8. ágúst 2008

Sófar og sund


Í mörg ár höfum við átt sófasett sem konan mín hefur hatað. Nei, fyrirlitið af öllum mætti sínu, allri sálu sinni og öllu hjarta sínu. Einu sinni gerði hún tilraun til að fyrirkoma settinu með því að kaupa notað ægilega ljótt sófasett, drapplitað og brúnt með kögri. Hún ætlaði síðan að selja sófasettið okkar (sem var rándýrt þótt henni þætti það ljótt).

Upphófst þá sálfræðistríð okkar hjúanna. Mér hefur alltaf þótt sófasettið ljómandi fallegt, vel hannað og hagnýtt á flestan hátt. Ég fann leið til að koma nýja og ljóta sófasettinu fyrir í stofunni ásamt því gamla og rotaði þar með þá röksemd konunnar að annað yrði að víkja. Hrósaði ég henni síðan mikið fyrir að hafa tvöfaldað setupláss stofunnar í einu vetfangi.

Næstu vikur voru henni þungar. Hún sá betur með hverjum deginum hvað „nýja“ sófasettið var andstyggilegt. Þorði hún því ekki að selja það gamla af ótta við að sitja uppi með viðbjóðin einan. Úr varð að við gáfum nágranna okkar kögursettið þegar við fluttum næst.

Og þá að framhaldi sögunnar.

Fyrir nokkrum dögum tilkynnti frúin mér glaðhlakkaleg að þegar við flyttum í bæinn (sem til stóð og er yfirstaðið nú) þyrftum við ekki að taka sófasettið með og raunar gætum það ekki því það kæmist ekki í bílinn. Hún sagðist hafa tryggt sér ljómandi fallegt og vel ættað sett. Ég gerðist tortrygginn.

Hún sagði mér að hafa ekki áhyggjur af málinu, sagðist sjá um það og bætti við að hún ætlaði að fá Óla Sindra til að sækja með sér settið. Sótti hún það nokkuð fast.

Svo þegar ég í gær fer í ferð inn í Landmannalaugar ásamt góðum félögum og frönskum ferðalangi eignast heimilið forláta leðursófasett. Fyrri eigandi: enginn annar en Meistarinn, Ágúst Borgþór.

Mér þykir að sjálfsögðu ekki lítil upphefð í því að búa undir sama þaki og sófasett Meistarans. Og gamla sófasettið gáfum við unglingastigi Kirkjubæjarskóla. Í því munu hormónafullir unglingar kela næstu misserin. Ég reyni svo að hugsa gáfulega í Meistarasettinu á meðan.

Annars er það að frétta að Landmannalaugaferðin náði hápunkti sínum með þrælmikilli gönguferð um svæðið. Þvílík dýrð! Eins og mér þóttu Laugarnar ljótar þegar ég kom þar fyrst. Eftir gönguferðina sótti ég það hart að við skelltum okkur í heita lækinn. Vorum við engan veginn búnir til þess. Stóðum við hikandi á lækjarbakkanum góða stund þar til ég ákvað að taka af skarið og skellti mér kviknöktum inn á milli skelfdra franskra, þýskra og ítalskra túrista. Skjannahvítar rasskinnarnar möruðu í hálfu kafi á grynnstu blettunum og líktust einna helst útdrituðum hólmum.

Áður en langt um leið vorum við allir komnir ofan í (þótt vinir mínir hafi uppfært aðferðina og skellt sér í boxerunum í vatnið). Frakkinn þorði hinsvegar ekki ofan í og var frekar afundinn á heimleiðinni enda sá eini með stífa vöðva og skítuga sköflunga.

Engin ummæli: