26. október 2008

Heimskuleg og illa skipulögð mótmæli

Ég veit svo sem ekki hvað ég á að nenna að leggja margar færslur undir þessi blessuðu mótmæli gegn ástandinu. Þau eru varla færslunnar virði og urðu svo absúrd í gær að anarkistarnir sem óska ráðamönnum dauða sáu sér leik á borði og gerðu þau að sínum.

Það væri fróðlegt að vita hvers vegna Kolfinna og félagar mótmæltu ekki með Herði og kó eins og síðast.

Og þó, mér er alveg sama.

Mótmæli eru frábær aðferð við að fá ólátabelgjum eitthvað að gera meðan valdhafarnir fara sínu fram. Þjóðin er reið og vill aðgerðir. Hún vill sýna reiðina. Henni til mikillar óhamingju voru það mestmegnis kjánar og fífl sem ættleiddu þessa reiði og gerðu úr henni þau skrípalæti sem staðið hafa í tvo laugardaga. Nú heldur hluti þjóðarinnar að betur sæmi að halda kjafti.

Sem er hræðilegt. Nú á einmitt ekki að halda kjafti. Þótt Kolfinna ætti vissulega að sjá sóma sinn í því að gera það.

Umræðan hefur orðið ómarkvissari eftir því sem liðið hefur á. Það er t.d. orðið illmögulegt að sjá hvort 600 milljarðarnir (hvaða gengi sem þeir miða við) eru einföld ábyrgð ríkisins, eða eitthvað meira. Við ætlum ekki að borga meira, en komumst við upp með að borga minna? Þetta er allt í einum graut.

Eignirnar sem standa á móti þessum skuldum eru í höndum sömu aðila og bera mesta ábyrgð á að koma okkur í þetta klúður. Hvernig er verið að tryggja að þær komist í sem best verð? Meðhöndlun þeirra ræður öllu um það hve þungt höggið verður fyrir þig og mig.

Hvaðan kom fólkið sem nú stjórnar bönkunum? Hvað er þetta fólk búið að vera að gera síðustu misseri? Hvaða tengsl hefur þetta fólk?

Hvers vegna er Fréttablaðið að hvítþvo Samfylkinguna? Hvers vegna er Mogginn að gera það sama fyrir Sjálfstæðisflokkinn? Hvaða áhrif hefur það á blaðamennsku á Íslandi að það er offramboð á blaðamönnum?

Hver er að skrá söguna? Hverra hagsmuna gætir sú saga?

Allir hugsandi menn á Íslandi þurfa að virkja hvern snefill af gagnrýninni hugsun og leggja til hliðar æsinginn og mótþróann. Fjölmiðlamenn þurfa að taka til í eigin ranni og fara að vinna vinnuna sína. Það virðist enginn hafa yfirsýnina. Allir sem eru að vinna í málinu eru með meira en nóg á sinnu könnu.

Þannig gerast slysin.

Og það erum við sem erum fórnarlömbin.

Engin ummæli: