29. júlí 2008

Nauðgun í Herjólfsdal


Mér finnst ekki skipta meginmáli hvort Baggalútur er að tala um nauðganir í Eyjum eða ekki í Þjóðhátíðarlagi sínu. Mér er nær að halda að þeir geri það, því Birkir Freyr, einn af síðuhöldum þessarar síðu, rauk til Eyja með fyrstu ferð eftir að hafa hlustað á lagið.

Það ber hinsvegar vott um djúpstæðan skort á umburðarlyndi fyrir listum og (lág?)menningu að kvarta yfir textanum.

Þjóðhátíð '93.

Þar var ég – og líka þú.
Ölir menn í leit að illa girtum meyjum.
Planið að sverfa burt sveindóminn
á þjóðhátíð í Eyjum.

Sleitulaus hátíðahöld.
Hælalaus, ámigin tjöld.
Dalverpið alsett gallspúandi greyjum.
Planið að álpast á ástina
á þjóðhátíð í Eyjum.

Kófdrukkið kvennaval
kaffærir Herjólfsdal – þrjá daga á ári.
Slíkt ber að nýta sér.
Því skaltu flýta þér
og reyna að góma mey
meðan þær geta ekki hlaupist burt úr Heimaey.

Yfirfullt unglingastóð
með ólyfjan og hverskyns viðbjóð
eigrar um dansgólfið í dauðateygjum.
Planið að skemmta sér þokkalega
á þjóðhátíð í Eyjum.

Í brekkunni ég brölti til þín
og ég bauð þér pent að skríðí tjaldið til mín.
Við enduðum í erótískum svefnpokaslag
á meðan Árni Johnsen jarmaði svona lag.

Að lokum rann víman úr mér
en hvorki fann símanúmer
né þig í hrúgaf úldnum sportsokkum og -treyjum.
Ég get ekki munað hver setti í hvern
á þjóðhátíð í Eyjum.

Kengdrukknar kellingar
kaffæra Herjólfsdal – þrjá daga á ári.
Slíkt ber að nýta sér.
Því skaltu flýta þér
og reyna að góma eitt grey
meðan þær geta ekki synt á brott úr Heimaey.

Þessi texti er augljóslega sóber áminning um súper-egó íslenskrar djammmenningar í lok síðustu aldar, verslunarmannahelgina. Hér er ekki verið að tala um nauðganir, a.m.k. ekki frekar en við á. Strákræflarnir sem sigldu til Eyja – og sigla enn – með ekkert nema sveindóminn og sprútt í farteskinu í von um að koma með hvorugt til baka, þeir eru efni lagsins. Þeir voru til. Þeir eru enn til.

Þegar þeir misstu sveindóminn breyttust þeir oft í kortér-í-þrjú-gæja. Ef þeir misstu hann með álíka vonleysingja og þeir voru sjálfir breyttust þeir í annan helming einhverra þeirra hundruða hamingjusamra hjóna sem eiga börn í maí eða hreykja sér af því að hafa náð saman um þjóðhátíð.

Eigum við að tala um Megas? Menn sem drepa konurnar sínar, trukkabílstjóra sem leggjast á ölvuð börn eða ljóðmælendur sem telja stúlkur tælandi á aldrinum 8 til 12 ára? Eigum við að tala um Bubba og börn sem syngja af innlifun um undirtegundir kannabisefna í skólaferðalögum? Eigum við að tala um Nick Cave og morðballöður?

Eða eigum við að sleppa því?

Ég held það sé betra. Ég held meira að segja að það sé til marks um heilbrigðara sinni.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sleppa því að tala um listir og (lág?)menningu? Vera gagnrýnislaus?
Hver græðir á því?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Enginn. Enda eru tvö höfrungastökk í spurningunni sem ég myndi aldrei fallast á.

Fyrst frá pistlinum yfir í að sleppa því að tala um listir og menningu almennt og svo risastökk yfir í það að vera almennt gagnrýnislaus um hið sama.

Ég er á móti hvorutveggja sem þú nefnir en með pistlinum og samhengi hans.

Nafnlaus sagði...

Ég spyr út frá síðustu, tja, þremur setningunum í færslunni. Rökræður um listir og skilaboð þeirra eru listinni til framdráttar, en þá verða líka allir að vera málefnalegir, líka listamennirnir sjálfir.

Ómálefnalegt skítkast er þó skárra en algjör þögn.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Það segir sig sjálft að ég get ekki verið að halda því fram að ekki eigi að tala um listir – í þó svona löngu máli – án þess að vera annað hvort hálfviti eða hræsnari.

„Eigum við að tala um ...“ og allt sem kemur þar á eftir er í samhengi færslunnar. Það samhengi er skilgreint aðeins ofar þannig:

„Það ber hinsvegar vott um djúpstæðan skort á umburðarlyndi fyrir listum og (lág?)menningu að kvarta yfir textanum.“

Eins og þú raunar hittir réttilega á í spurningunni þinni.

Ásteytingarsteinn okkar held ég varpi ljósi á tvennskonar umburðarlyndi gagnvart listum. Ég er að mæla með því umburðarlyndi sem samþykkir tilvist jafnvel ömurlegrar listar. Þú ert að spyrja hvort ég telji listir eiga að njóta verndar frá gagnrýni á einhvern hátt.

Öll gagnrýni sem hefur það að inntaki að eitthvað hefði ekki átt að verða til er annaðhvort stílbragð þar sem djúpt er tekið í árinni eða óþolandi skortur á umburðarlyndi.

Það þarf svo himinhá skilyrði til slíkar bannfæringar að minna má ekki duga til en hreinan og beinan skaða sem af verkinu hlytist. Það væri tildæmis réttlætanlegt að banna vídeóverk í Kringlunni sem framkallaði flog hjá börnum eða heimildamynd þar sem einhver færi á þjóðhátíð og rembdist við að ríða eins mörgum ofurölvi unglingum og hann gæti.

En texti Baggalúts er eins saklaus og hugsast getur. Rök andmælandanna geta ekki hnitast um skaðsemi. Ekki nú, frekar en í laginu þeirra um Gamlaárspartí sem á parti snýst um sama hlut.

Og áður en þú segir að gagnrýnin á lagið sé eingöngu um það hvort textinn sé góður eða vondur þá er það þvæla. Það hefur aldrei verið tekinn upp kastljóssþáttur þar sem kvartað er undan því hvort nýja platan hans Bubba er góð eða vond. Hinsvegar hefur ítrekað og oft farið fram í fjölmiðlum umræður um hvort hitt eða þetta sé æskilegt eða eðlileg list.

Í 99 af hverjum hundrað slíkum tilfellum dæmir sagan andmælendurna sem hörundssára afturhaldsseggi eða málpípur íhaldsafla. Ég trúi að svo sé eins komið nú.

Nafnlaus sagði...

Öh, nei ég segi ekki að gagnrýnin á lagið sé eingöngu um það hvort textinn sé góður eða vondur. Umræðan um þennan texta snýst um hvernig fólk túlkar textann. Baggalútur segir að hann snúist bara um að komast á séns en aðrir benda á að hann hljómi frekar eins og lýsing á valdbeitingu.
Fólki getur fundist það sem það vill um gæði texta og inntak en þó svo að menn gagnrýni eitthvað eru þeir ekki sjálfkrafa að hvetja til "bannfæringar". Ég veit ekki betur en að pólitískir listamenn líti margir hverjir á það sem árangur og/eða virðingarvott við listsköpun sína ef hún er gagnrýnd, túlkuð á mismunandi hátt og inntak hennar rædd. Ekki þar fyrir að ég líti á Baggalút sem pólitíska listamenn -en af hverju ætti að umgangast dægurlaga texta á annan hátt en annan skáldskap?

Þú segir texta Baggalúts eins saklausan og hugsast getur. Gott og vel ef það er þitt sjónarmið og þitt innlegg í þessa umræðu. Aðrir túlka þetta einfaldlega öðruvísi og geta fært rök fyrir sínum túlkunum.

(og for the record þá finnst mér textinn ekki hvetja til nauðgana. en ég get ekki séð að umræðan snúist um boð og bönn)

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Umræðan fór að snúast um upplifanir fyrst og fremst vegna þess að Baggalútsmenn reyndu að afneita tiltekinni (réttmætri) túlkun.

Það var í senn gunguskapur og klaufalegt hjá Baggalútsmönnum.

En umræðan snýst ekki eingöngu um þessar upplifanir. Þá lyki henni um leið og einhver hefði sagt: „Mér finnst talað kæruleysislega um nauðganir í textanum.“

Karlahópur femínista byrjaði og kvartaði undan því að verið væri að spyrða saman nauðganir og verslunarmannahelgina (sem er hræsni því engir hafa dregið nauðganir meira inn í þá umræðu en einmitt þeir).

Og umræðan snýst víst um boð og bönn, þótt hún sé ekki endilega um formleg boð og bönn. Og hún heldur áfram að snúast um þau í þessum botnlanga sem rökræða okkar er.

Það má merkja á því að hún snýst um hvað eigi eða megi segja en ekki eingöngu um hvað var sagt. Þú til að mynda gagnrýnir pistil minn og spyrð hvort ég sé þá að segja að þetta eða hitt eigi eða megi ekki gera.

Samt segi ég hvergi berum orðum að gagnrýnendur Baggalúts séu að fara yfir eitthvað konkret strik sem þeim sé óheimilt að gera. Ég kalla orð þeirra aðeins vísbendingu um skort á sjálfsögðu umburðarlyndi.

Þú spyrð út frá því hvort list eigi þá að hljóta þann andlega dauðdaga að vera ógagnrýnd. Og værir með því sek um sama glæp og þú sakar mig um: að gera einhverjum upp skoðanir á því hvað aðrir megi segja eða eigi að segja. Ef um einhvern glæp væri að ræða.

Því það er hárrétt hjá þér að undirliggjandi hjá mér er ákveðin krafa frá mér til annarra um hvernig þeim beri að haga skrifum sínum. Eins var það hjá femínistunum.

Það hvort lesa megi nauðganir út úr textanum er ómerkilegasta og tæknilegasta hlið umræðunnar. Hún varð til þegar Baggalútur reyndi að vera PC og afneitaði eigin sköpunarverki. Samt er nokkuð til í vörn Baggalúts. Þetta er ekki um nauðgun í hefðbundnum skilningi.

Hvers vegna í ósköpunum má ekki listamaður spyrða saman nauðgunum og útihátíðum án þess að það sé í forvarnaskyni?

Þú svarar því auðvitað ekki heldur þeir sem þá gagnrýni hófu á loft.

Skyldi það vera af því einhverjum finnst það ósmekklegt?

Mér finnst heimasíða Gylfa Ægissonar ógeðslegasti fjörulalli sem skriðið hefur á netheima. Ég gæti jafnvel bloggað um það. En hvers vegna heldurðu að jafnvel þótt ég væri málsmetandi maður þá dytti engum í hug að stofna til sjónvarpskappræðu um þessa skoðun mína eða um gæði síðunnar yfirleitt?

Það er vegna þess að það er hafið yfir vafa að ég má hafa þessa skoðun.

Sumum finnst ekki hafið yfir vafa að Baggalútur eigi / megi semja svona texta.

Gegn þeim beinist gagnrýni mín.

Nafnlaus sagði...

Ég er nú ekki sammála því að enginn hafi dregið nauðganir inn í umræðu í tengslum við verslunarmannahelgi eins mikið og karlahópur femínista. Þegar ég var táningur var afskaplega mikið fjallað um nauðganir í tengslum við verslunarmannahelgi og fyrirbyggjandi aðgerðir snerust fyrst og fremst um að dreifa upplýsingum og leiðbeiningum til kvenna um hvernig þær ættu að bera sig að til þess að varnast nauðgunum. Þær ættu ekki að klæða sig ögrandi, ekki að verða ofurölvi, ekki að verða viðskila við vinkonur sínar og svo framvegis. Karlahópur femínista tók einfaldlega annan vinkil á þessa umræðu.

Annars skil ég ekki nema að hálfu leyti um hvað þú ert að tala að öðru leyti.
Ég held að Kastljósið hafi kosið að fjalla um þetta mál af því að Baggalútur hafði sent tilkynningu á fjölmiðla þar sem þeir fóru opinberlega fram á afsökunarbeiðni frá karlahópi femínistafélagsins. Einhverra hluta vegna mat Kastljósið það sem nógu áhugavert til þess að um það yrði fjallað. Reyndar er þetta ekki í fyrsta skipti sem fjallað er um lagatexta í fjölmiðlum, hvort sem það er í ljósvakamiðlum eða dagblöðum. Að það sé einhver aðför að málfrelsi að kalla texta óæskilega eða gagnrýniverða er eitthvað sem ég get ekki á nokkurn hátt tekið undir. Hins vegar man ég ekki eftir öðru dæmi þar sem textasmiðirnir bregðast við slíkri gagnrýni á jafn barnalegan hátt og Baggalútur gerði í þessari umræðu.

Þú segir "Sumum finnst keki hafið yfir vafa að Baggalútur eigi/megi semja svona texta".
Ég get bara tekið undir þetta. Þó svo að mikið sé gert úr þessu rifrildi um túlkun textans sé ég engan fara fram á takmörkun á málfrelsi. Það er bara engin ástæða til þess að sitja á sér ef maður vill gagnrýna lagatexta eða aðra listsköpun. Það að saka þá sem tjá sig um að "vilja banna" það sem þeir eru að gagnrýna er ekkert annað en fyrirsláttur.
Minnir á ofsatrúarliðið sem vælir undan því að það "sé bannað að efast um þróunarkenninguna".