19. október 2008

Mótmæli á Austurvelli

Reynir frændi er í heimsókn. Hann langaði að sjá mótmælin á Austurvelli. Þess vegna fórum við að sjálfsögðu á staðinn, hann í hjólastól en ég ýtandi.

Samræmd skilti með ögrandi áletrunum voru þegar mætt á staðinn þegar við komum. Líka færri samræmd skilti dökkklæddra anarkista hverra áletranir virtust benda til þess að þeir vildu valda DO a.m.k. eins miklum kvölum og þeir höfðu sjálfir orðið fyrir af eigin hendi og annarra í lífinu.

Almennt voru menn frekar á móti DO og með öllum ræðumönnum. Nema anarkistarnir sem gerðu hróp að Þorvaldi Gylfasyni og sögðu honum að halda kjafti þegar hann sagðist vilja að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn léti rannsóknarnefnd lyfta hér hverjum steini.

Sumir voru leiðinlegir ræðumenn og vildi svo til að konurnar sem tóku til máls voru leiðinlegri en karlarnir. Seinni konan var svo leiðinleg í þusi um háskann við að ala orma á gulli að Thorvaldsen-bar reyndi að kveikja í sjálfum sér á meðan ræðu hennar stóð. Slökkviliðið kom og fór án þess að fundarmenn tækju eftir því og tvær leðurklæddar brunakvaddar löggur læddust með veggjum og reyndu að láta ekki anarkistana sjá sig. Vildu ekki æsa neinn.

Þráinn var fyndnastur, Hörður skemmtilegastur og Þorvaldur sérkennilegastur þar sem hann stóð og tvísté undir barðastórum kábojhatti og í síðum frakka. Hann var eitthvað svo krúttlega stressaður og möldvörpulegur.

Jón Baldvin stóð og brosti eins og nýbakaður faðir þegar hann tók á móti dóttur sinni er hún tölti niður af sviðinu. Því hærra sem múgurinn öskraði á höfuð DO, því meira brosti Jón. Og raunar var furðumikið gert af því að brosa miðað við hvað menn sögðust vera reiðir.

Mótmælin byrjuðu af krafti en smám saman fór af þeim mesti móðurinn. Blóðið sem bullaði í fólki klukkan þrjú var byrjað að storkna um fjögur. Hrópin voru máttlausari og einhvernveginn vissu allir sem á staðnum voru að nú væri þetta orðið gott og að næstum enginn myndi fylgja kalli Harðar og mæta í svona gigg vikulega hér eftir. Ekki nema eitthvað nýtt kæmi til.

Nokkuð hefur verið rætt um fjöldann á staðnum. Löggan segir 500 en Kolfinna sagði fjöldanum að hann hefði átta þúsund eyru. Reykmengaða barþjóninum á Thorvaldsen sagði hún samt lægri tölu, eða 3.000 manns. Fjöldinn trúði Kolfinnu enda leið honum eins og fimmþúsund manns, léttilega. Ég taldi ekki en ég ráfaði dálítið um eftir að mér fór að leiðast. Fjöldinn náði ekki þúsund. Fimm eða sex hundruð er líklega rétt.

En hvort sem þeir voru 500 eða 4.000 sem voru á Austurvelli í dag þá voru þeir ekki allir að mótmæla DO. Ég var þarna til að styðja hann. Ég gerði það með því að hrópa ekki á blóð hans heldur þegja og setja hendurnar í vasana þegar múgurinn klappaði og hlæja ekki nema einhver segði eitthvað reglulega fyndið.


Búið er að merkja við u.þb. 100 manns. Nú er spurningin
hvort merkt sé við einn fimmta af fólkinu eða einn fertugasta.

1 ummæli:

Unknown sagði...

Ég held að rauters haf komist næst tölunni um 2000 manns.

http://uk.reuters.com//news/video?videoId=92427&src=vidAd1

þessi mynd sem þú er með sýnir ekki allan hópin og mér sýnist þú hafa aðeins bias'að ramman sem þú dregur um þessa 100. Ég hef allavega nokkrum sinnum haldið 1000 tónleika og þetta eru fleiri en það. Ég er með myndir þar sem ég einmitt taldi út að það væru pottþétt fleiri en 1000, líklega nálægt 2000. Það hefði náttúrulega verið frábært að fá 5000 en lélegt að fá 500. Kolfinna oftaldi sjálfsagt enda heitt í hamsi á þessari stundu. Engu að síður var ég nokkuð ánægður miðað við hvað íslendingar eru ragir við að mótmæla í svona kröfusamkomu.

Varðandi það að mótmælin hafi beinst gegn Davíð þá var það nú vegna þess að skoðun okkar er sú að hann sem seðlabankastjóri og fyrrverandi forsetirráðherra til 13 ára beri mesta pólitíska ábyrgð á ástandinu. Einnig að hann sé að þvælast fyrir úrlausn vandans. Þess vegna finnst okkur svo áríðandi að hann víki strax. Að sjálfsögðu meiga aðrir andmæla þessari skoðun en leiðinlegt ef hún er rægð með ómálefnanlegum hætti.

kveðjur..