnvalda tvö takmörk sett. Þau eru vilji þjóðar og vald þingsins. Þjóðin kom ríkisstjórninni frá og þingið getur hafnað samningnum telji það hann ekki í samræmi við heimildir sem það gaf. Þá er siðferðiskrafa Breta tæp þar sem þeir hafa gerst sekir um brot gagnvart samskonar skyldu. Loks er ekki í alvöru hægt að skuldbinda þjóðina á þeim forsendum að eigendur Landsbankans hafi vafasama fortíð og slæmt orðspor.

Löglegt? Siðlegt?



Þorvaldur Gylfason skrifar grein í Fréttablaðið þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að Íslendingar beri siðferðilega ábyrgð á Icesave hvað sem þeirri lagalegu líði.

Greinin er undarleg.

Rökin sem fram koma:

1. Ekki er hægt að vefengja það viðhorf Evrópuþjóða að réttaróvissa um innistæðutryggingar væri óhugsandi.

2. Íslensk stjórnvöld sögðu ítrekað að þau myndu standa við skuldbindingar sínar. Enginn vill skipta við mann sem notar formsatriði til að víkja sér undan kröfum.

3. Bretar myndu halda kröfunni á lofti þótt hún yrði dæmd ógild, af siðferðilegum ástæðum. Aðrar Evrópuþóðir myndu styðja Breta.

4. Bretar myndu horfa til samskipta íslensku stjórnvaldanna við fyrrverandi eigendur Landsbankans, sem voru vafasamt lið. Ábyrgð Íslendinga á þeim er mikil.

Ekkert af þessum rökum er sérstaklega sannfærandi. Og lang veigamestu rökunum er sleppt. Íslendingum ber vissulega skylda til að borga eins mikið af Icesave skuldbindingunum og hægt er vegna fólksins sem í trausti heiðarleika lagði fé sitt inn í landsbankann og hefur nú tapað fénu. Missir þess er mikill og það eina sem takmarkar siðferðilega skyldu okkar til að borga þessu fólki er geta okkar til þess.

En skoðum rök Þorvaldar.

1. Það er vissulega rétt að það væri slæmt ef í ljós kæmi að við kerfishrun þá dugi tryggingarkerfi þjóða ekki til. Það myndi líka flækja málin ef í ljós kæmi að bankaeftirlit í þeim löndum sem útibú eru rekin beri hluta af ábyrgðinni. En það getur verið óraunsætt að gera ráð fyrir því að allt sé eins einfalt og Bretar vilja vera láta. Hvaða gagn er af því ef Íslendingar borga brúsann til að koma í veg fyrir að reynt sé á grunsemdirnar? Hverfa þær með öllu? Munu sparifjáreigendur um alla Evrópu þar með álíta fé sitt fullkomlega öruggt? Að sjálfsögðu ekki. Það vita allir að ef eitthvað annað ríki, t.d. Bretland, lenti í sambærilegri stöðu, þá léti það ekki kúgast eins auðveldlega. Bretar myndnu líta á það sem skyldu sína gagnvart eigin þegnum að láta reyna á þessa réttaróvissu. Og réttaróvissan er þegar til staðar og verður áfram til staðar. Leikurinn felst í að almenningur í öðrum ríkjum en Íslandi viti ekki af henni og heyri bara af annari hlið málsins. Slík and-upplýsing er hvorki holl, lýðræðisleg né siðferðileg. Íslendingar væru með því að fallast á allar kröfur að taka þátt í hylmingarleik.

2. Þessum íslensku stjórnvöldum sem ítrekað sögðust ætla að borga var hvorki meira en minna komið frá í uppþotum og byltingu. Þau voru hrakin frá völdum. En því miður tókst hluta þeirra að hanga áfram við kjötkatlana, þó með loforðum um betrun. Þegar þjóð hefur komið valdhöfunum frá þá er fráleitt að segja að þjóðin sé bundin af þeim loforðum sem þeir valdhafar gáfu. Skylda ríkisstjórnarinnar gagnvart þjóðinni í þessu máli er enn skýrari en gagnvart Bretum. Hún brást þeirri skyldu ítrekað. Og nú hefur SJS sem komst á valdastóla m.a. vegna þess að hann sagðist ætla að rifta nauðarsamningum við Breta og Hollendinga snúist í trúnni án þess að gefa fyrir því ástæður. Hans rök eru nú þau sömu og ISG notaði. Og þau rök lágu öll á borðinu þegar SJS hótaði riftun. Ef hann veit eitthvað sem þjóðin fær ekki að vita ber honum að skýra frá því.

Loks geta ráðamenn engu lofað án þess að þingið samþykki það. Þingið gaf ríkisstjórn heimild til tiltekinna viðræðna. Miklar efasemdir eru um að niðurstaða viðræðnanna séu í samræmi við þær heimildir sem fyrir lágu. Þingið hefur því fulla heimild til að hafna samningunum. Þingið ræður þessu fyrir hönd þjóðarinnar. Það gæti því t.d. sett málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Enginn ráðamaður getur gefið loforð án þess að hafa þann fyrirvara á að þingið þurfi að samþykkja gjörninginn. Þetta vita allir. Bretar, Hollendingar og ESB. Það á ekki að koma neinum á óvart.

3.Bretar myndu vafalaust halda kröfunni á lofti. En eins og ég hef áður bent á yrði það heldur hjáróma rödd. Bretar hafa nefnilega sjálfir hlaupist undan nákvæmlega samskonar ábyrgð gagnvart eigin lífeyrisþegum. Og það þrátt fyrir að hafa beitt öllum vörnum sem mögulegar hafa verið. Það getur enginn gert kröfu á nokkurn mann sem hann stendur ekki sjálfur undir. Við höfum fulla heimild til að grípa til varna. Bretar gerðu það, hví skyldum við ekki mega það?

4. Síðasta röksemdin er óskiljanleg. Þar er gefið í skyn að þjóðin beri ábyrgð á því að hafa hleypt óþjóðalýð í bankann. Að hrun bankans sé glæpsamleg afleiðing af því að hafa gefið glæpamönnum banka. Hér er Þorvaldur að reyna að gera hrun bankans tortryggilegt með því að benda á hve skuggalegir eigendurnir voru. Þetta er rökvilla. óþokkarökvilla í þokkabót. Skítlegt eðli manna getur í réttarríki orðið röksemd fyrir sekt þegar glæpur er rannsakaður. Þannig getur Rúnar rolluriðill verið sterklega grunaður um dýraníð ef hann er einn þeirra manna sem voru sannanlega á vettvangi. En í réttarríki er ekki hægt að gera athafnir glæpsamlegar með því einu að benda á hverjir eru að verki. Glæpurinn þarf að standa fyrir sínu. Það er ekki hægt að handtaka Rúnar rolluriðil þótt það kvikni í Húsdýragarðinum meðan hann er þar staddur. Fyrst þarf að hafa rökstuddan grun um að kveikt hafi verið í.

Ef hrun Landsbankans var afleiðing af glæp þá taka lög á því. Til þess eru þau. Til þess eru dómsstólar. Íslenska ríkið gat hvorki stöðvað Landsbankann vegna Hafskipsmálsins né rússnesku mafíunnar. Kjaftasögur duga ekki til. Og þær gera það hvorki á Íslandi né annarsstaðar.

Ef kjaftasögur og óbeinar sannanir dygðu til slíkra dóma þá væri nóg að afskrifa grein Þorvaldar með því einu að hann sé hirðhagfræðingur ISG og sé að reyna að taka þátt í að móta almenningsálit sem kemur okkur í náðina hjá ESB og þangað inn. Hann sé því að blekkja (því ekki eru rökin merkileg) í pólitískum tilgangi.

En svoleiðis gerum við ekki. Við metum orð hans sem slík en ekki sem afkvæmi hans eða þeirrar myndar hans sem slúðurtungurnar halda á lofti.

En þótt við metum þau sjálf þá hljótum við að verða fyrir vonbrigðum.

Engin ummæli: