25. október 2008

Mótmælavitleysan



Það er full ástæða fyrir fólk að streyma á Austurvöll. Þjóðin hefði gott af því. En það er fráleitt að gera það undir því yfirskini að maður sé að sýna stuðning við það fólk sem boðar til mótmælanna.

Það kemur úr hörðustu átt að veitast að seðlabankastjóra eða stjórnvöldum þegar mótmælendur geta ekki einu sinni skipulagt einn mótmælafund án hroðalegs hálfkáks.

Fyrst mótmæltu þeir DO. Fyrir það voru þeir réttilega sakaðir um tilgangslítið einelti. Skipti þá engu þótt tappinn-í-baðkarinu kenningunni væri haldið á lofti, þ.e. þeirri fráleitu hugmynd að án þess að steypa DO af stóli tækist aldrei að uppræta hitt illgresið - og að með því að steypa honum kæmi hitt af sjálfu sér.

Ég fór á mótmælin og fann að mótmælin byrjuðu af krafti en urðu máttlausari þegar leið á og að fáir myndu mæta aftur nema eitthvað nýtt kæmi til. Skipuleggjendur hljóta að hafa fundið þetta líka því þeir tóku þá bráðgáfulegu ákvörðun að hætta að mótmæla DO og mótmæla frekar þögn ráðamanna. Þessa ákvörðun tóku þeir á meðan ráðamenn sögðu á hverjum einasta degi að nú væri tíðinda alveg að vænta.

Þögnin var síðan rofin í gær. Nú ætlar fólk sum sé að streyma á Austurvöll og mótmæla þögn sem ekki er lengur. Þá er tvennt í stöðunni. Leggja stækkunarglerið á allt það sem ráðamenn hafa þó ekki sagt en mótmælandinn vildi heyra, eða mótmæla einhverju öðru. Bara einhverju. Eins og ég spáði reyndar.

Og hver var línan í morgun?

Mætum öll á Austurvöll, til að hittast, til að sýna fram á að við höfum rödd, að við erum til. Sýnum hvert öðru samhygð, að við stöndum saman, og ef ekki einfaldlega til að finna að við erum ekki ein – og að við finnum til


Mótmælin eru sem sagt orðin að einni heljarinnar moðsuðu. Þangað á fólk að streyma til að sanna verufræðilega tilvist sína, eða til að faðma náungann, eða til að mótmæla þögn eða til að hatast við DO. Eða bara eitthvað.

Dettur einhverjum í hug að Jón Baldvin eða Þorvaldur Gylfa séu að fara að þusa yfir lýðnum um faðmlög eða annað knús? Nei, þeir eru að fara að segja hvarðeina sem líklegt er til að bitna á pólitískum andstæðingum þeirra. Þeir eru að fara að sópa sundrungu yfir liðið, líka það sem er komið til að knúsa gervallan heiminn. Mótmælin munu vafalaust ekki síst snúast um það að við séum ekki enn komin í Evrópusambandið.

Ungir Framsóknarmenn verða á svæðinu til að fullkomna sundrungina. Hvernig væri að snúa mótmælunum gegn þeim? Ég gæti stutt slík mótmæli, gegn Framsókn og Sjálfstæðisflokki sem settu þetta allt af stað með því að ausa fé í fólk til íbúðakaupa. Sem síðan setti bankana af stað. Sem síðan setti verðbólguna af stað. Sem síðan setti vextina af stað. Sem síðan setti ICESAVE af stað. Sem síðan setti þjóðina á hausinn.

Og hvernig væri að mótmæla Bretum? Mótmæla Darling og Brown. Sem gerðu illt svo sannarlega verra? Og hvernig væri að mótmæla Fjármálaeftirlitinu sem leyfði auðmönnum að hneppa þjóðina í veðbönd? Hvernig væri að mótmæla auðmönnunum? Seðlabankanum? Af nógu er að taka.

Þa ber vott um nær fullkomið vanhæfi að geta ekki boðað til fjöldasamkomu á þessum tímapunkti vandræðalaust.

Reynið að hysja upp um ykkur brækurnar!

Viðauki:

Það er kreppueinkenni hvernig hin fínni rök mást út og verða ógreinileg. Allt verður einhvernveginn svart/hvítt. Og sem aldrei fyrr sameinast menn í andstöðu eða stuðningi við hitt og þetta. Gagnrýnin hugsun fýkur út í bláinn.

Kreppan er Hallgrími Helgasyni, Kolfinnu Baldvinsdóttur og slíku liði það sama og jólin og 17. júní er ungum sjálfstæðis- og framsóknarmönnum. Skyndilega dillast lífið í takt við annars taktlitla andakt þeirra.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Usss, þetta er svo assgoti góð hugvekja að hún veitir mér þann munað sem ég hef vart efni á og það er að gefa mér hughrif. Hvort að það nær eitthvað lengra en "góður pistill Ragnar!" sjáum til.

kv.