23. október 2008

Skuggahlið kreppunnar

Það er góðærislykt af þeirri hugmynd að kreppan hafi fyrst og fremst þær afleiðingar að þjóðin fari aftur að éta innmat og spila lúdó á fimmtudögum. Það er röklega hreinlega rangt að það að tapa peningum hafi það í för með sér að maður læri að meta allt það sem kostar ekkert.

Ég held raunar að miklu nærtækari leið til að kenna okkur allt um hinar ókeypis lystisemdir hefði verið að láta góðærið standa töluvert lengur. Það er engin betri leið að átta sig á fánýti peninga en að eiga of mikið af þeim.

Það eru miklu fleiri tákn á lofti um að kreppan muni gera að litlu eða engu áratuga siðun þjóðarinnar. Eins og hendi væri veifað sölsuðu ráðamenn undir sig öll völd í landinu og deila nú og drottna. Fámennur hópur atvinnumótmælenda nýtir stöðuna til að stunda iðn sína. Fyrst á Arnarhóli og síðan í vandræðalegu einelti á Austurvelli. Nú ætlar sama fólk að mótmæla aftur - en í þetta skiptið einhverju öðru. Bara einhverju. Einhverju af því fjölmarga sem því mislíkar.

Mótmælendur sem geta mótmælt mörgum sinnum á ári og gætu mótmælt miklu oftar ef þeir nenntu því eru engir hugsjónamenn. Þeir eru einfaldlega samskiptagreindarskert fólk. Fullkomin hliðstæða ofdekraðra krakka sem gera skandal við nammilandið í hagkaupum ef mamma er ekki nógu leiðitöm. Mótmæli eru ekki samskiptaform. Þau eru einræður. Einhliða kröfur. Vissulega nauðsynleg þegar manni er neitað um vettvang til áhrifa, en óverjandi þegar menn kjósa mótmælinn frekar en áhrifavettvanginn vegna eigin leti eða kikksælni.

Verði kreppan djúp og löng mun renna af þjóðinni hraðar en sveif á hana í góðærinu.

Veruleikaflóttinn er síðan óumflýjanlegur þegar fólk sættir sig ekki lengur við þann veruleika sem blasir við. Sumir drekka eða dópa, aðrir hatast við útlendinga, einhverjir ganga ringlaðir um stræti í sunnudagsfötunum og segja allt í allrabesta lagi, það séu svo margar konur farnar að vinna í bönkum og margir heimilisfeður að taka slátur.

Það er ekkert ilmandi við kreppuna. Hún er sprungið klóakrör í stássstofu hverrar einustu fjölskyldu. Aðeins þeir kvefuðu finna ekki lyktina. Það er hægt að flytja í annað herbergi eða annað hús jafnvel. Það er líka hægt að kaupa klemmur og láta sem ekkert sé.

Svo er hægt að laga rörið.

Það er andstyggilegt verk - og líklega langdregið. En flestum nokkuð bersýnilega nauðsynlegt. Og það verk verður aðeins erfiðara ef stunda á róttækan sparðatíning í leiðinni. Það er alveg ljóst að skítnum verður ekki mokað út í réttu hlutfalli við skitu.

Heimsbyggðin öll er að vakna af hugsjónafylleríi. Í S-Afríku þurfa menn að takast á við þá staðreynd að eftir að hætt var að kúga svertingja þá vaða þeir sumsstaðar uppi með ránum, gripdeildum og morðum. Mörgum fannst allt betra í gamla daga. Sömu sögu er að segja frá Rússlandi.

Nú reynir á að standa vörð um lýðræðisleg og siðferðileg gildi. Og verja þau jafnvel þótt það kosti okkur peninga eða neyð. Það er auðvelt að teikna digurbarkalegar myndir í dönsk blöð, það er erfiðara að sýna stillingu og gera það sem er rétt þegar maður á ekki fyrir mat. Fólk svalt til að skila okkur þessum gildum. Það dó. Það drap.

Nú þarf að skrúfa fyrir hatrið og reiðina.

Það verður enginn leiðitamur múlasni þótt hann stilli sig. Það er miklu frekar að maður ani á foraðið í blindri heift. Sá sem er vitur þegir, þótt honum sé sagt að halda kjafti, hafi hann ekkert sérstakt að segja.

Engin ummæli: